Rise of the Wicker King

Vætturinn og Illgresið

Darkrootforest.jpg

Grábjörn hafði illan byfur á herberginu sem stigið var í:

Skógur inni og grændís í kaupbæti. Grábjörn hafði haft kynni af slíkum verum, venjulega ber að varast allt sem þær segja, ekki lofa eða semja og alls ekki taka við gjöfum.

Herbergið sem þessi vera gerði sér samastað var ónáttúrulegur, líkt því að vera hefði skapað skóginn eftir teiknaðri mynd og ekki áttað sig á öllu því lífi sem hann kann að fela.

Hárinn á hnakkanum risu eftir því sem Grábjörn áttaði sig á því hversu ónáttúrulegt þetta var, eðlishvötin vildi vaða í veruna og kremja hana. Að halda aftur af sér var ekki erfitt því slíkar verur hafa oft undirbúið gildrur og galdra sér til varnar.

Möguleiki er á því að hún hafi einusinni verið vingjarnlegur skógarandi, en árhundruðin hafa breytt henni í eitthvað annað.

Ef hægt væri að leysa hana úr viðjum álagana gæti hún verið bandamaður, en annars væri best að vera ekki nálægt hvörki henni, né “systir” hennar hver sem hún kynni að vera.

View
Inn í myrkrið
Skuggar, reykur og tálsýnir

e08a104bac5e7947371d8f293f0c4263-d6krqlm.png

Eftir að hetjurnar höfðu hvílt sig vel þá var ákveðið að halda suður í skuggann. Grábjörn leiddi hópinn í gegnum dimman skóginn og fljótlega tóku allir eftir hve hljótt var orðið, hvergi heyrðust fuglar syngja eða annar eðlilegur kliður í skóglendi. Um hádegisbil tók að halla undan fæti og ekki leið á löngu þar til að skyggja tók svo um munaði. Svo virtist sem sólin sjálf næði ekki í gegnum laufkrónur trjánna. Seinni part dags komu hetjurnar niður í lítið dalverpi og ráku upp stór augu. Fyrir framan þær var skógur risavaxinna sveppa. Hattar þeirra breiddu úr sér og stofnarnir voru sverir sem hundrað ára gamlar furur.

- Eigum við að fara þarna í gegn eða þræða framhjá, spurði Coren. Ekki var laust við að ákveðins ótta gætti í rödd hans. Brjánn yppti öxlum.

- Ég get farið á undan og athugað hvort leiðin sé greið, sagði litli maðurinn.

Eftir nokkra umræðu var ákveðið að halda í gegnum sveppaskóginn. Því fylgdi sérkennileg tilfinning en hetjurnar komust klakklaust í gegnum þennan framandi og undarlega skóg.

Þegar hetjurnar náðu aftur inn í viðlendið var sól tekin að hníga og kominn tími til að finna næturstað. Á meðan hetjurnar gerðu sig líklegar að finna áningarstað heyrðu þær hratt fótatak nálgast. Hendur voru lagðar á meðalkafla og handföng vopna, galdraþulur kallaðar fram í hugann og áttu hetjurnar von á að eitthvað skrímsli myndi ryðjast fram úr þykkninu þá og þegar.

- Sýndu þig, kallaði Grábjörn.

Höfuð á ræfilslegri drýsilskonu birtist handan trjábols. Hún var klædd í slitna leðurskyrtu, vopnlaus og berfætt. Hún sagði eitthvað kokmæltri drýsilstungu, hetjurnar litu hver á aðra því engin þeirra skyldi hana.

- Talarðu norrænu, spurði Brjánn.

- Stríðsköngulærnar koma, svaraði konan á bjagaðri og hreimmikilli norrænu og færði sig aftur fyrir Coren og Grábjörn. Hún fylgdist síðan grandvör og stygg með trjákrónunum.

- Hvað áttu við? Hvaða stríðsköngulær, spurði Grábjörn.

- Vondu stríðsköngulærnar koma, svaraði konan og bætti við: – Þær taka alla og fara með þá. Alla vini mína úr þorpinu. Þær eru vondar.

- Hvaða þorpi? spurði Brjánn.

- Þorpinu mínu.

- Er það drýslaþorp? Geturðu fylgt okkur þangað? spurði Grábjörn.

- Já, en það er svolítið langt.

Eftir nokkra umræður var ákveðið að fylgja drýslakonunni heim í þorpið hennar. Hún hljóp af stað og hetjurnar, sem virtust hafa látið alla varúð og varfærni um lönd og leið, hlupu einnig af stað.

Skyndilega rigndi svefnálögum, tálsýnum og vefhnöttum yfir hetjurnar. Stríðsköngulærnar höfðu greinilega orðið hetjanna varar, enda ekki erfitt í ærandi þögn skógarins. Í trjákrónum fyrir ofan hetjurnar voru átta köngulær, allar á stærð við hesta. Ein þeirra var auk þess með tvo auka útlimi, sem líktust einna helst höndum. Hetjurnar náðu að verjast fyrstu ásókn köngulónna. Þá dró köngulóin með hendurnar fram bókfell og særði fram af bókfellinu sérkennilegt glitrandi tákn, allar hetjurnar féllu í álagatrans nema Brjánn. Hann faldi sig og reyndi að vega að köngulónum úr launsátri, en þær komu auga á hann og tókst að binda hann fastann í vef sínum. Ekki leið á löngu þar til allar hetjurnar voru rækilega bundnar og vafðar inn í vefkúlur. Drýsilskonan var hins vegar hvergi sjáanleg.

Köngulærnar fluttu hetjurnar nauðugar um langan veg í skóginum. Coren og Brjánn gerðu sitt besta til að reyna koma höndum á falin vopn á meðan Grábjörn gerði sitt besta til að leggja leiðina á minnið. Í morgunsárið komu köngulærnar að stórum víðivöxnum þrepapýramída. Í stað þess að halda upp á bygginguna, þá fundu köngulærnar hliðarinngang og færðu hetjurnar inn um hann, inn í átthyrnt herbergi, hlaðið úr rauðleitum steini, þar sem voru fleiri vefkúlur. Síðan yfirgáfu köngulærnar hetjurnar og lokuðu á eftir sér.

Hetjurnar náðu með útsjónarsemi og fimi að losa sig úr vefkúlunum og ekki leið á löngu þar til þeim hafði tekist að losa alla sem voru í herberginu. Þá kom í ljós að ásamt þeim voru þarna þrír skógarhöggsmenn úr eystri hluta Fernisskógar, Cyans, Runnley og Merker. Þá var þar einnig miðaldra kona, Seams, ungur drengur að nafni Ryan og loks eldri maður, hvers augu voru orðin hvít, klæddur í brúnan kufl sem enginn spurði að nafni. Að lokum var þar galdramaður að nafni Rowan. Eftir að hafa tekið stutta birgðastöðu kom í ljós að skógarhöggsmennirnir voru enn með viðaraxirnar sínar, Brjánn lét Seams hafa hníf sem og Ryan. Gamli maðurinn virtist, þrátt fyrir slæma sjón, bera ágætt skynbragð á það sem var að gerast.

