Rise of the Wicker King

Í bæli ættbálks Brenndu handarinnar

Kubbildar á kubbilda ofan

NEW_TO_DD_Monsters_Kobold_T_140714.jpg

Brjánn læddist nær innganginum að bæli kubbildanna. Skuggar fjallanna voru teknir að lengjast og Öræfa, sem gnæfði hátt yfir dalverpinu, var baðað gylltum bjarma. Hetjurnar höfðu verið á ferðinni frá því nokkru fyrir sólarupprás og köstuðu á mæðinni eftir bardagann við kubbildin þrjú sem höfðu setið fyrir þeim í dalsmynninu. Brjánn fór hljóðlega yfir og kom auga á hvar gróft hampreipi lá ofan úr bælismunanum. Hann varð engrar hreyfingar var og ákvað að flýta sér aftur til vina sinna.

- Leiðin er greið, sagði hann, kubbildin hafa strengt reipi ofan úr bælinu þannig að það ætti ekki að vera erfitt að komast þangað upp.

Hetjurnar stóðu á fætur hver af annarri og fylgdu í humátt á eftir Brjáni. Þegar þær komu að hlíðinni undir bælismunanum var ákveðið að Varis og Arikhaik færu fyrstir upp. Varis kleif fyrstur upp og gægðist inn um munann. Enn var enga hreyfingu að sjá. Um leið og Arikhaik var kominn upp færði Varis sig inn í hellinn. Hann var ekki kominn langt þegar hann rak fótinn í eitthvað, leit niður og sá slitinn þráð. Andartaki síðar glumdi hvellur, holur og hár hljómur við, eins og barið væri í stóran málmskjöld.

- Öhm, félagar, flýtið ykkur, sagði Varis og rétti úr sér. Skömmu síðar sá hann var hátt í tugur kubbilda komu askvaðandi, með vopn á lofti, úr einum hliðarhelli skammt frá hellismunanum. Varis dró upp vopnið sitt og bjóst til atlögu. Arikhaik var þó fyrri til. Hann setti skjöldinn fyrir sig og réðst hugdjarfur fram. Hann náði að stöðva framgögnu kubbildanna og fella tvo þeirra. Varis fylgdi fordæmi hans og þegar hinar hetjurnar komu þeim til aðstoðar tókst þeim að fella öll kubbildin.

Hópurinn var rétt byrjaður að kasta mæðinni þegar Varis sá hvar innar í bælinu höfðu kubbildin slegið upp varnargarði og bjuggust til að verja bælið. Reginn dró þá Brján og Varis til sín.

- Skjótið nokkrum örvum hérna yfir varnargarðinn á meðan ég hleyp þangað, sagði dvergurinn og benti á skúmaskot skammt frá varnargarðinum.

- Hvað ertu að spá? spurði Coren.

- Skýlið mér bara, svaraði Reginn og órætt bros lék um varir hans. Brjánn og Varis drógu ör á streng og skutu nokkrum örvum yfir varnargarðinn um leið og Reginn hljóp yfir gróft hellisgólfið. Hann tók fram helgi tákn Moradins en hélt á gyllta hamrinum í hinni. Hann dró nokkrum sinnum djúpt andann en steig síðan fram úr skúmaskoti og hóf helgi táknið hátt á loft.

- Megi ljós Moradins lýsa og baða ykkur í birtu, hrópaði hann. Um leið varð brast mikil birta úr helgi tákninu, kubbildin sem stóðu hinum megin við varnargarðinn reyndu að skýla augunum en allt kom fyrir ekki. Heilög birta áss Regins brann í huga þeirra, brenndi kubbildin öll til bana.

Hetjurnar fylgdust agndofa með Regin. Þegar birtan hafði dvínað komu þær hlaupandi til hans og gerðu sig líklegar til að klifra yfir varnargarðinn. Rétt áður en þær kæmust alla leið yfir komu sex kubbildi hlaupandi. Fimm þeirra voru vasklega búin og betur vopnuð en verðirnir við innganginn en fyrir miðjum hópnum var eitt eldra kubbildi, sem var í rauðleitum kufli en undir honum grillti í ryðgaða flögubrynju.

