Saga hetjanna frá Mistmoor

1. Kafli

Degi var tekið að halla þegar hópur vina og ævintýramanna sneri aftur til Mistmoor, þorps sem situr við bakka árinnar Craigmoor þar sem hún rennur frá Banshee's peak. Hópurinn samanstóð af einstaklingum sem allir tengdust Mistmoor á einn eða annan hátt; Barthou, bardagamaður af kyni dreka, Duluria, ævintýrakona en um æðar hennar rennur djöfullegt blóð, Eliou, álfur úr skóginum, Albert, mennskur prestur, Carol, dverga vörður og síðast en ekki síst, Ferla, galdrakona af kyni smáfólks. Hópurinn hafði lagt af stað frá Mistmoor viku áður í leit að ævintýrum, en ekki haft heppnina með sér.

Er hópurinn sá grilla í þorpið tóku þau fljótlega eftir að ekki var allt með felldu. Svo virtist sem mun minna líf væri í því, glaðvær hróp og köll barna heyrðust ekki og enn síður sást mikið af fólki á ferli á götum úti. Jafnvel varðstöður við brúnna yfir ánna voru ómannaðar. Á dyr margra húsa hafði verið hengt lítið svart merki. Hópurinn ákvað að banka upp á hjá Gamla Tom og spyrja fregna. Þar komst hópurinn af því, að einhver undarlegur faraldur hafði gripið um sig. Þau ákváðu því að fara og hitta á prestinn Barthila. Hann sagði þeim, að fyrstu einstaklingarnir hefði veikst skömmu eftir þau fóru. Einkum legðist veikin á börn og gamalmenni, þá sem veikari væru fyrir. Veikin lýsti sér í því, að fólk fengi alls kyns kýli og væri í vart með meðvitund. Hann sýndi þeim loks fyrsta fórnarlamb sjúkdómsins, stúlkuna Elísu, dóttur jurtasafnarans Anis. Húð Elísu var hryllileg ásýndar, fjólublá kýli um allan líkama og úr kýlunum var sem pínulitlir armar stæðu. Kýlin voru fjólublá að lit og hafði húð Elísu tapað mjög af sínum raunverulega lit.

Hópurinn ákvað að skipta liði. Annars vegar að rannsaka þá staði sem börnin höfðu verið að leika sér, enda voru það þau sem veiktust fyrst og hins vegar fara og ræða við önnur börn sem veikst höfðu. Í samræðum sínum við börnin komst hópurinn að því, að börnin höfðu lítinn gaum gefið að nokkru öðru en sínum eigin leik. Þau nýttu læk sem rann meðfram þorpinu til að kæla sig niður á heitum sumardögum og virtust fyrstu vísbendingarnar benda þangað. Þá lærði hópurinn einnig, að Anis taldi sig hafa séð til undarlegra mannaferða í kringum gömlu námuna. Þeir sem fóru að rannsaka leikstaði barnanna fundu, eftir ítarlega leit, stað þar sem einhver undarlegur gulur vökvi hafði lekið út í lækinn. Þar sem myrkur var skollið á, var ekki hægt að rannsaka það frekar. Hópurinn hittist því á Gold Tower inn, hjá Rósu, og réði saman ráðum sínum.

Daginn eftir var lagt af stað og hafði verið ákveðið að komast að því hvaðan þessi guli vökvi hafði komið. Eftir 2 tíma fjallgöngu kom hópurinn að eldgömlum, hlöðnum vegg, sem gróður hafði náð að hylja að miklu leiti. Svo virtist vera sem þarna væri eldgömul varðstöð sem hefði gleymst með tímanum. Þar sá hópurinn að hafði verið mikill umgangur, því búið var að ryðja gróðri frá inngangi í kjallara varðstöðvarinnar. Hópurinn læddist niður og fór með öllu að gát. Eftir að hafa klifrað niður innganginn komu hann að læstum dyrum, en fyrir innan mátti heyra á tal einhverra vera. Eftir skamma stund virtust verurnar hverfa á brott og þá ákvað hópurinn að bregða sér inn fyrir. Því miður voru þar tvær hýenur, sem eflaust hafa átt að gæta dyranna. Þær réðust því strax á hópinn. Eftir skamman bardaga hafði þeim tekist að ráða niðurlögum hunddýranna.

Þarna í þessu fyrsta herbergi kjallarans voru þrennar dyr að þeim undanskildum sem hópurinn kom inn. Eftir gaumgæfilega umhugsun var ákveðið að halda til hægri. Carol ákvað að nú væri rétti tíminn til að sýna hversu mikil hetja hann var í raun og veru og tók því að sér að leiða hópinn. Því miður gekk það ekki betur en svo, að hann steig beint í gildru. Hann féll í gegnum hlera með tilheyrandi hávaða. Um leið opnuðust tvennar dyr á þeim gangi og fram þutu fjölmargir goblins. Hófst nú mikill bardagi og þurfti hópurinn að fást marga óvini. Gangurinn var þröngur og ekki bætti úr skák að einn goblinanna var galdrakvikyndi einhvers konar og lagði bölvun á hópinn, sem gerði það að verkum að erfiðara var að koma auga á óvininn. Barthou byrjaði á því að hjálpa Carol upp úr holunni sem hann hafði fallið í, á meðan Ferla og Eliou létu göldrum og örvum rigna yfir andstæðingana. Albert og Durulia gerðu sitt best til að halda aftur af goblinunum á meðan bardagamennirnir gerðu sig klára. Eftir stutta stund tók bardaginn þó að falla hópnum í vil og sífellt fleiri goblinar lágu í valnum. Loks tókst þeim að fella galdragoblininn og þá virtist flótti bresta í þá. Eftirleikurinn var því auðveldur. Í öðru herberginu sem goblinarnir komu úr fann hópurinn forkunna fagran rýting, sem virtist heitur viðkomu.