Hópurinn ákvað að reyna finna leið út úr þessum sérkennilega þrepapýramída. Brjánn skoðaði dyrnar sem lágu í norður. Hvoru megin við dyrnar stóðu átthyrndar súlur úr sama rauða steini og veggirnir. Brjánn skoðaði dyrnar og tókst að aflæsa þeim. Hann opnaði þær og sá að handan þeirra var langur gangur. Hann læddist eftir ganginum og sá að við hinn enda hans voru aðrar dyr, með álíka súlum áður. Við dyrnar voru hins vegar gríðarlega margar köngulær og sneri Brjánn fljótlega aftur til vina sinna. Hetjurnar ræddu saman og fundu sniðuga leið til að eiga við köngulóasverminn. Brjánn læddist aftur inn ganginn en skyndilega hvarf gólfið undan fótum hans. Hann rétt náði að grípa í eina skriðbyttuna á veggnum og komast hjá því að hrapa niður á hvassa tveina. Á annarri súlunni var ankannalegt og fornt merki skorið í steininn. Þegar hetjurnar höfðu afgreitt köngulærnar ákvað Brjánn að skoða merkið nánar. Hann snerti það með hægri hönd og samstundis var sem einhver hefði lagt logandi heitan tein á framhandlegg hans. Brjánn kippti að sér höndinni og hljóðaði af sársauka.

- Hvað gerðist, spurði Grábjörn.

Brjánn lyfti erminni og sá að það var sem táknið hefði verið brennimerkt á handlegg hans. Rowan ákvað að kanna hversu skaðlegt þetta væri og uppgötvaði að einhvers konar álög fylgdu tákninu, en gat ekki rýnt almennilega í hversu öflug eða hve skaðlegt það var. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að halda áfram en hinar hetjurnar ákváðu að láta eiga sig að snerta þetta sama tákn.

Næst komu hetjurnar inn í annað átthyrnt herbergi, hvar mátti finna fjórar dyr sem lágu hver í sína höfuðátt. Þær ákváðu að opna allar dyrnar og komast að því hvert þær leiddu. Þær byrjuðu á því að opna í norður og þar var stuttur gangur en síðan hyldýpisgjá. Handan hennar glitti í dyr, rammaðar inn af átthyrndum súlum.

- Hvernig komumst við yfir, spurði Coren og leit undrandi á vini sína.

- Ég hef ekki minnstu hugmynd, svaraði Reginn og andvarpaði.

- Snúum aftur við og skoðum hvað er handan hinna dyranna, lagði Harkon til, hetjurnar kinkuðu kolli og sneru aftur í átthyrnda herbergið. Þar var ákveðið að opna vesturdyrnar. Þar beið þeirra stuttur gangur sem breikkaði síðan og lá að risavöxnum tvöföldum dyrum. Á annarri af átthyrndu súlunum við dyrnar var álíka merki og áður en þó ekki eins. Coren ákvað að snerta það, til að kanna hvort áhrifin yrðu þau sömu. Hann fann mikinn sviða í síðunni og þegar hann skoðaði sá hann að merkið var sem brennimerkt vinstra megin á kvið hans. Brjánn reyndi að dýrka upp lásinn á dyrunum en uppskar aðeins úr því lítið sár á fingrinum og mikla ógleði. Þá kom í ljós að lásinn var aðeins tálsins og dyrnar virtust því opnast fyrir aðrar sakir.

Enn héldu hetjurnar áfram og opnuðu austurdyrnar. Þar var gangur sem leiddi hetjurnar inn í annað átthyrnt herbergi. Í miðju herberginu var ansi raunveruleg stytta af sitjandi manni. Hann var með álíka merki og Brjánn og Coren, það glitti í annað undir hálskraga hans en hitt var sýnilegt á vinstri framhandlegg hans. Eftir stutt stopp opnuðu hetjurnar dyrnar í norður og sáu sér til mikillar undrunar að þar var skógarrjóður. Hetjurnar gengu inn og fundu fyrir miðju rjóðursins litla tjörn. Þar var ung og afar falleg kona sem bauð hetjurnar velkomnar.

- Komið inn í heilaga rjóðrið, fáið ykkur sæti. Hér getið þið áð og hvílt lúin bein, sagði konan. Hetjurnar spurði hana út í rjóðrið og styttuna í herberginu þar fyrir utan.

- Já, nágrannakona mín hefur þessi áhrif á menn.

- Nágrannakonan þín? hváði Coren.

- Já, hún er alltaf í vandræðum með þá, blessunin. Ætli hún eigi ekki jafn miklum vandræðum með þá eins og hárið sitt? svaraði konan og hló.

Brjánn starði dolfallinn á konuna og var heillaður af fegurð hennar.

- Viljið þið ekki hvíla ykkur hérna, spurði konan.

- Jú, já, ég vil það. Eigum við ekki að gera það, félagar?

- Nei, ég er ekki viss um það, svaraði Grábjörn.

- Heyrðu, af hverju eru engin dýr hérna? spurði Rowan. Konan leit snöggt til hans og var sem skugga drægi yfir andlit hennar.

- Hvaða, hvaða, sagði hún og reyndi að brosa.

- Nei, af hverju eru engin dýr hérna? endurtók Rowan.

- Hættu þessum spurningum. Ég vil að þið farið, hrópaði konan og greip um höfuð sitt. Brjánn reyndi að róa hana en konan rak hetjurnar miskunnarlaust út út rjóðrinu sínu.

Hetjurnar sneru því aftur inn í herbergið með styttunni. Þá var ákveðið að halda í suður, þar sem tók við þeim stuttur stigi og síðan lokaðar dyr. Var því ráðið að athuga hvað væri handan dyranna sem sneru í austur, en handan þeirra var gangur og aðrar dyr. Þar munaði minnstu að Brjánn lenti illa í því, hann uppgötvaði falinn hlera í gólfinu en tókst að komast hjá honum og opna dyrnar. Þar var enn annað átthyrnt herbergi og í því miðju var hrúga af gullpeningum. Rowan tókst með hjálp galdra að ná í nokkra peninga og fann að málmurinn var deigur. Hetjurnar sáu að það var einnig gildra í gólfinu handan dyranna og það tók drykklanga stund að komast inn í herbergið. Þá uppgötvuðu hetjurnar að gullhaugurinn var ekki allur þar sem hann var séður, heldur virtisti hluti af og hulinn einhvers konar slími.

Hetjurnar ákváðu að opna allar dyr í þessu herbergi einnig og komust að því að bæði norður- og suðurdyr leiddu inn á gang, sem lágu að dyrum með átthyrndum súlum beggja megin. Austudyrnar leiddu inn í stóran sal þar sem var mikill köngulóarvefur sem lá í kringum risastóran dropastein. Eftir stutta umhugsun var ákveðið að halda aftur inn í herbergið þar sem gullhaugurinn var og ræða hvað ætti til bragðs að taka næst.

