Rise of the Wicker King

Af draumsýnum og martröðum

Coral heimsækir Fenabar-ættina

57e236de868e59c5d17da7ae8a3d5482.jpg

Snjókorn tóku að fjúka ofan úr þungbúnum himninum yfir Skuggafjöllum. Þau teygðu sig suður undan Stórjökulsfjallgarðinum og voru tindar þeirra þaktir snæ nær allan ársins hring. Coral dró hettuslána nær sér og bölvaði í hljóði ísköldum norðangarranum sem virtist smjúga inn undir brynjuna hans. Hann hefði heldur kosið að sitja við ylinn frá eldstæðinu í smiðjunni sinni og reykja pípu í stað þess að arka norður til að finna leiðtoga Fenabar ættarinnar. Hann varpaði því öndu léttar þegar hann sá heim að Fenabar óðalinu, þar sem það stóð í hlíðum Króksfjalls.

Reykur steig upp úr háfum ættarinnar og Coral sá ekki betur en að verðir ættarinnar væru í varðturnum og við óðalshliðið. Ættin hafði búið þarna afar lengi og bar umhverfið þess glögglega merki. Skríni helguð Moradin stóðu við vegarslóðann og stóðu bautasteinar, vandlega skreyttir rúnum og táknmyndum úr sögu ættarinnar, í hlíðunum.

- Moradin veri lofaður, sagði hann lágt og greikkaði sporið. Hann hafði hálft í hvoru óttast að örlög Fenabars hefðu verið þau sömu og Ironboot ættarinnar og var þakklátur að sjá að svo var ekki. Þau Gríma höfðu kannski ekki alltaf verið sátt í gegnum tíðina en Coral óskaði ætthöfðingja Fenabar ekki ills.

- Nei, sjáið, félagar, hér er kominn ferðalangur, sagði einn varðanna í hliðinu og hallaði sér fram á stóran og mikinn bardagahamar þegar Coral kom gangandi.

- Gott ef það er ekki bróðir okkar neðan úr þorpi hýjungsfésanna, bætti annar við með háðskum tóni.

- Já, það finnst á lyktinni, svaraði sá fyrsti og hinir hlógu. Coral hugsaði þeim þegjandi þörfina en svaraði þeim engu. Hann tók hettuna ofan og losaði bakpokann af bakinu.

- Hverju eigum við að þakka að þú heimsækir okkur? Ertu búinn að selja þorpsbúum öllum nóg af skeifum? bætti vörðurinn við. Coral sneri sér að honum.

- Ertu búinn að hlægja nóg, Brámur Burkinsson? Eða eigum við að rifja upp síðustu kaupstaðaferð þína?

Í gráum augum Bráms blikaði í senn reiði og skömm. Hann greip um dökkt skegg sitt og um stund virtist hann ætla að hjóla í Coral. Augu þeirra mættust. Síðan brosti Brámur og breiddi út faðminn.

- Gamli durgur, komdu hérna, sagði hann glaðlega og dvergarnir féllust í faðma. – Hvað rekur þig hingað? Er ekki full snemma vors til að dvergar á þínum aldri leggist í fjallgöngur?

- Það er ekki af góðu einu, get ég sagt þér, gamli vinur, svaraði Coral, ég hefði heldur kosið af orna mér við eldstæðið en að þramma hingað á ykkar fund. Ég þarf að komast á fund Grímu og sem fyrst.

Brámur hóaði í ungan dverg þar sem skammt frá.

- Kirjan, farðu og sæktu Grímu. Segðu henni að sendiherrann sé kominn og beri váleg tíðindi, kallaði Brámur til þess unga, sem snerist samstundis á hæli og hljóp í gegnum opið hliðið. Coral og Brámur gengu af stað. Ytri hýsi óðalsins voru glæsileg, stór kastalaturn hvaðan sem dvergarnir sáu vítt til allra átta og nokkrir minni umhverfis hann. Þeir gengu þvert yfir kastalagarðinn, þar sem verið var að hlaða gylltum, bronsuðum og silfruðum málmstöngum í kassa og upp á vakna. Coral staldraði við og leit undrandi á Brám.

