Mistmoor - Staðir og íbúar

mistmoor-quarry.jpg

Mistmoor er lítið þorp, rétt tæplega 500 íbúar, og stendur það þar sem Gragmoor ár kemur saman við Sviptinornará. Ekki er hægt að sigla kænum og prömmum lengra upp ána og fyrir vikið er oft mikið líf í kringum bryggjurnar á sumrin. Á veturna leggur ána og þegar frost er hart má oft sjá sleða, ýmist dregna áfram af hestum eða keyrðir áfram af vindi, á ísnum.

Þorpið er þannig miðpunktur svæðisins, þangað koma bændur með vörur sínar og stunda verslun. Þá eiga ævintýramenn oft ferð um svæðið þegar þeir eru á leið norður til Stórjökulsfjalla.

Gold Tower Inn

Gold Tower Inn er rekið af halflingnum Harad Havsum. Hann slóst á sínum tíma í lið við hetjurnar frá Mistmoor. Þegar hann settist í helgan stein nýtti hann hluta fjársjóðs síns til að fjárfesta í gistihúsinu. Hann eftirlætur Rósu, dóttur Söru sem átti áður gistihúsið, að mestan hluta að sjá um reksturinn en nýtur þess sjálfur að dvelja ýmist í ölstofunni eða sitja á veröndinni fyrir framan og reykja.

Gistihúsið er í þremur húsum, austast er stórt hest- og vagnahús. Þar starfa þau Tom og Brie, en þau leggja sérstakan metnað í að hugsa vel um fararskjóta ferðamanna. Fyrir örfáa silfurpeninga er hægt að fá þau til að bera feiti á aktygi og hnakka.

Gistiskálinn er á tveimur hæðum. Í risinu eru kojur sem hægt er að leigja fyrir 5 sp nóttina. Rúmin er ágæt en gestir þurfa að gæta að eigin föggum. Hálmur eru í dýnum og ullarteppi. Gluggar eru í kvistum og stöfnum. Þaðan er ágætt útsýni yfir þorpið og sveitirnar. Á neðri hæðinni eru herbergi. Þar eru rúm með góðum dýnum og þægilegum teppum. Ekki er hægt að læsa hurðum en gegn vægu gjaldi er hægt að fá leigða lása á nokkuð sterklega kistla sem standa við hvert rúm.

Ölstofan er vestast. Hún er stór og á tveimur hæðum. Fyrir miðri neðri hæðinni er svið og oft má finna þar farandsöngvara og – sögumenn skemmta gestum. Hringborð standa í kringum sviðið á neðri hæðinni en á efri hæðinni eru básar þar sem gestir geta notið meira næðis en er á neðri hæðinni. Við suður- og vesturhlið hússins er stór verönd og er hægt að opna margar dyr út á þær. Þaðan er gott útsýni yfir Mistmoor sem og Sviptinornartind.

Ölstofan er einna þekktust fyrir að hafa verið samkomustaður hetjanna frá Mistmoor. Þá hefur Harad einnig lagt rækt við að bjóða upp á eins ólíkar tegundir öls og finna má í löndunum þar í kring.

Hof Pelors

Fyrir 30 árum var hofið saurgað og tók það kirkjuna mörg ár að hreinsa hofið að öllu leyti. Í dag stendur það eins og áður en Anúin opnaði þar hlið til neðri vídda, gyllta spírur teygja sig til himins eins og sólargeislar. Fyrir ofan kirkjudyrnar er stór steindur gluggi í formi sólar, rúðurnar eru fölbleikar og þegar kvöldsólin skín inn um gluggann er kirkjuskipið baðað rósrauðri og heilagri birtu.

Í dag er þar æðsti prestur Rúbert Anon. Rúbert kom frá Craig’s Crossing og hefur hlotið skírn innan kirkjunnar. Hann hefur gott orð á sér og hefur unnið ötullega að því að byggja upp og styrkja söfnuðinn í þorpinu. Hann veitir hverjum þeim sem játað hefur trú á Pelor alla hjálp sem hann getur veitt og selur þeim sem ekki játa trúna en ganga á vegum hins góða bæði lækningaseyði og blessanir.

Klaustur Iouns

Klaustrið stendur á suðurbakkanum og sést vel úr þorpinu. Það er reist á hlöðnum grunni en efri tvær hæðirnar eru byggðar úr við fengnum úr skóginum í kring. Allir stafnar, mænir og gluggatré eru skreytt með myndum og táknum úr hinum ólíku sögum og ævintýrum. Þak klaustursins er bratt en litlir kvistgluggar eru á því og oft má heyra berast þaðan ýmist söng eða samræður munkanna.

