Rise of the Wicker King

Berjist við eld með eldi.

Dreki. Elddreki.

Reginn bað til Moradins að föruneytið kæmist út úr líkneskjahellinum en drekinn var greinilega búinn að skipuleggja árás sína. Logarnir léku um hellinn og kveiktu í öllu sem var brennanlegt. Reginn hélt um hamar Dornu og bað Moradin um að vernda hjálparlausu dvergana.

Eldurinn slökkti í ljósi mosans í lofti hellisins en daufir logar ýmissa smárra elda út um allan hellinn lýstu upp hetjulegan bardaga vina Regins við elddrekann. Reginn bað um mátt Moradins til þess að aðstoða vini sína en Drekinn bægði álögunum frá sér. Aftur reyndi Reginn að leggja álög á drekann en ekkert beit á þykkan skráp elddrekans. Álagaeldurinn beit ekki á eldskrápinn. Þriðja skiptið. Eldur drekans var greinilega máttugri en eldur Regins.

Á meðan börðust vinir Regins hetjulega og hröktu drekann aftur inn í hellinn sinn. Fram þustu kubbildi drekadrottingu sinni til bjargar. Reginn vissi að kubbildin stóðust ekki eld Moradins eins og drekinn og steig því fram í ljósið. Orkan sem bundin er í steininn, orkan sem skapaði steininn brenndi augu kubbildanna og greiddi leið föruneytisins að hrekja á brott elddrekann. Við það gengu þeir í aðra gildru. Á bak við víggirðingu lagði seiðkarl kubbildanna álög á hetjurnar sem eltu drekann og gerðu honum kleift að flýja. Reginn arkaði beint að girðingunni, rak hönd í gegnum bogagöt og kallaði á hreinsunareld. Kubbildin brunnu til ösku, öll nema seiðkarlinn sem stóð hærra og náði að víkja sér frá eldhafinu.

Lausir við drekaógnina stukku Varis og bardagajárnstígvél Dornu yfir víggirðinguna eins og hún væri ekki til og vógu seiðkubbinn.

Fangelsi Járnstígvélana hafði nú verið hreinsað í bæði sköpunareldi Moradins og elddrekadrottningarinnar. Förin heim yrði örugglega hættuminni.

View
Úr öskunni í eldinn
Dvergar og dreki

tumblr_o1j4b67Bqx1r3tllpo1_500.jpg

- Hverjir eru þið? spurði Dorna Ironboot. Hún var hálfnakin, aðeins í nærfötum og skítug eftir að hafa eytt nokkrum dögum í fangaklefa kubbildanna. Reginn rétti Dornu gyllta helgihamarinn sem hún tók hikandi við.

- Við komum úr Mistmoor og vorum sendir til að rannsaka hvað hefði orðið um ykkur ættmenni þín, svaraði Reginn og bætti við: – Thorbin dvelur meðal mannanna í þorpinu og er svipað farið með honum og bræðrum þínum og systrum hér í hinum klefanum.

- Thorbin lifir? spurði Dorna og virtist létt.

- Já, en með naumindum, svaraði Reginn. Þau ræddu saman um stund á meðan Brjánn og Arikhaik nýttu niðurskornu slímveruna í krukkum kubbildanna til að bræða í sundur lásanna á fangaklefunum. Dorna var fegin og þakklát því að komast aftur úr klefanum sem hún deildi með tveimur öðrum dvergum. Hún kynnti annan þeirra sem Harkon, einn af helstu bardagamönnum ættarinnar, en hinn væri leiðtogi þeirra og höfðingi, Isarn Ironboot, og ekki lék nokkur vafi á í huga hópsins frá Mistmoor að þau væru ekki á eitt sátt. Isarn var niðurlútur og þungt í skapi, þegar hópurinn tók að ræða og skipuleggja hvernig best væri að koma öllum á brott reyndi hann að telja hópinn af því að fara gegn kubbildunum, að það væri til óðs manns æði að fara gegn drekanum.

- Við óttumst ekki neitt, sagði Brjánn og reyndi að sýnast örlítið hærri.

- Það er nú hollt að óttast, svaraði Arikhaik alvarlegur á svip, því án ótta ertu fífldjarfur og óskynsamur. Slíkir menn eru fyrst og fremst hættulegir sjálfum sér.

- Nei, ég meina sko, við erum hetjur og við óttumst ekki að ráðast gegn drekanum því það er það sem hetjur gera, svaraði Brjánn og bætti við í lágum hljóðum: Ég er víst hetja!

Hópurinn hvíldi sig nokkra stund þarna og útbjó sleða sem dvergarnir komu öllum stjörfu dvergunum á. Á meðan barst bergmál umgangs og einhvers konar öskur til þeirra. Þegar allt var klárt læddist Brjánn fram og komst að því kubbildin höfðu vígbúist norður af hellinum þar sem styttan af drekanum var. Hópurinn nýtti því tækifærið til að flýta sér í gegn.

Í þann mund sem þau voru komin hálfa leið í gegnum salinn birtist Alizarinathrax, rauði drekinn sem hafði tekið sér ból í bæli kubbildanna. Haus drekans var á stærð við hest og þegar hann sá hópinn ruddist hann fram, gerði sig breiðan og öskraði ógurlega. Isarn og Dorna tóku undir sig stökk og hugsuðu um það fyrst að bjarga dvergunum. Harkon, Arikhaik, Coren og Reginn þutu fram á meðan Varis og Brjánn létu örvar fljúga að drekanum. Drekinn svaraði með því að spúa eldi yfir hópinn, eldi sem eyðilagði örvastrengi, kufla og ýmislegt annað af dóti hópsins.

Upphófst nú mikil orrusta. Hópurinn gerði sitt besta til að berja á drekanum, sem svaraði í sömu mynt. Alizarinathrax kallaði auk þess til sín kubbildi og tókst að rota bæði Arikhaik og Coren. Reginn felldi hins vegar öll kubbildin nema eitt með hjálp Moradins en galdrar hans virtust ekki bíta á drekann. Þeim tókst að hrekja drekann á brott. Æðsti kubbildinn reyndi að verjast en Harkon stökk yfir víggirðingu þeirra og hjó þann gamla niður með einu höggi.

Í bæli drekans voru miklir fjársjóðir og innar í hellakerfinu var stór hellir þar sem kubbildin höfðu safnað miklum auð, hvers kyns korntunnur, málmstangir og meira að segja tveir vagnar, ein kerra og tveir asnar. Auk þess var þar hellisgangur sem náði út úr fjallinu en Arikhaik sá fljótlega að hópurinn var hinum megin við Öræfu og því langt til Mistmoor.

View
Af draumsýnum og martröðum
Coral heimsækir Fenabar-ættina

57e236de868e59c5d17da7ae8a3d5482.jpg

Snjókorn tóku að fjúka ofan úr þungbúnum himninum yfir Skuggafjöllum. Þau teygðu sig suður undan Stórjökulsfjallgarðinum og voru tindar þeirra þaktir snæ nær allan ársins hring. Coral dró hettuslána nær sér og bölvaði í hljóði ísköldum norðangarranum sem virtist smjúga inn undir brynjuna hans. Hann hefði heldur kosið að sitja við ylinn frá eldstæðinu í smiðjunni sinni og reykja pípu í stað þess að arka norður til að finna leiðtoga Fenabar ættarinnar. Hann varpaði því öndu léttar þegar hann sá heim að Fenabar óðalinu, þar sem það stóð í hlíðum Króksfjalls.

Reykur steig upp úr háfum ættarinnar og Coral sá ekki betur en að verðir ættarinnar væru í varðturnum og við óðalshliðið. Ættin hafði búið þarna afar lengi og bar umhverfið þess glögglega merki. Skríni helguð Moradin stóðu við vegarslóðann og stóðu bautasteinar, vandlega skreyttir rúnum og táknmyndum úr sögu ættarinnar, í hlíðunum.