14264153_521454557093_7947944537199438381_n.jpg

View
Ég týndi pennanum mínum.

Kæra dagbók.

Afsakið að ég hafi ekki skrifað í þig í langan tíma en ég týndi pennanum mínum. Ég var svo heppinn að Brjánn fann hann aftur. Hvernig hann fór að því hef ég enga hugmynd um. Ég hélt að hann hefði dottið úr bakpokanum mínum ofan í tröllaholuna.

Nóg um það. Förin gengur framar vonum. Ljós Moradrin skín skært og vísar okkur leiðina en nú liggur hún í átt að skugga. Við þekkjum öll hversu vel myrkrið umlykur allt ljós í námunum. Það er hins vegar einnig vel þekkt að þó ekki sjáist vel frá uppruna ljóssins þá sjá allir ljósið í myrkrinu. Ég lærði þá lexíu í bardaganum við drekann. Ekki vera ljósið, eltu ljósið.

Sól sígur nú til jarðar og ég þarf að undirbúa sólkveðjubæn. Ég afsaka aftur trassaskapinn í mér.

View
Sendiherrann

bf217c30ac891b1a09b2379908e3c208.jpg

Um leið og dyrnar lokuðust að baki hans dró Dökki Sendiherrann fram nokkur sérkennileg hráefni fram undan grágrænum kufli sínum. Hann lokaði augum og fór með öfluga særingaþulu. Milli handa hans safnaðist kynngismagnaður seiður, eiturgræn og gul orka dróst saman, myndaði grænleitan reyk sem umvafði Sendiherrann og flutti í einu hendingskasti milli vídda. Þegar Sendiherrann opnaði augun, leit han morknandi byggingar, að hluta til ofan í fúlu fenjavatni og svartfiðraða útverði Tágakonungsins sitja á vegstólpa skammt frá. Einn þeirra krunkaði hátt og hvellt, hljóðið bergmálaði þó ekki í slímugum veggjum húsanna, síðan hóf hann sig til flugs og flaug dýpra inn í rotnandi rústirnar. Sendiherrann nuddaði litla silfraða brjótnælu og sveif í humátt á eftir hrafninum. Í fjarska kvað við þruma og einhvers staðar innan úr rústunum öskraði einhver óvætt grimmilega. Sendiherrann virtist ekki láta það sig nokkru máli varða.

Eftir nokkra stund kom hann að kolsvörtum háum turni, sem virtist teygja sig upp í gegnum kolgráa himnafestinguna. Um leið og hann kom að turninum, lagði hann hönd á ískalda hrafntinnuna, sem turninn var reistur úr. Hann fór með stutta þulu og um leið og hann sleppti síðasta orðinu mynduðust rauðleitar æðar í berginu, sem runnu saman og mynduðu dyr. Sendiherrann gekk inn.

Fyrir innan var stór viðhafnarsalur. Útskornar súlur stóðu í röðum meðfram veggjum, mosi og illgresi teygðu sig upp á þær miðjar en vínviður vafði sig niður með þeim. Flugur sveimuðu í kringum fjólublá og rauð blóm, sem öðru hvoru lokuðust um skordýrin og krömdu þau. Föla birtu stafaði frá gróðrinum, öðru hvoru var sem eins konar sláttur færi um gróðurinn, sláttur sem átti upptök sín í hásæti salarins. Víðirinn hafði ofið sig um sætið og veruna sem sat í því. Húð hennar var skorpin, grá en grænir blettir hér og þar, eins og einhvers konar skófir hefðu náð að festa sig við veruna. Fingurnir hvíldu á sætisörmunum, langir og hlaðnir ríkulega skreyttum hringum. Andlitið var hulið bakvið viðargrímu en á höfðinu bar veran tígulega kórónu. Kufl hennar var einu sinni rauður en var nú morkinn og mölétinn.

Sendiherrann færði sig nær og kraup við þrepin að hásætinu.

- Herra, innsigli er rofið. Nú styttist í endurfæðingu yðar, sagði sendiherrann lágt. Veran í hásætinu leit upp, fjólublátt ljós kviknaði í augum hennar.

- Þú hefur gert vel, Sendiherra, sagði veran. Rödd hennar virtist hljóma fyrir aftan Sendiherrann.

- Útsendarar mínir hafa skapað nægan glundroða til að koma í veg fyrir andstöðu goða Norðurríkjanna, bætti Sendiherrann við og rétti úr sér.

- Þú hefur gert vel, Sendiherra. Enn eru þó þrjár keðjur bundnar fastar. Þú þarft að losa þær fyrir fyrstu vetrarnótt. Farðu til Vinjar Amons Tas. Undir vininni finnurðu Kepheliopel, hina fornu borg prestkonungsins Anephes. Í gröf hans finnurðu næsta innsigli.

Veran þagði um stund og starði á Sendiherrann. Myndir af sólbarinni borg, hvar lágreistir kofar stóðu innan um glæstar bronsilagðar hallir og sérkennilega pýramída, birtust í hugskotum Sendiherrans. Hann greip um höfuð sitt og gretti sig af sársauka. Eftir nokkur augnablik var þetta liðið hjá.

- Herra, verði þinni vilji, stundi Sendiherrann. Eftir stutta stund bætti hann við: – En hvað með hamskiptingana?

Reiðialda skall á Sendiherranum.

- Mig varðar ekkert um þá. Dreptu þá. Dreptu þá alla sem einn. Þeim mun hefnast fyrir að hafa bundið mig. Sjáðu til þess að hver einn og einasti þeirra fái sem kvalafyllstan dauðdaga. Sjáðu til þess að þeir fái að kynnast eigin meðölum.

Sendiherrann kinkaði kolli.

- Sendiherra, ekki láta neitt standa í vegi fyrir þér. Böndin eru veikust fyrsta dag vetrar, þegar nóttin er fyrst lengri en dagur. Ekkert má koma í veg fyrir að ég losni úr þessu ömurlega fangelsi.

Sendiherrann kinkaði enn kolli.

- Já, herra, ekkert mun stöðva mig.

- Það er eins gott. Það er eins gott, Anúín, því annars bíður þín sæti hér við hlið mér.

View
Inn í Fernisskóg
Í leit að Aranea ættbálkinum

BeorningSettlement.jpg

Eftir stutta dvöl í Mistmoor héldu hetjurnar niður Cragmoor á í leit að býli Korams, sem þær höfðu heyrt að stæði við bakka Djúpu. Brí Vatnssteins, skipstjóri Fljótadísarinnar, hafði samþykkt að flytja hetjurnar að vatninu. Á síðustu stundu ákvað Arikhaik að dvelja lengur í Mistmoor, sumpart til að aðstoða Olaf Arnesen við varnir þorpsins, ef ske kynni að Alizarinathrax sneri aftur, en eins til að vera foreldrum sínum innan handar.

