Rise of the Wicker King

Faced the challenge and found wanting

(dwarven thoughts appear in english)

It was like Reginn wasn’t there. His mind kept wandering back to the fight with the red dragon. A fight which came so close to defeat. A fight where the dragon shrugged off every single spell Reginn threw at it. The power. The resilience.

It was a fire dragon. Perhaps it did have a spark of the fire of creation within it. Perhaps that is why none of the prayers worked.

During the journey back towards Mistmoor Reginn was in deep contemplation. Rarely speaking to anyone and not being much help if approached. The fight occupied so much of Regins’ thoughs he hardly heard what Dorna said about her dream. Because Reginn didn’t know why Moradin’s spells didn’t work on the fire dragon he didn’t know what Dorna was saying. He couldn’t put enough thoughts togeather to connect the dots. “Ég veit það ekki”, was all he could offer.

Facing that basilisk was unexpected. Regin wasn’t ready. His mind was still distant. He shouted some words and couldn’t even remember what he said after the fight.

Arriving in Mistmoor, seeing the faces of all the people. The fear in their faces when Brjánn mentioned the dragon, a thought struck Reginn. It was no small feat to face a dragon and live to tell the tale. This created a new spark of thought in Regins mind. A spark that promised to become an inferno.

View
Aftur til Mistmoor
Heim á ný

basilisk.jpg
Þegar hetjurnar voru búnar að koma öllum dvergunum fyrir á vögnunum settust Isarn og Dorna í ökumannsæti á hvorum vagni. Sólin seig aftur fyrir fjöllin og kastaði löngum skuggum yfir dalinn í þann mund sem Harkon leiddi hópinn af stað. Honum gekk brösuglega til að byrja með og átti erfitt með að finna rétta leið, sem leiddi að lokum til þess að asninn sem dró annan vagninn steig ofan í gjótu og fótbrotnaði. Reginn og Arikhaik gerðu að sárum hans en þetta tafði för hópsins nokkuð. Nóttin skall á og var ákveðið að halda engu að síður förinni áfram, til að reyna að komast eins langt og unnt var frá bæli kubbildanna og drekans.

Þegar hópurinn hafði gengið áfram í gegnum fjalllendið í hátt í sólarhring fann Harkon með hjálp Arikhaik loks rjóður þar sem ákveðið var að æja. Slegið var upp tjöldum, varðeldur kveiktur og ekki leið á löngu þar til að hetjurnar höfðu komið sér fyrir með mat. Ísarn dró sig reyndar í hlé og lagðist strax til hvílu. Dorna kom þá til þeirra Harkons og Regins.

- Mig langar að fá álit ykkar á nokkru, sagði hún á hinni fornu tungu dverga. – Mig hefur dreymt sérkennilega undanfarnar nætur. Drauma sem mér finnst eins og séu ákall ássins til mín. Áeggjan eða hvatning, ég veit það ekki. Mér finnst samt eins og ég þurfi að bregðast við.
Dorna þagnaði um stund.

- Mér finnst ég sjái mikla og dimma borg, hverjir virkisveggir og turnar gnæfa dimmir og grimmúðlegir yfir mér. Þetta háa vígi er listilega reist og minnir um margt á borgir vorar til forna. Virkið er umvafið bláu jökulstáli en samt stafar einhverja sérkennilega birtu af því. Að innan berst mér rödd, sem minnir mig helst á ásinn. Rödd sem segir:
„Sá var fjórum fjötrum bundinn,
fastur undir áhrínisorðum
með tiginbornum fórnum fjórum
fastur undir álögum fornum.
Hinn forni fjandi rís á ný. Hetjur, stíg fram und gunnfána ljóssins, und skjöld steðjans og hald fram gegn hinni miklu ógn.“
Hvað haldið þið að þetta merki?

Reginn dró augað í pung og renndi hönd í gegnum skegg sitt. Hann var hugsi um stund en sagði síðan:

- Veistu, ég hef bara ekki hugmynd um það.

Þau ræddu þetta stuttlega lengur en síðan lagðist Dorna til hvílu. Reginn ákvað að deila þessum upplýsingum með vinum sínum en enginn þeirra kannaðist við þennan kastala sem um ræddi og enn síður hinn forna fjanda sem um var rætt.

Næsta dag héldu hetjurnar enn áfram undir leiðsögn Harkons. Um hádegisbil gekk hópurinn inn í rjóður, þar sem kleifar risu og sköguðu fram úr fjallshlíð. Í kleifunum var hellir en fyrir framan hann voru fimm mjög svo fagurlega gerðar styttur, tvær þeirra sem sýndu kubbildi en hinar þjár ólík dýr. Brjánn læddist nær en þá kvað við ógurleg öskur innan úr hellinu. Fram skreið hræðileg eðla, á átta fótum og með beingadda upp eftir hryggnum. Kjafturinn var alsettur beittum tönnum og hvassar klær á framfótum. Verst voru þó augun, sem virtust brenna á kynngimagnaðri heift. Coren stökk samstundis fram til varnar vinum sínum og barði í dýrið. Veran færði sig framar og öskraði ógnandi enn á ný. Hetjurnar fundu berlega fyrir dulmögnuðum áhrifum augnaráðs þess.

- Þetta er basiliskur, hrópaði Brjánn, vera sem getur umbreytt manni í stein með augnaráðinu einu saman.

Arikhaik, Harkon og Varis hlupu allir fram, óhræddur, með brugðin vopn. Reginn fann hins vegar doða leggjast yfir sig og var sem fætur hans hefðu skotið rótum. Brjánn stökk hetjulega í skjól aftan við annan vagninn en dró þó fram bogann sinn. Bardagamennirnir létu höggin dynja á skepnunni og Brjánn nýtti færi til að skjóta einni ör í það og tókst þeim að fella dýrið. Reginn náði að hrista af sér doðaáhrifin og þakkaði Moradin að hafa ekki endað eins og kubbildin.

Eftir stutta umhugsun ákvað Harkon að athuga hvort hann fyndi eitthvað fémætt inni í helli verunnar. Hann gróf í gegnum úrgang skepnunnar og fann að lokum lítinn smaragð.

- Já, ég vissi það, hrópaði hann upp yfir sig og kyssti eðalsteininn. Sem hann sá síðan samstundis eftir þegar hann fann bragðið af úrgangi basilisksins.

Ferðin gekk að mestu áfallalaust fyrir sig eftir þetta. Harkon varð reyndar fyrir því óláni að stiga ofan á geitungabú þegar skammt var eftir til Mistmoor, en hann lét það lítið á sig fá.

Sólin var sest þegar hetjurnar sáu heim að þorpinu. Ljós loguðu í gluggum og gengu varðmenn eftir brúnni og kveiktu ljós í luktum. Þegar þeir urðu hetjanna varir var blásið í lúður og ekki leið á löngu þar til að þorpsbúar tóku fagnandi á móti þeim, ákafir í að heyra hvað á daga þeirra hafði drifið. Rúbert tók opnum örmum á móti Dornu og Ísarni og bauðst til þess að aðstoða þau við að koma dvergunum fyrir. Hann hóaði í tvo fíleflda karlmenn og fékk þá til liðs við sig.

