Rise of the Wicker King

Djúpt í námum Járnstígvélanna

Varis var áhugaverður förunautur í leitinni að leyniútgangi Járnstígvélanna. Ég held ekki að hann hafi kunnað að meta muninn á notkun borhaka og fleyghaka. Við gátum þó spjallað eilítið um bruggun mjaða og áhrif ýmissa viðbótarefna á bragð þeirra. Tíminn fór þó meira í að leita að vísbendingum í hljóði. Varis var að vísu alltaf að segja einhverja sögur en þær jafngiltu hljóði, ég lét bara eins og þær væru venjulega bakgrunnshljóðið sem heyrist í námum.

Leitin að leynigöngum Járnstígvélanna sóttist tiltölulega hratt enda höfðum við ferðast vítt um námurnar áður. Við fundum að lokum gang sem virtist ætlaður sem útgönguleið en þau voru því miður ókláruð. Þar áttaði ég mig á því, við vorum djúpt í ókunnum námum. Hvaða gangur var okkur ókunnur og endi hans myrkur. Hugmyndin hvarf ekki þegar við yfirgáfum námuna. Kubbildin sem við hreinsuðum voru bara endi annarra ganga, eða kannski gangnamót.

Alls staðar í kringum okkur voru ókannaðar leiðir. Myrkir gangar hoggnir til af ókunnum höndum og tólum. Gangar án burðarbita og vatnsafalls. Gangar án ljóss Moradins.

Leið mín var ljós.

View
Interlude: Hrafnsvart kvöld
Í Ravenhold

dark_lane_by_rhysgriffiths-d6v25zi.jpg

Regn dundi á þökum húsanna í Ravenhold. Skuggarnir dýpkuðu og sama hve Zyra reyndi, þá tókst henni ekki að fá yl í kroppinn. Hún hélt Rilu þétt að sér og reyndi að skýla ungabarninu fyrir vætunni. Rila leit upp til móður sinnar og Zyra brosti veiklulega, garnirnar gauluðu í maga hennar og hún vissi sem var, að ef hún legði Rilu á brjóst sitt myndi það aðeins þýða að þær myndu báðar gráta, hún af sársauka og Rila af því að fá aðeins blóð úr sárunum í kringum geirvörtur Zyru. Hún dró því gráu ullarslána enn þéttar að sér og reyndi að sjá til þess að ekki dropaði ofan af hettunni í hálsmál Rilu.

- Mamma verður að finna eitthvað að borða, sagði Zyra lágt við dóttur sína. Hún hafði þrætt götur Nýborgar, byggðarinnar sem hafði myndast fyrir utan veggi Ravenhold, og reynt að betla bæði mat og fé í allan dag, en árangurslaust. Zyra vildi ekki fara strax að kjallaradyrunum þar sem hún hafði gerst sér bæli fyrir nokkrum dögum, hún þorði ekki að fara þangað á meðan enn var von á því að íbúar hússins væru á fótum.

Hún hélt sig undir þakskeggjum húsa á meðan hún rölti stefnulaust um strætin. Öðru hvoru hvörfluðu augu hennar inn um glugga, þar sem fjölskyldur sátu við matarborð og snæddu kvöldverð við ylinn frá logandi eldi. Ekki voru margir á ferli, aðeins þeir sem ýmist áttu í engin hús að venda eða gátu hvergi leitað sér skjóls undan rigningunni eða borgarverðir.

Um leið og hún beygði fyrir horn kom hún auga á vopnaðan reiðmann. Hann var dökkur yfirlitum, ferðaslá hans var kolsvört og klárinn grár. Í slíðrum hengu tvö langsverð og í belti mannsins var pyngja úr rauðu leðri. Pyngja full af peningum. Zyra fylgdist með manninum um stund. Hesturinn fór fetið og öðru hvoru leit dökki maðurinn í kringum sig. Þegar hann kom að gatnamótum skammt frá borgarhliðunum, staldraði hann við og leit aftur fyrir sig, í átt að Zyru.

- Hey, þú, komdu hingað, kallaði hann til hennar. Zyru brá og eitt augnablik langaði helst að hlaupa á brott. Rödd hans var þurr eins og eyðimörk, köld og skipandi. Hikandi steig hún fram undan þakskeggi hússins þar sem hún stóð og um leið féll regnið þétt á hana. Rila bærði á sér og tók að snökta. Barnið virtist þó ekki hafa orku til að gráta sáran og Zyra fann hvernig hjartað seig í brjósti sínu. Hún óttaðist að Rila gæti veikst og staldraði því við eitt augnablik en færði sig síðan aftur í skjól undir þakskegginu.

Dökki maður steig af baki og leit í kringum sig. Hann losaði pyngjuna í belti sínu og dró upp silfraða mynt.

- Ég þarf bara smá leiðbeiningar, sagði hann og steig nær. Garnirnar gauluðu í maga Zyru og hún skaut augum á Rilu. Hún dró andann djúpt, breiddi slána sína yfir dóttur sína og flýtti sér út á strætið til mannsins.

- Hvað viltu, herra? spurði Zyra og teygði sig að silfur peninginum. Maðurinn færði höndina undan.

- Ég þarf að finna ákveðna ölstofu, svaraði hann. – Veistu hvar Skjaldbrotið er?

Zyra kinkaði kolli. Regnið steyptist niður á þau og Rila tók að gráta. Zyra reyndi að hugga dóttur sína og svaraði um leið:

- Já, ölstofan er hér nokkrum strætum austar, herra.

Dökki maðurinn greip snögglega um höku Zyru. Augu þeirra mættust. Brún augu dökka mannsins voru köld og blik þeirra hart, í bláum augum Zyru örvænting og bjargaleysi. Dökki maðurinn dró Zyru harkalega undir þakskeggið á ný. Hún reyndi að losa sig en hann hélt henni fastri.