- Moradin veri lofaður, sagði hann lágt og greikkaði sporið. Hann hafði hálft í hvoru óttast að örlög Fenabars hefðu verið þau sömu og Ironboot ættarinnar og var þakklátur að sjá að svo var ekki. Þau Gríma höfðu kannski ekki alltaf verið sátt í gegnum tíðina en Coral óskaði ætthöfðingja Fenabar ekki ills.

- Nei, sjáið, félagar, hér er kominn ferðalangur, sagði einn varðanna í hliðinu og hallaði sér fram á stóran og mikinn bardagahamar þegar Coral kom gangandi.

- Gott ef það er ekki bróðir okkar neðan úr þorpi hýjungsfésanna, bætti annar við með háðskum tóni.

- Já, það finnst á lyktinni, svaraði sá fyrsti og hinir hlógu. Coral hugsaði þeim þegjandi þörfina en svaraði þeim engu. Hann tók hettuna ofan og losaði bakpokann af bakinu.

- Hverju eigum við að þakka að þú heimsækir okkur? Ertu búinn að selja þorpsbúum öllum nóg af skeifum? bætti vörðurinn við. Coral sneri sér að honum.

- Ertu búinn að hlægja nóg, Brámur Burkinsson? Eða eigum við að rifja upp síðustu kaupstaðaferð þína?

Í gráum augum Bráms blikaði í senn reiði og skömm. Hann greip um dökkt skegg sitt og um stund virtist hann ætla að hjóla í Coral. Augu þeirra mættust. Síðan brosti Brámur og breiddi út faðminn.

- Gamli durgur, komdu hérna, sagði hann glaðlega og dvergarnir féllust í faðma. – Hvað rekur þig hingað? Er ekki full snemma vors til að dvergar á þínum aldri leggist í fjallgöngur?

- Það er ekki af góðu einu, get ég sagt þér, gamli vinur, svaraði Coral, ég hefði heldur kosið af orna mér við eldstæðið en að þramma hingað á ykkar fund. Ég þarf að komast á fund Grímu og sem fyrst.

Brámur hóaði í ungan dverg þar sem skammt frá.

- Kirjan, farðu og sæktu Grímu. Segðu henni að sendiherrann sé kominn og beri váleg tíðindi, kallaði Brámur til þess unga, sem snerist samstundis á hæli og hljóp í gegnum opið hliðið. Coral og Brámur gengu af stað. Ytri hýsi óðalsins voru glæsileg, stór kastalaturn hvaðan sem dvergarnir sáu vítt til allra átta og nokkrir minni umhverfis hann. Þeir gengu þvert yfir kastalagarðinn, þar sem verið var að hlaða gylltum, bronsuðum og silfruðum málmstöngum í kassa og upp á vakna. Coral staldraði við og leit undrandi á Brám.

- Riddarar komu frá Ravenhold snemma veturs og fólust eftir góðmálmum. Þeir báru skilaboð frá goðanum en aðeins Gríma veit hver þau voru. Við höfum hins vegar mátt vinna nótt sem nýtan dag við að tryggja þennan mikla farm, sem á að fara að Hrafnhóli innan nokkurra daga.

Coral kinkaði kolli hugsi, af hverju ætli goðinn þurfi á slíkum fjársjóði að halda? Áður en hann náði að spyrja kom Kirjan hlaupandi.

- Hennar tign bíður sendiherrans í Roðasalnum, sagði Kirjan og hneigði sig.

- Það er þá best að drífa sig og láta hana ekki bíða, sagði Brámur og dró Coral af stað. Náma Fenabars var magnþrungin. Um leið og þeir stigu gengur niður og inn í fjallið fann Coral hvernig þyngd þess lagðist ofan á sig, umvafði og varði, og honum fannst eins og hann væri kominn heim. Eins og allt væri rétt. Hann lagði hönd á vegg og fann óhagganlegan kraft fjallsins og naut þess að finna orku þess streyma um sig. Hann dró andann djúpt og þreytan eftir fjallgönguna og ferðina frá Mistmoor hvarf á braut.

Roðasalurinn var inn af hásætisal Fenabars. Langborð stóð í salnum miðjum og við einn enda þess sátu tveir aldnir dvergar og ræddu saman í lágum hljóðum. Annar þeirra var skegglaus, en silfrað hár var fléttað vandlega og flétturnar bundnar saman með brasshringjum. Gríma var þéttvaxin og á vinstri kinn var krosslaga ör en drýsill hafði skotið hana með ör fyrir mörgum árum. Sögðu Fenabar dvergarnir oft og iðulega söguna af leiðtoga sínum, hvernig hún hafði nagað í sundur örina og hrækt oddinum framan í drýsilinn, rétt áður en hún hjó af honum höfuðið með gylltu öxinni sinni, Reginsnauti. Hinn dvergurinn var sköllóttur en ýmis tákn voru flúruð á höfuðið. Undir augunum voru einnig ýmis konar galdratákn en Coral kunni ekki skil á þeim. Hann hafði þó heyrt um sjáanda Fenabar ættarinnar, hinn goðsagnakennda Jörfa, en hann hafði aldrei hitt hann, enda var sagt að hann hefði aldrei borið himininn augum og vildi ekki hitta nokkurn dverg sem gæti borið bláma hans inn með sér, hvað sem það nú þýddi. Jörfi var með þykkt hvítt skegg og klæddur rauðum kufli með helgitákni Dumathoins. Um leið og þau urðu Corals vör réttu þau úr sér og Gríma benti Coral á að koma nær.

- Velkominn, sendiherra, sagði hún en í rödd hennar var engin hlýja.

- Yðar tign, svaraði Coral og hneigði sig lítillega, rétt nóg til að kallast kurteis en samt ekki djúpt.

- Hvaða erinda áttu hingað svo snemma sumars?

- Ég færi yður tíðindi, yðar tign, af frændum okkar, Ironboot.

Gríma leit á Jörfa en græn augu sjáandans voru sem límd á Coral.

- Af illu skal illt hafast, sagði Jörfi, rödd hans djúp og kynngimögnuð, og boðberar válegrar tíðinda sjaldan aufúsugestir. Mjög er bráður sá er hjá taðskegglingum sitt bú og fé rekur, eða viltu ekki frekar taka yður sæti hér hjá oss og uppfræð oss svo vér fáum rýnt í tíðindi yðar.

Jörfi rétti úr hrumri hönd og benti á sætið gegnt sér við borðið. Það vantaði framan á baugfingur og löngutöng. Coral kinkaði kolli og fékk sér sæti. Síðan sagði hann þeim frá því sem hafði komið fram á fundinum í Mistmoor tveimur dögum fyrr.

- Þetta eru vond tíðindi, sendiherra, sagði Gríma alvarleg á svip, ég mun senda sveit hið snarasta í námu frænda okkar. Við munum sjá til þess að Isarn og ætt hans geti snúið aftur til síns heima.

Coral kinkaði kolli en gat ekki annað en velt fyrir sér hvað Isarn ætti eftir að þurfa gjalda Grímu fyrir þá vernd.

Þegar þau höfðu rætt og útkljáð málin var Coral fengið herbergi þar sem hann gat hvílt sig. Hann átti enn eftir að heimsækja Gunlaug ættina en náma hennar var enn lengra fyrir norðan. Hann naut þess að borða góðan mat og skiptist á sögum við Brám áður en hann lét sig falla í rúmið og leyfði sér að loka augum.

Skyndilega fannst honum sem eitthvað þungt leggðist ofan á sig, hann reyndi að opna augun en gat það ekki. Í myrkrinu fann hann fyrir hreyfingu, eitthvað stórt vafðist um hann, kæfði hann, stakkst í hold hans. Ævaforn og lymskufull rödd birtist í huga hans, hrópaði og hvíslaði í senn, ærandi, skerandi, ævarandi.

- Coral’si don a kurisa’le, D’oma ni kurise’li.

Coral hrökk upp og greip strax til hamarsins síns. Hann gerði sig líklega til að berja frá sér þegar hönd var lögð á öxl hans.

- Rólegur, æðið ekki að neinu, sagði djúp rödd. Coral sneri sér að röddinni og sá glitta í Jörfa.

- Fylgdu mér, bætti hann við og hvarf út úr herberginu.

