Rise of the Wicker King

Interlude: Koram og Anja
Atburðir í Fernisskógi

pic-3.jpg

Rökkur seig á Fernisskóg. Eins og dökkt flauel breiddi það úr sér milli trjánna um leið og Koram læddist áfram. Hera og Brúða, tíkurnar hans, voru skammt á undan honum. Hann blístraði lágt til þeirra og benti þeim á að bíða. Í rökkrinu virtist gylltur felldur þeirra næstum rauðleitur. Tíkurnar settust og biðu eftir rekkanum. Hann hafði verið sendur inn í skóginn til að leita barns, ungrar telpu að nafni Anja sem hafði verið að leika sér við skógarmörkin skammt frá býli foreldra sinna en farið of langt. Koram dró grænan kuflinn þéttar að sér. Um leið og sólin seig neðar og skuggarnir lengdust kólnaði í skóginum og hljóðin breyttust. Söngur þrasta hljóðnaði og uglur tóku að úa.

Koram leit í kringum sig. Hann hafði aldrei áður farið svo langt inn í Fernisskóg. Hann hafði, eins og allir íbúar dalsins, heyrt þjóðsögur og frásagnir um skóginn, um fólkið sem hafði horfið og drekann sem átti að eiga sér bæli innst í skóginum. Ekki var laust við að hrollur færi um hann og Koram vissi sem var, að það var ekki vegna þess að honum var kalt. Koram kraup niður við tíkurnar, strauk yfir höfuð Heru og leit í kringum sig.

- Nú væri gott að stelpan léti finna sig, sagði hann lágt. Brúða, yngri tíkin, dillaði skottinu og tungan lafði úr munni hennar. Hera virtist þekkja húsbónda sinn betur og hélt eyrum sperrtum. Þau Koram höfðu margsinnis þurft að takast á við drýsla og ýmsar kynjaverur og höfðu fylgst að býsna lengi.

- Ansi gott, ef satt skal segja. Hvað var stelpuskottið að álpast þetta langt? spurði Koram sjálfan sig og rétti úr sér. Hann losaði bogann af bakinu og renndi hönd eftir viðnum. Hann hafði smíðað bogann sjálfur, lagt rækt við að finna rétt tré þannig að úr varð hinn besti stafbogi og hafði Koram skorið rúnirnar sínar í handfangið. Koram fletti leðurskjólunni ofan af örvamælinum og benti síðan tíkunum á að halda áfram að rekja slóð Önju.

Tunglið var hátt á himin komið þegar Koram kom auga á hvar Anja lá á grænni mosabreiðu undir stórum, sverum trjástjofni. Um leið og Anja sá tíkurnar spratt hún á fætur og greip til trjágreinar sér til varnar.

- Róleg, Anja, sagði Koram blíðlega og leit snögglega til Heru. Tíkin settist samstundis og Brúða fylgdi fljótlega í kjölfarið.

- Hver er þarna? Ertu skógarandi? spurði Anja óttaslegin.

- Nei, ég heiti Koram. Foreldrar þínir sendu mig.

Anja lét greinina síga. Koram færði sig hægt nær stúlkunni, sem náði honum varla í mitti. Hann tók vatnsbelginn sinn fram og rétti henni. Anja starði um stund á belginn, í bláum augun hennar var tortryggniblik en svo virtist hún gera upp hug sinn og greip belginn. Hún drakk græðgislega úr honum nokkra stund, svo vatn sullaðist á hvítu léreftsskyrtuna hennar.

Á meðan Anja drakk dró Koram fram taum og festi annars vegar í belti sitt og hins vegar í tíkurnar. Nú þegar hann hafði fundið stúlkuna þurfti hann að komast henni heim heilli og hólpni. Hann þorði ekki að kveikja á kyndli og þurfti því að treysta á að tíkurnar myndu leiða þau aftur sömu leið tilbaka.

- Anja, ég ætla að koma þér aftur heim, sagði Koram og útskýrði fyrir Önju að best væri að hann myndi bera hana á bakinu. Það væri mikilvægt að þau færu hratt yfir því skógurinn væri hættulegur staður, sérstaklega á dimmum nóttum sem þessum. Stelpan byrjaði að kjökra en Koram strauk yfir andlit hennar.

