Gragmoor dalur - Staðir og íbúar

gragmoor.png

Gragmoor dalur markast af Stórjökulsfjöllum í norðri, Hrafnatindum í austri og Arnarbjörgum í suðri. Í raun er um að ræða nokkra dali en Stórjökulsfjöll teygja sig víða suður og setja mark sitt á landslagið. Dalurinn dregur nafn sitt af Gragmoor ánni sem rennur um svæðið og fellur í Langasjó við borgina Miramar. Í dalnum eru tvö vötn, annars vegar Tröllavatn og hins vegar Djúpa. Svæðið er að miklu leyti skógi vaxið.

Veðurfar er norrænt, hlý og björt sumur en kaldir og dimmir vetrar. Dýralíf er fjölbreytt, helstu rándýr eru birnir, uglubirnir og úlfar. Við rætur Stórjökulsfjalla er meira um gaupur og fjallaljón en það eru fáséðar tegundir sunnan við ánna. Þá eru elgir, hjartardýr og önnur smærri spendýr einnig algeng. Barr og grenitré eru algengustu viðartegundirnar en þær gefa örlítið eftir syðst í dalnum fyrir suðlægari tegundum.

Helstu húsdýr eru geitur, nautgripir, sauðnaut og hænsnfuglar. Þá eiga margir ýmist hest eða asna sem þeir ferðast á en útverðir Ravenhold fara um á drake’um. Þeir eru eins konar riddarar svæðisins og fara um það, sér í lagi undir Stórjökulsfjöllum til að fylgjast með og hindra uppgang drýsla og orka.

Í hellum undir jöklinum eru bæði tröll og ættbálkar orka og drýsla. Þá hefur sést til hvíts dreka fljúga yfir dalnum á veturna en af öðrum illvættum er lítið að segja. Sögur herma að í djúpt í Fernisskógi eigi ævaforn grænn dreki sér bæli en ef svo er, þá hefur enginn séð hann og lifað þá sjón.

Sviptinornartindur

Sviptinornartindur er gömul og kulnuð eldstöð við Mistmoor. Fjallið er í raun ekki hátt, þó að það setji mark sitt á umhverfið við þorpið. Það tekur um klukkustund að ganga upp og niður. Þaðan er gott útsýni yfir Hláturhæðir og út að Djúpu.

Í fjallinu og hæðunum í kring eru gamlar námur. Ekki er lengur fýsilegt að grafa eftir málmum og eðalsteinum. Hópur dverga fluttist til Mistmoor fyrir löngu síðan og stundaði þar farsælan námugröft en þegar námurnar tæmdust héldu dvergarnir enn lengra norður. Stundum hafa ýmis dýr eða jafnvel drýslar tekið sér bólfestu í námunum og fylgjast útverðir þorpsins vandlega með þeim til að koma í veg fyrir að það skapi hætti fyrir íbúa.

Hlíðar tindsins eru viði vaxnar og er oft hægt að finna þar stóra veiðibráð, einkum hirti og dádýr.

Craig’s Crossing

Næsta þorp við Mistmoor er námuþorpið Craig’s Crossing, en það stendur í hlíð með útsýni yfir dalinn. Þar búa um 200 manns sem hafa flestir á einn eða annan máta viðurværi sitt af námugreftri. Málmur og kol eru unnin úr fjöllunum í kringum þorpið og flutt á vögnum til Mistmoor, þaðan sem hvoru tveggja er ferjað um borð í pramma og flutt niður Gragmoor ána til Ravenhold.

Fyrir miðju þorpsins er gistiheimilið Brjálað Tröllið, en það reka hjónin Megan og Tracy. Þær eru báðar kraftmiklar og njóta virðingar íbúa. Eftir að Tomasz lét af störfum sem ráðsmaður þorpsins má segja að það hlutverk hafi fallið í hendur þeirra. Gistiheimilið er á tveimur hæðum en neðri hæðin er niður grafin.