Coral flýtti sér að elta gamla dverginn, sem fór furðu hratt yfir. Hann virtist ekki þurfa neina birtu, heldur rataði í myrkrinu og Coral fann að Jörfi leiddi hann sífellt dýpra inn í fjallið. Eftir þó nokkra stund komu þeir inn í helli, þar sem dropasteinar og grýlukerti myndu eins konar tanngarð í kringum bjarta tjörn. Jörfi gekk að tjörninu og muldraði eitthvað fyrir munni sér. Hann strauk blíðlega yfir vatnið og benti síðan Coral á að fá sér sæti.

- Þér hafið séð sýnina, sagði hann alvarlegur, sýnina sem ásækir vora þjóð. Sýnina sem ærir suma bræður vor, hræðir aðra og hvíslar hræðilega hluti. Sýnin sem markar skapadægur vor.

- Hvað áttu við?

- Innsigli er rofið. Í þúsöld hefur hann sofið, beðið þess að losna úr viðjum þeim sem álagaþjóðirnar bundu hann og fyrir sakir flónsku og græðgi er hann nú laus.

- Hver?

- Tágakonungurinn. Ás frumafla. Sá sem sefur. Hinn illi prins jarðar, svaraði Jörfi og kyrjaði síðan svo djúp rödd hans virtist sækja að Coral úr öllum áttum:
Sá var fjórum fjötrum bundinn,
fastur undir áhrínisorðum
með tiginbornum fórnum fjórum
fastur undir álögum fornum.

Á meðan söng hans stóð virtist sem ímyndir og tákn drægust saman í lauginni. Vatnið fékk á sig grænkenndan blæ og Coral fannst sem eitthvað illt og ævafornt væri að horfa á sig, rétt eins og í draumnum. Hann hrökklaðist aftur og leit á Jörfa. Augu hans voru alhvít og andlitið fölt, húðin skorpin og virtist græn mygla skríða upp háls hans undan kuflinum.

- Tágakonungurinn rís! sagði Jörfi en varir hans bærðust ekki. Coral hrópaði upp og snerist á hæli.

Coral hrökk upp. Hann var enn í rúminu sem Brámur hafði útvegað honum. Coral tók föggur sínar saman í flýti og dreif sig aftur að hliðinu. Þegar hann stóð í dyrunum að kastalaturninum sneri hann sér við og horfði inn eftir ganginum inn í fjallið. Jörfi stóð þar. Augu þeirra mættust. Eitthvað við augnaráð gamla sjáandans varð til þess að Coral fannst sem martröð næturinnar hefði ekki verið draumur.

View
Á kubbilda veiðum

Arik týndi sporum kubbildana oft og það fór að verða vandræðalegt. Ferðinn sóttist ágætlega þrátt fyrir auka leitartíman. Á leiðinni var mikill tími til að hugsa:

Er Reginn bara að þessu vegna þess að þetta séu dvergar? Hvað ef þetta væri annað fólk úr þorpinu? Eftir “uppljómunina” hans virtist eins og það hafi einhver kveikt í skegginu á honum, miðað við hversu kvikur hann var og spenntur fyrir því að hlaupa af stað í forboðna heimili járnskónna.

Brjánn virðist vera fínn gæi, ég sé hann nánast ekkert þegar við erum að berjast en þrátt fyrir það virðist hann alltaf að vera týna örvar úr valnum, nema hann sé bara svaka hjálplegur og alltaf að hjálpa Varis með hans örvar. Ég hef samt smá áhyggjur af Brjáni hann virðist taka allt saman sem er ekki nelgt niður og stundum tosar hann í naglana til þess að athuga hvort þeir séu lausir. Ef hann myndi sinna heiskap jafnvel og hann tosar, skoðar og tekur hluti væri pabbi örugglega mjög sáttur að leyfa honum að gista fleirri nætur.

Ég hef smá áhyggjur af pabba, mamma er búinn að vera slöpp í þó nokkuð langan tíma og ég veit ekki hvernig henni líður… Pabbi talar alltaf um að bóndafólk sé miklu harðara af sér en liðið sem býr í bænum, enda virðist hann vera búinn til úr bárujárni og tonnataki… Þau hljóta að spjara sig þangað til að ég kem tilbaka, ég á líklegast eftir að vera í þriggja mánaða straffi, en EF við getum reddað dvergunum úr vandamálum sínum þa er það þess virði.

View
Í bæli ættbálks Brenndu handarinnar
Kubbildar á kubbilda ofan

NEW_TO_DD_Monsters_Kobold_T_140714.jpg

Brjánn læddist nær innganginum að bæli kubbildanna. Skuggar fjallanna voru teknir að lengjast og Öræfa, sem gnæfði hátt yfir dalverpinu, var baðað gylltum bjarma. Hetjurnar höfðu verið á ferðinni frá því nokkru fyrir sólarupprás og köstuðu á mæðinni eftir bardagann við kubbildin þrjú sem höfðu setið fyrir þeim í dalsmynninu. Brjánn fór hljóðlega yfir og kom auga á hvar gróft hampreipi lá ofan úr bælismunanum. Hann varð engrar hreyfingar var og ákvað að flýta sér aftur til vina sinna.

- Leiðin er greið, sagði hann, kubbildin hafa strengt reipi ofan úr bælinu þannig að það ætti ekki að vera erfitt að komast þangað upp.

Hetjurnar stóðu á fætur hver af annarri og fylgdu í humátt á eftir Brjáni. Þegar þær komu að hlíðinni undir bælismunanum var ákveðið að Varis og Arikhaik færu fyrstir upp. Varis kleif fyrstur upp og gægðist inn um munann. Enn var enga hreyfingu að sjá. Um leið og Arikhaik var kominn upp færði Varis sig inn í hellinn. Hann var ekki kominn langt þegar hann rak fótinn í eitthvað, leit niður og sá slitinn þráð. Andartaki síðar glumdi hvellur, holur og hár hljómur við, eins og barið væri í stóran málmskjöld.

- Öhm, félagar, flýtið ykkur, sagði Varis og rétti úr sér. Skömmu síðar sá hann var hátt í tugur kubbilda komu askvaðandi, með vopn á lofti, úr einum hliðarhelli skammt frá hellismunanum. Varis dró upp vopnið sitt og bjóst til atlögu. Arikhaik var þó fyrri til. Hann setti skjöldinn fyrir sig og réðst hugdjarfur fram. Hann náði að stöðva framgögnu kubbildanna og fella tvo þeirra. Varis fylgdi fordæmi hans og þegar hinar hetjurnar komu þeim til aðstoðar tókst þeim að fella öll kubbildin.

Hópurinn var rétt byrjaður að kasta mæðinni þegar Varis sá hvar innar í bælinu höfðu kubbildin slegið upp varnargarði og bjuggust til að verja bælið. Reginn dró þá Brján og Varis til sín.

- Skjótið nokkrum örvum hérna yfir varnargarðinn á meðan ég hleyp þangað, sagði dvergurinn og benti á skúmaskot skammt frá varnargarðinum.

- Hvað ertu að spá? spurði Coren.

- Skýlið mér bara, svaraði Reginn og órætt bros lék um varir hans. Brjánn og Varis drógu ör á streng og skutu nokkrum örvum yfir varnargarðinn um leið og Reginn hljóp yfir gróft hellisgólfið. Hann tók fram helgi tákn Moradins en hélt á gyllta hamrinum í hinni. Hann dró nokkrum sinnum djúpt andann en steig síðan fram úr skúmaskoti og hóf helgi táknið hátt á loft.

- Megi ljós Moradins lýsa og baða ykkur í birtu, hrópaði hann. Um leið varð brast mikil birta úr helgi tákninu, kubbildin sem stóðu hinum megin við varnargarðinn reyndu að skýla augunum en allt kom fyrir ekki. Heilög birta áss Regins brann í huga þeirra, brenndi kubbildin öll til bana.