Eftir þennan bardaga var ákveðið að leyfa Duruliu að fara á undan, hennar sérgrein var jú að finna gildrur, opna lása og aftengja hvers kyns hættur sem á vegi þeirra kynni að verða. Hún læddist áfram í gegnum dyr inn af öðru herberginu sem goblinarnir komu úr og sá hvar gangurinn sveigði skarpt til vinstri. Hún læddist að horninu og kíkti fyrir það. Þá sá hún hvar goblin var að ræða við veru sem var klædd í svarta kufl frá hvirfli til ilja. Veran sendi goblininn í burtu en fór sjálf niður stiga sem virtist leiða niður í myrkrið eitt. Hún sagði vinum sínum frá þessu og var ákveðið að halda áfram, en fara mjög varlega. Hópurinn fór því fetið og sá tvennar dyr á ganginum, sem fór þó lengra. Var ákveðið að kanna hver gangurinn lægi, sem beygði enn til vinstri og endaði þar við stórar dyr. Voru þeir í hópnum sem vanari voru að vera neðanjarðar fljótir að reikna út, að gangurinn virtist liggja í hring og líklega myndi þessi gangur leiða hópinn aftur í fyrsta herbergið. Það var því ákveðið að snúa aftur og opna dyrnar sem lágu ekki inn að miðju svæðisins, heldur út frá því, þar sem líklegra væri að það væri lítið herbergi. Þar inni hitti hópurinn fyrir æðsta goblin þessa ættbálks ásamt lífvörðum sínum. Hófst nú mikill bardagi með tilheyrandi látum og þurfti hetjurnar að hafa sig allar við til að verja sig ágangi þessara goblina, sem voru mun betri bardagamenn en þeir sem þær höfðu hitt áður þarna niðri. Féll Durulia eftir eitt högg frá öðrum lífverðinum, sem hjó til hennar með stríðsöxi. Blóð sprautaðist yfir nærstadda er vopnið opnaði stórt sár á bringu hennar. Hetjurnar ákváðu að beina öllum árásum sínum á leiðtogann og tókst með samhentu átaki að drepa hann. Þær héldu sama hætti áfram og þannig tókst þeim að ráða niðurlögum þeirra óvina sem þarna voru inni. Eftir bardagann köstuðu hetjurnar mæðinni og Albert læknaði þá sem særðir voru og tókst að vekja Duruliu. Hún var þó mjög særð og þurfti á hjálp hinna til að ganga.

Hetjurnar áttu enn eftir að rannsaka eitt herbergi en höfðu ekki komist að rót gula vökvans. Þær fóru því aftur inn í fyrsta herbergið og ákváðu að opna miðdyrnar. Þar sem Durulia var enn hálfslöpp kom það í hlut Carol að opna dyrnar. Hann gerði það með sínum eigin hætti, sparkaði þær niður með glæsilegu sparki en gætti ekki að sér og setti eldgildru í gang. Hann stóð í dyragættinni, með hurðina brotna fyrir framan sig og baðaður eldi. Hann hristi brunasárin af sér og sá þá hvar einir 8 goblins stóðu umhverfis risastóran pott en í honum mallaði einhver gulur viðbjóður. Ferla var fyrst að átta sig og dró fram öflugasta galdur sinn. Hún tónaði galdraþuluna og sendi öflugan svefngaldur inn í herbergið. Helmingur goblinana féll undir áhrif galdursins og lagðist hrjótandi á gólfið. Eftirleikurinn var því auðveldur fyrir Carol og Barthou. Hópurinn tók seiðskratta goblinana höndum og hélt sigri hrósandi ofan af Banshee's Peak, ekki bara með seiðskrattann heldur einnig fleiri hluti sem virtust vera bundnir álögum og fullt að hlutum sem hægt væri að selja.

Þegar þau sneru aftur til Mistmoor var tekið til við að yfirheyra seiðskratta. Hann sagði hetjunum, að vera úr undirheimunum hafði látið þeim í té þessa uppskrift, vera sem talaði ekki en engu að síður birtist rödd hennar í höfði seiðskrattans. Hetjurnar litu hver á aðra, það var sem blóðið frysi í æðum þeirra þegar þær áttuðu sig á því, að svo virtist vera sem Illithid væri veran sem seiðskrattinn væri að tala um.

Hetjunum tókst að koma í veg fyrir að fleiri myndu sýkjast af þessari slæmu veiki en hafa þó enn ekki fundið lækningu á henni. Um kvöldið var þó tími til að hvíla sig, drekka öl og slaka örlítið á. Þó þeim hafi tekist vel upp í þessu fyrsta alvöru ævintýri sínu, er ljóst að þeirra bíða fleiri slík og eflaust mun hættulegri.

2. Kafli

Hetjurnar hvíldu sig vel kvöldið eftir ævintýrið í dýflissunni, þar sem hópurinn réð niðurlögum ættbálks drýslanna. Þegar allir voru vaknaði daginn eftir bárust þeim skilaboð frá burgermeister Olaf, en hann vildi gjarna fá hetjurnar á sinn fund. Hópurinn kvaddi því Rósu á The Gold Tower inn og hélt inn í þorpið. Þar höfðu enn bæst svört merki á dyr húsanna í þorpinu, til áminningar um þá hættu sem stafaði af sjúkdóminum. Olaf var mjög feginn að sjá hetjurnar og bauð þeim inn til sín, en sjúkdómurinn hafði ekki enn náð að smita í húsi hans. Eftir stutt spjall bað Olaf hetjurnar um að leita að lækningu fyrir þorpið, því sjúkdómurinn var bráðdrepandi og ef ekkert yrði gert, myndu margir deyja. Til að ýta undir jákvæð svör frá hópnum, bauð hann þeim 1000 gullpeninga tækist þeim verkið. Hetjurnar samþykktu að gera þetta fyrir þorpið og spurðu Olaf hvar væri líklegt að finna einhver svör, en hann benti þeim á að tala við vitkann Anúin, sem býr í litlu þorpi ofar með ánni, sem heitir Craig’s Crossing. Hetjurnar handsöluðu samninginn og sögðu Olaf að óttast eigi, því þær myndu snúa aftur innan tíðar með lækningu.

Hópurinn lagði því af stað gangandi upp með ánni. Sólin skein, flugur suðuðu og fuglar sungu. Eftir nokkra tíma göngu sáu hetjurnar inn að Laughing Hills, en þar á drekaóvættin (Dracolich) Neurosax að hafa verið felld. Sagt er að þegar hún var við dauðans dyr hafi hún hlegið og var lífskraftur hennar svo fúll og viðbjóðslegur, að skógurinn, sem óx þar allt um kring, eyddist og hefur aldrei vaxið tré þar síðan. Við varðeldinn um kvöldið skiptust hetjurnar á sögum og snæddu nesti úr mölum sínum. Um nóttina skiptust þær á vöktum, en fundu flestar fyrir einhverri undarlegri og óþægilegri nærveru. Sumar jafnvel heyrðu eins og einver hlæji að þeim, undarlega djúpum og illkvitnislegum hlátri.

Daginn eftir var haldið áfram, það ringdi en þó var heitt í veðri. Ekki leið á löngu þar til hópurinn náði að Fernwood, en skógurinn nær allt langt suður fyrir Craig’s Crossing og allt norður að Great Glacier fjöllum. Vestan megin við ánna búa álfar, fánar, satírar og kentárar, sem hjálpast að, ásamt skógarmönnunum í Craig’s Crossing, að halda skóginum lausum við drýsla og aðra óæskilegar verur. Vestan megin eru áhrif þeirra ekki jafn mikil. Hópurinn gekk áfram í gegnum skóginn allt þar til sást niður að steinboganum sem liggur yfir Craigmoor ánna, sem rennur í miklu gljúfri þar. Hins vegar komu hetjurnar auga á nokkuð óvenjulegt. Svo virtist sem eldur logaði í amk. tveimur húsum í þorpinu. Hetjurnar hröðuðu því för sinni.

