Rise of the Wicker King

Aftur til Mistmoor

Heim á ný

basilisk.jpg
Þegar hetjurnar voru búnar að koma öllum dvergunum fyrir á vögnunum settust Isarn og Dorna í ökumannsæti á hvorum vagni. Sólin seig aftur fyrir fjöllin og kastaði löngum skuggum yfir dalinn í þann mund sem Harkon leiddi hópinn af stað. Honum gekk brösuglega til að byrja með og átti erfitt með að finna rétta leið, sem leiddi að lokum til þess að asninn sem dró annan vagninn steig ofan í gjótu og fótbrotnaði. Reginn og Arikhaik gerðu að sárum hans en þetta tafði för hópsins nokkuð. Nóttin skall á og var ákveðið að halda engu að síður förinni áfram, til að reyna að komast eins langt og unnt var frá bæli kubbildanna og drekans.

Þegar hópurinn hafði gengið áfram í gegnum fjalllendið í hátt í sólarhring fann Harkon með hjálp Arikhaik loks rjóður þar sem ákveðið var að æja. Slegið var upp tjöldum, varðeldur kveiktur og ekki leið á löngu þar til að hetjurnar höfðu komið sér fyrir með mat. Ísarn dró sig reyndar í hlé og lagðist strax til hvílu. Dorna kom þá til þeirra Harkons og Regins.

- Mig langar að fá álit ykkar á nokkru, sagði hún á hinni fornu tungu dverga. – Mig hefur dreymt sérkennilega undanfarnar nætur. Drauma sem mér finnst eins og séu ákall ássins til mín. Áeggjan eða hvatning, ég veit það ekki. Mér finnst samt eins og ég þurfi að bregðast við.
Dorna þagnaði um stund.

- Mér finnst ég sjái mikla og dimma borg, hverjir virkisveggir og turnar gnæfa dimmir og grimmúðlegir yfir mér. Þetta háa vígi er listilega reist og minnir um margt á borgir vorar til forna. Virkið er umvafið bláu jökulstáli en samt stafar einhverja sérkennilega birtu af því. Að innan berst mér rödd, sem minnir mig helst á ásinn. Rödd sem segir:
„Sá var fjórum fjötrum bundinn,
fastur undir áhrínisorðum
með tiginbornum fórnum fjórum
fastur undir álögum fornum.
Hinn forni fjandi rís á ný. Hetjur, stíg fram und gunnfána ljóssins, und skjöld steðjans og hald fram gegn hinni miklu ógn.“
Hvað haldið þið að þetta merki?

Reginn dró augað í pung og renndi hönd í gegnum skegg sitt. Hann var hugsi um stund en sagði síðan:

- Veistu, ég hef bara ekki hugmynd um það.

Þau ræddu þetta stuttlega lengur en síðan lagðist Dorna til hvílu. Reginn ákvað að deila þessum upplýsingum með vinum sínum en enginn þeirra kannaðist við þennan kastala sem um ræddi og enn síður hinn forna fjanda sem um var rætt.

Næsta dag héldu hetjurnar enn áfram undir leiðsögn Harkons. Um hádegisbil gekk hópurinn inn í rjóður, þar sem kleifar risu og sköguðu fram úr fjallshlíð. Í kleifunum var hellir en fyrir framan hann voru fimm mjög svo fagurlega gerðar styttur, tvær þeirra sem sýndu kubbildi en hinar þjár ólík dýr. Brjánn læddist nær en þá kvað við ógurleg öskur innan úr hellinu. Fram skreið hræðileg eðla, á átta fótum og með beingadda upp eftir hryggnum. Kjafturinn var alsettur beittum tönnum og hvassar klær á framfótum. Verst voru þó augun, sem virtust brenna á kynngimagnaðri heift. Coren stökk samstundis fram til varnar vinum sínum og barði í dýrið. Veran færði sig framar og öskraði ógnandi enn á ný. Hetjurnar fundu berlega fyrir dulmögnuðum áhrifum augnaráðs þess.