Flest húsanna eru steinihlaðin, með bröttum þökum og kringlóttum gluggum. Fyrir miðju þorpsins er brunnur þangað sem vatn er sótt nær daglega. Þorpið stendur við eina kvísl Cragmoor og er hengibrú yfir kvíslina. Brúin er þannig gerð að íbúar geta dregið hana aftur og ýmist komið í veg fyrir að hægt sé að fara yfir eða tryggt að vorleysingar hrifsi hana ekki með sér. Brúarstólparnir eru glæsileg völundarsmíði, unnin af dvergaflokki sem eitt sinn starfaði í námunum. Þeir hafa staðist öll flóð hingað til.

Hláturhæðir

Hæðlendið á milli Mistmoor og Craig’s Crossing er kallað Hláturhæðir. Þar eru fjölmargir grasivaxnir hólar og litlar hæðir. Á sumum stöðum má sjá ryðguð sverð eða brotna skildi standa upp úr jörðinni en fyrir mjög löngu síðan á að hafa farið fram mikil orrusta og segja sumir ferðamenn að þeir hafi heyrt kaldan hlátur bergmála í hólunum á dimmum kvöldum og einmanalegum nóttum.

Í hæðunum er grafreitur Neuraxis, ills drekanás sem var vakinn upp fyrir nokkru og kom við sögu hetjanna frá Mistmoor. Margir hafa reynt að koma búi á laggirnar í hæðunum en það hefur aldrei gengið eftir og íbúar Mistmoor segja að það sé vegna bölvunar sem Neuraxis lagði á svæðið.

Fernisskógur

Fernisskógur þekur stóran hluta dalsins. Viðurinn er beggja megin við Djúpu og ána, norðanmegin eru slóðar og þar hafa margir viðurværi sitt af skógarhöggi. Sunnan við ána er skógurinn ósnortinn og hefur fengið að dafna óáreittur svo árhundruðum skiptir.

Lítið er vitað um skóglendið sunnan við ána. Sagt er að grænn dreki eigi sér bæli djúpt í iðrum skógarins en enginn hefur séð drekann. Þeir sem hafa hætt sér of djúpt inn í skóginn snúa ekki aftur og fer það orð af honum að einhver álög hvíli á skóginum.

Norðanmegin eru fura og barrtré. Þar má rekast á elgi, hirti, birni, uglubirni og úlfa. Jafnvel má koma auga á ýmsar fáséðari verur, eins og dryads og treants.

Stórjökull

Fyrir norðan dalinn er mikill fjallgarður. Brattar hlíðar og miklir hamraveggir hvar ernir, fálkar og kondórar ráða ríkjum. Milli fjallanna ryður Stórjökull sig fram í miklum og sprungnum skriðjöklum. Þar kallast á dimmir klettaveggir og náhvítur jökullinn.

Stórjökull er erfiður yfirferðar en ættbálkar barbara hafa gert sér þar heimili og fara um á skíðisskipum með miklum seglum. Á veturna sækja þeir niður skriðjöklana og búa í skinntjöldum í þröngum jökuldölunum undir jöklinum. Á sumrin veiða þeir seli, rostunga og hvali þar sem jökullinn mæti hafinu langt fyrir norðan fjallgarðinn.

Tröllamýri

Tröllamýri er vestan við Mistmoor. Fyrir miðju hennar er Tröllavatn en mýrin og vatnið draga vatn sitt af ættbálki trölla sem haldið hefur til í mýrinni svo lengi sem elstu menn muna. Margoft hafa verið sendir leiðangrar í mýrina til að halda aftur af tröllunum og jafnvel bola þeim úr mýrinni en allt hefur komið fyrir ekki.

Mýrin er erfið yfirferðar og þar er mikið mý. Þar vaxa kræklótt tré á þeim fáu eyjum sem standa upp úr ökkladjúpu og ísköldu vatninu. Oftar en ekki liggur dalalæða yfir öllu svæðinu og fúl fenjalykt.