- Finnið mig í fyrramálið, sagði hann brosandi við hetjurnar, njótið kvöldsins og reynið að slaka á. Þetta hefur eflaust við langt ferðalag. Ég var tekinn að óttast um ykkur og það gleður mig að sjá ykkur snúa aftur. Tölum saman í fyrramálið, þá getið þið sagt mér upp og ofan af ævintýrum ykkar.

- En viltu þá ekki vita af drekanum? spurði Brjánn. Þögn sló samstundis á mannfjöldann. Rúbert leit skelkaður á Brján.

- Hvað áttu við?

- Nú, rauða drekanum sem við börðumst við?

- Er hann á eftir ykkur? spurði Rúbert óttasleginn.

- Nei, reyndar ekki, svaraði Arikhaik og bætti við: En við vitum ekki hvar hann er.

Eftir nokkra reikistefnu var þó niðurstaðan að hetjurnar myndu ræða við Rúbert næsta dag. Flestar hetjurnar héldu því ásamt miklum fjölda bæjarbúa á Gyllta Turninn til Harads og eyddu kvöldinu við drykkju og að segja sögur. Arikhaik hélt til sín heima og hlaut þar mikinn reiðilestur föður síns fyrir að vanrækja skyldur sínar. Hann skipti þó fljótt skapi þegar hann sá pyngjuna sem Arikhaik færði honum, pyngju sem var full af gulli.

Morguninn eftir byrjuðu hetjurnar á því að heimsækja ýmsa kaupmenn og fundu fljótt að bæjarbúar voru afar ánægðir með þær. Þegar þær höfðu verslað nóg héldu þær inn í kirkju Pelors og fundu þar Diam Valgi, Rúbert og Dornu að spjalli. Rúbert benti hetjunum að koma nær og tjáði þeim að Dorna hefði sagt þeim hvað á daga Ironboot ættarinnar hefði drifið, en hann vildi gjarnan heyra frásögn þeirra. Arikhaik fór því í stuttu máli yfir ævintýri hópsins.

- Þið berið mikil tíðindi og um margt ill. Það er ekki gott að vita af rauðum dreka hér í nágrenni við þorpið og ljóst að við þurfum að finna leið til að hrekja hann á brott eða vega hann, sagði Diam Valgi. Síðan dró hann fram bókfell og réttir Coren.

- Ég hef nýtt tímann til að skoða þessar rúnir sem voru í klefanum undir námu Ironboot ættarinnar. Það er ýmislegt sem er á huldu en þó hefur mér tekist að grafa upp eitthvað af upplýsingum ykkur gæti þótt forvitnilegar.

Í fyrsta lagi þá eru rúnirnar á tungumáli Aranea kynþáttarins, en Aranea eru hamskiptar sem geta hleypt mennskum hami og orðið að köngulóm. Þau eru býsna slyngir seiðskrattar og hafa eflaust haft meira en næga þekkingu til að leggja öflug álög á klefann.

Í öðru lagi þá tengjast sumar rúnirnar ævafornum átrúnaði á frumaflaverur. Ég get því miður ekki farið nánar út í þetta, þar sem ég hef ekki til þess nægilega góðar upplýsingar í hofinu, en mig grunar að þær megi finna í bókasafni Hrafnabjarga.

Í þriðja lagi þá finnst mér eins og sá hlutur sem var í herberginu hafi verið miðpunktur eða orkustöð þeirra álaga sem á herberginu hvíldu.

Að lokum sýnist mér sem að þau álög sem voru bundin við klefann hafi verið hluti af álaganeti. Klefinn er á mikilvægum stað hvað galdraorku þessa svæðis snertis og mér sýnist eins og að aðeins hluti margra kröftugra rúna og galdrastafa hafi verið ritaðir, eins og að hluti þeirra sé einhvers staðar annars staðar.

Hetjurnar ræddu þessar upplýsingar um stund og benti Diam hetjunum á að skynsamlegast væri að ræða þessa framvindu mála við Holmarn Roka, yfirbókarvörð í bókasafninu í Hrafnabjörgum, sem er hof Iouns í fjöllunum fyrir ofan Ravenhold. Þegar hetjurnar spurðu Valgi um hvort hann vissi um kastala eða mikla borg uppi á Stórajökli, sagði hann að þar væri Járnborg, helsta vígi frostrisa, sem hefði verið unnið af dvergum í ánauð.

Brjánn sýndi Diam gyllta hlutinn með fjólubláu æðunum.

- Þetta er Aranea drottningaregg, sagði Valgi og bætti við: Mig grunar að ekki sé langt í að það klekkjist.

- En hvað ætlið þið til bragðs að taka? Hvað ætli þið að gera varðandi drekann? Hvað með þetta egg? Og hvað með bölvunina? Við þurfum að leysa öll þessi vandamál, sagði Rúbert.

Hetjurnar ræddu þetta fram og aftur og varð ofan á að byrja á því að reyna koma egginu til skila. Hugsanlega væri hægt að finna ættbálk þessara vera í Fernisskógi og ráðgerðu hetjurnar að finna rekkann Koram, að undirlagi Olaf Arnesen, og njóta leiðsagnar hans um skóginn. Hetjurnar ákváðu að finna sér far með pramma niður fljótið að vatninu Djúpu, og höfðu upp á Þjóðvari, hafnarstjóra þorpsins. Hann benti þeim á að ræða annað hvort við Gert Da á Timburdrekanum eða Brí Vatnssteins á Fljótadísinni. Hann sagði að Gert Da væri mjög góður kaupmaður en Brí væri slunginn skipstjóri. Hetjurnar ákváðu því að ræða við Brí.

Þær fundu Brí á Gyllta Turninum og eftir strangar samningsumleitanir, prútt og gagnkvæmar svívirðingar, tókst Arikhaik að sannfæra Brí um að sigla með hetjurnar samstundis niður ánna að Djúpu. Reyndar kostaði það þó nokkra gullpeninga en skilaði tilætluðum árangri.

View
Í gini drekans

Það þyrmdi yfir Coren. Hann hafði áttað sig á að hér væri ekki um venjulega sendiför að ræða þegar Diam sendi hann af stað. Það var eitthvað í svipnum á honum sem var óvenju… …alvarlegt, jafnvel fyrir Diam. Coren rifjaði upp samskiptin um leið og hann einbeitti sér af að ná stjórn á innri sálarstyrk sínum. Hann hugleiddi hreyfingar öldunganna í klaustrinu sem gátu sveigt frumkraftana að vilja sínum og hann hafði reynt að herma eftir en iðulega án árangurs. Kannski hér í dimmum helli kubbildana á ögurstundu gæti hann dregið fram eitthvað djúpt innan úr sál sinni. Ef einhvern tíman væri rétti tíminn þá væri það núna.

