Rise of the Wicker King

Interlude: Útsendari Tágakonungsins

Í þjófagildi Miramar

_Thief__the_old_town_044752_.jpg

Bríar sat efst í siglutréi og fylgdist með mannfjöldanum liðast milli Eldingarinnar og Stolt Hafgúunnar, hvort tveggja forn þrímastra hásigld fullreiðarskip sem fyrir löngu höfðu skilað hlutverki sínu og höfðu legið svo lengi sem elstu íbúar Míramar mundu bundin við bryggjur. Í raun voru skipin nú lítið annað en íbúðarhús fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna, hverjum og einum hafði tekist að eigna sér lítið rými neðanþilja.

Fæstir þeirra sem áttu leið milli skipanna tveggja vöktu athygli Bríars, flestir báru ýmis teikn um að þeir væru íbúar borgarinnar, sumir voru með hvalbein í boðungum kápa og hettusláa, aðrir báru þríhyrnda leðurhatta á höfði og enn aðrir voru merktir hinum ýmsu gildum borgarinnar með áberandi hætti. Þeir örfáu ferðamenn sem gengu hjá voru allir með svarta flauelsslaufu á upphandleggnum, til merkis um að þeir hefðu þegar greitt skattinn sem Fjögurra-fingra Söndru hafði innleitt í borginni. Leiðtoga þjófagildisins hafði sagt þjófunum að það væri hlutverk nýliða að ræna ferðmenn, en eldri þjófarnir ættu að sinna öðrum málum, einkum ólöglegum dýraötum, eiturlyfjasölu og rukkun skulda. Þó að margir þjófar hefðu verið mótfallnir þessari tilhögun Söndru í fyrstu, þá hafði þessi skipulagning þjófagildsins haft þau áhrif að þjófarnir höfðu aldrei haft það jafn gott og nú og óttuðust hin gildi völd og ríkidæmi Söndru.

Þá gekk dökkklæddur maður inn á þröngt strætið. Hann bar ekki merki um að hafa greitt skattinn en á bakinu hafði hann tvö langsverð. Hann smeygði sér á milli fólks og framhjá sölubásum kaupmanna og snákaolíusölumanna og virtist ekki gefa þeim mikinn gaum. Bríar renndi sér hratt niður reipi og lét sig siga hljóðlega niður á bryggjustrætið, stjórnborðsmegin við Eldinguna. Hann fylgdi í humátt á eftir manninum og tók eftir að hann bar þunga pyngju í belti. Bríar spratt friðarböndunum á rýtingnum sínum og vonaði að sá dökkklæddi myndi fljótlega bregða sér út af bryggjunni á milli skipanna. Sá dökkklæddi rölti áfram og arkaði sem leið lá að Kattarstræti. Þar stóðu hús sem einna helst minntu á kubbaleik barna, því þau höfðu verið byggð með mismunandi hætti á ólíkum tímum úr því hráefni sem var fáanlegt. Fyrir vikið voru húsin við götuna líkari illa skipulögðu bútasaumsteppi.

Það hentaði Bríari vel. Ekki nóg með að Kattarstræti hefði að geyma marga rangala og skúmaskot, heldur var stutt þaðan í fylgsni þjófagildisins ef allt færi á versta veg. Hann færði sig því fimlega nær og gætti vandlega að því að sá dökkklæddi yrði hans ekki var. Í þann mund sem Bríar var að gera sig líklegan til að teygja sig eftir pyngju ferðamannsins beygði hann inn i hliðarstræti og ýtti þar stórum, skítugum kassa til hliðar. Bríar fylgdist gáttaður með, því aðeins meðlimir þjófagildisins vissu af þessari leið niður í holræsin. Öllu verri var sú staðreynd að í gegnum þetta holræsi hafði Bríar hugsað sér að fara til að komast í fylgsnið.