Tröllamýri kom nokkuð við sögu hetjanna frá Mistmoor. Síðastliðin sumur hafa tröllin látið bera meira á sér og sótt út fyrir mörk mýrlendisins.

Ravenhold

Ravenhold er höfuðborg Gragmoor-dals. Þar er Hrafnhóll, kastali Unnars goða og aðsetur riddara hans. Þar er einnig aðsetur biskups heilagrar kirkju Pelors. Borgin hefur stækkað mikið á undanförnum árum og teygir sig nú niður hlíðarnar að Gragmoor ánni. Fyrir vikið eru borgarhliðin nokkuð fyrir innan ystu byggðina.

Borgið stendur í hlíðum Hrafnabjarga og er byggð á þremur pöllum. Neðarlega eru kaupmenn og gistiheimili. Þar er einnig stærsta markaðstorg Gragmoor-dals og á sumrin kemur þangað mikill fjöldi bænda og farandkaupmanna, sérstaklega í kringum sólstöðuhátíðina. Hús eru flest svipuð þeim í Mistmoor, reist á steinihlöðnum grunni en efri hæði eru byggðar viði.

Til að komast upp á annan pallinn þarf ýmist að feta upp hlykkjótan vagnaslóða eða fara með kláfi. Mikið hlið lokar af þennan hluta borgarinnar og þó að það standi yfirleitt opið á daginn er lokað við sólsetur. Í þessu hverfi stendur kirkja Pelors, með þrjár gullislegnar turnspírur. Þá eru þarna einnig hýbýli riddara og verslanir með dýrari hluti. Mun fleiri verðir eru á ferli í þessum hluta borgarinnar en í þeim lægri.

Loks er það efsti pallurinn, þar sem kastali goða stendur. Kastalinn er ævaforn, með stórum miðturni og öflugum virkisvegg og nokkrum minni turnum. Þarna er aðsetur goðans og fjölskyldu hans, sem og braggar hermanna. Aðeins þeir sem hafa fengið til þess sérstakt leyfi frá goða mega búa á efsta pallinum. Undir kastalanum er mikið hellakerfi sem teygir sig langt undir Hrafnabjörg og er sagt að þangað geti allir íbúar Gragmoor-dals leitað skjóls komi til árásar, en á það hefur aldrei reynt.

Gestum er skylt við komu til borgarinnar að gefa sig fram við yfirvöld í borgarhliðum. Þar er hægt að fá leyfi til að stunda verslun á markaðstorgum og bera vopn. Öll notkun galdra innan borgarmúranna er stranglega bönnuð við hörðum viðurlögum.

Miramar

Miramar er hafnaborg sem stendur við innhafið Langasjó. Miramar hefur á sér slæmt orð en þangað sækja kaupmenn hvaðan æva að og freistar það margra, eðli málsins samkvæmt þá sækja misjöfnu sauðirnir kannski þangað í ríkari mæli en annað.

Miramar stendur að hluta til í Langasjó, húsin eru byggð á stólpum og bryggjum, íbúar fara á milli á brúm, hengibrúm, reipum og kláfum og er stundum sagt að borgin hafi jafn mikið verið byggð upp á við sem og út á við. Húsum er staflað hvert ofan á annað og um margt minnir skipulagið á margmastra skip.

Bryggjurnar eru margar og á góðum sumardegi geta legið allta að þrjátíu skip við bryggjur og eru þá ótalin þær kænur, duggur og prammar sem leggja að undir húsum eða í földum lægjum.

Í borginni eru nokkur gildi og eru þar öflugust gildi kaupmanna annars vegar og hins vegar gildi handverksmanna. Gildi halda uppi lögum og reglu og ferst það misvel úr hendi.

Gragmoor dalur - Staðir og íbúar

Rise of the Wicker King tmar78