Coren lagði allt sitt í hverja hreyfingu og einbeitti sér algjörlega. Skvaldrið í bakgrunninum varð að suði. Sjónin varð þokukennd… …nei, það var ekkert að sjóninni, þetta var þoka… …inni í helli… …og undarlega staðbundin og undarlega formuð, næstum eins og hún formaðist eftir hugsun hans og hreyfingum. Coren lék höndunum í kringum þenna örsmáa skýjahnoðra og formaði hann í bolta sem snerist hraðar og hraðar. Smám saman kom í ljós andlit í boltanum, en ekki mennskt heldur ófrýnilegt, eiginlega líkt dreka. Skyndilega sprakk blotinn og drekahöfuðið opnaði skoltinn og í sama mund dundi um hellin skerandi og drungalegt öskur ólíkt nokkru sem Coren hafði áður heyrt. Tímin var í nánd. Coren fann með sér að framundan væri mesta prófraun lífs síns…

View
Interlude: Útsendari Tágakonungsins
Í þjófagildi Miramar

_Thief__the_old_town_044752_.jpg

Bríar sat efst í siglutréi og fylgdist með mannfjöldanum liðast milli Eldingarinnar og Stolt Hafgúunnar, hvort tveggja forn þrímastra hásigld fullreiðarskip sem fyrir löngu höfðu skilað hlutverki sínu og höfðu legið svo lengi sem elstu íbúar Míramar mundu bundin við bryggjur. Í raun voru skipin nú lítið annað en íbúðarhús fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna, hverjum og einum hafði tekist að eigna sér lítið rými neðanþilja.

Fæstir þeirra sem áttu leið milli skipanna tveggja vöktu athygli Bríars, flestir báru ýmis teikn um að þeir væru íbúar borgarinnar, sumir voru með hvalbein í boðungum kápa og hettusláa, aðrir báru þríhyrnda leðurhatta á höfði og enn aðrir voru merktir hinum ýmsu gildum borgarinnar með áberandi hætti. Þeir örfáu ferðamenn sem gengu hjá voru allir með svarta flauelsslaufu á upphandleggnum, til merkis um að þeir hefðu þegar greitt skattinn sem Fjögurra-fingra Söndru hafði innleitt í borginni. Leiðtoga þjófagildisins hafði sagt þjófunum að það væri hlutverk nýliða að ræna ferðmenn, en eldri þjófarnir ættu að sinna öðrum málum, einkum ólöglegum dýraötum, eiturlyfjasölu og rukkun skulda. Þó að margir þjófar hefðu verið mótfallnir þessari tilhögun Söndru í fyrstu, þá hafði þessi skipulagning þjófagildsins haft þau áhrif að þjófarnir höfðu aldrei haft það jafn gott og nú og óttuðust hin gildi völd og ríkidæmi Söndru.

Þá gekk dökkklæddur maður inn á þröngt strætið. Hann bar ekki merki um að hafa greitt skattinn en á bakinu hafði hann tvö langsverð. Hann smeygði sér á milli fólks og framhjá sölubásum kaupmanna og snákaolíusölumanna og virtist ekki gefa þeim mikinn gaum. Bríar renndi sér hratt niður reipi og lét sig siga hljóðlega niður á bryggjustrætið, stjórnborðsmegin við Eldinguna. Hann fylgdi í humátt á eftir manninum og tók eftir að hann bar þunga pyngju í belti. Bríar spratt friðarböndunum á rýtingnum sínum og vonaði að sá dökkklæddi myndi fljótlega bregða sér út af bryggjunni á milli skipanna. Sá dökkklæddi rölti áfram og arkaði sem leið lá að Kattarstræti. Þar stóðu hús sem einna helst minntu á kubbaleik barna, því þau höfðu verið byggð með mismunandi hætti á ólíkum tímum úr því hráefni sem var fáanlegt. Fyrir vikið voru húsin við götuna líkari illa skipulögðu bútasaumsteppi.

Það hentaði Bríari vel. Ekki nóg með að Kattarstræti hefði að geyma marga rangala og skúmaskot, heldur var stutt þaðan í fylgsni þjófagildisins ef allt færi á versta veg. Hann færði sig því fimlega nær og gætti vandlega að því að sá dökkklæddi yrði hans ekki var. Í þann mund sem Bríar var að gera sig líklegan til að teygja sig eftir pyngju ferðamannsins beygði hann inn i hliðarstræti og ýtti þar stórum, skítugum kassa til hliðar. Bríar fylgdist gáttaður með, því aðeins meðlimir þjófagildisins vissu af þessari leið niður í holræsin. Öllu verri var sú staðreynd að í gegnum þetta holræsi hafði Bríar hugsað sér að fara til að komast í fylgsnið.

Sá dökkklæddi var ekki lengi að dírka upp lásinn á grindinni og skreið niður í ræsið. Bríar beið tíu andardrætti áður en hann hætti sér nær. Hann læddist eins varlega og honum var unnt og kíkti niður. Holræsið var svart sem að nóttu og jafnvel geislar hnígandi sólarinnar megnuðu ekki að lýsa upp nema rétt efst. Bríar dró andann djúpt og leit í kringum sig. Hann var ekki viss um hvað væri rétt að taka til bragðs en að lokum varð forvitnin yfirsterkari. Bríar lét sig síga varlega ofan í holræsið.

Það tók augu hans nokkra stund að venjast myrkrinu en þegar hann tók að sjá örlítið fram fyrir sig, þakkaði hann álfsdurtinum sem hafði nauðgað móður hans. Bríar mundi ekki mikið eftir móður sinni, annað en að hún var rauðhærð. Hann hafði verið 3 ára þegar hún hengdi sig í reiðaslá í Belgingi, einu af kaupskipum goðans í Hrafnabjörgum. Sandra hafði tekið Bríar að sér. Hann vissi þó að móðir hans hafði verið forfallinn sjónarfafíkill, og fyrir vikið kaus Bríar heldur að ræna áfram ferðamenn en að selja eiturlyfið þegar honum hafði verið boðið það.

Einhvers staðar nokkru fyrir framan Bríar opnaðist lás með hvellum smelli. Síðan var dyrum hrundið upp og skær birta ruddist inn í holræsið. Bríar bar hönd fyrir sig og sá hvar skuggamynd dökkklædda mannsins hvarf inn um dyrnar. Bríar læddist áfram. Sverðaglamur, hróp og kvalaóp bergmáluðu skyndilega. Bríar hljóp af stað. Hann stökk yfir strengjagildruna skammt frá dyrunum og gætti þess að stíga á réttar flísar þegar hann var kominn inn fyrir dyrnar. Ómar, einn af lífvörðum Söndru, lá í blóði sínu á gólfinu, kviður hans hafði verið ristur upp og hann virtist vera reyna halda innyflunum inni, en þegar Bríar kom aðvífandi sá hann fljótlega að Ómar andaði ekki. Hann flýtti sér því áfram í átt að sal Söndru.

- Þú veist af hverju ég er kominn, Fjögurra-fingra Sandra, sagði sá dökkklæddi djúpri röddu.

- Já, mig grunar það, hr. Láran, svara Sandra. Hún sat í mjúkum stól hinum megin í salnum og hr. Láran fyrir framan hana. Í þann mund sem Bríar kom hlaupandi var hr. Láran að þurrka blóð af sverði sínu.