- Hvað ertu eiginlega gömul? spurði dökki maðurinn eftir nokkra stund.

- 14 vetra, herra.

- Við Pelor, sagði maðurinn og andvarpaði. Hann fletti slánni hennar frá og starði um stund á Rilu. Hún hætti að gráta og fylgdist með manninum. Það dropaði úr síðu, svörtu hári hans.

- Er þetta systir þín?

Zyra hristi höfuðið og leit niður. Hún hafði hrakist að heiman síðasta haust, skömmin sem fylgdi lausaleikskróa var meira en faðir hennar gat meðhöndlað.

- Hvaðan ertu, stelpa?

- Craig’s Crossing, herra, svaraði Zyra lágt og breiddi aftur slána sína yfir Rilu.

- Faðirinn?

- Hann… sagði Zyra lágt en komst ekki lengra. Hún gat ekki hugsað til þeirrar stundar þegar ræningjarnir komu, svörtu náttarinnar sem hvíldi eins og mara á henni. Hvernig þeir höfðu brotist inn þegar hún átti að vera að gæta bræðra sinn á meðan foreldrar hennar höfðu farið til Mistmoor á sumarblótamarkaðinn. Hún mundi bara blikið í augum Zyrofs, þar sem hann hafði falið sig inni í stóra matarskápnum, á meðan illa lyktandi maðurinn hamaðist ofan á henni. Hún þorði ekki að gráta, því hún vildi ekki að hann færi að gráta og léti þannig vita af sér.

Dökkklæddi maðurinn kinkaði kolli, eins og hann skildi hana, en virtist svo hugsi um stund. Hann flautaði síðan hvellt og hesturinn, sem enn stóð á strætinu, tölti til þeirra.

- Sýndu mér hvar ég finn þessa ölstofu, sagði hann skipandi. Zyra leit upp til hans, hún vissi ekki hvort hún fengi silfruðu myntina en þorði ekki að spyrja. Hún kinkaði kolli og gekk af stað.

Eftir stutta stund komu þau að tvíreistu húsi. Ljóstýrur loguðu í gluggum og hlátrasköll ómuðu út á strætið. Dökkklæddi maðurinn steig af baki og rétti Zyru tauminn.

- Bíddu hér, sagði hann skipandi.

Zyra tók við taumnum og fylgdist með dökkklædda manninum hverfa inn um dyrnar á Skjaldbrotinu. Hún reyndi að draga hestinn nær húsunum þannig að hún gæti komist í skjól undan regninu en klárinn haggaðist ekki. Nokkru síðar kom dökkklæddi maðurinn aftur út. Hann þurrkaði af öðru sverðinu í upprúllað teppi sem var bundið fast við hnakkinn.

- Hvar er næsta gistihús? Og þá meina ég gistihús, ég ætla ekki að sofa í einhverjum hálmrúmi með lúsum og flóm skríðandi um líkama minn.

Zyra kinkaði hratt kolli og hljóp af stað.

- Ég held, herra, að þú ættir þá að gista á Steðjanum, það er hérna hinum megin við hliðin, kallaði Zyra yfir öxlina. Hún þræddi hverja götuna á fætur annarri uns Steðjinn kom í ljós. Húsið var þrílyft, steini hlaðið og litríkt skilti, með mynd af steðja, hékk fyrir ofan listilega útskornar dyr. Zyra stoppaði við dyrnar og rétti fram höndina. Hún þorði ekki að líta framan í manninn. Maðurinn steig af baki og batt hestinn við staur þar við dyrnar. Hann arkaði framhjá Zyru, opnaði dyrnar og gekk inn.

Um leið og hurðin skall aftur þyrmdi yfir Zyru. Hún hafði vonað að hann myndi kannski borga henni silfruðu myntina fyrir að vísa honum á Skjaldbrotið og hugsanlega myndi hún fá koparskilding að auki, fé sem myndi endast henni í viku í borginni.

Skyndilega var hurðinni hrundið upp og gripið í öxl hennar.

- Komdu hérna, bjáninn þinn, sagði dökkklæddi maðurinn argur. Hann nánast hélt á henni upp stiga og inn í herbergi þar sem tvær dvergakonur voru í óða önn að gera heitt bað klárt.

- Þetta er herbergið þitt, sagði dökkklæddi maðurinn og tók hettuna ofan. Andlit hans var gróft, blóðslettur á enninu og undir hægra auganu. Hann var með djúpt ör undir vinstri kjálkanum. Síðan sneri hann sér að konunum tveimur.

- Komið með mat og volga mjólk, sagði hann skipandi og bætti síðan við: Nóg af mat.

Zyra starði orðlaus á manninn, sem sneri sér undan og gekk fram á ganginn.

- Ég er hérna hinum megin, ef þig skyldi vanhaga um eitthvað, sagði hann, síðan opnaði hann dyr og hvarf inn fyrir þær.

Zyra naut þess að baða sig, borða vel og þegar hún lagðist í rúmið við hlið Rilu var hún södd í fyrsta sinn í margar vikur. Rila hjalaði við hlið hennar og Zyra sofnaði fljótt og vel.

Um morguninn vaknaði hún eins og venjulega, skömmu fyrir sólarupprás. Hún flýtti sér í föt og gerði sig líklega til að hverfa á brott áður en nokkur yrði hennar var, eins og hún gerði alltaf þegar hún svaf í bælinu sínu við kjallaradyrnar. Síðan mundi hún hvar hún var og ákvað að liggja aðeins lengur í mjúka rúminu við hlið Rilu. Þegar hún heyrði að fleiri voru komnir á fætur, kíkti hún fram. Dyrnar að herberginu gegnt hennar stóðu opnar. Hún færði sig nær og leit inn, en dökkklædda manninn var hvergi að sjá og ekki leit út fyrir að gist hefði verið í einbreiða rúminu.