Við steinbogann stóðu nokkrir stórdrýslar (hobgoblins) og vörnuðu því að nokkur kæmist frá þorpinu og yfir steinbogann. Hins vegar gættu þeir ekki að sér og fylgdust ekki með því að nokkur kæmi aftan að þeim. Hetjurnar blésu því til sóknar og réðust að drýslunum. Elious hljóp fram og skaut á þann sem virtist fara fyrir hópnum. Örin skiptist í tvær í loftinu og grófust báðar djúpt í hold drýslana, sem virtust vart vita í hvorn fótinn þeir ættu að stíga. Þetta nýttu hetjurnar sér til hins ítrasta og eftir skamman bardaga, þá voru drýslarnir annað hvort flúnir eða fallnir í valinn. Hetjurnar hlupu yfir steinbogann og sáu þá að mikil orrusta átti sér stað í þorpinu. Þær hlupu til bjargar nokkrum konum sem börðust við að halda óvinum út úr húsi sem þær höfðu leitað sér skjóls í. Drýslarnir snerust til varnar og það kom hetjunum á óvart, hve skipulagðir þeir voru. Drýslarnir tóku upp varnarstöðu og börðu mjög skipulega frá sér, enda gekk hetjunum ekki vel í fyrstu að vinna bug á herkænsku þeirra. Coral og Barthou tókst þó að lokum að brjóta drýslana á bak aftur með hjálp Alberts og Duruliu, en þeim síðarnefndu gekk bölvanlega að fella drýslana.

Á meðan því stóð fóru Ferla og Elious lengra inn í þorpið. Þau komu þau auga á hvar einn drýsillinn felldi þorpsbúa en er hann fékk veður af því að hetjurnar voru mættar og höfðu brotist í gegnum bakvarnir drýslanna, sá hann þann kostinn vænstan að hörfa. Hann blés því í lúður og hljóp af stað. Hetjurnar vörnuðu því þó að hann kæmist yfir steinbogann. Leiðtogi drýslana réðst því á Ferlu, enda minnst af hópnum, og hjó hana þungu höggi, sem særði Ferlu. Hún varð ósýnileg á sama augnabliki og varð drýsillinn mjög undrandi. Allt um kring flúðu drýslar út í skóginn og yfir steinbogann. Barthou og Coral umkringdu nú leiðtogann og létu höggin dynja á honum. Hann reyndi að komast undan en allt kom fyrir ekki. Hetjurnar felldu hann. Einn af lífvörðum hans var við það að sleppa, en Albert, sem sneru augliti sinu upp í þungbúinn himinn og sagði: Guð minn, lát skot mitt hæfa vel! Síðan sendi hann orkuþrumu á eftir drýslinum og hæfði hann í hnakkann. Drýsillinn féll fram fyrir sig, örendur.

Eftir orrustuna kom Tomasz að hetjunum, en hann var leiðtogi og höfðingi Craig’s Crossing. Hann þakkaði hetjunum fyrir hjálpina og sagði, að koma þeirra hafi verið á mjög góðum tíma og án þeirra hjálpar hefðu stórdrýslunum líklega tekist ætlunarverk sitt, drepið marga þorspbúa og hneppt aðra í þrældóm. Hann spurði hetjurnar síðan á hvaða leið þær væru og þær sögðu hið sanna um tilgang farar sinnar. Tomasz sá til þess að hetjurnar fengu að hitta vitkann Anúin. Hann sagði þeim að hann þekkti ekki neina örugga lækningu við þessum undarlega sjúkdómi, en hugsanlega gætu hetjurnar fundið hvíta vetrarrós, en blöð þeirrar jurtar hafa kröftugan lækningamátt. Hann taldi líklegast að finna mætti þá plöntu við upptök Craigmoor, en hann hafi séð rósir þar fyrir nokkrum árum. Einnig spurðu hetjurnar hann út í þessa undarlegu veru sem þau sáu í dýflissunni og komust að raun um, að þetta væri vera sem lifði á því að drekka heilasafa úr öðrum verum og kallaðist Mind Flayer, en sjálfar verurnar kölluðu sig Illithids.

Hetjurnar héldu því daginn eftir áfram upp eftir ánni, í átt að Great Glacier fjöllum. Elious leiddi hópinn áfram, hann fann góðan slóða og þegar langt var liðið á dag sáu hetjurnar inn að helli þaðan sem áin rann. Þær fikruðu sig inn í hellinn og sáu þá að þar virtist vera stórt vatn inn undir jöklinum og í því miðju var eyja. Durulia, sem læddist fyrst inn, sá ekki betur en að rósir yxu þar á eyjunni. Í vatninu voru nokkrir ísjakar, þannig hugsanleg mátti stikla á þeim yfir á eyjuna. Þar inni var undarleg birta, svona eins og jökullinn gæfi frá sér ískalt, grænleitt ljós. Þegar fleiri úr hópnum komu inn í hellinn sáu þau eitthvað bæra á sér á eyjunni. Þeim til hryllings var það hvítur dreki. Í fyrstu ætlaði Barthou að ræða við drekann, en það eina sem honum datt í hug að segja var: Hæ! Þegar drekinn sá að þarna var stór hópur ævintýramanna kominn undir alvæpni, var hann viss um, að þessar hetjur ætluðu sér að drepa hann og ræna bæði gullinu hans og þessum blómum sem læknuðu alltaf sár hans. Drekinn öskraði því reiður og hóf sig til flugs.

Þá kom örlítið fát á hetjurnar. Eloius hljóp langt inn í hellinn. Barthou og Coral tóku sér upp stöðu á syllu skammt frá vatninu, sem var ískalt og hafði deyfandi áhrif á hvern þann sem lenti í því. Ferla kom sér fyrir við hlið Barthou en Albert stóð aftarlega ásamt Duruliu. Drekinn flaug reiður að bardagamönnunum og blés yfir náköldu íshröngli. Bæði Coral og Barthou virtust ekki láta það á sig fá, en Ferla var ekki svo heppin. Hún fann hvernig útlimir sínir urðu stirðir og henni fannt erfitt að hrista af sér kuldahrollinn sem yfirtók hana. Coral og Barthou reyndu báðir að lemja skrímslið. Coral hitti ekki, en Barthou átti erfitt með að ákveða hvort hann vildi höggva af öllu afli eða stinga. Elious sá að Barthou var tvístígandi og öskraði á hann: Hversu marga dreka áttu eftir að hitta í dag? Barthou herti því upp hugann og hjó til hans, en hitti ekki.

