Rise of the Wicker King

Inn í Fernisskóg

Í leit að Aranea ættbálkinum

BeorningSettlement.jpg

Eftir stutta dvöl í Mistmoor héldu hetjurnar niður Cragmoor á í leit að býli Korams, sem þær höfðu heyrt að stæði við bakka Djúpu. Brí Vatnssteins, skipstjóri Fljótadísarinnar, hafði samþykkt að flytja hetjurnar að vatninu. Á síðustu stundu ákvað Arikhaik að dvelja lengur í Mistmoor, sumpart til að aðstoða Olaf Arnesen við varnir þorpsins, ef ske kynni að Alizarinathrax sneri aftur, en eins til að vera foreldrum sínum innan handar.

Fyrsti hluti ferðarinnar var tíðindalítill og pramminn leið letilega áfram niður eftir ánni. Ræktarlönd urðu að skóglendi sem síðar varð að þykkum skógi, hvar trén teygðu rætur sínar út í vatnið. Þegar líða tók að kvöldi þykknaði upp og hvessti. Um miðnætti var komið hávaðarok og slagveðursrigning, svo Brí hrópaði á að hetjurnar að rifa segl og binda niður lausa muni. Sem betur fer var Fljótadísin enn á ánni, þannig að ekki gerði mikla öldu en þó fannst Harkoni erfitt að vera um borð og fannst óþægilegt að hafa ekki fast land undir fótum.

Veðrinu slotaði þar um morguninn og féll þá á dúnalogn og svartaþoka. Fljótadísin rann mjúklega inn á Djúpu þar sem pramminn staðnæmdist. Þokuna létti síðan þegar sól tók að skína og vind að hreyfa um hádegisbil og gat þá förin haldið áfram. Brí stýrði prammanum að syðri bakkanum en gat ekki lagt alveg að bakkanum. Fóru hetjurnar því í selflutningi á milli pramma og lands á lítilli kænu.

- Þið finnið býlið hér skammt sunnan, það ætti að vera slóði þarna við bakkann, kallaði Brí. Reginn þakkaði henni fyrir og gerði upp við skipstjórann áður en lagt var af stað fótgangandi með allan búnað í bakpokum eftir þröngum slóðanum. Þegar sól var tekin að síga komu hetjurnar að vegamótum, þar sem slóðinn hélt áfram austur meðfram bakkanum og hins vegar í suður, heima að voldugum skíðgarði. Reykur liðaðist upp í heiðan himinn á tveimur stöðum handan skíðgarðsins, þannig að hetjurnar ályktuðu að þær hefðu fundið býlið.

Coren knúði dyra og ekki leið á löngu þar til að stór maður kom að hliðinu. Skegg hans var grásprengt, hárið rakað í hliðum og eins konar hnappaflúr fyrir ofan eyrun. Hann leit stálgráum augum á hópinn.

- Hvað höfum við hér og hvað viljið þið hingað?, spurði sá gamli. Hetjurnar röktu erindi sitt og sýndu þeim gamla egg Aranea ættbálksins. Eftir nokkra umhugsun bauð hann þeim inn fyrir hliðið. Þar var að finna tvö kringlótt hús með strýtulaga þökum. Á milli þeirra var veglegt eldstæði en handan húsanna, hinum megin í garðinum, var lítið skríni tileinkað einhvers konar náttúruguðum og skógardísum. Á litlum fórnarsteini lágu 2 silfurpeningar, útskorinn rýtingur unninn úr beini og dauður spörfugl.

Hetjunum var boðið að setjast við eldstæðið og þar spurði sá gamli, sem hét Symbal, frekar út í sendiför hetjanna.

- Reyndar er nokkuð löng saga að segja frá því, svaraði Coren og setti sig í stellingar. Síðan hjálpuðust hetjurnar að við að segja frá öllu því sem á daga þeirra hafði drifið. Þegar sagan var öll fram sögð var sólin að setjast og bauð Symbal hetjunum því að dvelja þar um nóttina. Um kvöldið bauð hann fram aðstoð þeirra og bauð hetjunum að Grábjörn, þeirra besti veiðimaður, myndi fylgja hetjunum um skóginn, en aðeins gegn því að hetjurnar sverðu að vinna hvorki honum, býlinu né skóginum mein, sem þær og gerðu.

Síðar um kvöldið sagði Symbal hetjunum einnig sögu Korams, sem hafði rekist á Græntanna, verndara skógarins, fyrir nokkrum tunglum. Eftir þau viðkynni var hugur Korams brotinn. Stúlkan sem Koram bjargaði sagði að þau hefðu rekist á mannverur djúpt inni í skóginum sem hefðu sært fram verndarann og sent á eftir þeim. Reginn fannst þessi frásögn í meira lagi dularfull og reyndi að ræða við Koram en fékk lítið af viti upp úr honum.

Morguninn eftir var lagt af stað og hélt Grábjörn sig við þekkta veiðislóða. Ákveðið var að halda ekki langt inn í skóginn og snúa aftur til býlisins áður en rökkva tæki. Á leiðinni rákust hetjurnar á undarlega kjúklingseðlu með leðurblökuvængi. Þeim tókst að hrekja þessa sérkennilegu veru á brott án þess að til átaka kæmi. Þegar heim var komið var enn boðið til góðs málsverðar og skiptust heimamenn og hetjurnar á sögum. Þegar tungl var hátt á himin komið fékk Grábjörn Symbal til að leita ásjár Obad-Hai og spyrja ásinn hvað hetjurnar ættu til bragðs að taka. Symbal settist við bautasteininn og lagði fjaðrakórónu á höfuðið. Nokkrum andartökum síðar sneri hann aftur.