- Sverðu hollustu þína við Tágakonunginn? spurði hr. Láran og beindi blóðrefli sínum að Söndru.

Það varð allt svart fyrir augum Bríars. Hann fann blóðið í æðum sínum krauma og hann öskraði af bræði. Hann herti tak sitt á rýtingnum og tók undir sig stökk. Bríar kom aftan að hr. Láran og lagði til hans.

Hr. Láran sneri sér leiftursnöggt við og hjó með langsverðinu sínu rýting Bríars til hliðar. Bríar fann þá eitthvað ískalt stingast inn í sig, upp undir bringspalirnar. Hann leit niður og sá hvar blóðrauður klútur lá við fætur sína, svo kom hann auga á hnífinn sem hafði verið stungið í bringu sína, hvers skaft var lagt fílabeini útskornu í líki vínviðar sem hringaði sig um drekahöfuð. Blóð féll í stríðum straumi úr sárinu og Bríar fannst erfitt að anda. Hann leit upp í augu hr. Lárans. Í fyrstu virtust þau græn, eins og döggvotur fjallamosi, síðan dró úr styrk litsins og þau fölnuðu, urðu dökk og köld. Bríar missti takið á rýtingnum sínum og féll ofan í svart og endalaust myrkur.

View
Dvergurinn & Drekinn

Arik man óljóst eftir bardaganum við drekan.

Hann minnist þess að hafa gengið vasklega á mót við drekan og sagt… eitthvað. Eftir það kom vítiseldur úr kjafti drekans og blindaði hann.

Líklegast hafði hann hent sér til hliðar en endaniðurstaðan var að það er ekki lengur hægt að sauma fötin. Hálfnakti dvergurinn við hliðina á honum virtist ekki geta hætt að öskra á meðan bardaganum stóð. Eftir að hafa lagt til drekans með sverðinu þá hoppaði drekinn á hann og opnaði með klær eins og sverð ásamt kjafti fullum að hnífum.

Arik var ekki viss hve lengi hann hafði legið í valnum, en sá Coren liggjandi í valnum og drekinn ekki í augsýn, dvergurinn sem var á hnjánum við hliðina á Arik hlaut að hafa hrakið hann á brott. Arik kastaði sverðinu til hans og gaf honum litla blessun í kaupbæti svo hoppaði hann á Coren gaf honum part af eldi lífsins til að hífa hann á fætur.

Sögurnar voru ekkert að grínast með það að drekar safna fjársjóði, þessi hrúga sem drekinn skildi eftir sig var enginn brandari, drekinn á líklegast eftir að gera atlögu að þeim sem halda í sjóðin, spurning hvort hægt sé að undirbúa sérstakt svæði til að berjast við hana.

Dvergarnir eru óhultir og enginn hefur látist. Góður dagur.

View
Berjist við eld með eldi.

Dreki. Elddreki.

Reginn bað til Moradins að föruneytið kæmist út úr líkneskjahellinum en drekinn var greinilega búinn að skipuleggja árás sína. Logarnir léku um hellinn og kveiktu í öllu sem var brennanlegt. Reginn hélt um hamar Dornu og bað Moradin um að vernda hjálparlausu dvergana.

Eldurinn slökkti í ljósi mosans í lofti hellisins en daufir logar ýmissa smárra elda út um allan hellinn lýstu upp hetjulegan bardaga vina Regins við elddrekann. Reginn bað um mátt Moradins til þess að aðstoða vini sína en Drekinn bægði álögunum frá sér. Aftur reyndi Reginn að leggja álög á drekann en ekkert beit á þykkan skráp elddrekans. Álagaeldurinn beit ekki á eldskrápinn. Þriðja skiptið. Eldur drekans var greinilega máttugri en eldur Regins.

Á meðan börðust vinir Regins hetjulega og hröktu drekann aftur inn í hellinn sinn. Fram þustu kubbildi drekadrottingu sinni til bjargar. Reginn vissi að kubbildin stóðust ekki eld Moradins eins og drekinn og steig því fram í ljósið. Orkan sem bundin er í steininn, orkan sem skapaði steininn brenndi augu kubbildanna og greiddi leið föruneytisins að hrekja á brott elddrekann. Við það gengu þeir í aðra gildru. Á bak við víggirðingu lagði seiðkarl kubbildanna álög á hetjurnar sem eltu drekann og gerðu honum kleift að flýja. Reginn arkaði beint að girðingunni, rak hönd í gegnum bogagöt og kallaði á hreinsunareld. Kubbildin brunnu til ösku, öll nema seiðkarlinn sem stóð hærra og náði að víkja sér frá eldhafinu.

Lausir við drekaógnina stukku Varis og bardagajárnstígvél Dornu yfir víggirðinguna eins og hún væri ekki til og vógu seiðkubbinn.

Fangelsi Járnstígvélana hafði nú verið hreinsað í bæði sköpunareldi Moradins og elddrekadrottningarinnar. Förin heim yrði örugglega hættuminni.

View
Úr öskunni í eldinn
Dvergar og dreki

tumblr_o1j4b67Bqx1r3tllpo1_500.jpg

- Hverjir eru þið? spurði Dorna Ironboot. Hún var hálfnakin, aðeins í nærfötum og skítug eftir að hafa eytt nokkrum dögum í fangaklefa kubbildanna. Reginn rétti Dornu gyllta helgihamarinn sem hún tók hikandi við.

- Við komum úr Mistmoor og vorum sendir til að rannsaka hvað hefði orðið um ykkur ættmenni þín, svaraði Reginn og bætti við: – Thorbin dvelur meðal mannanna í þorpinu og er svipað farið með honum og bræðrum þínum og systrum hér í hinum klefanum.

- Thorbin lifir? spurði Dorna og virtist létt.

- Já, en með naumindum, svaraði Reginn. Þau ræddu saman um stund á meðan Brjánn og Arikhaik nýttu niðurskornu slímveruna í krukkum kubbildanna til að bræða í sundur lásanna á fangaklefunum. Dorna var fegin og þakklát því að komast aftur úr klefanum sem hún deildi með tveimur öðrum dvergum. Hún kynnti annan þeirra sem Harkon, einn af helstu bardagamönnum ættarinnar, en hinn væri leiðtogi þeirra og höfðingi, Isarn Ironboot, og ekki lék nokkur vafi á í huga hópsins frá Mistmoor að þau væru ekki á eitt sátt. Isarn var niðurlútur og þungt í skapi, þegar hópurinn tók að ræða og skipuleggja hvernig best væri að koma öllum á brott reyndi hann að telja hópinn af því að fara gegn kubbildunum, að það væri til óðs manns æði að fara gegn drekanum.

- Við óttumst ekki neitt, sagði Brjánn og reyndi að sýnast örlítið hærri.

- Það er nú hollt að óttast, svaraði Arikhaik alvarlegur á svip, því án ótta ertu fífldjarfur og óskynsamur. Slíkir menn eru fyrst og fremst hættulegir sjálfum sér.