Durulia hljóp inn í hellinn til að hjálpa hópnum, en Albert ákvað að halda kyrru fyrir fyrst um sinn. Ferla kallaði fram í hugann sinn allra öflugasta galdur og kastaði honum á drekann. Hópnum til mikillar gleði virtist það bera árangur. Á meðan þessu stóð hafði Elious tekist að komast yfir í eynna. Drekinn sá það og ætlaði sér að ráðast á álfinn. Hins vegar voru áhrif galdursins sterk og hann gat ekki barist gegn þeim. Hann féll því sofandi á einn ísjakann.

Hetjurnar ræddu nú mjög hvernig skildi haga málum, en þær vissu að tíminn sem þær höfðu var ekki mikill. Barthou tók á sig stökk og ætlaði að komast upp á drekann til að höggva hann þar sem hann svaf, en náði ekki að stökkva nógu langt. Hann lenti í ísköldu vatninu og fann hvernig kuldahrollurinn yfirtók hann. Durulia fór hins vegar sömu leið léttilega og reiddi hnífinn sem hún fann í dýflissunni til höggs. Á meðan safnaði Elious eins mörgum rósum og hann gat. Hann sá hins vegar að þar á eyjunni, undir glerhörðum ísnum var fjársjóður drekans. Durulia stakk hnífnum á kaf í drekann og kallaði fram eldorku hans. Drekinn vaknaði af værum svefni, öskraði af bæði og, þar sem hann sá Elious að gramsa á eyjunni sinni, réðst hann þangað. Hann beit Elious til blóðs, álfurinn kom sér fimlega undan næstu árás hans. Elious sá sér þann eina kost í stöðunni að grípa síðasta blómið og stökkva síðan í burtu af eyjunni. Drekinn sá hins vegar við honum og beit hann fast í bakið um leið og hann stökk, við það missti Elious meðvitund og féll ofan í ískalt vatnið.

Durulia hékk enn á baki drekans og hjó hann aftur og aftur. Á meðan þutu hinar hetjurnar til bjargar Elious. Ferla ákvað að verða eftir og reyna lokka drekann til sína. Drekinn reyni að ná taki á Duruliu en það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem það tókst og þá með skelfilegum afleiðingum. Drekinn náði með báðum klóm taki á henni og reif ofan af sér. Síðan beit hann hana harkalega í kviðinn og var það nóg til þess að hún missti meðvitund. Ferla lét á meðan þessu stóð göldrum rigna yfir drekann, sem sneri sér afar pirraður að henni. Hann flaug því af stað og réðst á hana með því að blása yfir hana íshröngli. Enn fann hún hvernig útlimir sínir stirðnuðu og henni fannst erfitt að hreyfa sig. Hinar hetjurnar fóru á meðan og björguðu Elious upp úr vatninu. Ferla reyndi að komast sér undan höggum drekans, en allt kom fyrir ekki og fyrr en varði var hún fallin. Drekinn sá þá, að Elious var kominn til meðvitundar og hann ásamt Barthou var kominn aftur á eynna til að bjarga Duruliu. Albert og Coral hlupu af stað til að bjarga Ferlu. Eloius vissi lítið um lækningar, en ákvað að troða snjó í sár Duruliu og ótrúlegt en satt, þá virkaði það. Durulia virtist vera jafna sig hægt og rólega. Barthou og drekinn börðust hatramlega, enda Barthou rauður að lit og þeim hvíta afar illa við þessa eldspúandi frændur sína. Þeir voru báðir að niðurlotum komnir þegar Barthou tókst loks að veita drekanum náðarhöggið.

Þegar Albert og Coral náðu loks að Ferlu sáu þeir að það var um seinan. Hún hafði látist af sárum sínum í þessum bardaga, fórnað lífi sínu svo hinar hetjurnar gætu bjargað Elious meðvitundarlausum upp úr vatninu. Það var því þungt yfir hópnum er hann safnaði saman því sem eftir var af hvítu vetrarrósunum og fjársjóði drekans. Heimferðin yrði því ekki jafn gleðileg, þrátt fyrir góðan árangur, því alltaf er erfitt að sjá að baki góðum vini.

3. Kafli

Degi var tekið að halla þegar hópurinn sneri aftur til Craig’s Crossing. Þrátt fyrir að hafa tekist að fella hvíta drekann og finna hvítar vetrarrósir, þá var þungt yfir hópnum vegna dauða Ferlu Groundstomper. Hún hafði fórnað lífi sínu svo þeim tækist ætlunarverk sitt. Eftir þau höfðu gert útför Ferlu hina sæmilegustu, þá settist hópurinn saman niður og töldu saman þau verðmæti sem leynst höfðu í haug drekans. Fyrir utan nokkra galdramuni, sem þau skiptu jafnt á milli sín voru þar hlutir og haugfé sem samanlagt var metið á um 4.300 gullpeninga. Morguninn eftir ræddu þau hvort skynsamlegra væri að koma haugfénu í verð í Craig’s Crossing eða í Mistmoor og sagði Albert, að líklegra fengist meira fyrir það í Mistmoor, þar sem það þorp var stærra en Craig’s Crossing.

Það var þungt yfir þegar hópurinn lagði enn af stað niður með Craigmoor ánni. Rigningarsuddi og gola og hópurinn hélt leið sína í þögn. Um kvöldið áðu þau í sama rjóðri og þau höfðu gert á leið sinni til Craig’s Crossing. Eldur var kveiktur og matur snæddur, en það vantaði töluvert upp á þá gleði sem Ferla hafði fært hópnum. Kvöldið kom því, kalt og einmanalegt og skiptust meðlimir hópsins á að halda vakt. Nóttin var lík þeirri sem þau áttu fyrst þarna í rjóðrinu, enda er eitthvað undarlegt við næturnar í Laughing hills og er flestum ráðlagt að dvelja þar ekki einir. Næsti dagur reis bjartur og fagur og virtist sólin ná að hreinsa burtu þá slæmu tilfinningu sem fylgdi nóttinni. Hópurinn hélt áfram leið sinni til Mistmoor. Skuggarnir voru orðnir langir og var þorpið, sem stendur undir Banshee’s Peak, hljóðlát og virtist allt með kyrrum kjörum þegar hópurinn sá loks niður að því. Coral, Albert og Elious sáu þó fljótlega að ekki var allt eins og það átti að sér að vera, því varðmenn stóðu á virkiveggjunum, gráir fyrir járnum. Þegar nær dró sáu þeir að þetta voru alls ekki varðmenn þorpsins, heldur rauðleitar verur með horn, hala og vængi.

- Djöflar, sagði Albert. Hópurinn ákvað að staldra við. Þar sem þau stóðu sáu þau, að búið var að brjótast inn í húsin sem stóðu þeim megin sem þau voru, öfugum megin við þorpið. Eins var búið að loka öllum hliðum inn í þorpið og því erfitt að komast inn í það, án þess að þurfa synda yfir straumharða jökulánna.