- Riddarar komu frá Ravenhold snemma veturs og fólust eftir góðmálmum. Þeir báru skilaboð frá goðanum en aðeins Gríma veit hver þau voru. Við höfum hins vegar mátt vinna nótt sem nýtan dag við að tryggja þennan mikla farm, sem á að fara að Hrafnhóli innan nokkurra daga.

Coral kinkaði kolli hugsi, af hverju ætli goðinn þurfi á slíkum fjársjóði að halda? Áður en hann náði að spyrja kom Kirjan hlaupandi.

- Hennar tign bíður sendiherrans í Roðasalnum, sagði Kirjan og hneigði sig.

- Það er þá best að drífa sig og láta hana ekki bíða, sagði Brámur og dró Coral af stað. Náma Fenabars var magnþrungin. Um leið og þeir stigu gengur niður og inn í fjallið fann Coral hvernig þyngd þess lagðist ofan á sig, umvafði og varði, og honum fannst eins og hann væri kominn heim. Eins og allt væri rétt. Hann lagði hönd á vegg og fann óhagganlegan kraft fjallsins og naut þess að finna orku þess streyma um sig. Hann dró andann djúpt og þreytan eftir fjallgönguna og ferðina frá Mistmoor hvarf á braut.

Roðasalurinn var inn af hásætisal Fenabars. Langborð stóð í salnum miðjum og við einn enda þess sátu tveir aldnir dvergar og ræddu saman í lágum hljóðum. Annar þeirra var skegglaus, en silfrað hár var fléttað vandlega og flétturnar bundnar saman með brasshringjum. Gríma var þéttvaxin og á vinstri kinn var krosslaga ör en drýsill hafði skotið hana með ör fyrir mörgum árum. Sögðu Fenabar dvergarnir oft og iðulega söguna af leiðtoga sínum, hvernig hún hafði nagað í sundur örina og hrækt oddinum framan í drýsilinn, rétt áður en hún hjó af honum höfuðið með gylltu öxinni sinni, Reginsnauti. Hinn dvergurinn var sköllóttur en ýmis tákn voru flúruð á höfuðið. Undir augunum voru einnig ýmis konar galdratákn en Coral kunni ekki skil á þeim. Hann hafði þó heyrt um sjáanda Fenabar ættarinnar, hinn goðsagnakennda Jörfa, en hann hafði aldrei hitt hann, enda var sagt að hann hefði aldrei borið himininn augum og vildi ekki hitta nokkurn dverg sem gæti borið bláma hans inn með sér, hvað sem það nú þýddi. Jörfi var með þykkt hvítt skegg og klæddur rauðum kufli með helgitákni Dumathoins. Um leið og þau urðu Corals vör réttu þau úr sér og Gríma benti Coral á að koma nær.

- Velkominn, sendiherra, sagði hún en í rödd hennar var engin hlýja.

- Yðar tign, svaraði Coral og hneigði sig lítillega, rétt nóg til að kallast kurteis en samt ekki djúpt.

- Hvaða erinda áttu hingað svo snemma sumars?

- Ég færi yður tíðindi, yðar tign, af frændum okkar, Ironboot.

Gríma leit á Jörfa en græn augu sjáandans voru sem límd á Coral.

- Af illu skal illt hafast, sagði Jörfi, rödd hans djúp og kynngimögnuð, og boðberar válegrar tíðinda sjaldan aufúsugestir. Mjög er bráður sá er hjá taðskegglingum sitt bú og fé rekur, eða viltu ekki frekar taka yður sæti hér hjá oss og uppfræð oss svo vér fáum rýnt í tíðindi yðar.

Jörfi rétti úr hrumri hönd og benti á sætið gegnt sér við borðið. Það vantaði framan á baugfingur og löngutöng. Coral kinkaði kolli og fékk sér sæti. Síðan sagði hann þeim frá því sem hafði komið fram á fundinum í Mistmoor tveimur dögum fyrr.

- Þetta eru vond tíðindi, sendiherra, sagði Gríma alvarleg á svip, ég mun senda sveit hið snarasta í námu frænda okkar. Við munum sjá til þess að Isarn og ætt hans geti snúið aftur til síns heima.