- Farið héðan eða hljótið verra af, hótaði gamla kubbildið.

- Við förum ekki nema við vitum hvað hefur orðið um Ironboot dvergana, sagði Reginn ákveðinn.

- Dvergana? Nú, þeir eru … fóður, svaraði gamla kubbildið.

- Fóður? hváði Arikhaik.

- Já, hennar hátign nýtur þess að gæða sér á þeim.

- Hennar hátign? Hver er það? spurði Brjánn.

- Alizarinathrax er æðst hér og hún mun…

- Er hérna Alizarina eða hvað hún heitir, er það ekki þarna hálf-álfurinn sem lenti í vandræðum í haust í Mistmoor? spurði Varis.

- Nei, er hún ekki ljóti ógerinn sem býr í hæðunum hér fyrir sunnan? svaraði Brjánn, fljótur að skilja hvað Varis ætlaði sér.

- Auk þess, þú veist ekki hvernig það getur farið með meltinguna að éta dverga. Ekki viltu að drottningin þín fái illt í magann, bætti Brjánn við og átti erfitt með að halda aftur af lymskufullu glotti.

- Fá í magann?

- Já, dvergar eru tormeltir og geta valdið hræðilegum meltingartruflunum.

- Nei, svaraði gamla kubbildið og glotti grimmilega, ég hef ekki áhyggjur af því, enda er hennar tign dreki og hún mun éta ykkur. Farið nú héðan og komið aldrei aftur eða hafið verra af!

- Éttu þetta, svaraði Brjánn og dró í hendingskasti ör á streng. Hann skaut gamla kubbildið, sem flúði í ofboði undan hetjunum.

Þegar hetjunum hafði tekist að komast yfir varnargarðinn mætti þeim nýr vandi. Hellirinn skiptist í þrjár greinar. Þær völdu að fara í norður og fundu þar í hliðarhelli eins konar hof, sem hafði verið útbúið og gert til dýrðar einhverju hræðilegu goði kubbildanna. Reginn skoðaði hofið ítarlega og komst að því að hofið var til dýrðar Kurtulmak, hinum illa ás kubbilda sem leggur mikla fæð á gnomes.

Eftir að hafa rannsakað hofið héldu hetjurnar áfram í norður og komu að illa byggðri hurð. Brjánn opnaði hana en gætti ekki að sér, því um leið og hann greip í hurðina fann hann að fingurnir sukku í eitthvað ógeðsleg gums og fljótlega límdust fingur vinstri handar saman.

Á meðan Coren gerði vanmáttuga tilraun til að losa fingur Brjáns í sundur gekk Arikhaik inn í salinn handan dyranna. Þar voru um og yfir 20 kvenkyns kubbildi sem voru nakin og óttaslegin. Arikhaik reyndi að gera sig skiljanlegan og tókst að lokum að fá þær til að skilja að hann vildi þeim ekkert illt og ætlaði sér að frelsa þær. Hann fylgdi þeim út og þær voru frelsinu afar fegnar.