Sá dökkklæddi var ekki lengi að dírka upp lásinn á grindinni og skreið niður í ræsið. Bríar beið tíu andardrætti áður en hann hætti sér nær. Hann læddist eins varlega og honum var unnt og kíkti niður. Holræsið var svart sem að nóttu og jafnvel geislar hnígandi sólarinnar megnuðu ekki að lýsa upp nema rétt efst. Bríar dró andann djúpt og leit í kringum sig. Hann var ekki viss um hvað væri rétt að taka til bragðs en að lokum varð forvitnin yfirsterkari. Bríar lét sig síga varlega ofan í holræsið.

Það tók augu hans nokkra stund að venjast myrkrinu en þegar hann tók að sjá örlítið fram fyrir sig, þakkaði hann álfsdurtinum sem hafði nauðgað móður hans. Bríar mundi ekki mikið eftir móður sinni, annað en að hún var rauðhærð. Hann hafði verið 3 ára þegar hún hengdi sig í reiðaslá í Belgingi, einu af kaupskipum goðans í Hrafnabjörgum. Sandra hafði tekið Bríar að sér. Hann vissi þó að móðir hans hafði verið forfallinn sjónarfafíkill, og fyrir vikið kaus Bríar heldur að ræna áfram ferðamenn en að selja eiturlyfið þegar honum hafði verið boðið það.

Einhvers staðar nokkru fyrir framan Bríar opnaðist lás með hvellum smelli. Síðan var dyrum hrundið upp og skær birta ruddist inn í holræsið. Bríar bar hönd fyrir sig og sá hvar skuggamynd dökkklædda mannsins hvarf inn um dyrnar. Bríar læddist áfram. Sverðaglamur, hróp og kvalaóp bergmáluðu skyndilega. Bríar hljóp af stað. Hann stökk yfir strengjagildruna skammt frá dyrunum og gætti þess að stíga á réttar flísar þegar hann var kominn inn fyrir dyrnar. Ómar, einn af lífvörðum Söndru, lá í blóði sínu á gólfinu, kviður hans hafði verið ristur upp og hann virtist vera reyna halda innyflunum inni, en þegar Bríar kom aðvífandi sá hann fljótlega að Ómar andaði ekki. Hann flýtti sér því áfram í átt að sal Söndru.

- Þú veist af hverju ég er kominn, Fjögurra-fingra Sandra, sagði sá dökkklæddi djúpri röddu.

- Já, mig grunar það, hr. Láran, svara Sandra. Hún sat í mjúkum stól hinum megin í salnum og hr. Láran fyrir framan hana. Í þann mund sem Bríar kom hlaupandi var hr. Láran að þurrka blóð af sverði sínu.

- Sverðu hollustu þína við Tágakonunginn? spurði hr. Láran og beindi blóðrefli sínum að Söndru.

Það varð allt svart fyrir augum Bríars. Hann fann blóðið í æðum sínum krauma og hann öskraði af bræði. Hann herti tak sitt á rýtingnum og tók undir sig stökk. Bríar kom aftan að hr. Láran og lagði til hans.

Hr. Láran sneri sér leiftursnöggt við og hjó með langsverðinu sínu rýting Bríars til hliðar. Bríar fann þá eitthvað ískalt stingast inn í sig, upp undir bringspalirnar. Hann leit niður og sá hvar blóðrauður klútur lá við fætur sína, svo kom hann auga á hnífinn sem hafði verið stungið í bringu sína, hvers skaft var lagt fílabeini útskornu í líki vínviðar sem hringaði sig um drekahöfuð. Blóð féll í stríðum straumi úr sárinu og Bríar fannst erfitt að anda. Hann leit upp í augu hr. Lárans. Í fyrstu virtust þau græn, eins og döggvotur fjallamosi, síðan dró úr styrk litsins og þau fölnuðu, urðu dökk og köld. Bríar missti takið á rýtingnum sínum og féll ofan í svart og endalaust myrkur.

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.