Fyrsti hluti ferðarinnar var tíðindalítill og pramminn leið letilega áfram niður eftir ánni. Ræktarlönd urðu að skóglendi sem síðar varð að þykkum skógi, hvar trén teygðu rætur sínar út í vatnið. Þegar líða tók að kvöldi þykknaði upp og hvessti. Um miðnætti var komið hávaðarok og slagveðursrigning, svo Brí hrópaði á að hetjurnar að rifa segl og binda niður lausa muni. Sem betur fer var Fljótadísin enn á ánni, þannig að ekki gerði mikla öldu en þó fannst Harkoni erfitt að vera um borð og fannst óþægilegt að hafa ekki fast land undir fótum.

Veðrinu slotaði þar um morguninn og féll þá á dúnalogn og svartaþoka. Fljótadísin rann mjúklega inn á Djúpu þar sem pramminn staðnæmdist. Þokuna létti síðan þegar sól tók að skína og vind að hreyfa um hádegisbil og gat þá förin haldið áfram. Brí stýrði prammanum að syðri bakkanum en gat ekki lagt alveg að bakkanum. Fóru hetjurnar því í selflutningi á milli pramma og lands á lítilli kænu.

- Þið finnið býlið hér skammt sunnan, það ætti að vera slóði þarna við bakkann, kallaði Brí. Reginn þakkaði henni fyrir og gerði upp við skipstjórann áður en lagt var af stað fótgangandi með allan búnað í bakpokum eftir þröngum slóðanum. Þegar sól var tekin að síga komu hetjurnar að vegamótum, þar sem slóðinn hélt áfram austur meðfram bakkanum og hins vegar í suður, heima að voldugum skíðgarði. Reykur liðaðist upp í heiðan himinn á tveimur stöðum handan skíðgarðsins, þannig að hetjurnar ályktuðu að þær hefðu fundið býlið.

Coren knúði dyra og ekki leið á löngu þar til að stór maður kom að hliðinu. Skegg hans var grásprengt, hárið rakað í hliðum og eins konar hnappaflúr fyrir ofan eyrun. Hann leit stálgráum augum á hópinn.

- Hvað höfum við hér og hvað viljið þið hingað?, spurði sá gamli. Hetjurnar röktu erindi sitt og sýndu þeim gamla egg Aranea ættbálksins. Eftir nokkra umhugsun bauð hann þeim inn fyrir hliðið. Þar var að finna tvö kringlótt hús með strýtulaga þökum. Á milli þeirra var veglegt eldstæði en handan húsanna, hinum megin í garðinum, var lítið skríni tileinkað einhvers konar náttúruguðum og skógardísum. Á litlum fórnarsteini lágu 2 silfurpeningar, útskorinn rýtingur unninn úr beini og dauður spörfugl.

Hetjunum var boðið að setjast við eldstæðið og þar spurði sá gamli, sem hét Symbal, frekar út í sendiför hetjanna.

- Reyndar er nokkuð löng saga að segja frá því, svaraði Coren og setti sig í stellingar. Síðan hjálpuðust hetjurnar að við að segja frá öllu því sem á daga þeirra hafði drifið. Þegar sagan var öll fram sögð var sólin að setjast og bauð Symbal hetjunum því að dvelja þar um nóttina. Um kvöldið bauð hann fram aðstoð þeirra og bauð hetjunum að Grábjörn, þeirra besti veiðimaður, myndi fylgja hetjunum um skóginn, en aðeins gegn því að hetjurnar sverðu að vinna hvorki honum, býlinu né skóginum mein, sem þær og gerðu.

Síðar um kvöldið sagði Symbal hetjunum einnig sögu Korams, sem hafði rekist á Græntanna, verndara skógarins, fyrir nokkrum tunglum. Eftir þau viðkynni var hugur Korams brotinn. Stúlkan sem Koram bjargaði sagði að þau hefðu rekist á mannverur djúpt inni í skóginum sem hefðu sært fram verndarann og sent á eftir þeim. Reginn fannst þessi frásögn í meira lagi dularfull og reyndi að ræða við Koram en fékk lítið af viti upp úr honum.

Morguninn eftir var lagt af stað og hélt Grábjörn sig við þekkta veiðislóða. Ákveðið var að halda ekki langt inn í skóginn og snúa aftur til býlisins áður en rökkva tæki. Á leiðinni rákust hetjurnar á undarlega kjúklingseðlu með leðurblökuvængi. Þeim tókst að hrekja þessa sérkennilegu veru á brott án þess að til átaka kæmi. Þegar heim var komið var enn boðið til góðs málsverðar og skiptust heimamenn og hetjurnar á sögum. Þegar tungl var hátt á himin komið fékk Grábjörn Symbal til að leita ásjár Obad-Hai og spyrja ásinn hvað hetjurnar ættu til bragðs að taka. Symbal settist við bautasteininn og lagði fjaðrakórónu á höfuðið. Nokkrum andartökum síðar sneri hann aftur.

- Obad-Hai sagði: Dökki sendiherrann er snúinn aftur. Varist vef lyga og tálsýna djúpt suður í skóginum, sagði Symbal. Hetjurnar litu hver á aðra og reyndu að ráða í þessi torskildu skilaboð. Að lokum steig Grábjörn á fætur og kallaði til sín stóra gráa uglu. Hann sannfærði hana um að deila með sér því sem hún sæi á flugi yfir skóginn. Ugla hóf sig til flugs og flaug bæði langt og hátt. Hún kom auga á varðeld í um tveggja daga fjarlægð frá býlinu, sem og marga minni elda suðaustur í skóginum. Hins vegar hvíldi mikið myrkur eins og mara yfir skóginum þar sem hann mætti Arnarfellum, myrkur sem augu hennar sáu ekki í gegnum.

Morguninn eftir tjáði Grábjörn hetjunum frá því sem uglan hafði sýnt honum og var ákveðið að halda sem leið lá að varðeldinum. Þær þræddu á milli trjáa allan liðlangan daginn uns að þær komu inn í stórt rjóður, hvar spegilslétt tjörn var fyrir miðju. Engin tré uxu nærri bökkum tjarnarinnar og fengu hetjurnar strax illan bifur á henni. Þær héldu því för sinni áfram og bjuggu sér góðan næturstað hátt í trjákrónum skógarins. Um nóttina sáu þær þrjú tröll, tröllin viðruðu í allar áttir og virtust leita einhvers. Grábirni tókst að lokka tröllin á brott um stund með útsjónarsemi og þegar þau sneru aftur náðu Reginn að rugla þau nægilega mikið í ríminu til að þau misstu áhugann á lyktinni sem hafði upphaflega dregið þau að hetjunum.

Um morguninn ræddu hetjurnar hvað til bragðs ætti að taka.