- Nei, ég meina sko, við erum hetjur og við óttumst ekki að ráðast gegn drekanum því það er það sem hetjur gera, svaraði Brjánn og bætti við í lágum hljóðum: Ég er víst hetja!

Hópurinn hvíldi sig nokkra stund þarna og útbjó sleða sem dvergarnir komu öllum stjörfu dvergunum á. Á meðan barst bergmál umgangs og einhvers konar öskur til þeirra. Þegar allt var klárt læddist Brjánn fram og komst að því kubbildin höfðu vígbúist norður af hellinum þar sem styttan af drekanum var. Hópurinn nýtti því tækifærið til að flýta sér í gegn.

Í þann mund sem þau voru komin hálfa leið í gegnum salinn birtist Alizarinathrax, rauði drekinn sem hafði tekið sér ból í bæli kubbildanna. Haus drekans var á stærð við hest og þegar hann sá hópinn ruddist hann fram, gerði sig breiðan og öskraði ógurlega. Isarn og Dorna tóku undir sig stökk og hugsuðu um það fyrst að bjarga dvergunum. Harkon, Arikhaik, Coren og Reginn þutu fram á meðan Varis og Brjánn létu örvar fljúga að drekanum. Drekinn svaraði með því að spúa eldi yfir hópinn, eldi sem eyðilagði örvastrengi, kufla og ýmislegt annað af dóti hópsins.

Upphófst nú mikil orrusta. Hópurinn gerði sitt besta til að berja á drekanum, sem svaraði í sömu mynt. Alizarinathrax kallaði auk þess til sín kubbildi og tókst að rota bæði Arikhaik og Coren. Reginn felldi hins vegar öll kubbildin nema eitt með hjálp Moradins en galdrar hans virtust ekki bíta á drekann. Þeim tókst að hrekja drekann á brott. Æðsti kubbildinn reyndi að verjast en Harkon stökk yfir víggirðingu þeirra og hjó þann gamla niður með einu höggi.

Í bæli drekans voru miklir fjársjóðir og innar í hellakerfinu var stór hellir þar sem kubbildin höfðu safnað miklum auð, hvers kyns korntunnur, málmstangir og meira að segja tveir vagnar, ein kerra og tveir asnar. Auk þess var þar hellisgangur sem náði út úr fjallinu en Arikhaik sá fljótlega að hópurinn var hinum megin við Öræfu og því langt til Mistmoor.

View
Af draumsýnum og martröðum
Coral heimsækir Fenabar-ættina

57e236de868e59c5d17da7ae8a3d5482.jpg

Snjókorn tóku að fjúka ofan úr þungbúnum himninum yfir Skuggafjöllum. Þau teygðu sig suður undan Stórjökulsfjallgarðinum og voru tindar þeirra þaktir snæ nær allan ársins hring. Coral dró hettuslána nær sér og bölvaði í hljóði ísköldum norðangarranum sem virtist smjúga inn undir brynjuna hans. Hann hefði heldur kosið að sitja við ylinn frá eldstæðinu í smiðjunni sinni og reykja pípu í stað þess að arka norður til að finna leiðtoga Fenabar ættarinnar. Hann varpaði því öndu léttar þegar hann sá heim að Fenabar óðalinu, þar sem það stóð í hlíðum Króksfjalls.

Reykur steig upp úr háfum ættarinnar og Coral sá ekki betur en að verðir ættarinnar væru í varðturnum og við óðalshliðið. Ættin hafði búið þarna afar lengi og bar umhverfið þess glögglega merki. Skríni helguð Moradin stóðu við vegarslóðann og stóðu bautasteinar, vandlega skreyttir rúnum og táknmyndum úr sögu ættarinnar, í hlíðunum.

- Moradin veri lofaður, sagði hann lágt og greikkaði sporið. Hann hafði hálft í hvoru óttast að örlög Fenabars hefðu verið þau sömu og Ironboot ættarinnar og var þakklátur að sjá að svo var ekki. Þau Gríma höfðu kannski ekki alltaf verið sátt í gegnum tíðina en Coral óskaði ætthöfðingja Fenabar ekki ills.

- Nei, sjáið, félagar, hér er kominn ferðalangur, sagði einn varðanna í hliðinu og hallaði sér fram á stóran og mikinn bardagahamar þegar Coral kom gangandi.

- Gott ef það er ekki bróðir okkar neðan úr þorpi hýjungsfésanna, bætti annar við með háðskum tóni.

- Já, það finnst á lyktinni, svaraði sá fyrsti og hinir hlógu. Coral hugsaði þeim þegjandi þörfina en svaraði þeim engu. Hann tók hettuna ofan og losaði bakpokann af bakinu.

- Hverju eigum við að þakka að þú heimsækir okkur? Ertu búinn að selja þorpsbúum öllum nóg af skeifum? bætti vörðurinn við. Coral sneri sér að honum.

- Ertu búinn að hlægja nóg, Brámur Burkinsson? Eða eigum við að rifja upp síðustu kaupstaðaferð þína?

Í gráum augum Bráms blikaði í senn reiði og skömm. Hann greip um dökkt skegg sitt og um stund virtist hann ætla að hjóla í Coral. Augu þeirra mættust. Síðan brosti Brámur og breiddi út faðminn.

- Gamli durgur, komdu hérna, sagði hann glaðlega og dvergarnir féllust í faðma. – Hvað rekur þig hingað? Er ekki full snemma vors til að dvergar á þínum aldri leggist í fjallgöngur?

- Það er ekki af góðu einu, get ég sagt þér, gamli vinur, svaraði Coral, ég hefði heldur kosið af orna mér við eldstæðið en að þramma hingað á ykkar fund. Ég þarf að komast á fund Grímu og sem fyrst.

Brámur hóaði í ungan dverg þar sem skammt frá.

- Kirjan, farðu og sæktu Grímu. Segðu henni að sendiherrann sé kominn og beri váleg tíðindi, kallaði Brámur til þess unga, sem snerist samstundis á hæli og hljóp í gegnum opið hliðið. Coral og Brámur gengu af stað. Ytri hýsi óðalsins voru glæsileg, stór kastalaturn hvaðan sem dvergarnir sáu vítt til allra átta og nokkrir minni umhverfis hann. Þeir gengu þvert yfir kastalagarðinn, þar sem verið var að hlaða gylltum, bronsuðum og silfruðum málmstöngum í kassa og upp á vakna. Coral staldraði við og leit undrandi á Brám.

- Riddarar komu frá Ravenhold snemma veturs og fólust eftir góðmálmum. Þeir báru skilaboð frá goðanum en aðeins Gríma veit hver þau voru. Við höfum hins vegar mátt vinna nótt sem nýtan dag við að tryggja þennan mikla farm, sem á að fara að Hrafnhóli innan nokkurra daga.

Coral kinkaði kolli hugsi, af hverju ætli goðinn þurfi á slíkum fjársjóði að halda? Áður en hann náði að spyrja kom Kirjan hlaupandi.

- Hennar tign bíður sendiherrans í Roðasalnum, sagði Kirjan og hneigði sig.