- Hafðu ekki áhyggjur, ég skal vernda þig. Við Hera höfum alltaf komist heim, bætti Koram við og benti á eldri tíkina. Síðan tók hann upp Önju á bak sitt og flautaði stuttan lagstúf. Hera tók á sig stökk og Brúða fylgdi í kjölfarið. Um leið strekktist á taumnum og Koram gekk af stað.

Þegar þau höfðu gengið drykklanga stund var Anja sofnuð. Þá kom Koram auga á undarlega birtu milli trjánna. Hann kippti tvisvar í tauminn. Tíkurnar lögðust samstundis niður og litu í kringum sig. Koram lagði Önju varlega niður og losaði tauminn úr belti sínu. Koram gaf Heru og Brúði til kynna með handahreyfingum að þær ættu að bíða og gæta Önju. Hera færði sig yfir stúlkunnar og lagðist við hlið hennar. Brúða kom sér fyrir upp á stein þar sem hún sá yfir slóðann.

Koram skreið hægt nær birtunni. Öðru hvoru flökktu skugga og eftir því sem hann kom nær heyrði hann sérkennilegar raddir. Hann lagðist á magann og fikraði sig nær.

Í stóru rjóðri voru átta verur í svörtum kuflum. Í miðju rjóðrinu var lítil tjörn og virtist birtan berast þaðan. Blá og græn flökti hún á trjástofnunum í kringum rjóðrið.

- Innsiglin eru rofin, Horeamax, drottningunni hefur verið rænt, sagði ein veranna. Hún dró fram sprota undan kuflinum og beindi að tjörninni. Um leið dró úr birtunni en mynd birtist í tjörninni. Koram sá ekki hvers kyns myndin var.

- Það er rétt, Sjáandi. Innsiglin eru rofin. Feigðarmáni rís yfir okkur, svaraði önnur vera.

- Enginn fær sloppið úr örlagavefnum. Við vorum kjánar að halda að við gætum…, sagði þriðja vera.

- Haf gætur á tungu þinni, Roarala, hvæsti sú sem hafði verið ávörpuð sem Horeamax. Hún starði um stund í tjörnina en eyddi síðan sýninni með því að sveifla hönd sinni einu sinni. Um leið féll myrkur yfir rjóðrið.

- Enginn fær flúið úr örlagavefnum. Ef drottningin er ekki lengur þar sem henni ber að vera, þá rís konungurinn brátt, sagði Horeamax.

- Tágakonungurinn, Tágakonungurinn, hvísluðu hinar verurnar.

Korem pírði augun og reyndi að sjá betur. Í daufu tunglsljósinu virtist honum sem verurnar hefði kastað af sér kuflunum og spruttu fram langir fætur á hverri þeirra. Þær risu upp á fæturna og líktust nú frekar stórum köngulóm en mannverum.

- Dýpstu pyttir Heljar, muldraði Korem.

Um leið leit en veran í átt að honum. Korem fann bljóð í æðum sínum frjósa. Hann skreið í snarhasti aftar. Hann stóð á fætur þegar hann hélt hann væri kominn úr augsýn og hljóp þangað sem hann hafði skilið við Önju og tíkurnar.

Þegar hann kom askvaðandi litu tíkurnar upp. Hann greip stúlkuna og tók til við að festa tauminn við beltið. Þá heyrði hann brak í sölnuðum laufum fyrir aftan sig. Eitt augnablik mættust augu hans og Heru. Hann þurfti ekki meira, hún vissi hvað henni bar að gera. Korem fann hjarta sitt síga í brjósti sér og augun fyllast tárum. Hann greip þéttu taki um Önju og hljóp af stað. Hann blístraði hvellt og Brúða hljóp af stað með honum.

Fyrir aftan sig heyrði hann Heru urra og gelta. Síðan kvað við þung druna og allt varð hljótt. Korem þorði ekki að líta aftur fyrir sig. Hann hélt dauðataki í Önju og hljóp sem fætur toguðu áfram í myrkrinu.

View
Dvergurinn við þorpshliðin
Ironboot ættin í vanda

Sólin baðaði Sviptinornartind bleikum bjarma um leið og skuggar húsanna í Mistmoor lengdust. Þorpsbúar unnu síðustu handtök dagsins áður en tími væri kominn til að snæða kvöldverð. Hátt á himni sveimuðu fjallaernir og áin, sem fyrir ekki svo löngu braut af sér klakabrynju vetrarins, liðaðist grænblá undir steinbrúna sem markar syðri hluta virkisveggjanna í kringum þorpið. Arikhaik gekk frá verkfærunum eftir langan vinnudag og teygði úr sér, þreyttur en sáttur við dagsverkið. Faðir hans virtist búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta sífellt fundið ný og ný verkefni og Arik hafði því sjaldan tíma til að æfa sig að sveifla sverðinu sínu.