Zyra tók Rilu og kom henni fyrir í pokanum á brjósti sínu. Barnið var enn hálfsofandi og leit aðeins upp á móður sína en sofnaði síðan á ný. Zyra gekk varlega niður stigann og afréð að reyna komast óséð aftur út. Hún flýtti sér yfir gólfið að útidyrunum.

- Afsakið, ungfrú, var sagt ákveðinni röddu fyrir aftan hana. Zyra greip andann á lofti. Hún sneri sér hægt við.

Fyrir aftan hana stóð þrekvaxinn dvergur, með grátt fléttað skegg. Hann var nauðasköllóttur en með volduga leðursvuntu framan á sér, svuntu sem hefði betur sæmt sér í járnsmiðju en á gistiheimili.

- Herra Láran bað mig um að færa þér þetta, sagði dvergurinn og rétti Zyru rauðu leðurpyngjuna, sem dökkklæddi maðurinn hafði verið með. Zyra tók hikandi við pyngjunni og fann að hún seig í og var þyngri en nokkur skildingapyngja sem faðir hennar hafði átt.

Zyra þakkaði fyrir sig og dreif sig út af gistiheimilinu.

Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að Zyra heyrði að þetta kvöld hafi einn af æðstu prestum Iouns verið myrtur í bakherbergi Skjaldbrotsins.

View
Vandræði Ironboot ættarinnar
Rannsóknin heldur áfram

7d8ee1ae4340ad41d8724062d499fa85.jpg

Hetjurnar stóðu um stund í undarlega klefanum og ræddu hvað þær ættu að taka til bragðs. Ljóst var að eitthvað undarlegt hafði gerst og sú staðreynd að hvergi var tangur eða tetur af dvergunum að finna var í senn óhugnanlegt og furðulegt.

- Við ættum að snúa aftur til Mistmoor og láta Rubert vita, sagði Brjánn. Hann var enn örlítið fölur eftir að hafa mætt tálsýninni.

- Ekki það að ég sé hræddur, bætti hann við og rétti úr sér.

- Ég vil bara vera viss um að við upplýsum þau í þorpinu um það sem við höfum komist að, annars…

- Hvað kubbildin sem bíða okkur fyrir utan? spurði Arikhaik.

- Það er annað hvort að við mætum þeim eða höldum neðar. Við erum á milli steins og sleggju, sagði Varis.

- Já, en…, sagði Brjánn en komst ekki lengra. Reginn leit til hans og í augnaráði hans var strangt blik.

- Það er rétt, við erum í vanda staddir. En við megum ekki láta deigann síga. Brjánn hefur rétt fyrir sér, við þurfum að snúa aftur til Mistmoor en við eigum kannski ekki roð í mörg kubbildi, sér í lagi ef dreki er í för með þeim. Hins vegar, sagði Reginn og dró augað í pung, – við dvergar höfum ekki búið í fjöllum í margar kynslóðir og aldir fram af öldum án þess að læra ýmislegt og eitt af því sem við gerum er að tryggja að um fleiri útganga sé að að velja en aðeins þá sem við höfum nú þegar fundið. Ég get alveg ímyndað mér að Ironboot ættin eigi sér leyniútgang hér einhvers staðar. Við þurfum bara að finna hann.

- Já, heldurðu að þú gætir fundið hann? spurði Arikhaik.

Reginn yppti öxlum.

- Kannski ættum við að skipta liði. Þið Varis leitið að þessum leynidyrum en við Brjánn getum læðst að innganginum sem við læstum áðan og athugað hvort kubbildin séu enn fyrir utan, stakk Arikhaik upp á.

Varð það ofan á og héldu hetjurnar aftur upp í námu Ironboot. Varis og Reginn leituðu hátt og lágt í námunni en sáu hvergi nokkurn leyniútgang. Á meðan fóru Brjánn og Arikhaik að hliðarinnganginum og lögðu þar við hlustir. Handan við hurðina blés vindur, svo söng í trjánum í kring en þegar vindinn lægði þá varð Brjánn var við að einhverjir hvísluðust á tungumáli sem hann skildi ekki. Hann benti því Arikhaik á að einhverjir væru hinum megin við dyrnar og síðan læddust þeir aftur inn í bræðslusal Ironboot ættarinnar.

Á meðan þeir biðu eftir því að Reginn og Varis sneru aftur komu þeir sér fyrir undir einum af þremur rúnum ristu steðjunum. Brjánn slakaði á en Arikhaik leit í kringum sig og skoðaði steðjann. Undir honum kom hann auga á þurran blóðblett og rauða hreisturflögu. Hann tók hana upp og gaumgæddi hana um stund, áður en hann boraði lítið gat í flöguna og hengdi hana um hálsinn.

Þegar Reginn og Varis sneru aftur sýndi hann þeim flöguna.

- Þetta er eflaust af kubbildi, sýnist mér, sagði Reginn. – En ég skil ekki hvers vegna við finnum engin verksummerki um hvað hefur orðið um dvergana. Varla hafa kubbildin yfirbugað þá? Kubbildi eru ekki jafnokar dverga.

- Talandi um kubbildi, við urðum varir við að einhver bíður handan við dyrnar á hliðarinnganginum, sagði Brjánn, þegar hann hafði fengið að skoða flöguna vel og vandlega.

- Ég legg til að við ráðumst til atlögu við þá, sagði Varis. – Við getum allt eins látið skeika að sköpuðu eins og að bíða hér inni. Í versta falli þurfum við að flýja aftur inn.