- Það er þá best að drífa sig og láta hana ekki bíða, sagði Brámur og dró Coral af stað. Náma Fenabars var magnþrungin. Um leið og þeir stigu gengur niður og inn í fjallið fann Coral hvernig þyngd þess lagðist ofan á sig, umvafði og varði, og honum fannst eins og hann væri kominn heim. Eins og allt væri rétt. Hann lagði hönd á vegg og fann óhagganlegan kraft fjallsins og naut þess að finna orku þess streyma um sig. Hann dró andann djúpt og þreytan eftir fjallgönguna og ferðina frá Mistmoor hvarf á braut.

Roðasalurinn var inn af hásætisal Fenabars. Langborð stóð í salnum miðjum og við einn enda þess sátu tveir aldnir dvergar og ræddu saman í lágum hljóðum. Annar þeirra var skegglaus, en silfrað hár var fléttað vandlega og flétturnar bundnar saman með brasshringjum. Gríma var þéttvaxin og á vinstri kinn var krosslaga ör en drýsill hafði skotið hana með ör fyrir mörgum árum. Sögðu Fenabar dvergarnir oft og iðulega söguna af leiðtoga sínum, hvernig hún hafði nagað í sundur örina og hrækt oddinum framan í drýsilinn, rétt áður en hún hjó af honum höfuðið með gylltu öxinni sinni, Reginsnauti. Hinn dvergurinn var sköllóttur en ýmis tákn voru flúruð á höfuðið. Undir augunum voru einnig ýmis konar galdratákn en Coral kunni ekki skil á þeim. Hann hafði þó heyrt um sjáanda Fenabar ættarinnar, hinn goðsagnakennda Jörfa, en hann hafði aldrei hitt hann, enda var sagt að hann hefði aldrei borið himininn augum og vildi ekki hitta nokkurn dverg sem gæti borið bláma hans inn með sér, hvað sem það nú þýddi. Jörfi var með þykkt hvítt skegg og klæddur rauðum kufli með helgitákni Dumathoins. Um leið og þau urðu Corals vör réttu þau úr sér og Gríma benti Coral á að koma nær.

- Velkominn, sendiherra, sagði hún en í rödd hennar var engin hlýja.

- Yðar tign, svaraði Coral og hneigði sig lítillega, rétt nóg til að kallast kurteis en samt ekki djúpt.

- Hvaða erinda áttu hingað svo snemma sumars?

- Ég færi yður tíðindi, yðar tign, af frændum okkar, Ironboot.

Gríma leit á Jörfa en græn augu sjáandans voru sem límd á Coral.

- Af illu skal illt hafast, sagði Jörfi, rödd hans djúp og kynngimögnuð, og boðberar válegrar tíðinda sjaldan aufúsugestir. Mjög er bráður sá er hjá taðskegglingum sitt bú og fé rekur, eða viltu ekki frekar taka yður sæti hér hjá oss og uppfræð oss svo vér fáum rýnt í tíðindi yðar.

Jörfi rétti úr hrumri hönd og benti á sætið gegnt sér við borðið. Það vantaði framan á baugfingur og löngutöng. Coral kinkaði kolli og fékk sér sæti. Síðan sagði hann þeim frá því sem hafði komið fram á fundinum í Mistmoor tveimur dögum fyrr.

- Þetta eru vond tíðindi, sendiherra, sagði Gríma alvarleg á svip, ég mun senda sveit hið snarasta í námu frænda okkar. Við munum sjá til þess að Isarn og ætt hans geti snúið aftur til síns heima.

Coral kinkaði kolli en gat ekki annað en velt fyrir sér hvað Isarn ætti eftir að þurfa gjalda Grímu fyrir þá vernd.

Þegar þau höfðu rætt og útkljáð málin var Coral fengið herbergi þar sem hann gat hvílt sig. Hann átti enn eftir að heimsækja Gunlaug ættina en náma hennar var enn lengra fyrir norðan. Hann naut þess að borða góðan mat og skiptist á sögum við Brám áður en hann lét sig falla í rúmið og leyfði sér að loka augum.

Skyndilega fannst honum sem eitthvað þungt leggðist ofan á sig, hann reyndi að opna augun en gat það ekki. Í myrkrinu fann hann fyrir hreyfingu, eitthvað stórt vafðist um hann, kæfði hann, stakkst í hold hans. Ævaforn og lymskufull rödd birtist í huga hans, hrópaði og hvíslaði í senn, ærandi, skerandi, ævarandi.

- Coral’si don a kurisa’le, D’oma ni kurise’li.

Coral hrökk upp og greip strax til hamarsins síns. Hann gerði sig líklega til að berja frá sér þegar hönd var lögð á öxl hans.

- Rólegur, æðið ekki að neinu, sagði djúp rödd. Coral sneri sér að röddinni og sá glitta í Jörfa.

- Fylgdu mér, bætti hann við og hvarf út úr herberginu.

Coral flýtti sér að elta gamla dverginn, sem fór furðu hratt yfir. Hann virtist ekki þurfa neina birtu, heldur rataði í myrkrinu og Coral fann að Jörfi leiddi hann sífellt dýpra inn í fjallið. Eftir þó nokkra stund komu þeir inn í helli, þar sem dropasteinar og grýlukerti myndu eins konar tanngarð í kringum bjarta tjörn. Jörfi gekk að tjörninu og muldraði eitthvað fyrir munni sér. Hann strauk blíðlega yfir vatnið og benti síðan Coral á að fá sér sæti.

- Þér hafið séð sýnina, sagði hann alvarlegur, sýnina sem ásækir vora þjóð. Sýnina sem ærir suma bræður vor, hræðir aðra og hvíslar hræðilega hluti. Sýnin sem markar skapadægur vor.

- Hvað áttu við?

- Innsigli er rofið. Í þúsöld hefur hann sofið, beðið þess að losna úr viðjum þeim sem álagaþjóðirnar bundu hann og fyrir sakir flónsku og græðgi er hann nú laus.

- Hver?

- Tágakonungurinn. Ás frumafla. Sá sem sefur. Hinn illi prins jarðar, svaraði Jörfi og kyrjaði síðan svo djúp rödd hans virtist sækja að Coral úr öllum áttum:
Sá var fjórum fjötrum bundinn,
fastur undir áhrínisorðum
með tiginbornum fórnum fjórum
fastur undir álögum fornum.

Á meðan söng hans stóð virtist sem ímyndir og tákn drægust saman í lauginni. Vatnið fékk á sig grænkenndan blæ og Coral fannst sem eitthvað illt og ævafornt væri að horfa á sig, rétt eins og í draumnum. Hann hrökklaðist aftur og leit á Jörfa. Augu hans voru alhvít og andlitið fölt, húðin skorpin og virtist græn mygla skríða upp háls hans undan kuflinum.

- Tágakonungurinn rís! sagði Jörfi en varir hans bærðust ekki. Coral hrópaði upp og snerist á hæli.