- Þetta er basiliskur, hrópaði Brjánn, vera sem getur umbreytt manni í stein með augnaráðinu einu saman.

Arikhaik, Harkon og Varis hlupu allir fram, óhræddur, með brugðin vopn. Reginn fann hins vegar doða leggjast yfir sig og var sem fætur hans hefðu skotið rótum. Brjánn stökk hetjulega í skjól aftan við annan vagninn en dró þó fram bogann sinn. Bardagamennirnir létu höggin dynja á skepnunni og Brjánn nýtti færi til að skjóta einni ör í það og tókst þeim að fella dýrið. Reginn náði að hrista af sér doðaáhrifin og þakkaði Moradin að hafa ekki endað eins og kubbildin.

Eftir stutta umhugsun ákvað Harkon að athuga hvort hann fyndi eitthvað fémætt inni í helli verunnar. Hann gróf í gegnum úrgang skepnunnar og fann að lokum lítinn smaragð.

- Já, ég vissi það, hrópaði hann upp yfir sig og kyssti eðalsteininn. Sem hann sá síðan samstundis eftir þegar hann fann bragðið af úrgangi basilisksins.

Ferðin gekk að mestu áfallalaust fyrir sig eftir þetta. Harkon varð reyndar fyrir því óláni að stiga ofan á geitungabú þegar skammt var eftir til Mistmoor, en hann lét það lítið á sig fá.

Sólin var sest þegar hetjurnar sáu heim að þorpinu. Ljós loguðu í gluggum og gengu varðmenn eftir brúnni og kveiktu ljós í luktum. Þegar þeir urðu hetjanna varir var blásið í lúður og ekki leið á löngu þar til að þorpsbúar tóku fagnandi á móti þeim, ákafir í að heyra hvað á daga þeirra hafði drifið. Rúbert tók opnum örmum á móti Dornu og Ísarni og bauðst til þess að aðstoða þau við að koma dvergunum fyrir. Hann hóaði í tvo fíleflda karlmenn og fékk þá til liðs við sig.

- Finnið mig í fyrramálið, sagði hann brosandi við hetjurnar, njótið kvöldsins og reynið að slaka á. Þetta hefur eflaust við langt ferðalag. Ég var tekinn að óttast um ykkur og það gleður mig að sjá ykkur snúa aftur. Tölum saman í fyrramálið, þá getið þið sagt mér upp og ofan af ævintýrum ykkar.

- En viltu þá ekki vita af drekanum? spurði Brjánn. Þögn sló samstundis á mannfjöldann. Rúbert leit skelkaður á Brján.

- Hvað áttu við?

- Nú, rauða drekanum sem við börðumst við?

- Er hann á eftir ykkur? spurði Rúbert óttasleginn.

- Nei, reyndar ekki, svaraði Arikhaik og bætti við: En við vitum ekki hvar hann er.

Eftir nokkra reikistefnu var þó niðurstaðan að hetjurnar myndu ræða við Rúbert næsta dag. Flestar hetjurnar héldu því ásamt miklum fjölda bæjarbúa á Gyllta Turninn til Harads og eyddu kvöldinu við drykkju og að segja sögur. Arikhaik hélt til sín heima og hlaut þar mikinn reiðilestur föður síns fyrir að vanrækja skyldur sínar. Hann skipti þó fljótt skapi þegar hann sá pyngjuna sem Arikhaik færði honum, pyngju sem var full af gulli.

Morguninn eftir byrjuðu hetjurnar á því að heimsækja ýmsa kaupmenn og fundu fljótt að bæjarbúar voru afar ánægðir með þær. Þegar þær höfðu verslað nóg héldu þær inn í kirkju Pelors og fundu þar Diam Valgi, Rúbert og Dornu að spjalli. Rúbert benti hetjunum að koma nær og tjáði þeim að Dorna hefði sagt þeim hvað á daga Ironboot ættarinnar hefði drifið, en hann vildi gjarnan heyra frásögn þeirra. Arikhaik fór því í stuttu máli yfir ævintýri hópsins.