- Við getum lokkað þau að tjörninni og yfirbugað þau þar. Ég vil umfram allt ekki að þau finni leiðina heim og ráðist gegn fólkinu mínu, sagði Grábjörn. HInar hetjurnar tóku undir með honum en voru ekki sammála um aðferðarfræðina.

- Kannski getum við rakið slóð þeirra, lagði Harkon til og að lokum varð það ofan á. Grábirni reyndist það ekki erfitt með hjálp hetjanna og um hádegisbil fundu þær bæli tröllanna. Eftir nokkra skipulagningu ýttu þær logandi trjádrumbi ofan í bælið og tókust síðan á við logandi tröllin, öskrandi af bræði og hræðslu, eitt í einu þar sem hetjurnar vörnuðu tröllunum útgöngu. Eftir nokkurn bardaga hafði hetjunum bæði að tekist að fella þessa stórhættulegu skrímsli sem og slökkt eldinn í bæli þeirra.

Hetjurnar tóku sér næturstað þar skammt frá. Um nóttina varð Harkon var við sérkennilegan hest, sem virtist geta talað við hann með hugskeytum. Hesturinn virtist kæfa eld í búðum hetjanna og bað Harkon um að kveikja engan eld í skóginum. Áður en honum tókst að vekja að fullu hinar hetjurnar hvarf hesturinn á brott en hetjurnar fundu þó að einhver griðarálög hvíldu á þeim og lögðust því aftur til hvílu.

Næsta dag héldu hetjurnar áfram för sinni. Við sólsetur komu þær að svæði þar sem gisnaði nokkuð á milli trjánna. Þá komu þær auga á sérkennilegan steinhring og fyrir miðju hans var stór fórnarsteinn. Þær rannsökuðu steinhringinn vel og fundu að einhver forn orka hverfðist um hringinn. Grábjörn ákallaði andanna í hringnum og færði þeim fórn, sem fékk hárin á hetjunum til að rísa og þær funnu áþreifanlega fyrir þessari sérkennilegu orku svæðisins.

Þegar hetjurnar ætluðu að yfirgefa svæðið fannst þeim eins og einhver væri að fylgjast með þeim. Eftir stutta eftirgrennslan steig stórt tré fram.

- Hvað… öm, eruð þið að gera… öm, hér? spurði tréð. Í stofninum mátti greina andlitsdrætti. Hetjurnar störðu orðlausar á veruna, en loks áræddu þær að svara og sögðu trénu frá för sinni.

- Ömmm, Aranea ættbálkinn hef ég… öm, ekki séð lengi. Þau bjuggu… öm, hér syðra. Ekki langt frá bæli Græntanna.

Reginn spurði þá úti í Græntanna og verndara skógarins.

- Græntanni er mikill og… öm, vís. Hann verndar skóginn, skógurinn er svæðið hans. Græntanni fór í sendiför fyrir… öm, hartnær öld og hefur ekki snúið aftur að mér vitandi.

Tréð vildi þá ekki sýna hetjunum bæli Græntanna. Coren spurði þá aftur út í ættbálkinn.

- Fyrir mörgum árum… öm, reistu þau Hulda Hofið suður í skóginum, þar sem skugginn mikli er nú. Þá dýrkaði þjóð þeirra… öm, átteygða gyðju. Lengi hefur verið hljótt þar í skóginum en nú þori ég ekki þangað.

Hetjurnar reyndu að krefja tréð frekari svara en það hafði ekki frá fleiru að segja. Því ákváðu hetjurnar að æja um nóttina innan steinhringsins og halda síðan suður inn í myrkrið næsta dag.

View
Faced the challenge and found wanting

(dwarven thoughts appear in english)

It was like Reginn wasn’t there. His mind kept wandering back to the fight with the red dragon. A fight which came so close to defeat. A fight where the dragon shrugged off every single spell Reginn threw at it. The power. The resilience.

It was a fire dragon. Perhaps it did have a spark of the fire of creation within it. Perhaps that is why none of the prayers worked.

During the journey back towards Mistmoor Reginn was in deep contemplation. Rarely speaking to anyone and not being much help if approached. The fight occupied so much of Regins’ thoughs he hardly heard what Dorna said about her dream. Because Reginn didn’t know why Moradin’s spells didn’t work on the fire dragon he didn’t know what Dorna was saying. He couldn’t put enough thoughts togeather to connect the dots. “Ég veit það ekki”, was all he could offer.

Facing that basilisk was unexpected. Regin wasn’t ready. His mind was still distant. He shouted some words and couldn’t even remember what he said after the fight.

Arriving in Mistmoor, seeing the faces of all the people. The fear in their faces when Brjánn mentioned the dragon, a thought struck Reginn. It was no small feat to face a dragon and live to tell the tale. This created a new spark of thought in Regins mind. A spark that promised to become an inferno.

View
Aftur til Mistmoor
Heim á ný

basilisk.jpg
Þegar hetjurnar voru búnar að koma öllum dvergunum fyrir á vögnunum settust Isarn og Dorna í ökumannsæti á hvorum vagni. Sólin seig aftur fyrir fjöllin og kastaði löngum skuggum yfir dalinn í þann mund sem Harkon leiddi hópinn af stað. Honum gekk brösuglega til að byrja með og átti erfitt með að finna rétta leið, sem leiddi að lokum til þess að asninn sem dró annan vagninn steig ofan í gjótu og fótbrotnaði. Reginn og Arikhaik gerðu að sárum hans en þetta tafði för hópsins nokkuð. Nóttin skall á og var ákveðið að halda engu að síður förinni áfram, til að reyna að komast eins langt og unnt var frá bæli kubbildanna og drekans.

Þegar hópurinn hafði gengið áfram í gegnum fjalllendið í hátt í sólarhring fann Harkon með hjálp Arikhaik loks rjóður þar sem ákveðið var að æja. Slegið var upp tjöldum, varðeldur kveiktur og ekki leið á löngu þar til að hetjurnar höfðu komið sér fyrir með mat. Ísarn dró sig reyndar í hlé og lagðist strax til hvílu. Dorna kom þá til þeirra Harkons og Regins.

- Mig langar að fá álit ykkar á nokkru, sagði hún á hinni fornu tungu dverga. – Mig hefur dreymt sérkennilega undanfarnar nætur. Drauma sem mér finnst eins og séu ákall ássins til mín. Áeggjan eða hvatning, ég veit það ekki. Mér finnst samt eins og ég þurfi að bregðast við.
Dorna þagnaði um stund.

- Mér finnst ég sjái mikla og dimma borg, hverjir virkisveggir og turnar gnæfa dimmir og grimmúðlegir yfir mér. Þetta háa vígi er listilega reist og minnir um margt á borgir vorar til forna. Virkið er umvafið bláu jökulstáli en samt stafar einhverja sérkennilega birtu af því. Að innan berst mér rödd, sem minnir mig helst á ásinn. Rödd sem segir:
„Sá var fjórum fjötrum bundinn,
fastur undir áhrínisorðum
með tiginbornum fórnum fjórum
fastur undir álögum fornum.
Hinn forni fjandi rís á ný. Hetjur, stíg fram und gunnfána ljóssins, und skjöld steðjans og hald fram gegn hinni miklu ógn.“
Hvað haldið þið að þetta merki?