Coral hrökk upp. Hann var enn í rúminu sem Brámur hafði útvegað honum. Coral tók föggur sínar saman í flýti og dreif sig aftur að hliðinu. Þegar hann stóð í dyrunum að kastalaturninum sneri hann sér við og horfði inn eftir ganginum inn í fjallið. Jörfi stóð þar. Augu þeirra mættust. Eitthvað við augnaráð gamla sjáandans varð til þess að Coral fannst sem martröð næturinnar hefði ekki verið draumur.

View
Á kubbilda veiðum

Arik týndi sporum kubbildana oft og það fór að verða vandræðalegt. Ferðinn sóttist ágætlega þrátt fyrir auka leitartíman. Á leiðinni var mikill tími til að hugsa:

Er Reginn bara að þessu vegna þess að þetta séu dvergar? Hvað ef þetta væri annað fólk úr þorpinu? Eftir “uppljómunina” hans virtist eins og það hafi einhver kveikt í skegginu á honum, miðað við hversu kvikur hann var og spenntur fyrir því að hlaupa af stað í forboðna heimili járnskónna.

Brjánn virðist vera fínn gæi, ég sé hann nánast ekkert þegar við erum að berjast en þrátt fyrir það virðist hann alltaf að vera týna örvar úr valnum, nema hann sé bara svaka hjálplegur og alltaf að hjálpa Varis með hans örvar. Ég hef samt smá áhyggjur af Brjáni hann virðist taka allt saman sem er ekki nelgt niður og stundum tosar hann í naglana til þess að athuga hvort þeir séu lausir. Ef hann myndi sinna heiskap jafnvel og hann tosar, skoðar og tekur hluti væri pabbi örugglega mjög sáttur að leyfa honum að gista fleirri nætur.

Ég hef smá áhyggjur af pabba, mamma er búinn að vera slöpp í þó nokkuð langan tíma og ég veit ekki hvernig henni líður… Pabbi talar alltaf um að bóndafólk sé miklu harðara af sér en liðið sem býr í bænum, enda virðist hann vera búinn til úr bárujárni og tonnataki… Þau hljóta að spjara sig þangað til að ég kem tilbaka, ég á líklegast eftir að vera í þriggja mánaða straffi, en EF við getum reddað dvergunum úr vandamálum sínum þa er það þess virði.

View
Í bæli ættbálks Brenndu handarinnar
Kubbildar á kubbilda ofan

NEW_TO_DD_Monsters_Kobold_T_140714.jpg

Brjánn læddist nær innganginum að bæli kubbildanna. Skuggar fjallanna voru teknir að lengjast og Öræfa, sem gnæfði hátt yfir dalverpinu, var baðað gylltum bjarma. Hetjurnar höfðu verið á ferðinni frá því nokkru fyrir sólarupprás og köstuðu á mæðinni eftir bardagann við kubbildin þrjú sem höfðu setið fyrir þeim í dalsmynninu. Brjánn fór hljóðlega yfir og kom auga á hvar gróft hampreipi lá ofan úr bælismunanum. Hann varð engrar hreyfingar var og ákvað að flýta sér aftur til vina sinna.

- Leiðin er greið, sagði hann, kubbildin hafa strengt reipi ofan úr bælinu þannig að það ætti ekki að vera erfitt að komast þangað upp.

Hetjurnar stóðu á fætur hver af annarri og fylgdu í humátt á eftir Brjáni. Þegar þær komu að hlíðinni undir bælismunanum var ákveðið að Varis og Arikhaik færu fyrstir upp. Varis kleif fyrstur upp og gægðist inn um munann. Enn var enga hreyfingu að sjá. Um leið og Arikhaik var kominn upp færði Varis sig inn í hellinn. Hann var ekki kominn langt þegar hann rak fótinn í eitthvað, leit niður og sá slitinn þráð. Andartaki síðar glumdi hvellur, holur og hár hljómur við, eins og barið væri í stóran málmskjöld.

- Öhm, félagar, flýtið ykkur, sagði Varis og rétti úr sér. Skömmu síðar sá hann var hátt í tugur kubbilda komu askvaðandi, með vopn á lofti, úr einum hliðarhelli skammt frá hellismunanum. Varis dró upp vopnið sitt og bjóst til atlögu. Arikhaik var þó fyrri til. Hann setti skjöldinn fyrir sig og réðst hugdjarfur fram. Hann náði að stöðva framgögnu kubbildanna og fella tvo þeirra. Varis fylgdi fordæmi hans og þegar hinar hetjurnar komu þeim til aðstoðar tókst þeim að fella öll kubbildin.

Hópurinn var rétt byrjaður að kasta mæðinni þegar Varis sá hvar innar í bælinu höfðu kubbildin slegið upp varnargarði og bjuggust til að verja bælið. Reginn dró þá Brján og Varis til sín.

- Skjótið nokkrum örvum hérna yfir varnargarðinn á meðan ég hleyp þangað, sagði dvergurinn og benti á skúmaskot skammt frá varnargarðinum.

- Hvað ertu að spá? spurði Coren.

- Skýlið mér bara, svaraði Reginn og órætt bros lék um varir hans. Brjánn og Varis drógu ör á streng og skutu nokkrum örvum yfir varnargarðinn um leið og Reginn hljóp yfir gróft hellisgólfið. Hann tók fram helgi tákn Moradins en hélt á gyllta hamrinum í hinni. Hann dró nokkrum sinnum djúpt andann en steig síðan fram úr skúmaskoti og hóf helgi táknið hátt á loft.

- Megi ljós Moradins lýsa og baða ykkur í birtu, hrópaði hann. Um leið varð brast mikil birta úr helgi tákninu, kubbildin sem stóðu hinum megin við varnargarðinn reyndu að skýla augunum en allt kom fyrir ekki. Heilög birta áss Regins brann í huga þeirra, brenndi kubbildin öll til bana.

Hetjurnar fylgdust agndofa með Regin. Þegar birtan hafði dvínað komu þær hlaupandi til hans og gerðu sig líklegar til að klifra yfir varnargarðinn. Rétt áður en þær kæmust alla leið yfir komu sex kubbildi hlaupandi. Fimm þeirra voru vasklega búin og betur vopnuð en verðirnir við innganginn en fyrir miðjum hópnum var eitt eldra kubbildi, sem var í rauðleitum kufli en undir honum grillti í ryðgaða flögubrynju.

- Farið héðan eða hljótið verra af, hótaði gamla kubbildið.

- Við förum ekki nema við vitum hvað hefur orðið um Ironboot dvergana, sagði Reginn ákveðinn.

- Dvergana? Nú, þeir eru … fóður, svaraði gamla kubbildið.

- Fóður? hváði Arikhaik.

- Já, hennar hátign nýtur þess að gæða sér á þeim.

- Hennar hátign? Hver er það? spurði Brjánn.

- Alizarinathrax er æðst hér og hún mun…

- Er hérna Alizarina eða hvað hún heitir, er það ekki þarna hálf-álfurinn sem lenti í vandræðum í haust í Mistmoor? spurði Varis.

- Nei, er hún ekki ljóti ógerinn sem býr í hæðunum hér fyrir sunnan? svaraði Brjánn, fljótur að skilja hvað Varis ætlaði sér.