Hetjurnar fylgdust agndofa með Regin. Þegar birtan hafði dvínað komu þær hlaupandi til hans og gerðu sig líklegar til að klifra yfir varnargarðinn. Rétt áður en þær kæmust alla leið yfir komu sex kubbildi hlaupandi. Fimm þeirra voru vasklega búin og betur vopnuð en verðirnir við innganginn en fyrir miðjum hópnum var eitt eldra kubbildi, sem var í rauðleitum kufli en undir honum grillti í ryðgaða flögubrynju.

- Farið héðan eða hljótið verra af, hótaði gamla kubbildið.

- Við förum ekki nema við vitum hvað hefur orðið um Ironboot dvergana, sagði Reginn ákveðinn.

- Dvergana? Nú, þeir eru … fóður, svaraði gamla kubbildið.

- Fóður? hváði Arikhaik.

- Já, hennar hátign nýtur þess að gæða sér á þeim.

- Hennar hátign? Hver er það? spurði Brjánn.

- Alizarinathrax er æðst hér og hún mun…

- Er hérna Alizarina eða hvað hún heitir, er það ekki þarna hálf-álfurinn sem lenti í vandræðum í haust í Mistmoor? spurði Varis.

- Nei, er hún ekki ljóti ógerinn sem býr í hæðunum hér fyrir sunnan? svaraði Brjánn, fljótur að skilja hvað Varis ætlaði sér.

- Auk þess, þú veist ekki hvernig það getur farið með meltinguna að éta dverga. Ekki viltu að drottningin þín fái illt í magann, bætti Brjánn við og átti erfitt með að halda aftur af lymskufullu glotti.

- Fá í magann?

- Já, dvergar eru tormeltir og geta valdið hræðilegum meltingartruflunum.

- Nei, svaraði gamla kubbildið og glotti grimmilega, ég hef ekki áhyggjur af því, enda er hennar tign dreki og hún mun éta ykkur. Farið nú héðan og komið aldrei aftur eða hafið verra af!

- Éttu þetta, svaraði Brjánn og dró í hendingskasti ör á streng. Hann skaut gamla kubbildið, sem flúði í ofboði undan hetjunum.

Þegar hetjunum hafði tekist að komast yfir varnargarðinn mætti þeim nýr vandi. Hellirinn skiptist í þrjár greinar. Þær völdu að fara í norður og fundu þar í hliðarhelli eins konar hof, sem hafði verið útbúið og gert til dýrðar einhverju hræðilegu goði kubbildanna. Reginn skoðaði hofið ítarlega og komst að því að hofið var til dýrðar Kurtulmak, hinum illa ás kubbilda sem leggur mikla fæð á gnomes.

Eftir að hafa rannsakað hofið héldu hetjurnar áfram í norður og komu að illa byggðri hurð. Brjánn opnaði hana en gætti ekki að sér, því um leið og hann greip í hurðina fann hann að fingurnir sukku í eitthvað ógeðsleg gums og fljótlega límdust fingur vinstri handar saman.

Á meðan Coren gerði vanmáttuga tilraun til að losa fingur Brjáns í sundur gekk Arikhaik inn í salinn handan dyranna. Þar voru um og yfir 20 kvenkyns kubbildi sem voru nakin og óttaslegin. Arikhaik reyndi að gera sig skiljanlegan og tókst að lokum að fá þær til að skilja að hann vildi þeim ekkert illt og ætlaði sér að frelsa þær. Hann fylgdi þeim út og þær voru frelsinu afar fegnar.

Hetjurnar héldu áfram dýpra inn í hellakerfið þar sem Brennda höndin hafði komið sér fyrir. Þær sáu þá hvar kubbildin höfðu reist annan varnargarð og höfðu safnast þar margir saman ásamt helstu leiðtogum sínum. Arikhaik lagði saman tvo og tvo og fékk snilldar hugmynd. Með hjálp Regins bjuggu þeir til skjöld úr hinum varnargarðinum, skjöld sem var nógu stór til að skýla þeim á meðan þeir ruddust fram. Þeir hlupu af stað og á meðan létu Brjánn, Varis og Coren örvum og kaststjörnum rigna yfir kubbildin handan við varnargarðinn. Þeim tókst að fella nokkra af andstæðingunum áður en Arikhaik og Reginn náðu að varnargarðinum. Þeir ruddust fram og tókst að brjótast í gegnum varnargarð kubbildana. Þar ruddust kubbildin fram og voru hvött áfram af leiðtogunum. Æðsti prestur þeirra, sem bar helgi tákn Kurtulmak, lagði áhrínisorð á Reginn og Arikhaik, á meðan stríðsmenn kubbildanna létu höggin dynja á þeim. Arikhaik og Reginn svöruðu fyrir sig en bölvun æðsta prestsins virtist hafa áhrif. Brjánn steig fram úr felustað sínum og skaut á elsta kubbildið. Varis kom á hlaupum á eftir vinum sínum og Coren lagði einnig sitt af mörkum og tókst að trufla æðsta prestinn nóg svo presturinn missti einbeitingu. Arikhaik og Reginn losnuðu undan bölvuninni. Um leið stökk Coren fram og réðst á æðsta prestinn en kubbildin voru hvergi nærri hætt, því einn æðsti stríðsmaður þeirra kom askvaðandi og bættist í hóp þeirra. Reginn kallaði fram mátt Moradins enn á ný og ljós dvergaássins brenndi marga þeirra. Arikhaik tók á sig stökk og réðist á besta stríðsmanninn, sem stóð nú einn eftir, þar sem elsta kubbildið hafði flúið öskrandi af hólmi. Arikhaik skiptist á nokkrum höggum en gekk fremur illa að ná góðu höggi á hann. Coren hljóp þá til og kom aftan að kubbilda stríðsmanninum.

- ARNARHNEFI, hrópaði Coren og kýldi í kubbildið. Síðan tók hann hringspark og smellhitti kubbildið í hnakkann. Stríðsmaðurinn féll niður. Það var fyrst þá sem Coren mundi að ernir hafa ekki hendur og þar af leiðir ekki hnefa.

Art_023.jpg

Hetjurnar hlupu af stað á eftir elsta kubbildinu og komu inn í öllu opnari og stærri helli, en fyrir honum miðjum var grófgerð og barnaleg stytta af dreka. Hetjurnar sáu glitta í kufl gamla kubbildisins þar sem hann hvarf norður úr hellinum. Í sömu andrá komu þrjár skaðræðisverur öskrandi inn í hellinn. Þær voru rauður á lit, líkar eðlum en með flugbeittar tennur og stóðu beingaddar upp úr hryggnum. Varis hljóp af stað og réðst fram gegn þeim, Brjánn og Coren skutu örvum og köstuðu kaststjörnum. Arikhaik og Reginn voru öllu svifaseinni. Varis náði ekki góðu höggi og verurnar voru fljótar að yfirbuga hann. Hetjurnar svöruðu þó snögglega fyrir sig og innan tíðar lágu verurnar í blóði sínu og Varis var stiginn á fætur, en hann var nokkuð særður.

Hetjurnar ákváðu að snúa aftur inn í hellakerfið í stað þess að elta gamla kubbildið enda höfðu þær heyrt enn stærri veru gera vart við sig þar. Þær skoðuðu marga hliðarhella og fundu meðal annars hirð kubbildakonungsins og tvær vistarverur þar sem um 30 kubbildi höfðu gert sig heimakomin í hvorri fyrir sig. Þá fundu þær einnig vopnageymslu kubbildana en þar var einnig viðarkista, þar sem undarlegan hlut var að finna. Í kistunni var þungur, gylltur einhvers konar steinn með fjólubláum æðum. Brjánn stakk þessum fjársjóði á sig.

Eftir nokkra leit komu hetjurnar inn í helli þar sem fjögur kubbildi gættu 16 dverga í tveimur klefum, tveir þeirra voru á fótum en hinir 14 lágu stífir, næstum eins og þeir væru dauðir. Hetjurnar yfirbuguðu kubbildin á skammri stundu. Reginn gekk að klefanum þar sem dvergarnir tveir sem voru uppistandandi og vakandi dvöldu. Þegar hann kom nær sá hann að annar dverganna var kvenkyns og virtist bera kennsl á gyllta hamarinn sem hann bar.