Eftir nokkrar umræður var ákveðið að fara að ráðum Varisar. Hópurinn hélt því inn að hliðarinnganginum. Þar bað Reginn til Moradins og lagði blessun yfir hetjurnar. Arikhaik opnaði síðan dyrnar. Um leið og hetjurnar stigu fram fyrir stóra grjótið sem skýldi innganginum dundu steinvölur á þeim. Kubbildi sem stóðu í hlíðinni á móti þeim höfðu orðið hetjanna vör. Reginn steig fram og kallaði fram eld Moradins, kubbildin reyndu að forða sér undan eldtungunum en aðeins helmingi þeirra tókst það. Hin brunnu til kaldra kola. Varis tók undir sig stökk og hljóp að kubbildunum með brugðið sverð. Hann felldi eitt þeirra. Brjánn skaut ör af boga og felldi eitt kubbildi til viðbóta. Arikhaik skaut einnig af boga og náði enn öðrum. Síðasta kubbildi gerði sig líklegt til að flýja á brott en Varis sá til þess að það kæmist ekki langt og hjá það í herðar niður.

Hópurinn dró líkin saman í hrúgu og brenndi þau, áður en lengra var haldið. Arikhaik fann góðan gististað þar sem hetjurnar kveiktu eld, enda mið nótt. Við dagrenningu var flestum kart en Reginn magnaði upp varðeldinn svo öllum hlýnaði skjótt áður en gengið var aftur til Mistmoor.

Þegar sólin var við það að hverfa handan við Sviptinornartind sneru hetjurnar aftur til Mistmoor. Reginn gekk á fund Corals og sagði honum frá því sem hópurinn hafði uppgötvað. og sýndi honum annála Ironboot ættarinnar. Coral varð alvarlegur á svip.

- Þetta eru ekki góð tíðindi, langt í frá, sagði hann djúpri röddu. – Þeir hafa varla fallið fyrir hendi kubbildanna, það hefur ekki meira þurft til.

- Ironboot virðast hafa fellt megininnganginn innan frá, þeir hljóta að hafa verið að verjast árás, sagði Reginn. Coral leit á hann, skugga brá yfir augu gamla stríðsmannsins.

- Eða þá þeir vildu halda einhverju fyrir innan, svaraði Coral lágt. Þeir ræddu þessi tíðindi aðeins lengur og komust að þeirri niðurstöðu að best væri að heyra í hinum dvergaættunum, Fenabars og Gunlaugs.

Á meðan heimstóttu Varis og Brjánn Rubert í hof Pelors. Rubert var þar í djúpum samræðum við ungan munk úr klaustri Iouns. Þegar Rubert sá ævintýramennina tvo sleit hann samtalinu við ungan manninn og tók á móti hetjunum.

- Jæja, hvaða fréttir hafið þið að færa mér, spurði Rubert. Varis og Brjánn sögðu honum upp og ofan af því sem hópurinn hafði uppgötvað. Rubert varð afar hugsi og spurði nokkuð út í rannsókn hetjanna en ákvað að lokum að það þyrfti að bregðast við.

- Til hvaða ráða verður gripið verður ekki ákveðið hér og nú. Ég mun boða til fundar seinna í kvöld með nokkrum vel völdum vinum og við munum þá ákveða næstu skref. Þetta eru ill tíðindi sem þið flytjið og segir mér svo hugur að ekki séu öll kurl komin til grafar enn.

Arikhaik sneri á meðan þessu stóð aftur heim til foreldra sinna. Þar var honum fagnað vel af móður hans en faðir hans var öllu ómyrkari í máli og setti út á að Arikhaik skyldi hafa yfirgefið þorpið þvert á boð sitt. Auk þess væru nú hlöðudyrnar lausar á hjörum, enda hefði nautið aftur hlaupið á þær. Það væru því fjölmörg verk sem biðu Arikhaik og enginn tími fyrir hann til að vera eitthvað að leika sér með vinum sínum.

Þegar sólin var sest hittust hetjurnar í hofi Pelors ásamt Rubert Anon, Viveros bæjarstjóra, Coral og Olaf Arneson, fóget Mistmoor. Þá var þar einnig Diam Valgi, ábóti klausturs Iouns, ásamt félaga sínum Coren Tagglebaum. Hópurinn kom saman fyrir framan altarið undir steindum gluggum kirkjunnar.

- Kæru vinir, takk fyrir að koma með svo skömmum fyrirvara. Eins og þið vitið þá birtist Thorbin Ironfoot hér í þorpshliðunum fyrir um tveimur sólarhringum. Hann var mikið særður og þrátt fyrir að okkur hafi tekist að hjúkra honum og binda vel úr sár hans þá hefur okkur ekki tekist vekja hann og mig grunar að eitthvað annað valdi því að hann sofi sem steinn en sárin, sagði Rubert. Síðan sagði hann í skömmu máli frá því sem hetjurnar höfðu uppgötvað í námunni.

Nokkuð var liðið á kvöld þegar hópurinn yfirgaf hofið. Ákveðið hafði verið að hetjurnar ásamt Olaf Arnesen myndi koma að skipulagningu varna bæjarins, ef ske kynni að hið sama myndi henda þorpið og henti ættflokkinn í námunni. Coral tók að sér að ræða við hinar dvergaættirnar og Diam Valgi bauðst til þess að fara í námu Ironboot og rannsaka klefann ítarlega. Hann bauð einnig fram aðstoð Corens og var ákveðið að hann myndi ganga til liðs við hetjurnar sem sérlegur fulltrúi klaustur Iouns.

Fór við svo búið hver til síns heima. Varis og Brjánn kepptust við að skemmta gestum Gyllta Turnsins með sögum sínum á meðan Arikhaik, Reginn og Coren kusu að eyða kvöldinu með öllu rólegri hætti.