- Við skulum taka á okkur krók og kanna hvort hið sama gildi um klaustur Iouns, sagði Coral. Hinir meðlimir hópsins samþykktu það og því héldu þau sig í skjóli trjáa um leið og þau fikruðu sig nær klaustrinu. Durulia og Elious fóru á undan og komu þau sunnanmegin að klaustrinu. Í fyrstu virtist klaustrið eins og það var venjulega, en þau vissu að því var ekki hægt að treysta. Þau sneru aftur til hópsins og sögðu frá því sem þau höfðu komist að.

- Jæja, það er nú bara ein leið til að komast að því hvort klaustrið hefur verið vanhelgað, sagði Coral og hóf vopn sitt á loft. Síðan arkaði hann af stað. Hinir meðlimirnir litu á hvern annan. Durulia bölvaði bráðlæti dvergsins en engu að síður fylgdu þau honum eftir. Hann gekk inn í klausturgarðinn og sá þá hvar tveir rauðir djöflar stóðu og ræddu saman. Fyrir aftan þá voru þrír annars konar djöflar, allir settir broddum og með vængi.

- Andskotann eru þið að gera hér, sagði Coral. Djöflarnir svöruðu því engu, heldur drógu þeir rauðu tvíhent sverð úr slíðrum og með því að mæla á sinni djöfullegu tungu urðu sverðin alelda. Þeir réðust á Coral og félaga hans. Annar þeirra hjó Coral en hinn til Barthou, hvor um sig dró blóð hjá bardagamönnunum og glottu djöflarnir við tönn, eflaust talið að þetta yrði þeim auðveldur bardagi. Elious dró ör á streng og skaut á meðan Durulia reyndi að koma sér í gott færi. Brodddjöflarnir skutu broddum að hópnum og hæfði einn þeirra Duruliu. Annar rauði djöfullinn hjó einnig til hennar og særði alvarlega. Albert sendi skeyti úr helgri orku að þeim djöfli, Barthou og Coral gerðu sitt besta líka og tókst að særa djöfulinn. Hann forðaði sér úr bardaganum og flaug á brott. Durulia var hins vegar í vandræðum, því hún fann að það var eitur í broddum djöflanna, eitrið vann bug á henni og hún féll í ómegin. Brodddjöflarnir réðust fram og reyndu að klóra til Corals og Barthou. Þeim tókst að særa Barthou alvarlega. Albert steig þá fram og kallaði fram lækningakrafta sína. Honum tókst að vekja Duruliu, sem stóð á fætur, full af reiði og hefndarþorsta. Hún dró fram rýting sinn, læddist aftan að einum djöflinum og stakk hann í bakið. Á sama tíma tókst Elious, Coral og Barthou með samhenti átaki að fella hinn rauða djöfulinn, sem varð í sömu mund að ösku. Við það brast flótti í brodddjöflana. Þeir flugu á brott og inn í Mistmoor, til að sleikja sárin.

- Við skulum forða okkur, áður en djöflarnir snúa aftur með liðsauka, sagði Barthou og hópurinn fór aftur inn í skógarþykknið. Þar gerðu þau sér náttstað, en voru sammála um að kveikja ekki eld, því þau vildu ekki láta djöflana vita af sér. Um kvöldið ræddu þau hvað gæti hafa komið fyrir þorpsbúa, hvort þeir væru enn á lífi. Var ákveðið að reyna komast að því.

Daginn eftir vöknuðu þau við mikil læti. Þegar þau litu yfir að þorpinu, sá hópurinn að ráðist hafi verið á þorpið að norðan. Djöflarnir í þorpinu þutu til varnar og gafst hetjunum því færi á, að komast inn í þorpið nokkuð óséðar. Elious stakk upp á því að einn úr hópnum myndi synda yfir með reipi sem hinir meðlimirnir gætu notað til að hjálpa sér yfir ánna. Hann bauðst sjálfur til að synda yfir og tókst það, þrátt fyrir harðan straum jökulárinnar. Næstur fór Albert yfir og tókst það. Durulia var næst og ætlaði sér að nota aðra aðferð, hún hékk í reipinu og hafði vafið fótleggjunum utan um reipið og fikraði sig síðan af stað, því hún vildi ekki blotna. Þegar hún var komin miðja vegu milli bakkanna, missti hún takið á reipinu og féll ofan í ánna, sem betur tókst henni að hanga áfram á fótunum í reipinu og eftir skamma stund náði hún aftur taki með höndunum á reipinu og komst yfir. Barthou og Coral fylgdu henni síðan yfir.

Í þorpinu hafði verið brotist inn í hvert hús og var allt á rúi og stúi inni í þeim. Hópurinn læddist á milli húsa og reyndi að láta lítið fyrir sér fara. Reyndar átti Coral mjög erfitt með það, enda blautur og þungur. Hann bölvaði brynju sinni og skildi, enda hvort um sig þungir hlutir úr málmi. Hann gætti ekki að sér og rak skjöldinn ítrekað í hamarinn sinn. Durulia og Elious, bæði orðin pirruð á því hve mikill hávaði fylgdi hópnum, báðu vini sína um að hinkra á meðan þau könnuðu aðstæður og rannsökuðu hverjir það væru sem væru að ráðast á þorpið. Durulia læddist að kirkju Pelors og gægðist fyrir hornið. Þar sá hún her af stórdrýslum og drýslum berjast hatrammlega gegn djöflunum. Í miðjum hópi þeirra var dökkklædda veran sem hún hafði séð í dýflissunni á Banshee’s Peak.

Hún sneri aftur með þessar upplýsingar til hópsins. Þau ákváðu að kanna hús kaupmannsins, dvergsins Erfals. Þar var allt í rúst, búið að gramsa í öllum hillum og skápum en hvergi var kaupmanninn eða fjölskyldu hans að finna. Þau fundu engin merki um átök, þannig hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að þorpsbúar hlytu að hafa verið fluttir eitthvert. Þau ákváðu að kanna hvernig umhorfs væri í húsi Burgmeisters Olafs. Durulia var því enn send af stað, hún læddist yfir aðalgötuna að húsi Olafs og gægðist þar á glugga. Síðan sneri hún aftur til hópsins, þar sem hann beið í leyni.

- Djöflarnir hafa tekið þorpsbúa til fanga og eru að yfirheyra þá, hvern á fætur öðrum. Börnin eru í einu herbergi, þeirra er gætt af þremur, litlum fljúgandi djöflum, frekar grænleitir og illkvitnislegir. Hinir fullorðnu eru í öðru herbergi og gætir stór, rauður djöfull með undarleg skegg þeirra. Hann heldur á kolsvörtum atgeir. Í suðurherberginu er síðan skelfilegur kvenmaður að yfirheyra fólk, hún er gullfalleg en augu hennar eru rauð og illkvitnisleg, sagði hún. Hópurinn vissi að hugsanlega væri þarna við ofurefli að etja, en þau ákváðu þó, að reyna að bjarga þorpsbúum, því ekki væri víst að annað færi gæfist.