- Dorna Ironboot, geri ég ráð fyrir? spurði hann.

View
Á kafi í hvelfingu kubbilda

Inn í fjallið. Inn í ókannaða hella í för með mönnum, álfum og hálflingum. Reginn hefði liðið betur með hópi dverga en þessir ofanjarðarbúar voru búnir að sanna sig ágætlega hingað til. Hvernig skyldi þeim reiða af í ófáguðum, náttúrulegum, hellum?

Áður en hægt var að segja “og varlega svo” steig álfurinn í gildru sem lét alla innan heimsálfunnar vita af inngöngu okkar í hellinn. Hann er líklega ekki vanur svona aðstæðum. Reginn var það svo sem ekki heldur, er vanari skipulögðum námum. Förin inn í ókannaða hella minnti Reginn þó þægilega á þá tíma sem dverglingur, í för með vinum sínum, að leita að og kanna nýjar sprungur í námunum.

Hópur kubbilda réðst að okkur en sökum þrengsla komst Reginn lítið að þó slaghamarinn hafi fengið að hefna sín á kubbildinu sem kastaði grjóti í ennið á honum.

Neðar í hellinum lýsti ljós Moradins skært og stóðst trú eða vegtálmi kubbildanna engan vegin mátt ljóssins. Leiðin var skýr. Hópurinn kannaði ganganna og stóðst Brjánn prófið mun betur en Varis þó forvitnin virðist hafa yfirbugað hann í einhverju fikti með lím. Það var dálítið fyndið að sjá límda putta Brjáns hamast fasta hvor við annan. Reginn var ekki alveg viss um hvort Brjánn vissi af þessum kæk sem hann hafði að puttarnir voru alltaf á hreyfingu.

Fleiri kubbildi. Mikið fleiri. Arakhaik nýtti smiðskunnáttu sína til þess að breyta tálma kubbildanna í meðfærilegra ástand. Reginn og Arakhaik lögðust á eitt og ruddu tálmanum í átt að næsta kubbildavegtálma og brutu sér leið í gegnum hann. Upp hófst mikill bardagi en ljós Moradins skein bjart. Leiðtogi kubbildanna og prestur stóðu það af sér enda héldu þau sig í góðri fjarlægð. Coran sá þó um prestinn en leiðtoginn flúði. Eftirför hópsins var stöðvuð af þremur eðlum með ógnarhvassar tennur sem urðu Varis næstum að falli. Ljós Moradins vísaði honum aftur veginn til lífs og batt sár hans.

För hópsins var nú stöðvuð af urrum í stórri veru sem hópurinn taldi vera drekahljóð. Því var ákveðið að fara aftur að tálmanum og hvílast og ráða ráðum. Eftir það skoðuðum við þá hliðarhella sem við höfðum hlaupið fram hjá og fundum dvergana aftur. 14 steinrunna og 3 heilu á höldnu. Á meðal þeirra þriggja var Dorna, prestur Járnhælanna. Reginn gekk beint að henni eftir að hafa flatt höfuð kubbildavarðanna og gaf henni aftur hinn gyllta hamar Járnhælakirkjunnar.

View
Djúpt í námum Járnstígvélanna

Varis var áhugaverður förunautur í leitinni að leyniútgangi Járnstígvélanna. Ég held ekki að hann hafi kunnað að meta muninn á notkun borhaka og fleyghaka. Við gátum þó spjallað eilítið um bruggun mjaða og áhrif ýmissa viðbótarefna á bragð þeirra. Tíminn fór þó meira í að leita að vísbendingum í hljóði. Varis var að vísu alltaf að segja einhverja sögur en þær jafngiltu hljóði, ég lét bara eins og þær væru venjulega bakgrunnshljóðið sem heyrist í námum.

Leitin að leynigöngum Járnstígvélanna sóttist tiltölulega hratt enda höfðum við ferðast vítt um námurnar áður. Við fundum að lokum gang sem virtist ætlaður sem útgönguleið en þau voru því miður ókláruð. Þar áttaði ég mig á því, við vorum djúpt í ókunnum námum. Hvaða gangur var okkur ókunnur og endi hans myrkur. Hugmyndin hvarf ekki þegar við yfirgáfum námuna. Kubbildin sem við hreinsuðum voru bara endi annarra ganga, eða kannski gangnamót.

Alls staðar í kringum okkur voru ókannaðar leiðir. Myrkir gangar hoggnir til af ókunnum höndum og tólum. Gangar án burðarbita og vatnsafalls. Gangar án ljóss Moradins.

Leið mín var ljós.

View
Interlude: Hrafnsvart kvöld
Í Ravenhold

dark_lane_by_rhysgriffiths-d6v25zi.jpg

Regn dundi á þökum húsanna í Ravenhold. Skuggarnir dýpkuðu og sama hve Zyra reyndi, þá tókst henni ekki að fá yl í kroppinn. Hún hélt Rilu þétt að sér og reyndi að skýla ungabarninu fyrir vætunni. Rila leit upp til móður sinnar og Zyra brosti veiklulega, garnirnar gauluðu í maga hennar og hún vissi sem var, að ef hún legði Rilu á brjóst sitt myndi það aðeins þýða að þær myndu báðar gráta, hún af sársauka og Rila af því að fá aðeins blóð úr sárunum í kringum geirvörtur Zyru. Hún dró því gráu ullarslána enn þéttar að sér og reyndi að sjá til þess að ekki dropaði ofan af hettunni í hálsmál Rilu.

- Mamma verður að finna eitthvað að borða, sagði Zyra lágt við dóttur sína. Hún hafði þrætt götur Nýborgar, byggðarinnar sem hafði myndast fyrir utan veggi Ravenhold, og reynt að betla bæði mat og fé í allan dag, en árangurslaust. Zyra vildi ekki fara strax að kjallaradyrunum þar sem hún hafði gerst sér bæli fyrir nokkrum dögum, hún þorði ekki að fara þangað á meðan enn var von á því að íbúar hússins væru á fótum.

Hún hélt sig undir þakskeggjum húsa á meðan hún rölti stefnulaust um strætin. Öðru hvoru hvörfluðu augu hennar inn um glugga, þar sem fjölskyldur sátu við matarborð og snæddu kvöldverð við ylinn frá logandi eldi. Ekki voru margir á ferli, aðeins þeir sem ýmist áttu í engin hús að venda eða gátu hvergi leitað sér skjóls undan rigningunni eða borgarverðir.

Um leið og hún beygði fyrir horn kom hún auga á vopnaðan reiðmann. Hann var dökkur yfirlitum, ferðaslá hans var kolsvört og klárinn grár. Í slíðrum hengu tvö langsverð og í belti mannsins var pyngja úr rauðu leðri. Pyngja full af peningum. Zyra fylgdist með manninum um stund. Hesturinn fór fetið og öðru hvoru leit dökki maðurinn í kringum sig. Þegar hann kom að gatnamótum skammt frá borgarhliðunum, staldraði hann við og leit aftur fyrir sig, í átt að Zyru.

- Hey, þú, komdu hingað, kallaði hann til hennar. Zyru brá og eitt augnablik langaði helst að hlaupa á brott. Rödd hans var þurr eins og eyðimörk, köld og skipandi. Hikandi steig hún fram undan þakskeggi hússins þar sem hún stóð og um leið féll regnið þétt á hana. Rila bærði á sér og tók að snökta. Barnið virtist þó ekki hafa orku til að gráta sáran og Zyra fann hvernig hjartað seig í brjósti sínu. Hún óttaðist að Rila gæti veikst og staldraði því við eitt augnablik en færði sig síðan aftur í skjól undir þakskegginu.

Dökki maður steig af baki og leit í kringum sig. Hann losaði pyngjuna í belti sínu og dró upp silfraða mynt.

- Ég þarf bara smá leiðbeiningar, sagði hann og steig nær. Garnirnar gauluðu í maga Zyru og hún skaut augum á Rilu. Hún dró andann djúpt, breiddi slána sína yfir dóttur sína og flýtti sér út á strætið til mannsins.