Um nóttina dreymdi Reginn að einhvern sérkennilegur jarðarandi drægi hann að námunum. Hyrfi síðan inn í hof Moradins þar og umbreyttist í gyllta hamarinn sem Reginn hafði tekið af altarissteðjanum þar. Þegar fyrstu sólargeislarnir sleiktu Sviptinornartind var Reginn risinn á fætur, hann þakkaði Moradin fyrir dagrenninguna og bað til hans. Síðan hljóp hann út til að finna vini sína. Hann byrjaði á því að leita uppi Coren í Klaustri Iouns. Hann sannfærði Coren um að hetjurnar þyrftu að snúa aftur til Ironboot námunnar og fékk leyfi hjá Diam Valgi til að fylgja þeim. Því næst fann Reginn Varis, sem var nývaknaður og þurfti að skella morgunölunum býsna hratt upp sig, svo hratt að Harad vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið enda yfirleitt aðeins dvergar sem drykkju svo hratt að morgni til í Gyllta Turninum. Loks kom Reginn auga á Brján, sem var í þann mund sem hópurinn kom gangandi yfir brúna, að yfirgefa verslun Everts og var sá stutti ekki lítið pirraður á svip. Reginn lét umkvartanir hans sem vind um eyru þjóta og rauk inn til Everts til að kaupa kjötlæri.

Loks hélt hópurinn aftur af stað að Ironboot námunni. Á leiðinni voru reyndar ýmsar aðferðir við að fá hin ýmsu dýr til að finna Gamla Tom en allt kom fyrir ekki. Þegar í námuna var komið upphófst heilmikil smíðavinna, en Arikhaik, með hjálp þeirra hinna, tókst að laga stigann svo að auðvelt var að fara á milli hæða í námunni. Á meðan því stóð fóru Diam Valgi og munkar hans ofan í undarlega klefann og rannsökuðu hann hátt og lágt.

Hetjurnar klifruðu upp á efri hæðina og fóru aftur inn í hof Moradins. Þar fór Reginn í gegnum öll þau ritúöl sem hann kunni til að helga sakramenti og lagði hamarinn aftur á steðjann. Um leið virtist hofið leika á reiðiskjálfi og upp úr miðju helgitákni Moradins, sem hafði verið lagt með mosaík í gólfið, reis sérkennilegur jarðarandi. Reginn krafði andann svara við nokkrum spurningum á tungumáli frumaflanna. Í eyrum hinna hetjanna hljómaði tungumálið eins og þeir væri að bryðja steina sín á milli.

- Hvar eru dvergarnir? Eru þeir dánir? spurði Reginn.

- Þeir eru hvorki þessa heims né næsta, svaraði jarðarandinn.

- En hvar eru þeir?

- Þeir eru í haldi þjóna Imix, svaraði jarðarandinn.

Áður en Reginn náði að spyrja fleiri spurninga hvarf andinn aftur til þeirra vídda hvaðan hann kom. Hetjurnar sneru aftur niður í bræðslusalinn þar sem Diam Valgi og hinir munkarnir tveir biðu þeirra.

- Að hverju komust þið? spurði Arikhaik eftir að hóparnir höfðu skipst á kveðjum.

- Jú, þetta er vissulega forvitnilegur klefi. Hann er forn og hefur tengingar við Vecna, Boccob og Syril. Svo virðist vera sem einhver fórn hafi legið á stallinum, fórn sem var lögð fram fyrir löngu síðan til að binda einhverja óvætt niður með álögum. Mér sýnist að sá kynþáttur sem hafi átt þar að máli hafi verið einhvers konar samblanda af köngulóm og mannverum en ég kann ekki frekari skil á þeim. Hvað svo sem var í klefanum, þá var það bundið þeim álögum að vera hvorki háð tíma né rúmi, heldur stóð klefinn einhvern veginn utan framrás tíma og var óháður henni. Mikil verndarálög voru auk þess lögð á stallinn. Við þurfum engu að síður að komast aftur í klaustrið til að rannsaka þessa frásögn betur, sagði Diam Valgi.

Svo yfirgáfu munkarnir námuna. Hetjurnar ákváðu að fara aftur ofan í klefann og skoða hvort þær kæmust neðar í hellinn. Eftir langa stund og ýmsar æfingar uppgötvuðu þær að hellirinn virðist hafa orðið til í miklum jarðhræringum og að klefinn var hluti af einhverju stærra, því þrepin voru ekki úr sama steini og hamraveggurinn.

Eftir að hafa skeggrætt og rifist um hvað þær ættu til bragðs að taka þá ákváðu hetjurnar að reyna hafa uppi á kubbildunum. Þær töldu líklegt að kubbildin hefðu frekari upplýsingar um hvað kunni að hafa komið fyrir dvergana, enda ýmislegt sem benti til þess að kubbildin hafi farið inn í námuna eftir að dvergarnir opnuðu klefann. Arikhaik leiddi hetjurnar því aftur út og eftir nokkrar árangurslausar tilraunir tókst honum loks að rekja slóð kubbildanna frá námunni og að bæli þeirra við fjallið Öræfu, sem er kulnað eldfjall. Á leiðinni þurftu hetjurnar þó að takast á við nokkur kubbildi sem létu grjótskriðu falla á þær en með samhentu átaki felldu þær kubbildin hratt og örugglega.

View
Skorinn til

Tækifærin eru þeirra sem grafa eftir þeim. Rétt eins og að skera og slípa gimsteina þá þarf að skera og slípa til hugann.

Reginn var að glíma við einstaklega fagran kristal sem hafði verið hent til hliðar út af galla, sprungu sem náði alveg í gegnum steininn, þegar hann fékk hugljómun. Bókstaflega. Með því að sníða steininn til eftir sprungunum fékk Reginn einstaka lögun á steininn sem magnaði upp ljósið í vinnuherberginu. Í stað þess að fá ljósbrot, sem var venulega það sem var sóst eftir þegar þessi kristall var skorinn fékk Reginn geisla. Hugljómuninni fylgdi innra ljós og skilningur á sköpuninni. Reginn lagði frá sér tólin og gekk inn í klaustur Moradins.

Þetta var upphafið af ferðalagi Regins til Mistmoor. Leitin að þekkingu, hvernig heimurinn er smíðaður.

Tækifærin koma vissulega til þeirra sem grafa. Leið Regins hefur nú leitt hann í lið með fræknu fólki inn í námur frænda sinna og inn í atburði þar sem smíði margra guða skerst á.