Reginn dró augað í pung og renndi hönd í gegnum skegg sitt. Hann var hugsi um stund en sagði síðan:

- Veistu, ég hef bara ekki hugmynd um það.

Þau ræddu þetta stuttlega lengur en síðan lagðist Dorna til hvílu. Reginn ákvað að deila þessum upplýsingum með vinum sínum en enginn þeirra kannaðist við þennan kastala sem um ræddi og enn síður hinn forna fjanda sem um var rætt.

Næsta dag héldu hetjurnar enn áfram undir leiðsögn Harkons. Um hádegisbil gekk hópurinn inn í rjóður, þar sem kleifar risu og sköguðu fram úr fjallshlíð. Í kleifunum var hellir en fyrir framan hann voru fimm mjög svo fagurlega gerðar styttur, tvær þeirra sem sýndu kubbildi en hinar þjár ólík dýr. Brjánn læddist nær en þá kvað við ógurleg öskur innan úr hellinu. Fram skreið hræðileg eðla, á átta fótum og með beingadda upp eftir hryggnum. Kjafturinn var alsettur beittum tönnum og hvassar klær á framfótum. Verst voru þó augun, sem virtust brenna á kynngimagnaðri heift. Coren stökk samstundis fram til varnar vinum sínum og barði í dýrið. Veran færði sig framar og öskraði ógnandi enn á ný. Hetjurnar fundu berlega fyrir dulmögnuðum áhrifum augnaráðs þess.

- Þetta er basiliskur, hrópaði Brjánn, vera sem getur umbreytt manni í stein með augnaráðinu einu saman.

Arikhaik, Harkon og Varis hlupu allir fram, óhræddur, með brugðin vopn. Reginn fann hins vegar doða leggjast yfir sig og var sem fætur hans hefðu skotið rótum. Brjánn stökk hetjulega í skjól aftan við annan vagninn en dró þó fram bogann sinn. Bardagamennirnir létu höggin dynja á skepnunni og Brjánn nýtti færi til að skjóta einni ör í það og tókst þeim að fella dýrið. Reginn náði að hrista af sér doðaáhrifin og þakkaði Moradin að hafa ekki endað eins og kubbildin.

Eftir stutta umhugsun ákvað Harkon að athuga hvort hann fyndi eitthvað fémætt inni í helli verunnar. Hann gróf í gegnum úrgang skepnunnar og fann að lokum lítinn smaragð.

- Já, ég vissi það, hrópaði hann upp yfir sig og kyssti eðalsteininn. Sem hann sá síðan samstundis eftir þegar hann fann bragðið af úrgangi basilisksins.

Ferðin gekk að mestu áfallalaust fyrir sig eftir þetta. Harkon varð reyndar fyrir því óláni að stiga ofan á geitungabú þegar skammt var eftir til Mistmoor, en hann lét það lítið á sig fá.

Sólin var sest þegar hetjurnar sáu heim að þorpinu. Ljós loguðu í gluggum og gengu varðmenn eftir brúnni og kveiktu ljós í luktum. Þegar þeir urðu hetjanna varir var blásið í lúður og ekki leið á löngu þar til að þorpsbúar tóku fagnandi á móti þeim, ákafir í að heyra hvað á daga þeirra hafði drifið. Rúbert tók opnum örmum á móti Dornu og Ísarni og bauðst til þess að aðstoða þau við að koma dvergunum fyrir. Hann hóaði í tvo fíleflda karlmenn og fékk þá til liðs við sig.

- Finnið mig í fyrramálið, sagði hann brosandi við hetjurnar, njótið kvöldsins og reynið að slaka á. Þetta hefur eflaust við langt ferðalag. Ég var tekinn að óttast um ykkur og það gleður mig að sjá ykkur snúa aftur. Tölum saman í fyrramálið, þá getið þið sagt mér upp og ofan af ævintýrum ykkar.

- En viltu þá ekki vita af drekanum? spurði Brjánn. Þögn sló samstundis á mannfjöldann. Rúbert leit skelkaður á Brján.

- Hvað áttu við?

- Nú, rauða drekanum sem við börðumst við?

- Er hann á eftir ykkur? spurði Rúbert óttasleginn.

- Nei, reyndar ekki, svaraði Arikhaik og bætti við: En við vitum ekki hvar hann er.

Eftir nokkra reikistefnu var þó niðurstaðan að hetjurnar myndu ræða við Rúbert næsta dag. Flestar hetjurnar héldu því ásamt miklum fjölda bæjarbúa á Gyllta Turninn til Harads og eyddu kvöldinu við drykkju og að segja sögur. Arikhaik hélt til sín heima og hlaut þar mikinn reiðilestur föður síns fyrir að vanrækja skyldur sínar. Hann skipti þó fljótt skapi þegar hann sá pyngjuna sem Arikhaik færði honum, pyngju sem var full af gulli.

Morguninn eftir byrjuðu hetjurnar á því að heimsækja ýmsa kaupmenn og fundu fljótt að bæjarbúar voru afar ánægðir með þær. Þegar þær höfðu verslað nóg héldu þær inn í kirkju Pelors og fundu þar Diam Valgi, Rúbert og Dornu að spjalli. Rúbert benti hetjunum að koma nær og tjáði þeim að Dorna hefði sagt þeim hvað á daga Ironboot ættarinnar hefði drifið, en hann vildi gjarnan heyra frásögn þeirra. Arikhaik fór því í stuttu máli yfir ævintýri hópsins.

- Þið berið mikil tíðindi og um margt ill. Það er ekki gott að vita af rauðum dreka hér í nágrenni við þorpið og ljóst að við þurfum að finna leið til að hrekja hann á brott eða vega hann, sagði Diam Valgi. Síðan dró hann fram bókfell og réttir Coren.

- Ég hef nýtt tímann til að skoða þessar rúnir sem voru í klefanum undir námu Ironboot ættarinnar. Það er ýmislegt sem er á huldu en þó hefur mér tekist að grafa upp eitthvað af upplýsingum ykkur gæti þótt forvitnilegar.

Í fyrsta lagi þá eru rúnirnar á tungumáli Aranea kynþáttarins, en Aranea eru hamskiptar sem geta hleypt mennskum hami og orðið að köngulóm. Þau eru býsna slyngir seiðskrattar og hafa eflaust haft meira en næga þekkingu til að leggja öflug álög á klefann.

Í öðru lagi þá tengjast sumar rúnirnar ævafornum átrúnaði á frumaflaverur. Ég get því miður ekki farið nánar út í þetta, þar sem ég hef ekki til þess nægilega góðar upplýsingar í hofinu, en mig grunar að þær megi finna í bókasafni Hrafnabjarga.