- Hvað viltu, herra? spurði Zyra og teygði sig að silfur peninginum. Maðurinn færði höndina undan.

- Ég þarf að finna ákveðna ölstofu, svaraði hann. – Veistu hvar Skjaldbrotið er?

Zyra kinkaði kolli. Regnið steyptist niður á þau og Rila tók að gráta. Zyra reyndi að hugga dóttur sína og svaraði um leið:

- Já, ölstofan er hér nokkrum strætum austar, herra.

Dökki maðurinn greip snögglega um höku Zyru. Augu þeirra mættust. Brún augu dökka mannsins voru köld og blik þeirra hart, í bláum augum Zyru örvænting og bjargaleysi. Dökki maðurinn dró Zyru harkalega undir þakskeggið á ný. Hún reyndi að losa sig en hann hélt henni fastri.

- Hvað ertu eiginlega gömul? spurði dökki maðurinn eftir nokkra stund.

- 14 vetra, herra.

- Við Pelor, sagði maðurinn og andvarpaði. Hann fletti slánni hennar frá og starði um stund á Rilu. Hún hætti að gráta og fylgdist með manninum. Það dropaði úr síðu, svörtu hári hans.

- Er þetta systir þín?

Zyra hristi höfuðið og leit niður. Hún hafði hrakist að heiman síðasta haust, skömmin sem fylgdi lausaleikskróa var meira en faðir hennar gat meðhöndlað.

- Hvaðan ertu, stelpa?

- Craig’s Crossing, herra, svaraði Zyra lágt og breiddi aftur slána sína yfir Rilu.

- Faðirinn?

- Hann… sagði Zyra lágt en komst ekki lengra. Hún gat ekki hugsað til þeirrar stundar þegar ræningjarnir komu, svörtu náttarinnar sem hvíldi eins og mara á henni. Hvernig þeir höfðu brotist inn þegar hún átti að vera að gæta bræðra sinn á meðan foreldrar hennar höfðu farið til Mistmoor á sumarblótamarkaðinn. Hún mundi bara blikið í augum Zyrofs, þar sem hann hafði falið sig inni í stóra matarskápnum, á meðan illa lyktandi maðurinn hamaðist ofan á henni. Hún þorði ekki að gráta, því hún vildi ekki að hann færi að gráta og léti þannig vita af sér.

Dökkklæddi maðurinn kinkaði kolli, eins og hann skildi hana, en virtist svo hugsi um stund. Hann flautaði síðan hvellt og hesturinn, sem enn stóð á strætinu, tölti til þeirra.

- Sýndu mér hvar ég finn þessa ölstofu, sagði hann skipandi. Zyra leit upp til hans, hún vissi ekki hvort hún fengi silfruðu myntina en þorði ekki að spyrja. Hún kinkaði kolli og gekk af stað.

Eftir stutta stund komu þau að tvíreistu húsi. Ljóstýrur loguðu í gluggum og hlátrasköll ómuðu út á strætið. Dökkklæddi maðurinn steig af baki og rétti Zyru tauminn.

- Bíddu hér, sagði hann skipandi.

Zyra tók við taumnum og fylgdist með dökkklædda manninum hverfa inn um dyrnar á Skjaldbrotinu. Hún reyndi að draga hestinn nær húsunum þannig að hún gæti komist í skjól undan regninu en klárinn haggaðist ekki. Nokkru síðar kom dökkklæddi maðurinn aftur út. Hann þurrkaði af öðru sverðinu í upprúllað teppi sem var bundið fast við hnakkinn.

- Hvar er næsta gistihús? Og þá meina ég gistihús, ég ætla ekki að sofa í einhverjum hálmrúmi með lúsum og flóm skríðandi um líkama minn.

Zyra kinkaði hratt kolli og hljóp af stað.

- Ég held, herra, að þú ættir þá að gista á Steðjanum, það er hérna hinum megin við hliðin, kallaði Zyra yfir öxlina. Hún þræddi hverja götuna á fætur annarri uns Steðjinn kom í ljós. Húsið var þrílyft, steini hlaðið og litríkt skilti, með mynd af steðja, hékk fyrir ofan listilega útskornar dyr. Zyra stoppaði við dyrnar og rétti fram höndina. Hún þorði ekki að líta framan í manninn. Maðurinn steig af baki og batt hestinn við staur þar við dyrnar. Hann arkaði framhjá Zyru, opnaði dyrnar og gekk inn.

Um leið og hurðin skall aftur þyrmdi yfir Zyru. Hún hafði vonað að hann myndi kannski borga henni silfruðu myntina fyrir að vísa honum á Skjaldbrotið og hugsanlega myndi hún fá koparskilding að auki, fé sem myndi endast henni í viku í borginni.

Skyndilega var hurðinni hrundið upp og gripið í öxl hennar.

- Komdu hérna, bjáninn þinn, sagði dökkklæddi maðurinn argur. Hann nánast hélt á henni upp stiga og inn í herbergi þar sem tvær dvergakonur voru í óða önn að gera heitt bað klárt.

- Þetta er herbergið þitt, sagði dökkklæddi maðurinn og tók hettuna ofan. Andlit hans var gróft, blóðslettur á enninu og undir hægra auganu. Hann var með djúpt ör undir vinstri kjálkanum. Síðan sneri hann sér að konunum tveimur.

- Komið með mat og volga mjólk, sagði hann skipandi og bætti síðan við: Nóg af mat.

Zyra starði orðlaus á manninn, sem sneri sér undan og gekk fram á ganginn.

- Ég er hérna hinum megin, ef þig skyldi vanhaga um eitthvað, sagði hann, síðan opnaði hann dyr og hvarf inn fyrir þær.

Zyra naut þess að baða sig, borða vel og þegar hún lagðist í rúmið við hlið Rilu var hún södd í fyrsta sinn í margar vikur. Rila hjalaði við hlið hennar og Zyra sofnaði fljótt og vel.

Um morguninn vaknaði hún eins og venjulega, skömmu fyrir sólarupprás. Hún flýtti sér í föt og gerði sig líklega til að hverfa á brott áður en nokkur yrði hennar var, eins og hún gerði alltaf þegar hún svaf í bælinu sínu við kjallaradyrnar. Síðan mundi hún hvar hún var og ákvað að liggja aðeins lengur í mjúka rúminu við hlið Rilu. Þegar hún heyrði að fleiri voru komnir á fætur, kíkti hún fram. Dyrnar að herberginu gegnt hennar stóðu opnar. Hún færði sig nær og leit inn, en dökkklædda manninn var hvergi að sjá og ekki leit út fyrir að gist hefði verið í einbreiða rúminu.

Zyra tók Rilu og kom henni fyrir í pokanum á brjósti sínu. Barnið var enn hálfsofandi og leit aðeins upp á móður sína en sofnaði síðan á ný. Zyra gekk varlega niður stigann og afréð að reyna komast óséð aftur út. Hún flýtti sér yfir gólfið að útidyrunum.

- Afsakið, ungfrú, var sagt ákveðinni röddu fyrir aftan hana. Zyra greip andann á lofti. Hún sneri sér hægt við.

Fyrir aftan hana stóð þrekvaxinn dvergur, með grátt fléttað skegg. Hann var nauðasköllóttur en með volduga leðursvuntu framan á sér, svuntu sem hefði betur sæmt sér í járnsmiðju en á gistiheimili.

- Herra Láran bað mig um að færa þér þetta, sagði dvergurinn og rétti Zyru rauðu leðurpyngjuna, sem dökkklæddi maðurinn hafði verið með. Zyra tók hikandi við pyngjunni og fann að hún seig í og var þyngri en nokkur skildingapyngja sem faðir hennar hafði átt.

Zyra þakkaði fyrir sig og dreif sig út af gistiheimilinu.

Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að Zyra heyrði að þetta kvöld hafi einn af æðstu prestum Iouns verið myrtur í bakherbergi Skjaldbrotsins.