View
Interlude: Koram og Anja
Atburðir í Fernisskógi

pic-3.jpg

Rökkur seig á Fernisskóg. Eins og dökkt flauel breiddi það úr sér milli trjánna um leið og Koram læddist áfram. Hera og Brúða, tíkurnar hans, voru skammt á undan honum. Hann blístraði lágt til þeirra og benti þeim á að bíða. Í rökkrinu virtist gylltur felldur þeirra næstum rauðleitur. Tíkurnar settust og biðu eftir rekkanum. Hann hafði verið sendur inn í skóginn til að leita barns, ungrar telpu að nafni Anja sem hafði verið að leika sér við skógarmörkin skammt frá býli foreldra sinna en farið of langt. Koram dró grænan kuflinn þéttar að sér. Um leið og sólin seig neðar og skuggarnir lengdust kólnaði í skóginum og hljóðin breyttust. Söngur þrasta hljóðnaði og uglur tóku að úa.

Koram leit í kringum sig. Hann hafði aldrei áður farið svo langt inn í Fernisskóg. Hann hafði, eins og allir íbúar dalsins, heyrt þjóðsögur og frásagnir um skóginn, um fólkið sem hafði horfið og drekann sem átti að eiga sér bæli innst í skóginum. Ekki var laust við að hrollur færi um hann og Koram vissi sem var, að það var ekki vegna þess að honum var kalt. Koram kraup niður við tíkurnar, strauk yfir höfuð Heru og leit í kringum sig.

- Nú væri gott að stelpan léti finna sig, sagði hann lágt. Brúða, yngri tíkin, dillaði skottinu og tungan lafði úr munni hennar. Hera virtist þekkja húsbónda sinn betur og hélt eyrum sperrtum. Þau Koram höfðu margsinnis þurft að takast á við drýsla og ýmsar kynjaverur og höfðu fylgst að býsna lengi.

- Ansi gott, ef satt skal segja. Hvað var stelpuskottið að álpast þetta langt? spurði Koram sjálfan sig og rétti úr sér. Hann losaði bogann af bakinu og renndi hönd eftir viðnum. Hann hafði smíðað bogann sjálfur, lagt rækt við að finna rétt tré þannig að úr varð hinn besti stafbogi og hafði Koram skorið rúnirnar sínar í handfangið. Koram fletti leðurskjólunni ofan af örvamælinum og benti síðan tíkunum á að halda áfram að rekja slóð Önju.

Tunglið var hátt á himin komið þegar Koram kom auga á hvar Anja lá á grænni mosabreiðu undir stórum, sverum trjástjofni. Um leið og Anja sá tíkurnar spratt hún á fætur og greip til trjágreinar sér til varnar.

- Róleg, Anja, sagði Koram blíðlega og leit snögglega til Heru. Tíkin settist samstundis og Brúða fylgdi fljótlega í kjölfarið.

- Hver er þarna? Ertu skógarandi? spurði Anja óttaslegin.

- Nei, ég heiti Koram. Foreldrar þínir sendu mig.

Anja lét greinina síga. Koram færði sig hægt nær stúlkunni, sem náði honum varla í mitti. Hann tók vatnsbelginn sinn fram og rétti henni. Anja starði um stund á belginn, í bláum augun hennar var tortryggniblik en svo virtist hún gera upp hug sinn og greip belginn. Hún drakk græðgislega úr honum nokkra stund, svo vatn sullaðist á hvítu léreftsskyrtuna hennar.

Á meðan Anja drakk dró Koram fram taum og festi annars vegar í belti sitt og hins vegar í tíkurnar. Nú þegar hann hafði fundið stúlkuna þurfti hann að komast henni heim heilli og hólpni. Hann þorði ekki að kveikja á kyndli og þurfti því að treysta á að tíkurnar myndu leiða þau aftur sömu leið tilbaka.

- Anja, ég ætla að koma þér aftur heim, sagði Koram og útskýrði fyrir Önju að best væri að hann myndi bera hana á bakinu. Það væri mikilvægt að þau færu hratt yfir því skógurinn væri hættulegur staður, sérstaklega á dimmum nóttum sem þessum. Stelpan byrjaði að kjökra en Koram strauk yfir andlit hennar.

- Hafðu ekki áhyggjur, ég skal vernda þig. Við Hera höfum alltaf komist heim, bætti Koram við og benti á eldri tíkina. Síðan tók hann upp Önju á bak sitt og flautaði stuttan lagstúf. Hera tók á sig stökk og Brúða fylgdi í kjölfarið. Um leið strekktist á taumnum og Koram gekk af stað.

Þegar þau höfðu gengið drykklanga stund var Anja sofnuð. Þá kom Koram auga á undarlega birtu milli trjánna. Hann kippti tvisvar í tauminn. Tíkurnar lögðust samstundis niður og litu í kringum sig. Koram lagði Önju varlega niður og losaði tauminn úr belti sínu. Koram gaf Heru og Brúði til kynna með handahreyfingum að þær ættu að bíða og gæta Önju. Hera færði sig yfir stúlkunnar og lagðist við hlið hennar. Brúða kom sér fyrir upp á stein þar sem hún sá yfir slóðann.

Koram skreið hægt nær birtunni. Öðru hvoru flökktu skugga og eftir því sem hann kom nær heyrði hann sérkennilegar raddir. Hann lagðist á magann og fikraði sig nær.

Í stóru rjóðri voru átta verur í svörtum kuflum. Í miðju rjóðrinu var lítil tjörn og virtist birtan berast þaðan. Blá og græn flökti hún á trjástofnunum í kringum rjóðrið.

- Innsiglin eru rofin, Horeamax, drottningunni hefur verið rænt, sagði ein veranna. Hún dró fram sprota undan kuflinum og beindi að tjörninni. Um leið dró úr birtunni en mynd birtist í tjörninni. Koram sá ekki hvers kyns myndin var.