Coral kinkaði kolli en gat ekki annað en velt fyrir sér hvað Isarn ætti eftir að þurfa gjalda Grímu fyrir þá vernd.

Þegar þau höfðu rætt og útkljáð málin var Coral fengið herbergi þar sem hann gat hvílt sig. Hann átti enn eftir að heimsækja Gunlaug ættina en náma hennar var enn lengra fyrir norðan. Hann naut þess að borða góðan mat og skiptist á sögum við Brám áður en hann lét sig falla í rúmið og leyfði sér að loka augum.

Skyndilega fannst honum sem eitthvað þungt leggðist ofan á sig, hann reyndi að opna augun en gat það ekki. Í myrkrinu fann hann fyrir hreyfingu, eitthvað stórt vafðist um hann, kæfði hann, stakkst í hold hans. Ævaforn og lymskufull rödd birtist í huga hans, hrópaði og hvíslaði í senn, ærandi, skerandi, ævarandi.

- Coral’si don a kurisa’le, D’oma ni kurise’li.

Coral hrökk upp og greip strax til hamarsins síns. Hann gerði sig líklega til að berja frá sér þegar hönd var lögð á öxl hans.

- Rólegur, æðið ekki að neinu, sagði djúp rödd. Coral sneri sér að röddinni og sá glitta í Jörfa.

- Fylgdu mér, bætti hann við og hvarf út úr herberginu.

Coral flýtti sér að elta gamla dverginn, sem fór furðu hratt yfir. Hann virtist ekki þurfa neina birtu, heldur rataði í myrkrinu og Coral fann að Jörfi leiddi hann sífellt dýpra inn í fjallið. Eftir þó nokkra stund komu þeir inn í helli, þar sem dropasteinar og grýlukerti myndu eins konar tanngarð í kringum bjarta tjörn. Jörfi gekk að tjörninu og muldraði eitthvað fyrir munni sér. Hann strauk blíðlega yfir vatnið og benti síðan Coral á að fá sér sæti.

- Þér hafið séð sýnina, sagði hann alvarlegur, sýnina sem ásækir vora þjóð. Sýnina sem ærir suma bræður vor, hræðir aðra og hvíslar hræðilega hluti. Sýnin sem markar skapadægur vor.

- Hvað áttu við?

- Innsigli er rofið. Í þúsöld hefur hann sofið, beðið þess að losna úr viðjum þeim sem álagaþjóðirnar bundu hann og fyrir sakir flónsku og græðgi er hann nú laus.

- Hver?

- Tágakonungurinn. Ás frumafla. Sá sem sefur. Hinn illi prins jarðar, svaraði Jörfi og kyrjaði síðan svo djúp rödd hans virtist sækja að Coral úr öllum áttum:
Sá var fjórum fjötrum bundinn,
fastur undir áhrínisorðum
með tiginbornum fórnum fjórum
fastur undir álögum fornum.

Á meðan söng hans stóð virtist sem ímyndir og tákn drægust saman í lauginni. Vatnið fékk á sig grænkenndan blæ og Coral fannst sem eitthvað illt og ævafornt væri að horfa á sig, rétt eins og í draumnum. Hann hrökklaðist aftur og leit á Jörfa. Augu hans voru alhvít og andlitið fölt, húðin skorpin og virtist græn mygla skríða upp háls hans undan kuflinum.

- Tágakonungurinn rís! sagði Jörfi en varir hans bærðust ekki. Coral hrópaði upp og snerist á hæli.

Coral hrökk upp. Hann var enn í rúminu sem Brámur hafði útvegað honum. Coral tók föggur sínar saman í flýti og dreif sig aftur að hliðinu. Þegar hann stóð í dyrunum að kastalaturninum sneri hann sér við og horfði inn eftir ganginum inn í fjallið. Jörfi stóð þar. Augu þeirra mættust. Eitthvað við augnaráð gamla sjáandans varð til þess að Coral fannst sem martröð næturinnar hefði ekki verið draumur.

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.