- Þessir litlu djöflar kallast impar, en sá stóru rauði er svokallaður Skeggdjöfull. Mig grunar auk þess að konan sé Succubus, en þess háttar djöflar eru listamenn í að fá fólk til liðs við sig og jafnvel fórna lífi sínu fyrir sig, sagði Albert hugsi.

- En það er ekki allt, því tveir svona brodddjöflar gæta brúarinnar yfir ánna og ef þeir sjá okkur hlaupa yfir aðalgötuna, þá geta þeir látið vita af okkur, sagði Durulia.

- Við tökum þá út, sagði Coral. Eftir stutta skipulagningu fór hópurinn af stað. Durulia hljóp í skjóli varðturnar að brúnni og Elious kom sér fyrir einnig. Durulia tók á sig stökk og fór framhjá turninum, greip í annan brodddjöfulinn og kastaði honum ofan í jökulánna. Elious skaut af boga sínum, en örin lenti í varðturninum og datt þar ofan í ánna. Hinn brodddjöfulinn var í fyrstu hissa og vissi ekki alveg hvaðan á sig stóð veðrið. Hann hörfaði undan Duruliu og skaut nokkrum broddum að henni. Um leið fóru Barthou og Coral af stað. Barthou setti saman lófana og er Coral kom hlaupandi steig hann í lofa Barthou, sem ýtti undir stökk Corals. Hann lenti ofan á varðturninum og stökk síðan niður á brúnna og þaðan á brodddjöfulinn. Krafturinn í árás Corals var svo mikill að djöfullinn hrasaði aftur fyrir sig og ofan í ánna.

Hópurinn læddist að húsi Olafs og kíkti inn um gluggana. Þar sá Durulia að verið var að yfirheyra Olaf. Coral ákvað því að stökkva í gegnum gluggann og ráðast á djöfulkvendið. Hann braut sér leið í gegnum glerið og stökk að konunni. Hún leit á hann, glotti við tönn og kyssti dverginn. Coral fann hvernig álög hennar náðu tökum á sér og sama hve hann reyndi, þá gat hann ekki fundið það hjá sér að slá til hennar, enda var hún svo falleg og varnarlaus. Barthou ákvað að fylgja fordæmi Corals og ætlaði að stökkva inn um annan glugga, en gætti ekki að sér og rak höfuðið í gluggakarminn. Eins var drekamaðurinn töluvert stærri en dvergurinn og átti í mun meiri erfiðleikum með að troða sér í gegnum gluggann. Á meðan þessu stóð dýrkaði Durulia upp lásinn á útidyrunum og læddist inn. Hún varð vör við að einhver gekk þungum skrefum á efri hæðinni. Er hún sá dyrnar að yfirheyrsluherberginu opnast og konuna birtast í dyrunum, réðst hún aftan að henni og ætlaði að stinga hana í bakið. Þrátt fyrir að ná góðu höggi, þá var sem rýtingur hennar hreinlega rynni af húð konunnar. Elious reyndi að ná góðu færi í gegnum gluggann sem Barthou var að reyna troða sér inn um, en þeir virtust hreinlega þvælast meira fyrir hvor öðrum en gera nokkuð gagn. Barthou hætti því við að fara inn og fór að hjálpa Alberti og Coral að koma Olaf undan. Einhvern veginn tókst þeim þó að vera hvor öðrum til vansa og það var ekki fyrr en Coral var sjálfur kominn út að þeim tókst að kippa Olaf út um gluggann. Elious stóð við hinn gluggann í herbergið og hélt kvendjöflinum frá með því að skjóta örvum inn um gluggann. Þá varð Durulia var við að þunga veran sem var á efri hæðinni kom niður. Hún dreif sig því út.

- Það er einhver stór vera að koma. Forðum okkur, hrópaði hún um leið og hún skellti dyrunum að baki sér. Hópurinn leit undrandi í átt til hennar. Elious stóðst ekki mátið og fór að öðrum glugga til að sjá hvað væri að koma. Olaf og Durulia hlupu sem fætur toguðu í átt að brúnni. Skyndilega var hurðinni sparkað niður og út um dyrnar réðst risastór ljósblár djöfull sem hélt á voldugu spjóti. Er hann sá Elious í glugganum blés hann ískaldri gufu yfir hann. Elious fann limi sína stirðna og hann átti erfitt með að hreyfa sig. Coral sá, að Elious var dauðans matur ef ekkert yrði að gert. Hann hóf því hamarinn á loft og réðst á risavaxinn djöfulinn. Albert og Barthou voru á báðum áttum, þeir hvöttu Elious til að forða sér og eins Coral.

- Forðið ykkur sjálf, ég skal halda þessari skepnu upptekinni, kallaði Coral til hópsins. Sama hve hann reyndi að berja djöfulinn þá virtist hamar hans hreinlega ekki bíta á verunni. Djöfullinn stakk og hjó til Corals með spjóti sínu og hann fann svipuð áhrif koma yfir sig og Elious. Hann vissi að hann ætti litla möguleika gegn djöflinum og ákvað því að hörfa. Albert kom honum til bjargar, hann læknaði Coral. Barthou sá að þeir voru báðir komnir í vandræði og með miklu stríðsöskri réðst hann gegn djöflinum. Sverð hans beit ekki á húð skepnunnar en það var nóg til að kaupa þeim Coral og Alberti tíma til að koma sér undan. Coral kallaði fram krafta náttúrunnar og sendi að djöflinum, sem hrasaði við það aftur fyrir sig. Um leið hljóp Barthou á brott. Djöfullinn öskraði af bræði og sendi illan orkubolta að Alberti, sem stiðnaði upp fyrir vikið. Elious hvatti alla til að forða sér en djöfullinn virtist ná að tryggja að hetjurnar kæmust ekki undan. Barthou hljóp af stað, Coral reyndi að flýta sér á brott, þrátt fyrir að fætur hans væri stirðir eins og staurar. Djöfullinn sá auðvelt skotmark í Alberti og stökk þangað, hann steig ofan á hann og rak spjótið á kaf í bakið á honum. Albert barðist um í fyrstu en síðan myndaðist stór blóðpollur undir honum og hann hætti að hreyfa sig.