- Það er rétt, Sjáandi. Innsiglin eru rofin. Feigðarmáni rís yfir okkur, svaraði önnur vera.

- Enginn fær sloppið úr örlagavefnum. Við vorum kjánar að halda að við gætum…, sagði þriðja vera.

- Haf gætur á tungu þinni, Roarala, hvæsti sú sem hafði verið ávörpuð sem Horeamax. Hún starði um stund í tjörnina en eyddi síðan sýninni með því að sveifla hönd sinni einu sinni. Um leið féll myrkur yfir rjóðrið.

- Enginn fær flúið úr örlagavefnum. Ef drottningin er ekki lengur þar sem henni ber að vera, þá rís konungurinn brátt, sagði Horeamax.

- Tágakonungurinn, Tágakonungurinn, hvísluðu hinar verurnar.

Korem pírði augun og reyndi að sjá betur. Í daufu tunglsljósinu virtist honum sem verurnar hefði kastað af sér kuflunum og spruttu fram langir fætur á hverri þeirra. Þær risu upp á fæturna og líktust nú frekar stórum köngulóm en mannverum.

- Dýpstu pyttir Heljar, muldraði Korem.

Um leið leit en veran í átt að honum. Korem fann bljóð í æðum sínum frjósa. Hann skreið í snarhasti aftar. Hann stóð á fætur þegar hann hélt hann væri kominn úr augsýn og hljóp þangað sem hann hafði skilið við Önju og tíkurnar.

Þegar hann kom askvaðandi litu tíkurnar upp. Hann greip stúlkuna og tók til við að festa tauminn við beltið. Þá heyrði hann brak í sölnuðum laufum fyrir aftan sig. Eitt augnablik mættust augu hans og Heru. Hann þurfti ekki meira, hún vissi hvað henni bar að gera. Korem fann hjarta sitt síga í brjósti sér og augun fyllast tárum. Hann greip þéttu taki um Önju og hljóp af stað. Hann blístraði hvellt og Brúða hljóp af stað með honum.

Fyrir aftan sig heyrði hann Heru urra og gelta. Síðan kvað við þung druna og allt varð hljótt. Korem þorði ekki að líta aftur fyrir sig. Hann hélt dauðataki í Önju og hljóp sem fætur toguðu áfram í myrkrinu.

View
Dvergurinn við þorpshliðin
Ironboot ættin í vanda

Sólin baðaði Sviptinornartind bleikum bjarma um leið og skuggar húsanna í Mistmoor lengdust. Þorpsbúar unnu síðustu handtök dagsins áður en tími væri kominn til að snæða kvöldverð. Hátt á himni sveimuðu fjallaernir og áin, sem fyrir ekki svo löngu braut af sér klakabrynju vetrarins, liðaðist grænblá undir steinbrúna sem markar syðri hluta virkisveggjanna í kringum þorpið. Arikhaik gekk frá verkfærunum eftir langan vinnudag og teygði úr sér, þreyttur en sáttur við dagsverkið. Faðir hans virtist búa yfir þeim einstaka hæfileika að geta sífellt fundið ný og ný verkefni og Arik hafði því sjaldan tíma til að æfa sig að sveifla sverðinu sínu.

Reginn Vonarskjöldur sat við bryggjurnar með teikniblokkina sína, sem endra nær, og dáðist að handverki og byggingarstíl brúarinnar. Hann hafði komið til Mistmoor fyrr í vetur, einmitt í þeim tilgangi að fræðast um mennina og byggingarhætti þeirra. Hann var djúpt sokkinn í teikningar sínar og tók því ekki eftir tveimur ferðalöngum sem komu hvor í sínu lagi yfir brúna. Annar þeirra, álfur með lútu á baki, leit í kringum sig þegar hann var kominn inn fyrir innra hlið en virtist síðan sjá hvar Gold Tower gistiheimilið stóð og hélt þangað. Hinn, halfling að nafni Brjánn Loðinbarki, setti hendur á mjöðm, brosti og virtist gefa sér nægan tíma til að njóta þeirrar staðreyndar að vera loksins kominn til Mistmoor.

Kvöldkyrrðin var skyndilega rofin. Vörður við ytra hliðið hljóp sem fætur toguðu yfir brúna og hrópaði þar og kallaði eftir hjálp. Ekki leið á löngu þar til þorpsbúa tók að þyrpast að. Rúbert Anon tróð sér í gegnum þvöguna. Á brúni lá Thorbin Ironboot, einn af leiðtogum Ironboot ættarinnar, sem átti námu í döllunum suður af Mistmoor. Thorbin gegndi hlutverki bókhaldara og skrásetjara sögu ættarinnar en var afar illa særður. Rubert reyndi að lækna hann en það kom til lítils, Reginn bauð einnig fram krafta sína og ekki leið á löngu þar sem aldna dvergnum hafði verið komið fyrir í Hofi Pelors þar sem hann hlaut þá bestu læknishjálp sem þorpið hafði upp á að bjóða.

Um morguninn var ástand hans orðið stöðugt en ljóst að Thorbin þurfti meiri hjálp en finna mátti í þorpinu. Rubert lét gera boð eftir nokkrum vel völdum aðilum og bað þá um að finna sig í hofinu í morgunsárið. Þegar allir voru saman komnir tjáði hann þeim að Thorbin væri enn í hættu en að hann óttaðist einnig um ættmenni hans, aðra meðlimi Ironboot ættarinnar. Í þann mund gekk Viveros inn í hofið og slóst í hópinn.

- Kæru vinir, sagði hún, við þurfum á hjálp ykkar að halda. Við Rubert viljum gjarna koma þeim boðum til Ironboot ættarinnar um að Thorbin sé hér, en við óttumst að sú einfalda staðreynd sé til tákns um að eitthvað mun verra hafi átt sér stað. Viljið þið vera svo vænir að fara að námu Ironboot ættarinnar og kanna hvað kunni að hafa gerst þar? Við yrðum ykkur afar þakklát, enda Ironboot ávallt verið vinir Mistmoor.