- Auk þess, þú veist ekki hvernig það getur farið með meltinguna að éta dverga. Ekki viltu að drottningin þín fái illt í magann, bætti Brjánn við og átti erfitt með að halda aftur af lymskufullu glotti.

- Fá í magann?

- Já, dvergar eru tormeltir og geta valdið hræðilegum meltingartruflunum.

- Nei, svaraði gamla kubbildið og glotti grimmilega, ég hef ekki áhyggjur af því, enda er hennar tign dreki og hún mun éta ykkur. Farið nú héðan og komið aldrei aftur eða hafið verra af!

- Éttu þetta, svaraði Brjánn og dró í hendingskasti ör á streng. Hann skaut gamla kubbildið, sem flúði í ofboði undan hetjunum.

Þegar hetjunum hafði tekist að komast yfir varnargarðinn mætti þeim nýr vandi. Hellirinn skiptist í þrjár greinar. Þær völdu að fara í norður og fundu þar í hliðarhelli eins konar hof, sem hafði verið útbúið og gert til dýrðar einhverju hræðilegu goði kubbildanna. Reginn skoðaði hofið ítarlega og komst að því að hofið var til dýrðar Kurtulmak, hinum illa ás kubbilda sem leggur mikla fæð á gnomes.

Eftir að hafa rannsakað hofið héldu hetjurnar áfram í norður og komu að illa byggðri hurð. Brjánn opnaði hana en gætti ekki að sér, því um leið og hann greip í hurðina fann hann að fingurnir sukku í eitthvað ógeðsleg gums og fljótlega límdust fingur vinstri handar saman.

Á meðan Coren gerði vanmáttuga tilraun til að losa fingur Brjáns í sundur gekk Arikhaik inn í salinn handan dyranna. Þar voru um og yfir 20 kvenkyns kubbildi sem voru nakin og óttaslegin. Arikhaik reyndi að gera sig skiljanlegan og tókst að lokum að fá þær til að skilja að hann vildi þeim ekkert illt og ætlaði sér að frelsa þær. Hann fylgdi þeim út og þær voru frelsinu afar fegnar.

Hetjurnar héldu áfram dýpra inn í hellakerfið þar sem Brennda höndin hafði komið sér fyrir. Þær sáu þá hvar kubbildin höfðu reist annan varnargarð og höfðu safnast þar margir saman ásamt helstu leiðtogum sínum. Arikhaik lagði saman tvo og tvo og fékk snilldar hugmynd. Með hjálp Regins bjuggu þeir til skjöld úr hinum varnargarðinum, skjöld sem var nógu stór til að skýla þeim á meðan þeir ruddust fram. Þeir hlupu af stað og á meðan létu Brjánn, Varis og Coren örvum og kaststjörnum rigna yfir kubbildin handan við varnargarðinn. Þeim tókst að fella nokkra af andstæðingunum áður en Arikhaik og Reginn náðu að varnargarðinum. Þeir ruddust fram og tókst að brjótast í gegnum varnargarð kubbildana. Þar ruddust kubbildin fram og voru hvött áfram af leiðtogunum. Æðsti prestur þeirra, sem bar helgi tákn Kurtulmak, lagði áhrínisorð á Reginn og Arikhaik, á meðan stríðsmenn kubbildanna létu höggin dynja á þeim. Arikhaik og Reginn svöruðu fyrir sig en bölvun æðsta prestsins virtist hafa áhrif. Brjánn steig fram úr felustað sínum og skaut á elsta kubbildið. Varis kom á hlaupum á eftir vinum sínum og Coren lagði einnig sitt af mörkum og tókst að trufla æðsta prestinn nóg svo presturinn missti einbeitingu. Arikhaik og Reginn losnuðu undan bölvuninni. Um leið stökk Coren fram og réðst á æðsta prestinn en kubbildin voru hvergi nærri hætt, því einn æðsti stríðsmaður þeirra kom askvaðandi og bættist í hóp þeirra. Reginn kallaði fram mátt Moradins enn á ný og ljós dvergaássins brenndi marga þeirra. Arikhaik tók á sig stökk og réðist á besta stríðsmanninn, sem stóð nú einn eftir, þar sem elsta kubbildið hafði flúið öskrandi af hólmi. Arikhaik skiptist á nokkrum höggum en gekk fremur illa að ná góðu höggi á hann. Coren hljóp þá til og kom aftan að kubbilda stríðsmanninum.

- ARNARHNEFI, hrópaði Coren og kýldi í kubbildið. Síðan tók hann hringspark og smellhitti kubbildið í hnakkann. Stríðsmaðurinn féll niður. Það var fyrst þá sem Coren mundi að ernir hafa ekki hendur og þar af leiðir ekki hnefa.

Art_023.jpg

Hetjurnar hlupu af stað á eftir elsta kubbildinu og komu inn í öllu opnari og stærri helli, en fyrir honum miðjum var grófgerð og barnaleg stytta af dreka. Hetjurnar sáu glitta í kufl gamla kubbildisins þar sem hann hvarf norður úr hellinum. Í sömu andrá komu þrjár skaðræðisverur öskrandi inn í hellinn. Þær voru rauður á lit, líkar eðlum en með flugbeittar tennur og stóðu beingaddar upp úr hryggnum. Varis hljóp af stað og réðst fram gegn þeim, Brjánn og Coren skutu örvum og köstuðu kaststjörnum. Arikhaik og Reginn voru öllu svifaseinni. Varis náði ekki góðu höggi og verurnar voru fljótar að yfirbuga hann. Hetjurnar svöruðu þó snögglega fyrir sig og innan tíðar lágu verurnar í blóði sínu og Varis var stiginn á fætur, en hann var nokkuð særður.

Hetjurnar ákváðu að snúa aftur inn í hellakerfið í stað þess að elta gamla kubbildið enda höfðu þær heyrt enn stærri veru gera vart við sig þar. Þær skoðuðu marga hliðarhella og fundu meðal annars hirð kubbildakonungsins og tvær vistarverur þar sem um 30 kubbildi höfðu gert sig heimakomin í hvorri fyrir sig. Þá fundu þær einnig vopnageymslu kubbildana en þar var einnig viðarkista, þar sem undarlegan hlut var að finna. Í kistunni var þungur, gylltur einhvers konar steinn með fjólubláum æðum. Brjánn stakk þessum fjársjóði á sig.

Eftir nokkra leit komu hetjurnar inn í helli þar sem fjögur kubbildi gættu 16 dverga í tveimur klefum, tveir þeirra voru á fótum en hinir 14 lágu stífir, næstum eins og þeir væru dauðir. Hetjurnar yfirbuguðu kubbildin á skammri stundu. Reginn gekk að klefanum þar sem dvergarnir tveir sem voru uppistandandi og vakandi dvöldu. Þegar hann kom nær sá hann að annar dverganna var kvenkyns og virtist bera kennsl á gyllta hamarinn sem hann bar.

- Dorna Ironboot, geri ég ráð fyrir? spurði hann.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.