View
Vandræði Ironboot ættarinnar
Rannsóknin heldur áfram

7d8ee1ae4340ad41d8724062d499fa85.jpg

Hetjurnar stóðu um stund í undarlega klefanum og ræddu hvað þær ættu að taka til bragðs. Ljóst var að eitthvað undarlegt hafði gerst og sú staðreynd að hvergi var tangur eða tetur af dvergunum að finna var í senn óhugnanlegt og furðulegt.

- Við ættum að snúa aftur til Mistmoor og láta Rubert vita, sagði Brjánn. Hann var enn örlítið fölur eftir að hafa mætt tálsýninni.

- Ekki það að ég sé hræddur, bætti hann við og rétti úr sér.

- Ég vil bara vera viss um að við upplýsum þau í þorpinu um það sem við höfum komist að, annars…

- Hvað kubbildin sem bíða okkur fyrir utan? spurði Arikhaik.

- Það er annað hvort að við mætum þeim eða höldum neðar. Við erum á milli steins og sleggju, sagði Varis.

- Já, en…, sagði Brjánn en komst ekki lengra. Reginn leit til hans og í augnaráði hans var strangt blik.

- Það er rétt, við erum í vanda staddir. En við megum ekki láta deigann síga. Brjánn hefur rétt fyrir sér, við þurfum að snúa aftur til Mistmoor en við eigum kannski ekki roð í mörg kubbildi, sér í lagi ef dreki er í för með þeim. Hins vegar, sagði Reginn og dró augað í pung, – við dvergar höfum ekki búið í fjöllum í margar kynslóðir og aldir fram af öldum án þess að læra ýmislegt og eitt af því sem við gerum er að tryggja að um fleiri útganga sé að að velja en aðeins þá sem við höfum nú þegar fundið. Ég get alveg ímyndað mér að Ironboot ættin eigi sér leyniútgang hér einhvers staðar. Við þurfum bara að finna hann.

- Já, heldurðu að þú gætir fundið hann? spurði Arikhaik.

Reginn yppti öxlum.

- Kannski ættum við að skipta liði. Þið Varis leitið að þessum leynidyrum en við Brjánn getum læðst að innganginum sem við læstum áðan og athugað hvort kubbildin séu enn fyrir utan, stakk Arikhaik upp á.

Varð það ofan á og héldu hetjurnar aftur upp í námu Ironboot. Varis og Reginn leituðu hátt og lágt í námunni en sáu hvergi nokkurn leyniútgang. Á meðan fóru Brjánn og Arikhaik að hliðarinnganginum og lögðu þar við hlustir. Handan við hurðina blés vindur, svo söng í trjánum í kring en þegar vindinn lægði þá varð Brjánn var við að einhverjir hvísluðust á tungumáli sem hann skildi ekki. Hann benti því Arikhaik á að einhverjir væru hinum megin við dyrnar og síðan læddust þeir aftur inn í bræðslusal Ironboot ættarinnar.

Á meðan þeir biðu eftir því að Reginn og Varis sneru aftur komu þeir sér fyrir undir einum af þremur rúnum ristu steðjunum. Brjánn slakaði á en Arikhaik leit í kringum sig og skoðaði steðjann. Undir honum kom hann auga á þurran blóðblett og rauða hreisturflögu. Hann tók hana upp og gaumgæddi hana um stund, áður en hann boraði lítið gat í flöguna og hengdi hana um hálsinn.

Þegar Reginn og Varis sneru aftur sýndi hann þeim flöguna.

- Þetta er eflaust af kubbildi, sýnist mér, sagði Reginn. – En ég skil ekki hvers vegna við finnum engin verksummerki um hvað hefur orðið um dvergana. Varla hafa kubbildin yfirbugað þá? Kubbildi eru ekki jafnokar dverga.

- Talandi um kubbildi, við urðum varir við að einhver bíður handan við dyrnar á hliðarinnganginum, sagði Brjánn, þegar hann hafði fengið að skoða flöguna vel og vandlega.

- Ég legg til að við ráðumst til atlögu við þá, sagði Varis. – Við getum allt eins látið skeika að sköpuðu eins og að bíða hér inni. Í versta falli þurfum við að flýja aftur inn.

Eftir nokkrar umræður var ákveðið að fara að ráðum Varisar. Hópurinn hélt því inn að hliðarinnganginum. Þar bað Reginn til Moradins og lagði blessun yfir hetjurnar. Arikhaik opnaði síðan dyrnar. Um leið og hetjurnar stigu fram fyrir stóra grjótið sem skýldi innganginum dundu steinvölur á þeim. Kubbildi sem stóðu í hlíðinni á móti þeim höfðu orðið hetjanna vör. Reginn steig fram og kallaði fram eld Moradins, kubbildin reyndu að forða sér undan eldtungunum en aðeins helmingi þeirra tókst það. Hin brunnu til kaldra kola. Varis tók undir sig stökk og hljóp að kubbildunum með brugðið sverð. Hann felldi eitt þeirra. Brjánn skaut ör af boga og felldi eitt kubbildi til viðbóta. Arikhaik skaut einnig af boga og náði enn öðrum. Síðasta kubbildi gerði sig líklegt til að flýja á brott en Varis sá til þess að það kæmist ekki langt og hjá það í herðar niður.

Hópurinn dró líkin saman í hrúgu og brenndi þau, áður en lengra var haldið. Arikhaik fann góðan gististað þar sem hetjurnar kveiktu eld, enda mið nótt. Við dagrenningu var flestum kart en Reginn magnaði upp varðeldinn svo öllum hlýnaði skjótt áður en gengið var aftur til Mistmoor.

Þegar sólin var við það að hverfa handan við Sviptinornartind sneru hetjurnar aftur til Mistmoor. Reginn gekk á fund Corals og sagði honum frá því sem hópurinn hafði uppgötvað. og sýndi honum annála Ironboot ættarinnar. Coral varð alvarlegur á svip.

- Þetta eru ekki góð tíðindi, langt í frá, sagði hann djúpri röddu. – Þeir hafa varla fallið fyrir hendi kubbildanna, það hefur ekki meira þurft til.

- Ironboot virðast hafa fellt megininnganginn innan frá, þeir hljóta að hafa verið að verjast árás, sagði Reginn. Coral leit á hann, skugga brá yfir augu gamla stríðsmannsins.

- Eða þá þeir vildu halda einhverju fyrir innan, svaraði Coral lágt. Þeir ræddu þessi tíðindi aðeins lengur og komust að þeirri niðurstöðu að best væri að heyra í hinum dvergaættunum, Fenabars og Gunlaugs.

Á meðan heimstóttu Varis og Brjánn Rubert í hof Pelors. Rubert var þar í djúpum samræðum við ungan munk úr klaustri Iouns. Þegar Rubert sá ævintýramennina tvo sleit hann samtalinu við ungan manninn og tók á móti hetjunum.

- Jæja, hvaða fréttir hafið þið að færa mér, spurði Rubert. Varis og Brjánn sögðu honum upp og ofan af því sem hópurinn hafði uppgötvað. Rubert varð afar hugsi og spurði nokkuð út í rannsókn hetjanna en ákvað að lokum að það þyrfti að bregðast við.

- Til hvaða ráða verður gripið verður ekki ákveðið hér og nú. Ég mun boða til fundar seinna í kvöld með nokkrum vel völdum vinum og við munum þá ákveða næstu skref. Þetta eru ill tíðindi sem þið flytjið og segir mér svo hugur að ekki séu öll kurl komin til grafar enn.

Arikhaik sneri á meðan þessu stóð aftur heim til foreldra sinna. Þar var honum fagnað vel af móður hans en faðir hans var öllu ómyrkari í máli og setti út á að Arikhaik skyldi hafa yfirgefið þorpið þvert á boð sitt. Auk þess væru nú hlöðudyrnar lausar á hjörum, enda hefði nautið aftur hlaupið á þær. Það væru því fjölmörg verk sem biðu Arikhaik og enginn tími fyrir hann til að vera eitthvað að leika sér með vinum sínum.

Þegar sólin var sest hittust hetjurnar í hofi Pelors ásamt Rubert Anon, Viveros bæjarstjóra, Coral og Olaf Arneson, fóget Mistmoor. Þá var þar einnig Diam Valgi, ábóti klausturs Iouns, ásamt félaga sínum Coren Tagglebaum. Hópurinn kom saman fyrir framan altarið undir steindum gluggum kirkjunnar.