Í þriðja lagi þá finnst mér eins og sá hlutur sem var í herberginu hafi verið miðpunktur eða orkustöð þeirra álaga sem á herberginu hvíldu.

Að lokum sýnist mér sem að þau álög sem voru bundin við klefann hafi verið hluti af álaganeti. Klefinn er á mikilvægum stað hvað galdraorku þessa svæðis snertis og mér sýnist eins og að aðeins hluti margra kröftugra rúna og galdrastafa hafi verið ritaðir, eins og að hluti þeirra sé einhvers staðar annars staðar.

Hetjurnar ræddu þessar upplýsingar um stund og benti Diam hetjunum á að skynsamlegast væri að ræða þessa framvindu mála við Holmarn Roka, yfirbókarvörð í bókasafninu í Hrafnabjörgum, sem er hof Iouns í fjöllunum fyrir ofan Ravenhold. Þegar hetjurnar spurðu Valgi um hvort hann vissi um kastala eða mikla borg uppi á Stórajökli, sagði hann að þar væri Járnborg, helsta vígi frostrisa, sem hefði verið unnið af dvergum í ánauð.

Brjánn sýndi Diam gyllta hlutinn með fjólubláu æðunum.

- Þetta er Aranea drottningaregg, sagði Valgi og bætti við: Mig grunar að ekki sé langt í að það klekkjist.

- En hvað ætlið þið til bragðs að taka? Hvað ætli þið að gera varðandi drekann? Hvað með þetta egg? Og hvað með bölvunina? Við þurfum að leysa öll þessi vandamál, sagði Rúbert.

Hetjurnar ræddu þetta fram og aftur og varð ofan á að byrja á því að reyna koma egginu til skila. Hugsanlega væri hægt að finna ættbálk þessara vera í Fernisskógi og ráðgerðu hetjurnar að finna rekkann Koram, að undirlagi Olaf Arnesen, og njóta leiðsagnar hans um skóginn. Hetjurnar ákváðu að finna sér far með pramma niður fljótið að vatninu Djúpu, og höfðu upp á Þjóðvari, hafnarstjóra þorpsins. Hann benti þeim á að ræða annað hvort við Gert Da á Timburdrekanum eða Brí Vatnssteins á Fljótadísinni. Hann sagði að Gert Da væri mjög góður kaupmaður en Brí væri slunginn skipstjóri. Hetjurnar ákváðu því að ræða við Brí.

Þær fundu Brí á Gyllta Turninum og eftir strangar samningsumleitanir, prútt og gagnkvæmar svívirðingar, tókst Arikhaik að sannfæra Brí um að sigla með hetjurnar samstundis niður ánna að Djúpu. Reyndar kostaði það þó nokkra gullpeninga en skilaði tilætluðum árangri.

View
Í gini drekans

Það þyrmdi yfir Coren. Hann hafði áttað sig á að hér væri ekki um venjulega sendiför að ræða þegar Diam sendi hann af stað. Það var eitthvað í svipnum á honum sem var óvenju… …alvarlegt, jafnvel fyrir Diam. Coren rifjaði upp samskiptin um leið og hann einbeitti sér af að ná stjórn á innri sálarstyrk sínum. Hann hugleiddi hreyfingar öldunganna í klaustrinu sem gátu sveigt frumkraftana að vilja sínum og hann hafði reynt að herma eftir en iðulega án árangurs. Kannski hér í dimmum helli kubbildana á ögurstundu gæti hann dregið fram eitthvað djúpt innan úr sál sinni. Ef einhvern tíman væri rétti tíminn þá væri það núna.

Coren lagði allt sitt í hverja hreyfingu og einbeitti sér algjörlega. Skvaldrið í bakgrunninum varð að suði. Sjónin varð þokukennd… …nei, það var ekkert að sjóninni, þetta var þoka… …inni í helli… …og undarlega staðbundin og undarlega formuð, næstum eins og hún formaðist eftir hugsun hans og hreyfingum. Coren lék höndunum í kringum þenna örsmáa skýjahnoðra og formaði hann í bolta sem snerist hraðar og hraðar. Smám saman kom í ljós andlit í boltanum, en ekki mennskt heldur ófrýnilegt, eiginlega líkt dreka. Skyndilega sprakk blotinn og drekahöfuðið opnaði skoltinn og í sama mund dundi um hellin skerandi og drungalegt öskur ólíkt nokkru sem Coren hafði áður heyrt. Tímin var í nánd. Coren fann með sér að framundan væri mesta prófraun lífs síns…

View
Interlude: Útsendari Tágakonungsins
Í þjófagildi Miramar

_Thief__the_old_town_044752_.jpg

Bríar sat efst í siglutréi og fylgdist með mannfjöldanum liðast milli Eldingarinnar og Stolt Hafgúunnar, hvort tveggja forn þrímastra hásigld fullreiðarskip sem fyrir löngu höfðu skilað hlutverki sínu og höfðu legið svo lengi sem elstu íbúar Míramar mundu bundin við bryggjur. Í raun voru skipin nú lítið annað en íbúðarhús fjölmargra einstaklinga og fjölskyldna, hverjum og einum hafði tekist að eigna sér lítið rými neðanþilja.

Fæstir þeirra sem áttu leið milli skipanna tveggja vöktu athygli Bríars, flestir báru ýmis teikn um að þeir væru íbúar borgarinnar, sumir voru með hvalbein í boðungum kápa og hettusláa, aðrir báru þríhyrnda leðurhatta á höfði og enn aðrir voru merktir hinum ýmsu gildum borgarinnar með áberandi hætti. Þeir örfáu ferðamenn sem gengu hjá voru allir með svarta flauelsslaufu á upphandleggnum, til merkis um að þeir hefðu þegar greitt skattinn sem Fjögurra-fingra Söndru hafði innleitt í borginni. Leiðtoga þjófagildisins hafði sagt þjófunum að það væri hlutverk nýliða að ræna ferðmenn, en eldri þjófarnir ættu að sinna öðrum málum, einkum ólöglegum dýraötum, eiturlyfjasölu og rukkun skulda. Þó að margir þjófar hefðu verið mótfallnir þessari tilhögun Söndru í fyrstu, þá hafði þessi skipulagning þjófagildsins haft þau áhrif að þjófarnir höfðu aldrei haft það jafn gott og nú og óttuðust hin gildi völd og ríkidæmi Söndru.