Reginn Vonarskjöldur sat við bryggjurnar með teikniblokkina sína, sem endra nær, og dáðist að handverki og byggingarstíl brúarinnar. Hann hafði komið til Mistmoor fyrr í vetur, einmitt í þeim tilgangi að fræðast um mennina og byggingarhætti þeirra. Hann var djúpt sokkinn í teikningar sínar og tók því ekki eftir tveimur ferðalöngum sem komu hvor í sínu lagi yfir brúna. Annar þeirra, álfur með lútu á baki, leit í kringum sig þegar hann var kominn inn fyrir innra hlið en virtist síðan sjá hvar Gold Tower gistiheimilið stóð og hélt þangað. Hinn, halfling að nafni Brjánn Loðinbarki, setti hendur á mjöðm, brosti og virtist gefa sér nægan tíma til að njóta þeirrar staðreyndar að vera loksins kominn til Mistmoor.

Kvöldkyrrðin var skyndilega rofin. Vörður við ytra hliðið hljóp sem fætur toguðu yfir brúna og hrópaði þar og kallaði eftir hjálp. Ekki leið á löngu þar til þorpsbúa tók að þyrpast að. Rúbert Anon tróð sér í gegnum þvöguna. Á brúni lá Thorbin Ironboot, einn af leiðtogum Ironboot ættarinnar, sem átti námu í döllunum suður af Mistmoor. Thorbin gegndi hlutverki bókhaldara og skrásetjara sögu ættarinnar en var afar illa særður. Rubert reyndi að lækna hann en það kom til lítils, Reginn bauð einnig fram krafta sína og ekki leið á löngu þar sem aldna dvergnum hafði verið komið fyrir í Hofi Pelors þar sem hann hlaut þá bestu læknishjálp sem þorpið hafði upp á að bjóða.

Um morguninn var ástand hans orðið stöðugt en ljóst að Thorbin þurfti meiri hjálp en finna mátti í þorpinu. Rubert lét gera boð eftir nokkrum vel völdum aðilum og bað þá um að finna sig í hofinu í morgunsárið. Þegar allir voru saman komnir tjáði hann þeim að Thorbin væri enn í hættu en að hann óttaðist einnig um ættmenni hans, aðra meðlimi Ironboot ættarinnar. Í þann mund gekk Viveros inn í hofið og slóst í hópinn.

- Kæru vinir, sagði hún, við þurfum á hjálp ykkar að halda. Við Rubert viljum gjarna koma þeim boðum til Ironboot ættarinnar um að Thorbin sé hér, en við óttumst að sú einfalda staðreynd sé til tákns um að eitthvað mun verra hafi átt sér stað. Viljið þið vera svo vænir að fara að námu Ironboot ættarinnar og kanna hvað kunni að hafa gerst þar? Við yrðum ykkur afar þakklát, enda Ironboot ávallt verið vinir Mistmoor.

- Já, það er mér eiður sær og skylda, svaraði Reginn og steig fram fyrir skjöldu. Brjánn kinkaði hratt kolli.

- Ekki spurning. Frænka mín var ekki vön að láta tækifæri til að lenda í ævintýrum og vera hetja sér í greipum renna og ég get ekki verið minni maður, sagði hann.

Eftir stuttar samræður og áframhaldandi bollaleggingar ákvað hópurinn að hittast eftir um klukkustund við brúna og leggja af stað. Tímann nýttu vinirnir til að búa sig undir ferðalagið og safna upplýsingum. ironboot.png

Loks var haldið af stað. Arikhaik leiddi förina og sóttist hún afar vel. Sólin skein og þó að það væri kannski ekki mjög hlýtt, enda enn vor, þá urðu þeir fljótt sveittir og móðir, enda gangan framan af degi að mestu upp í mót. Skömmu eftir hádegi varð Ol’Tom á vegi þeirra. Hann kastaði kveðju á hetjurnar og óskaði eftir aðstoð þeirra.

- Þannig er mál með vöxtum, að hún María mín hefur týnt húninum sínum. Og það væri afar gott ef þið gætuð séð af nokkrum mínútum og litið til eftir honum hér fyrir neðan slóða.

- Er þetta bjarnarhúnn eða dyrahúnn? spurði Brjánn.