- Kæru vinir, takk fyrir að koma með svo skömmum fyrirvara. Eins og þið vitið þá birtist Thorbin Ironfoot hér í þorpshliðunum fyrir um tveimur sólarhringum. Hann var mikið særður og þrátt fyrir að okkur hafi tekist að hjúkra honum og binda vel úr sár hans þá hefur okkur ekki tekist vekja hann og mig grunar að eitthvað annað valdi því að hann sofi sem steinn en sárin, sagði Rubert. Síðan sagði hann í skömmu máli frá því sem hetjurnar höfðu uppgötvað í námunni.

Nokkuð var liðið á kvöld þegar hópurinn yfirgaf hofið. Ákveðið hafði verið að hetjurnar ásamt Olaf Arnesen myndi koma að skipulagningu varna bæjarins, ef ske kynni að hið sama myndi henda þorpið og henti ættflokkinn í námunni. Coral tók að sér að ræða við hinar dvergaættirnar og Diam Valgi bauðst til þess að fara í námu Ironboot og rannsaka klefann ítarlega. Hann bauð einnig fram aðstoð Corens og var ákveðið að hann myndi ganga til liðs við hetjurnar sem sérlegur fulltrúi klaustur Iouns.

Fór við svo búið hver til síns heima. Varis og Brjánn kepptust við að skemmta gestum Gyllta Turnsins með sögum sínum á meðan Arikhaik, Reginn og Coren kusu að eyða kvöldinu með öllu rólegri hætti.

Um nóttina dreymdi Reginn að einhvern sérkennilegur jarðarandi drægi hann að námunum. Hyrfi síðan inn í hof Moradins þar og umbreyttist í gyllta hamarinn sem Reginn hafði tekið af altarissteðjanum þar. Þegar fyrstu sólargeislarnir sleiktu Sviptinornartind var Reginn risinn á fætur, hann þakkaði Moradin fyrir dagrenninguna og bað til hans. Síðan hljóp hann út til að finna vini sína. Hann byrjaði á því að leita uppi Coren í Klaustri Iouns. Hann sannfærði Coren um að hetjurnar þyrftu að snúa aftur til Ironboot námunnar og fékk leyfi hjá Diam Valgi til að fylgja þeim. Því næst fann Reginn Varis, sem var nývaknaður og þurfti að skella morgunölunum býsna hratt upp sig, svo hratt að Harad vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið enda yfirleitt aðeins dvergar sem drykkju svo hratt að morgni til í Gyllta Turninum. Loks kom Reginn auga á Brján, sem var í þann mund sem hópurinn kom gangandi yfir brúna, að yfirgefa verslun Everts og var sá stutti ekki lítið pirraður á svip. Reginn lét umkvartanir hans sem vind um eyru þjóta og rauk inn til Everts til að kaupa kjötlæri.

Loks hélt hópurinn aftur af stað að Ironboot námunni. Á leiðinni voru reyndar ýmsar aðferðir við að fá hin ýmsu dýr til að finna Gamla Tom en allt kom fyrir ekki. Þegar í námuna var komið upphófst heilmikil smíðavinna, en Arikhaik, með hjálp þeirra hinna, tókst að laga stigann svo að auðvelt var að fara á milli hæða í námunni. Á meðan því stóð fóru Diam Valgi og munkar hans ofan í undarlega klefann og rannsökuðu hann hátt og lágt.

Hetjurnar klifruðu upp á efri hæðina og fóru aftur inn í hof Moradins. Þar fór Reginn í gegnum öll þau ritúöl sem hann kunni til að helga sakramenti og lagði hamarinn aftur á steðjann. Um leið virtist hofið leika á reiðiskjálfi og upp úr miðju helgitákni Moradins, sem hafði verið lagt með mosaík í gólfið, reis sérkennilegur jarðarandi. Reginn krafði andann svara við nokkrum spurningum á tungumáli frumaflanna. Í eyrum hinna hetjanna hljómaði tungumálið eins og þeir væri að bryðja steina sín á milli.

- Hvar eru dvergarnir? Eru þeir dánir? spurði Reginn.

- Þeir eru hvorki þessa heims né næsta, svaraði jarðarandinn.

- En hvar eru þeir?

- Þeir eru í haldi þjóna Imix, svaraði jarðarandinn.

Áður en Reginn náði að spyrja fleiri spurninga hvarf andinn aftur til þeirra vídda hvaðan hann kom. Hetjurnar sneru aftur niður í bræðslusalinn þar sem Diam Valgi og hinir munkarnir tveir biðu þeirra.

- Að hverju komust þið? spurði Arikhaik eftir að hóparnir höfðu skipst á kveðjum.

- Jú, þetta er vissulega forvitnilegur klefi. Hann er forn og hefur tengingar við Vecna, Boccob og Syril. Svo virðist vera sem einhver fórn hafi legið á stallinum, fórn sem var lögð fram fyrir löngu síðan til að binda einhverja óvætt niður með álögum. Mér sýnist að sá kynþáttur sem hafi átt þar að máli hafi verið einhvers konar samblanda af köngulóm og mannverum en ég kann ekki frekari skil á þeim. Hvað svo sem var í klefanum, þá var það bundið þeim álögum að vera hvorki háð tíma né rúmi, heldur stóð klefinn einhvern veginn utan framrás tíma og var óháður henni. Mikil verndarálög voru auk þess lögð á stallinn. Við þurfum engu að síður að komast aftur í klaustrið til að rannsaka þessa frásögn betur, sagði Diam Valgi.

Svo yfirgáfu munkarnir námuna. Hetjurnar ákváðu að fara aftur ofan í klefann og skoða hvort þær kæmust neðar í hellinn. Eftir langa stund og ýmsar æfingar uppgötvuðu þær að hellirinn virðist hafa orðið til í miklum jarðhræringum og að klefinn var hluti af einhverju stærra, því þrepin voru ekki úr sama steini og hamraveggurinn.

Eftir að hafa skeggrætt og rifist um hvað þær ættu til bragðs að taka þá ákváðu hetjurnar að reyna hafa uppi á kubbildunum. Þær töldu líklegt að kubbildin hefðu frekari upplýsingar um hvað kunni að hafa komið fyrir dvergana, enda ýmislegt sem benti til þess að kubbildin hafi farið inn í námuna eftir að dvergarnir opnuðu klefann. Arikhaik leiddi hetjurnar því aftur út og eftir nokkrar árangurslausar tilraunir tókst honum loks að rekja slóð kubbildanna frá námunni og að bæli þeirra við fjallið Öræfu, sem er kulnað eldfjall. Á leiðinni þurftu hetjurnar þó að takast á við nokkur kubbildi sem létu grjótskriðu falla á þær en með samhentu átaki felldu þær kubbildin hratt og örugglega.

View
Skorinn til

Tækifærin eru þeirra sem grafa eftir þeim. Rétt eins og að skera og slípa gimsteina þá þarf að skera og slípa til hugann.

Reginn var að glíma við einstaklega fagran kristal sem hafði verið hent til hliðar út af galla, sprungu sem náði alveg í gegnum steininn, þegar hann fékk hugljómun. Bókstaflega. Með því að sníða steininn til eftir sprungunum fékk Reginn einstaka lögun á steininn sem magnaði upp ljósið í vinnuherberginu. Í stað þess að fá ljósbrot, sem var venulega það sem var sóst eftir þegar þessi kristall var skorinn fékk Reginn geisla. Hugljómuninni fylgdi innra ljós og skilningur á sköpuninni. Reginn lagði frá sér tólin og gekk inn í klaustur Moradins.

Þetta var upphafið af ferðalagi Regins til Mistmoor. Leitin að þekkingu, hvernig heimurinn er smíðaður.

Tækifærin koma vissulega til þeirra sem grafa. Leið Regins hefur nú leitt hann í lið með fræknu fólki inn í námur frænda sinna og inn í atburði þar sem smíði margra guða skerst á.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.