- Nei, Albert er fallinn, hrópaði Elious. Djöfullinn dró spjótið úr undinni og stökk á eftir Coral, sem hafði tekist að klifra upp á virkisvegginn fyrir aftan hús Olafs. Elious hljóp af Alberti. Hann reif bútúr skikkju sinni og reyndi að stöðva bæðinguna. Hann sá að Albert andaði enn, en sárið var svo stórt og það blæddi mikið úr því. Djöfullinn leitaði að Coral, sem stökk af veggnum út í kalda ánna fyrir neðan. Er skepnan heyrði hávaðan frá vatninu sneri hún athygli sinni aftur að hinum meðlimum hópsins. Elious dró Albert inn í skógarþykkni, þar sem hann reyndi enn að veita honum fyrstu hjálp en allt kom fyrir ekki. Djöfullinn kom arkandi nær og Barthou reyndi að draga athygli hans að sér. Djöfullinn tók þá spjót sinn og grýtti því að Barthou, sem fékk það í lærið. Hann fann hvernig hann dofnaði allur og sá að það var lítið sem hann gat gert úr þessu. Elious tók Albert upp og reyndi að komast undan. Djöfulinn elti hann út að brúnni, en þar sem brúin var þröng þá komst hann ekki út á hana. Barthou hjálpaði Elious að drösla Alberti yfir brúnna en það var um seinan. Þegar þeir komust yfir var hann hættur að anda, hann hafði misst mikið blóð og Elious tókst ekki að stöðva blæðinguna.

Meðlimir hópsins hittust í rjóðrinu sem hafði verið næturstaður þeirra kvöldið áður. Þar biður Durulia og Olaf þeirra. Þau voru þreytt, slösuð og Albert hafði dáið. Í fyrstu rifust þau um hvað hafði farið úrskeiðis og hverjum væri um að kenna, en loks var sem þreyta og sorg næði yfirhöndinni. Þau gerðu útför Alberts og ræddu við Olaf.

- Ég veit ekki hvað gerðist. Þessi djöflar komu fyrir tveimur nóttum, réðust inn í hvert hús. Þeir eru að leita að einhverjum hlut sem þeir kalla Crown of the groaning king. Ég veit ekkert hvað það er. En áður en þorpið byggðist upp hér fyrir nokkur hundruð árum var hér sértrúarsöfnuður, sem dýrkaði illa guði. Sá söfnuður hvarf reyndar á einni nóttu og var ekkert eftir nema sviðin jörð. Mig grunar að það gæti tengst þessu, sagði hann.

Hópurinn lagðist eftir þetta til svefns. Kannski að næsti dagur myndi færa þeim fleiri svör en spurningar.

4. Kafli

Hópurinn gerði útför Alberts hina sæmilegasta og gisti þar um nóttina í rjóðrinu. Um morguninn fóru fram umræður um hvað væri hægt til bragðs að taka. Kom fram sú hugmynd að leita til Craig’s Crossing eftir aðstoð. Hélt hópurinn því enn af stað og arkaði sem leið lá að litla þorpinu vestar í dalnum sem Cragimoor áin rann um. Ákveðið var að á hvorki né una sér hvíldar fyrr en komið væri að þorpinu. Það var því gengið bæði dag og nótt og er dagur reis sáu þau hvar Craig’s Crossing stóð í rjóðri hinum megin við ánna. Hópurinn gekk yfir steinbrú sem tengdi bakkana tvo saman og fann Tomasz, þorpshöfðingja Craig’s Crossing. Burgmeister Olaf, sem var með þeim í för, sagði Tomasz frá umsátri djöflanna og ákvað Tomasz að kalla til fundar þorpsráðsins.

Á meðan leituðu hetjurnar til Anúin, gamla álfa vitkans, enda brunnu margar spurningar á vörum þeirra. Hvað voru djöflarnir að vilja í Mistmoor? Hver var saga sértrúarsöfnuðarins sem hafði áður verið á sama svæði og þar sem Mistmoor stóð nú? Hver var sagan á bakvið þessa kórónu sem djöflanir voru að leita að?

Anúin sagði hetjunum frá uppruna Crown of the Wicker King, sem hafði upphaflega verið í eigu primordials sem nú er dauður. Sértrúarsöfnuðurinn sem áður var í Mistmoor fyrir um 900 árum hafði tilbeðið þann primordial og var kórónan einn helsti dýrgripur safnaðarins. Eina nótt var gerð árás á sértrúarsöfnuðinn, enda var illur söfnuðurinn lýti á landinu. Hvarf þá söfnuðurinn með öllu sem og þrepapýramídi þeirra. Hins vegar virtist Neuraxis hafa fundið kórónuna 300 árum síðar því nádrekinn (dracolich) hafði hana á höfði í síðustu orrustunni sem fór fram í Laughing hills þar miðja vegu á milli Craig’s Crossing og Mistmoor. Hópur ævintýramanna sem kallaðist Company of the Wild Stag bar þar sigurorð af Neuraxis, en sá sigur var dýrkeyptur, því ein hetjanna þurfti að fórna lífi sínu við að ná kórónunni af höfði drekans. Ein hetjanna úr hópnum settist að í Mistmoor, Balthoin the White, og Anúin sagði að hugsanlega væri hægt að finna minnst á hann í annálum klaustur Ious sem stendur þar skammt frá Mistmoor. Sjálfur hafði hann ekki upplýsingar um hvað hefði orðið um kórónuna eftir orrustuna í Laughing hills.

Hetjurnar settust á rökstóla með þorpsráðinu. Þar var ákveðið að blása í herlúðra, safna liði og reyna að bjarga þorpinu áður en það yrði um seinan. Einnig var ákveðið að hetjurnar færu á undan og reyndu að finna upplýsingar um Balthoin í klaustrinu. Hins vegar ætluðu Burgmeister Olaf og Durulia að verða eftir í þorpinu og hjálpa til við undirbúning hernaðarins. Tomasz lagði hins vegar til að Harad, farandsöngvari, slægist í lið með þeim sem færu í klaustrið og aðstoðaði hetjurnar í leit að upplýsingum.

Hart var riðið frá Craig’s Crossing að klaustrinu en þó reynt að halda sig af alfaraleiðum, til að koma ekki upp um ferðirnar. Hetjurnar fóru inn í klaustrið og þar var leitað hátt og lágt, en án þess að finna nokkuð sem gæti hjálpað. Það var ekki fyrr en Elious kom auga á leynihlera í einu bakherbergjanna sem hópurinn komst á sporið. Hlerinn leiddi hetjurnar ofan í dimman kjallara klaustursins, en þar var stærstur hluti bókasafns klaustursins. Hetjurnar fóru í herbergi úr herbergi og flettu í gegnum fjölmargar bækur. Á einum stað rákust þær á 2 undarlegar verur, grænar og langar með fálmara og kjaft fullan af beittum tönnum. Verurnar virtust ekki sáttar við nærveru hetjanna og hófst með þeim bardagi. Ekki leið á löngu þar til hetjunum hafði tekist að fella báðar verurnar. Í von um fjársjóði var ákveðið að opna maga þeirra. Um leið gaus upp viðbjóðsleg súr fýla og kúguðust hetjurnar við að leita í gegnum magafylli skrímslanna. Coral sagði hina bölvaða aumingja, því dvergar kúguðust ekki af svona löguðu. Þess í stað kastaði hann upp.