- Já, það er mér eiður sær og skylda, svaraði Reginn og steig fram fyrir skjöldu. Brjánn kinkaði hratt kolli.

- Ekki spurning. Frænka mín var ekki vön að láta tækifæri til að lenda í ævintýrum og vera hetja sér í greipum renna og ég get ekki verið minni maður, sagði hann.

Eftir stuttar samræður og áframhaldandi bollaleggingar ákvað hópurinn að hittast eftir um klukkustund við brúna og leggja af stað. Tímann nýttu vinirnir til að búa sig undir ferðalagið og safna upplýsingum. ironboot.png

Loks var haldið af stað. Arikhaik leiddi förina og sóttist hún afar vel. Sólin skein og þó að það væri kannski ekki mjög hlýtt, enda enn vor, þá urðu þeir fljótt sveittir og móðir, enda gangan framan af degi að mestu upp í mót. Skömmu eftir hádegi varð Ol’Tom á vegi þeirra. Hann kastaði kveðju á hetjurnar og óskaði eftir aðstoð þeirra.

- Þannig er mál með vöxtum, að hún María mín hefur týnt húninum sínum. Og það væri afar gott ef þið gætuð séð af nokkrum mínútum og litið til eftir honum hér fyrir neðan slóða.

- Er þetta bjarnarhúnn eða dyrahúnn? spurði Brjánn.

Tom starði um stund á Brján, eins og hann væri að velta því fyrir sér hvort hann væri heimskur eða að reyna að vera fyndinn. Áður en hann náði að svara Brjáni höfðu hinar hetjurnar samþykkt að veita Tom lið.

Ekki tók langan tíma að finna húninn og Arikhaik tókst að lokka hann til sín með hunangskökum. Nokkrir gráúlfar komu inn í rjóðrið á sama tíma en virtust verða afhuga því að gera húninn að næsta kvöldverði þegar hetjurnar ruddust fram með brambolti og látum. Hetjurnar komu því húninum til Tom sem þakkaði þeim innilega fyrir.

345546-sepik.jpg

Þegar sólin var að setjast komu hetjurnar í dalverpið þar sem námu Ironboot var að finna. Þær sáu fljótlega að þar var ekki allt með felldu, því aðalinngangurinn hafði verið eyðilagður. Reginn vissi sem var að það væri fleiri inngangar að námunni og tóku hetjurnar nú til við að leita. Loks komu þær auga á hliðarinngang í litlu gljúfri þar austan við aðalinnganginn. Þær dyr voru læstar en Brjánn sagði að hann hefði enn ekki rekist á dyr sem honum hefði ekki tekist að opna. Hann dró því fram þjófalyklana sína og ekki leið á löngu þar til að honum hafði tekist að dírka upp lásinn. Reyndar hafði honum yfirsést lítil gildra, sem stakk nál í fingur hans svo að honum sundlaði og var honum flökurt næsta klukkutímann eða svo.

Náman var hljóð sem gröf, eldurinn í eldstæðunum kulnaður og hvorki hamarshögg né eðlilegur kliður frá námugreftri bergmáluðu í veggjum námunnar. Hetjurnar fóru víða og skoðuðu sig um en fundu hvergi nokkurn dverg. Í bókasafni ættarinnar fundu hetjurnar annála hennar þar sem Thorbin hafði skrifað um það sem hafði gerst undanfarna daga. handout1.png

Skyndilega urðu hetjurnar varar við reykjarlykt. Þær þustu aftur að tréstiga, sem tengdi efri og neðri hæð og sáu þá að koboldar höfðu kveikt í honum, undir öruggri handleiðslu kobolda sem var með litríka fjaðrakórónu. Hetjunum tókst við illan leik að komast niður og opnuðu reykháfa námunnar, til að hleypa reyknum út. Koboldarnir létu sig hverfa aftur út, eflaust í von um að hetjurnar myndu hlaupa út í fangið á þeim, illa særðar, hóstandi og almennt illa á sig komnar. Brjánn læddist að dyrunum og sá þar koboldan með kórónuna í samræðum við annan kobolda, en sá var í rauðri leðurbrynju og með augnlepp. Eftir samráð við hópinn var ákveðið að ráðast til atlögu við koboltana sem voru, þegar á hólminn var komið, horfnir á braut. Öskur í einhverri stórri skepnu varð til þess að hetjurnar hörfuðu aftur inn í námurnar og fleyguðu innganginn á eftir sér.

Þá rannsökuðu hetjurnar námugöngin sjálf í von um að finna undarlega herbergið sem Thorbin minntist á í annálnum. Eftir að hafa yfirbugað ungan hræskriðil fundu hetjurnar herbergið. Þær skoðuðu það vandlega og sáu að þar var ýmislegt forvitnilegt að finna. Það virðist hafa verið notað sem eins konar geymsla eða jafnvel grafhvelfing. Þar voru fórnir á gólfinu í leirkrukkum og leðurskjóðum, veggir skreyttir með myndum af köngulóm og mannverum, trúartákn Boccob, Vecna og Syrul, nokkuð sem vakti með Regin óhug.

Í þann mund sem hetjurnar voru að yfirgefa herbergið birtist flökktandi mynd við dyrnar, af mannveru í svörtum kufli, undir hettu hennar mátti grilla í átta svört augu með rauðleitum bjarma. Hún benti á hetjurnar og sagði:

- Drottningin hefur verið tekin. Vei þeim er brotið hafa innsiglin. Vei þeim er rjúfa hvíld hennar hátignar. Vei þér!

Síðan virtist fjólublár bjarmi skjótast úr löngum fingri verunnar en bjarminn hvarf rétt áður en hann skall á hetjunum, sem litu undrandi hver á aðra.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.