Í klausturgarðinum stendur tignarleg eik og oft má finna munka sitja þar og blaða í gegnum bókfell og handrit. Munkarnir starfa við að rita og endurrita sögur, útbúa handrit og fyrir vikið hafa margir bændur á svæðinu gott upp úr því að selja munkunum kálfskinn.

Æðstur munkanna er Diam Valgi, hálfur álfur sem ólst upp í Ravenhold. Hann er kominn til ára sinna og eyðir löngum stundum á bókasafni klaustursins, þar sem hann sinnir ýmsum rannsóknum fyrir reglu Iouns. Aðtoðarkona hans, Illia Konig, er ung stúlka úr þorpinu.

Hægt er að kaupa næturgistingu í klaustrinu en þá er sofið á fletum í stóru herbergi í kjallara klaustursins. Morgunmatur fylgir en þar er um að ræða hafragraut sem snæddur er í matsal munkanna. Á sumrin eru þar oft nokkrir gestir, sérstaklega ef Gold Tower gistiheimilið er fullt eða ferðamenn tíma ekki að borga uppsett verð Haradar. Gistingin í klaustrinu kostar 2 sp.

Býli Toms gamla

Skammt frá brúnni yfir Gragmoor á stendur býli Toms gamla. Tom hefur búið býsna lengi í Mistmoor og er meðal elstu íbúa. Hann er reyndar hættur búskap og hefur Tom yngri tekið við. Á bænum eru þeir einkum með naut og beljur og hafa síðastliðin ár haft þó nokkuð upp úr því að selja mjólk, kálfakjöt og kálfskinn. Klaustur Iouns er einn stærsti viðskiptavinur þeirra og vilja feðgarnir ekki heyra svo mikið sem styggðaryrði í þá átt.

Tom gamli þekkir sögu svæðisins vel og leita íbúar gjarna til hans þegar eitthvað bjátar á. Hann var lengi vel útvörður í skóglendinu við Sviptinornartind og þekkir það svæði býsna vel. Þá er hann hafsjór af fróðleik um flóru og fánu.

Tom yngri hefur yfirleitt staðið í skugganum af föður sínum. Hann var eitt þeirra barna sem veiktist illa þegar faraldurinn gekk yfir fyrir um þremur áratugum síðan. Hann hefur alltaf litið svo á að hetjurnar frá Mistmoor hafi bjargað honum, þó að þeim hafi ekki tekist að bjarga móður hans frá djöflunum. Hann hefur því stutt Olaf Arnesen í einu og öllu. Tom yngri er flinkur verkunarmaður og hefur tekið að sér að gera við aktygi, hnakka, leðurbrynjur og þess háttar hluti.

Aðsetur bæjarstjóra

Þegar djöflarnir gerðu árás fyrir 30 árum var hús bæjarstjórans lagt í rúst. Stór hluti þess brann til kaldra kola og hinn hlutinn var svo illa farinn að bæjarbúar ákváðu að leggja hann við jörðu. Í dag er aðsetrið hið reisulegasta. Það er á þremur hæðum og er stór hluti hússins nýttur undir hvers kyns starfsemi sem tengist bæði þorpinu og býlunum í kring. Þar eru leyfi veitt fyrir skógarhöggi, námugreftri og þess háttar, þar fara fram fundir bæjarráðs og svo mætti lengi telja.

Í dag er Diliana Viveros bæjarstjóri. Hún rak áður kertaverslun í þorpinu en lagði þann rekstur til hliðar þegar hún var beðin um að taka þetta hlutverk af sér. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni í hluta hússins. Viveros er almennt vel liðin, hún hefur verið í forsvari fyrir stórum hluta þeirra uppbyggingar sem átt hefur sér stað á liðnum árum, m.a. séð til þess að múrinn í kringum þorpið var endurreistur og styrktur. Hún kom því einnig áleiðis að galdramenn þurfa að sækja um leyfi til að iðka galdra í þorpinu og dalnum.