- Þið berið mikil tíðindi og um margt ill. Það er ekki gott að vita af rauðum dreka hér í nágrenni við þorpið og ljóst að við þurfum að finna leið til að hrekja hann á brott eða vega hann, sagði Diam Valgi. Síðan dró hann fram bókfell og réttir Coren.

- Ég hef nýtt tímann til að skoða þessar rúnir sem voru í klefanum undir námu Ironboot ættarinnar. Það er ýmislegt sem er á huldu en þó hefur mér tekist að grafa upp eitthvað af upplýsingum ykkur gæti þótt forvitnilegar.

Í fyrsta lagi þá eru rúnirnar á tungumáli Aranea kynþáttarins, en Aranea eru hamskiptar sem geta hleypt mennskum hami og orðið að köngulóm. Þau eru býsna slyngir seiðskrattar og hafa eflaust haft meira en næga þekkingu til að leggja öflug álög á klefann.

Í öðru lagi þá tengjast sumar rúnirnar ævafornum átrúnaði á frumaflaverur. Ég get því miður ekki farið nánar út í þetta, þar sem ég hef ekki til þess nægilega góðar upplýsingar í hofinu, en mig grunar að þær megi finna í bókasafni Hrafnabjarga.

Í þriðja lagi þá finnst mér eins og sá hlutur sem var í herberginu hafi verið miðpunktur eða orkustöð þeirra álaga sem á herberginu hvíldu.

Að lokum sýnist mér sem að þau álög sem voru bundin við klefann hafi verið hluti af álaganeti. Klefinn er á mikilvægum stað hvað galdraorku þessa svæðis snertis og mér sýnist eins og að aðeins hluti margra kröftugra rúna og galdrastafa hafi verið ritaðir, eins og að hluti þeirra sé einhvers staðar annars staðar.

Hetjurnar ræddu þessar upplýsingar um stund og benti Diam hetjunum á að skynsamlegast væri að ræða þessa framvindu mála við Holmarn Roka, yfirbókarvörð í bókasafninu í Hrafnabjörgum, sem er hof Iouns í fjöllunum fyrir ofan Ravenhold. Þegar hetjurnar spurðu Valgi um hvort hann vissi um kastala eða mikla borg uppi á Stórajökli, sagði hann að þar væri Járnborg, helsta vígi frostrisa, sem hefði verið unnið af dvergum í ánauð.

Brjánn sýndi Diam gyllta hlutinn með fjólubláu æðunum.

- Þetta er Aranea drottningaregg, sagði Valgi og bætti við: Mig grunar að ekki sé langt í að það klekkjist.

- En hvað ætlið þið til bragðs að taka? Hvað ætli þið að gera varðandi drekann? Hvað með þetta egg? Og hvað með bölvunina? Við þurfum að leysa öll þessi vandamál, sagði Rúbert.

Hetjurnar ræddu þetta fram og aftur og varð ofan á að byrja á því að reyna koma egginu til skila. Hugsanlega væri hægt að finna ættbálk þessara vera í Fernisskógi og ráðgerðu hetjurnar að finna rekkann Koram, að undirlagi Olaf Arnesen, og njóta leiðsagnar hans um skóginn. Hetjurnar ákváðu að finna sér far með pramma niður fljótið að vatninu Djúpu, og höfðu upp á Þjóðvari, hafnarstjóra þorpsins. Hann benti þeim á að ræða annað hvort við Gert Da á Timburdrekanum eða Brí Vatnssteins á Fljótadísinni. Hann sagði að Gert Da væri mjög góður kaupmaður en Brí væri slunginn skipstjóri. Hetjurnar ákváðu því að ræða við Brí.

Þær fundu Brí á Gyllta Turninum og eftir strangar samningsumleitanir, prútt og gagnkvæmar svívirðingar, tókst Arikhaik að sannfæra Brí um að sigla með hetjurnar samstundis niður ánna að Djúpu. Reyndar kostaði það þó nokkra gullpeninga en skilaði tilætluðum árangri.

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.