- Obad-Hai sagði: Dökki sendiherrann er snúinn aftur. Varist vef lyga og tálsýna djúpt suður í skóginum, sagði Symbal. Hetjurnar litu hver á aðra og reyndu að ráða í þessi torskildu skilaboð. Að lokum steig Grábjörn á fætur og kallaði til sín stóra gráa uglu. Hann sannfærði hana um að deila með sér því sem hún sæi á flugi yfir skóginn. Ugla hóf sig til flugs og flaug bæði langt og hátt. Hún kom auga á varðeld í um tveggja daga fjarlægð frá býlinu, sem og marga minni elda suðaustur í skóginum. Hins vegar hvíldi mikið myrkur eins og mara yfir skóginum þar sem hann mætti Arnarfellum, myrkur sem augu hennar sáu ekki í gegnum.

Morguninn eftir tjáði Grábjörn hetjunum frá því sem uglan hafði sýnt honum og var ákveðið að halda sem leið lá að varðeldinum. Þær þræddu á milli trjáa allan liðlangan daginn uns að þær komu inn í stórt rjóður, hvar spegilslétt tjörn var fyrir miðju. Engin tré uxu nærri bökkum tjarnarinnar og fengu hetjurnar strax illan bifur á henni. Þær héldu því för sinni áfram og bjuggu sér góðan næturstað hátt í trjákrónum skógarins. Um nóttina sáu þær þrjú tröll, tröllin viðruðu í allar áttir og virtust leita einhvers. Grábirni tókst að lokka tröllin á brott um stund með útsjónarsemi og þegar þau sneru aftur náðu Reginn að rugla þau nægilega mikið í ríminu til að þau misstu áhugann á lyktinni sem hafði upphaflega dregið þau að hetjunum.

Um morguninn ræddu hetjurnar hvað til bragðs ætti að taka.

- Við getum lokkað þau að tjörninni og yfirbugað þau þar. Ég vil umfram allt ekki að þau finni leiðina heim og ráðist gegn fólkinu mínu, sagði Grábjörn. HInar hetjurnar tóku undir með honum en voru ekki sammála um aðferðarfræðina.

- Kannski getum við rakið slóð þeirra, lagði Harkon til og að lokum varð það ofan á. Grábirni reyndist það ekki erfitt með hjálp hetjanna og um hádegisbil fundu þær bæli tröllanna. Eftir nokkra skipulagningu ýttu þær logandi trjádrumbi ofan í bælið og tókust síðan á við logandi tröllin, öskrandi af bræði og hræðslu, eitt í einu þar sem hetjurnar vörnuðu tröllunum útgöngu. Eftir nokkurn bardaga hafði hetjunum bæði að tekist að fella þessa stórhættulegu skrímsli sem og slökkt eldinn í bæli þeirra.

Hetjurnar tóku sér næturstað þar skammt frá. Um nóttina varð Harkon var við sérkennilegan hest, sem virtist geta talað við hann með hugskeytum. Hesturinn virtist kæfa eld í búðum hetjanna og bað Harkon um að kveikja engan eld í skóginum. Áður en honum tókst að vekja að fullu hinar hetjurnar hvarf hesturinn á brott en hetjurnar fundu þó að einhver griðarálög hvíldu á þeim og lögðust því aftur til hvílu.

Næsta dag héldu hetjurnar áfram för sinni. Við sólsetur komu þær að svæði þar sem gisnaði nokkuð á milli trjánna. Þá komu þær auga á sérkennilegan steinhring og fyrir miðju hans var stór fórnarsteinn. Þær rannsökuðu steinhringinn vel og fundu að einhver forn orka hverfðist um hringinn. Grábjörn ákallaði andanna í hringnum og færði þeim fórn, sem fékk hárin á hetjunum til að rísa og þær funnu áþreifanlega fyrir þessari sérkennilegu orku svæðisins.

Þegar hetjurnar ætluðu að yfirgefa svæðið fannst þeim eins og einhver væri að fylgjast með þeim. Eftir stutta eftirgrennslan steig stórt tré fram.

- Hvað… öm, eruð þið að gera… öm, hér? spurði tréð. Í stofninum mátti greina andlitsdrætti. Hetjurnar störðu orðlausar á veruna, en loks áræddu þær að svara og sögðu trénu frá för sinni.

- Ömmm, Aranea ættbálkinn hef ég… öm, ekki séð lengi. Þau bjuggu… öm, hér syðra. Ekki langt frá bæli Græntanna.

Reginn spurði þá úti í Græntanna og verndara skógarins.

- Græntanni er mikill og… öm, vís. Hann verndar skóginn, skógurinn er svæðið hans. Græntanni fór í sendiför fyrir… öm, hartnær öld og hefur ekki snúið aftur að mér vitandi.

Tréð vildi þá ekki sýna hetjunum bæli Græntanna. Coren spurði þá aftur út í ættbálkinn.

- Fyrir mörgum árum… öm, reistu þau Hulda Hofið suður í skóginum, þar sem skugginn mikli er nú. Þá dýrkaði þjóð þeirra… öm, átteygða gyðju. Lengi hefur verið hljótt þar í skóginum en nú þori ég ekki þangað.

Hetjurnar reyndu að krefja tréð frekari svara en það hafði ekki frá fleiru að segja. Því ákváðu hetjurnar að æja um nóttina innan steinhringsins og halda síðan suður inn í myrkrið næsta dag.

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.