Bryggjur

Þrjár bryggjur eru í Mistmoor en þorpið er síðasti hlekkurinn á leið pramma upp Gragmoor ána. Þjóðvar Nur sér um bryggjurnar og innheimtir hafnargjöld fyrir þorpið. Bryggjurnar eru reistar með stórum stöplum og viðarplönkum á milli þeirra. Þjóðvar lætur iðulega loga á ljóskerum á kvöldin við höfnina og hundar hans standa vörð um hana.

Oft má finna pramma, báta og kænur við bryggjurnar sem hafa komið upp ána. Þar er hægt að semja við skiptstjóra um sæti eða far með kænunum og hefur það oft reynst þægilegur ferðamáti, sér í lagi á sumrin.

Gistiheimili Grants

Langt er síðan Grant hætti að reka gistiheimili, þó að staðurinn ber enn þetta nafn. Fyrir mörgum árum keyptu ung hjón húsið, Evert og Una, og hafa þau rekið þar eins konar nýlenduvöruverslun, þar sem hægt er að nálgast vörur sem alla jafna sjást ekki á markaðnum eða hjá handverksmönnunum í þorpinu. Sagan segir að Evert og Una hafi verið ævintýrafólk en þau hafa lítið gefið uppi um fortíð sína og að hefðbundnum viðskiptum undanskildum, þá halda þau sig út af fyrir sig. Þó berast reglulega sögur af því að undarlega klæddir gestir, vel vopnum og verjum búnir, sæki þau heim.

Brúin yfir Cragmoor á

Brúin er eitt af helstu einkennum Mistmoor. Hún markar þar sem Gragmoor rennur saman við Sviptinornará. Við hvorn enda brúarinnar standa tveir steinhlaðnir turnar og er hægt að loka fyrir umferð yfir ána í þeim. Brúin sjálf stendur á hlöðnum stöplum en brúargólfið eru viðarborð, líkt og í bryggjunum.

Á brúnni fór fram ein af stóru orrustunum þegar hetjurnar frá Mistmoor björguðu þorpinu undan árás djöflahersins. Þar var reist minnismerki um Albert, prestinn sem var upphaflega með hetjunum, og stendur það á miðri brúnni.

Hús Olaf Arneson, bæjarfógeta

Þegar hetjurnar frá Mistmoor settust í helgan stein sneru sumar þeirra aftur til Mistmoor. Ásamt Harad og Coral kom Olaf Arneson aftur. Hann var beðinn um að taka að sér að vera fógeti bæjarins, sem hann hefur sinnt af trúmennsku og tryggð.

Húsið er traust og steinihlaðið. Þar eru fangageymslur en Olaf hefur lagt sig fram um að reyna leysa flest mál án þess að til þess komi að fangelsa þurfi nokkurn. Húsið er auk þess notað af varðliðið þorpsins og stendur Olaf fyrir vikulegri æfingu að lokinni messu Rúberts á laugardögum.

Við vesturenda hússins stendur hátt eikartré og er sagt að það hafi staðið þar allt frá því að byggð hófst þar. Tréð er á hæð við tveggja hæða hús fógetans og er bekkur við gafl hússins. Laufkróna trésins kastar þannig skugga yfir bekkinn og oft á góðviðrisdögum má finna Olaf þar segja börnum og gangandi sögur af ævintýrum hetjanna frá Mistmoor.

Markaðstorg

Við markaðstorgið standa þrjár búðir en á sumrin reisa þar bændur oft tjöld og bjóða vörur sínar til sölu. Torgið er lagt tígulsteinum og fyrir miðju þess er stytta af Garoni Konila, sem er talinn hafa stofnað til byggðarinnar þarna.

Búðirnar þrjár sem standa við torgið eru Smiðjan, Verslun Kírólu og Kjöt & Fiskur.

Smiðjan er rekin af Coral og Morden Brittlebeard. Coral var einn af hetjunum frá Mistmoor en sneri aftur til Mistmoor þegar hann ákvað að hætta að ferðast. Bróðir hans kom með honum og saman komu þeir versluninni á laggirnar og hafa sérhæft sig í að selja vopn, brynjur, námugreftarbúnað, skeifur og hvað annað sem kallar á málmvinnslu og þekkingu á málmum.

Verslun Kírólu er rekin af Kírólu en þar er hægt að fá allar almennar vörur, þurrkaðan mat o.þ.h.

Kjöt & Fiskur er rekin af Henning en hann er slátrari svæðisins. Þangað er hægt að sækja ferskar kjötvörur.

Mistmoor - Staðir og íbúar

Rise of the Wicker King tmar78