Tom starði um stund á Brján, eins og hann væri að velta því fyrir sér hvort hann væri heimskur eða að reyna að vera fyndinn. Áður en hann náði að svara Brjáni höfðu hinar hetjurnar samþykkt að veita Tom lið.

Ekki tók langan tíma að finna húninn og Arikhaik tókst að lokka hann til sín með hunangskökum. Nokkrir gráúlfar komu inn í rjóðrið á sama tíma en virtust verða afhuga því að gera húninn að næsta kvöldverði þegar hetjurnar ruddust fram með brambolti og látum. Hetjurnar komu því húninum til Tom sem þakkaði þeim innilega fyrir.

345546-sepik.jpg

Þegar sólin var að setjast komu hetjurnar í dalverpið þar sem námu Ironboot var að finna. Þær sáu fljótlega að þar var ekki allt með felldu, því aðalinngangurinn hafði verið eyðilagður. Reginn vissi sem var að það væri fleiri inngangar að námunni og tóku hetjurnar nú til við að leita. Loks komu þær auga á hliðarinngang í litlu gljúfri þar austan við aðalinnganginn. Þær dyr voru læstar en Brjánn sagði að hann hefði enn ekki rekist á dyr sem honum hefði ekki tekist að opna. Hann dró því fram þjófalyklana sína og ekki leið á löngu þar til að honum hafði tekist að dírka upp lásinn. Reyndar hafði honum yfirsést lítil gildra, sem stakk nál í fingur hans svo að honum sundlaði og var honum flökurt næsta klukkutímann eða svo.

Náman var hljóð sem gröf, eldurinn í eldstæðunum kulnaður og hvorki hamarshögg né eðlilegur kliður frá námugreftri bergmáluðu í veggjum námunnar. Hetjurnar fóru víða og skoðuðu sig um en fundu hvergi nokkurn dverg. Í bókasafni ættarinnar fundu hetjurnar annála hennar þar sem Thorbin hafði skrifað um það sem hafði gerst undanfarna daga. handout1.png

Skyndilega urðu hetjurnar varar við reykjarlykt. Þær þustu aftur að tréstiga, sem tengdi efri og neðri hæð og sáu þá að koboldar höfðu kveikt í honum, undir öruggri handleiðslu kobolda sem var með litríka fjaðrakórónu. Hetjunum tókst við illan leik að komast niður og opnuðu reykháfa námunnar, til að hleypa reyknum út. Koboldarnir létu sig hverfa aftur út, eflaust í von um að hetjurnar myndu hlaupa út í fangið á þeim, illa særðar, hóstandi og almennt illa á sig komnar. Brjánn læddist að dyrunum og sá þar koboldan með kórónuna í samræðum við annan kobolda, en sá var í rauðri leðurbrynju og með augnlepp. Eftir samráð við hópinn var ákveðið að ráðast til atlögu við koboltana sem voru, þegar á hólminn var komið, horfnir á braut. Öskur í einhverri stórri skepnu varð til þess að hetjurnar hörfuðu aftur inn í námurnar og fleyguðu innganginn á eftir sér.

Þá rannsökuðu hetjurnar námugöngin sjálf í von um að finna undarlega herbergið sem Thorbin minntist á í annálnum. Eftir að hafa yfirbugað ungan hræskriðil fundu hetjurnar herbergið. Þær skoðuðu það vandlega og sáu að þar var ýmislegt forvitnilegt að finna. Það virðist hafa verið notað sem eins konar geymsla eða jafnvel grafhvelfing. Þar voru fórnir á gólfinu í leirkrukkum og leðurskjóðum, veggir skreyttir með myndum af köngulóm og mannverum, trúartákn Boccob, Vecna og Syrul, nokkuð sem vakti með Regin óhug.

Í þann mund sem hetjurnar voru að yfirgefa herbergið birtist flökktandi mynd við dyrnar, af mannveru í svörtum kufli, undir hettu hennar mátti grilla í átta svört augu með rauðleitum bjarma. Hún benti á hetjurnar og sagði:

- Drottningin hefur verið tekin. Vei þeim er brotið hafa innsiglin. Vei þeim er rjúfa hvíld hennar hátignar. Vei þér!

Síðan virtist fjólublár bjarmi skjótast úr löngum fingri verunnar en bjarminn hvarf rétt áður en hann skall á hetjunum, sem litu undrandi hver á aðra.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.