Hetjurnar héldu áfram dýpra inn í hellakerfið þar sem Brennda höndin hafði komið sér fyrir. Þær sáu þá hvar kubbildin höfðu reist annan varnargarð og höfðu safnast þar margir saman ásamt helstu leiðtogum sínum. Arikhaik lagði saman tvo og tvo og fékk snilldar hugmynd. Með hjálp Regins bjuggu þeir til skjöld úr hinum varnargarðinum, skjöld sem var nógu stór til að skýla þeim á meðan þeir ruddust fram. Þeir hlupu af stað og á meðan létu Brjánn, Varis og Coren örvum og kaststjörnum rigna yfir kubbildin handan við varnargarðinn. Þeim tókst að fella nokkra af andstæðingunum áður en Arikhaik og Reginn náðu að varnargarðinum. Þeir ruddust fram og tókst að brjótast í gegnum varnargarð kubbildana. Þar ruddust kubbildin fram og voru hvött áfram af leiðtogunum. Æðsti prestur þeirra, sem bar helgi tákn Kurtulmak, lagði áhrínisorð á Reginn og Arikhaik, á meðan stríðsmenn kubbildanna létu höggin dynja á þeim. Arikhaik og Reginn svöruðu fyrir sig en bölvun æðsta prestsins virtist hafa áhrif. Brjánn steig fram úr felustað sínum og skaut á elsta kubbildið. Varis kom á hlaupum á eftir vinum sínum og Coren lagði einnig sitt af mörkum og tókst að trufla æðsta prestinn nóg svo presturinn missti einbeitingu. Arikhaik og Reginn losnuðu undan bölvuninni. Um leið stökk Coren fram og réðst á æðsta prestinn en kubbildin voru hvergi nærri hætt, því einn æðsti stríðsmaður þeirra kom askvaðandi og bættist í hóp þeirra. Reginn kallaði fram mátt Moradins enn á ný og ljós dvergaássins brenndi marga þeirra. Arikhaik tók á sig stökk og réðist á besta stríðsmanninn, sem stóð nú einn eftir, þar sem elsta kubbildið hafði flúið öskrandi af hólmi. Arikhaik skiptist á nokkrum höggum en gekk fremur illa að ná góðu höggi á hann. Coren hljóp þá til og kom aftan að kubbilda stríðsmanninum.

- ARNARHNEFI, hrópaði Coren og kýldi í kubbildið. Síðan tók hann hringspark og smellhitti kubbildið í hnakkann. Stríðsmaðurinn féll niður. Það var fyrst þá sem Coren mundi að ernir hafa ekki hendur og þar af leiðir ekki hnefa.

Art_023.jpg

Hetjurnar hlupu af stað á eftir elsta kubbildinu og komu inn í öllu opnari og stærri helli, en fyrir honum miðjum var grófgerð og barnaleg stytta af dreka. Hetjurnar sáu glitta í kufl gamla kubbildisins þar sem hann hvarf norður úr hellinum. Í sömu andrá komu þrjár skaðræðisverur öskrandi inn í hellinn. Þær voru rauður á lit, líkar eðlum en með flugbeittar tennur og stóðu beingaddar upp úr hryggnum. Varis hljóp af stað og réðst fram gegn þeim, Brjánn og Coren skutu örvum og köstuðu kaststjörnum. Arikhaik og Reginn voru öllu svifaseinni. Varis náði ekki góðu höggi og verurnar voru fljótar að yfirbuga hann. Hetjurnar svöruðu þó snögglega fyrir sig og innan tíðar lágu verurnar í blóði sínu og Varis var stiginn á fætur, en hann var nokkuð særður.

Hetjurnar ákváðu að snúa aftur inn í hellakerfið í stað þess að elta gamla kubbildið enda höfðu þær heyrt enn stærri veru gera vart við sig þar. Þær skoðuðu marga hliðarhella og fundu meðal annars hirð kubbildakonungsins og tvær vistarverur þar sem um 30 kubbildi höfðu gert sig heimakomin í hvorri fyrir sig. Þá fundu þær einnig vopnageymslu kubbildana en þar var einnig viðarkista, þar sem undarlegan hlut var að finna. Í kistunni var þungur, gylltur einhvers konar steinn með fjólubláum æðum. Brjánn stakk þessum fjársjóði á sig.

Eftir nokkra leit komu hetjurnar inn í helli þar sem fjögur kubbildi gættu 16 dverga í tveimur klefum, tveir þeirra voru á fótum en hinir 14 lágu stífir, næstum eins og þeir væru dauðir. Hetjurnar yfirbuguðu kubbildin á skammri stundu. Reginn gekk að klefanum þar sem dvergarnir tveir sem voru uppistandandi og vakandi dvöldu. Þegar hann kom nær sá hann að annar dverganna var kvenkyns og virtist bera kennsl á gyllta hamarinn sem hann bar.

- Dorna Ironboot, geri ég ráð fyrir? spurði hann.

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.