Þá gekk dökkklæddur maður inn á þröngt strætið. Hann bar ekki merki um að hafa greitt skattinn en á bakinu hafði hann tvö langsverð. Hann smeygði sér á milli fólks og framhjá sölubásum kaupmanna og snákaolíusölumanna og virtist ekki gefa þeim mikinn gaum. Bríar renndi sér hratt niður reipi og lét sig siga hljóðlega niður á bryggjustrætið, stjórnborðsmegin við Eldinguna. Hann fylgdi í humátt á eftir manninum og tók eftir að hann bar þunga pyngju í belti. Bríar spratt friðarböndunum á rýtingnum sínum og vonaði að sá dökkklæddi myndi fljótlega bregða sér út af bryggjunni á milli skipanna. Sá dökkklæddi rölti áfram og arkaði sem leið lá að Kattarstræti. Þar stóðu hús sem einna helst minntu á kubbaleik barna, því þau höfðu verið byggð með mismunandi hætti á ólíkum tímum úr því hráefni sem var fáanlegt. Fyrir vikið voru húsin við götuna líkari illa skipulögðu bútasaumsteppi.

Það hentaði Bríari vel. Ekki nóg með að Kattarstræti hefði að geyma marga rangala og skúmaskot, heldur var stutt þaðan í fylgsni þjófagildisins ef allt færi á versta veg. Hann færði sig því fimlega nær og gætti vandlega að því að sá dökkklæddi yrði hans ekki var. Í þann mund sem Bríar var að gera sig líklegan til að teygja sig eftir pyngju ferðamannsins beygði hann inn i hliðarstræti og ýtti þar stórum, skítugum kassa til hliðar. Bríar fylgdist gáttaður með, því aðeins meðlimir þjófagildisins vissu af þessari leið niður í holræsin. Öllu verri var sú staðreynd að í gegnum þetta holræsi hafði Bríar hugsað sér að fara til að komast í fylgsnið.

Sá dökkklæddi var ekki lengi að dírka upp lásinn á grindinni og skreið niður í ræsið. Bríar beið tíu andardrætti áður en hann hætti sér nær. Hann læddist eins varlega og honum var unnt og kíkti niður. Holræsið var svart sem að nóttu og jafnvel geislar hnígandi sólarinnar megnuðu ekki að lýsa upp nema rétt efst. Bríar dró andann djúpt og leit í kringum sig. Hann var ekki viss um hvað væri rétt að taka til bragðs en að lokum varð forvitnin yfirsterkari. Bríar lét sig síga varlega ofan í holræsið.

Það tók augu hans nokkra stund að venjast myrkrinu en þegar hann tók að sjá örlítið fram fyrir sig, þakkaði hann álfsdurtinum sem hafði nauðgað móður hans. Bríar mundi ekki mikið eftir móður sinni, annað en að hún var rauðhærð. Hann hafði verið 3 ára þegar hún hengdi sig í reiðaslá í Belgingi, einu af kaupskipum goðans í Hrafnabjörgum. Sandra hafði tekið Bríar að sér. Hann vissi þó að móðir hans hafði verið forfallinn sjónarfafíkill, og fyrir vikið kaus Bríar heldur að ræna áfram ferðamenn en að selja eiturlyfið þegar honum hafði verið boðið það.

Einhvers staðar nokkru fyrir framan Bríar opnaðist lás með hvellum smelli. Síðan var dyrum hrundið upp og skær birta ruddist inn í holræsið. Bríar bar hönd fyrir sig og sá hvar skuggamynd dökkklædda mannsins hvarf inn um dyrnar. Bríar læddist áfram. Sverðaglamur, hróp og kvalaóp bergmáluðu skyndilega. Bríar hljóp af stað. Hann stökk yfir strengjagildruna skammt frá dyrunum og gætti þess að stíga á réttar flísar þegar hann var kominn inn fyrir dyrnar. Ómar, einn af lífvörðum Söndru, lá í blóði sínu á gólfinu, kviður hans hafði verið ristur upp og hann virtist vera reyna halda innyflunum inni, en þegar Bríar kom aðvífandi sá hann fljótlega að Ómar andaði ekki. Hann flýtti sér því áfram í átt að sal Söndru.

- Þú veist af hverju ég er kominn, Fjögurra-fingra Sandra, sagði sá dökkklæddi djúpri röddu.

- Já, mig grunar það, hr. Láran, svara Sandra. Hún sat í mjúkum stól hinum megin í salnum og hr. Láran fyrir framan hana. Í þann mund sem Bríar kom hlaupandi var hr. Láran að þurrka blóð af sverði sínu.

- Sverðu hollustu þína við Tágakonunginn? spurði hr. Láran og beindi blóðrefli sínum að Söndru.

Það varð allt svart fyrir augum Bríars. Hann fann blóðið í æðum sínum krauma og hann öskraði af bræði. Hann herti tak sitt á rýtingnum og tók undir sig stökk. Bríar kom aftan að hr. Láran og lagði til hans.

Hr. Láran sneri sér leiftursnöggt við og hjó með langsverðinu sínu rýting Bríars til hliðar. Bríar fann þá eitthvað ískalt stingast inn í sig, upp undir bringspalirnar. Hann leit niður og sá hvar blóðrauður klútur lá við fætur sína, svo kom hann auga á hnífinn sem hafði verið stungið í bringu sína, hvers skaft var lagt fílabeini útskornu í líki vínviðar sem hringaði sig um drekahöfuð. Blóð féll í stríðum straumi úr sárinu og Bríar fannst erfitt að anda. Hann leit upp í augu hr. Lárans. Í fyrstu virtust þau græn, eins og döggvotur fjallamosi, síðan dró úr styrk litsins og þau fölnuðu, urðu dökk og köld. Bríar missti takið á rýtingnum sínum og féll ofan í svart og endalaust myrkur.

View
Dvergurinn & Drekinn

Arik man óljóst eftir bardaganum við drekan.

Hann minnist þess að hafa gengið vasklega á mót við drekan og sagt… eitthvað. Eftir það kom vítiseldur úr kjafti drekans og blindaði hann.

Líklegast hafði hann hent sér til hliðar en endaniðurstaðan var að það er ekki lengur hægt að sauma fötin. Hálfnakti dvergurinn við hliðina á honum virtist ekki geta hætt að öskra á meðan bardaganum stóð. Eftir að hafa lagt til drekans með sverðinu þá hoppaði drekinn á hann og opnaði með klær eins og sverð ásamt kjafti fullum að hnífum.

Arik var ekki viss hve lengi hann hafði legið í valnum, en sá Coren liggjandi í valnum og drekinn ekki í augsýn, dvergurinn sem var á hnjánum við hliðina á Arik hlaut að hafa hrakið hann á brott. Arik kastaði sverðinu til hans og gaf honum litla blessun í kaupbæti svo hoppaði hann á Coren gaf honum part af eldi lífsins til að hífa hann á fætur.

Sögurnar voru ekkert að grínast með það að drekar safna fjársjóði, þessi hrúga sem drekinn skildi eftir sig var enginn brandari, drekinn á líklegast eftir að gera atlögu að þeim sem halda í sjóðin, spurning hvort hægt sé að undirbúa sérstakt svæði til að berjast við hana.

Dvergarnir eru óhultir og enginn hefur látist. Góður dagur.

View

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.