Áfram hélt leit hetjanna um rykugan kjallarann. Loks komu þær í stóran sal sem virtist geyma annála Mistmoor. Hópurinn leitaði þar en fann ekkert sem tengja mátti við Balthoin the White. Því var haldið lengra inn í kjallarann og mættu þeim þá tvær slöngulegar verur, en þær voru þó með beitta gogga sem þær beittu miskunnarlaust gegn hetjunum. Það mátti litlu muna að tvær hetjur féllu í valinn en þeim tókst að lokum að fella þessar undarlegu verur. Enn var ákveðið að leita að dýrgripum í maga þeirra en hópurinn var öllu vanari í það skipti og kastaði enginn upp. Harad kom auga á hvar þessar verur höfðu komist inn í kjallarann og ákvað að skríða inn um gatið, en fyrst var þó bundið reipi um hann. Hann var látinn síga ofan í bæli þeirra, en þar voru mun fleiri svipaðar verur. Hann var því dreginn upp í ofboði og var hurð brotin niður og troðið í gatið en kveikt í viðnum til að halda verunum frá.

Hópurinn fór inn um aðrar dyr, sem lokuðust og læstust að baki þeim. Um leið stukku þrjár risavaxnar köngulær á þær, ein þeirra var öllu mun stærri en hinar. Þurftu hetjurnar að berjast þar fyrir lífi sínu, algjörlega króaðar af og á móti stórhættulegum andstæðingum. Litlu mátti muna, en er síðasta köngulóin féll voru margar hetjur orðnar afar særðar og hafði ein þeirra þegar fallið í ómegin en hetjunum tókst að bjarga henni. Var því ákveðið að á þarna um stund áður en lengra yrði haldið ofan í kjallarann.

5. Kafli

Hetjurnar voru staddar í kjallara klausturs Iouns í leit að upplýsingum um hóp ævintýramanna sem kallaði sig Company of the Wild Stag. Þær höfðu þurft að berjast við kóngulær og önnur skrímsli sem gerðu þeim lífið leitt og leitina erfiða þarna niðri í myrkrinu. Eftir að hafa hvílt sig eftir bardagann við kóngulærnar var haldið enn dýpra ofan í kjallarann. Eftir að hafa gengið nokkur þrep dýpra ofan í jörðina kom hópurinn í nokkuð stóran sal, þar sem var upplýst. Þar var bókasafnsvörður að störfum og ályktuðu hetjurnar, miðað við hve lítið var eftir af húð hans, að hann hefði sinnt því starfi býsna lengi. Það sem var kannski enn óhugnalegra var sú staðreynd, að hann var með 3 hauskúpur, sem hver um sig flaut öðru hvoru inn í salinn, sem var fullur af bókum og bókahillum. Bókavörðurinn leit á hetjurnar og sagði að þangað inn mætti enginn fara. Síðan spurði hann: ,,Á hvers vegum gangið þið?"

Hetjurnar litu undrandi hver á aðra, en enginn þeirra kunni við að svara. Loks sagði Coral: ,,Ég hef engan tíma fyrir spurningakeppnir núna!" Síðan arkaði hann inn í salinn og tók bókasafnsvörðurinn það frekar óstinnt upp. Réðst hann öskrandi að dverginum sem svaraði strax í sömu mynt sem og hópurinn allur. Ekki tók langan tíma að ráða niðurlögum bókavarðarins. Hetjurnar voru vart farnar að hrósa sigri þegar þær tóku eftir því, að hann virtist líkamast á öðrum stað í bókasafninu. Hófst bardagi á ný og enn réðu hetjurnar niðurlögum hins ódauða bókavarðar. Hið sama endurtók sig en í þetta skipti kallaði bókavörðurinn á hjálp félaga sinna, sem risu upp innan úr bókahillunum. Réðust 10 beinagrindur á hetjurnar sem áttu nú í vök að verjast. Að lokum tókst þeim þó að fella allar beinagrindurnar og bókavörðinn einnig. Þá tóku þær til við að leita í safninu og fundu bók mikla, sem virtist vera dagbók Barthoin the White. Hins vegar var hún læst með bronsklemmum og var lás á þeim, sem var rúnum skreyttur. Ákváðu hetjurnar að það væri ekki þess virði að taka áhættuna á að opna skrudduna þarna niðri, án þess að láta galdramann líta á lásinn áður en hann yrði dýrkaður upp. Þær ákváðu því að snúa aftur upp á yfirborðið.

Hins vegar virtust einhvers konar álög hvíla á bókasafninu, því um leið og Coral, sem hélt á bókinni, steig út úr salnum nötraði kjallarinn allur. Hlupu hetjurnar af stað til að komast upp á yfirborðið. Coral hins vegar taldi að líklega væri hægt að snúa álögunum með því að færa bókina aftur á sinn stað, hann hljóp því aftur niður tröppurnar og um leið hrundi loftið þar niður. Hann var því lokaður inni í salnum með skruddu gamla galdramannsins úr Company of the White Stag. Þetta breytti þó ekki álögunum, eins og hann hafði ályktað, heldur hélt áfram að hrynja úr loftinu fyrir ofan hetjurnar. Þær þurftu að brjóta sér leið í gegnum dyr út úr herberginu sem kóngulærnar höfðu gert að bæli sínu og síðan þurftu þær að hlaupa á harðaspretti út til að komast heil á höldnu út. Litlu mátti muna að steinn félli á Elious, en hann náði að kasta sér undan og komast út í tæka tíð.

Þegar hetjurnar komu út úr klaustrinu sáu þær, að herinn frá Craig’s Crossing var að nálgast Mistmoor. Riðu hetjurnar til móts við hann og hittu þar fyrir Duruliu og Burgmeister Olaf. Var sest á rökstóla og árásin undirbúin. Mikilvægt var talið að ná sem flestum í hernum, sem samanstóð af mönnum, kentárum, satírum og álfum, inn fyrir borgarhliðin, svo djöflarnir gætu ekki tryggt að bardaginn færi fram á litlu svæði í kringum hliðin. Slíkt myndi henta þeim enda eflast fámennari en her bandamanna Mistmoor. Stungu hetjurnar upp á því, að fari yrði að næturlagi og myndu nokkrar hetjur klifra upp á vegginn vestan megin við þorpið og opna hliðin þar, um leið og hluti af hernum myndi skapa nægilega mikla ógn hinum megin í þorpinu. Var sú ráðagerð samþykkt.

Fóru hetjurnar um miðja nótt og klifruðu upp kaðal til að komast upp á virkisvegginn. Síðan skiptu þær liði, Durulia ætlaði að læðast að hliðshúsinu og opna hliðið á meðan hinar hetjurnar réðust að vörðunum sem þar voru. Þetta gekk eftir að öllu leyti, nema að yfirvörðurinn, stór og mikill djöfull, ákvað að láta undirmönnum sínum eftir að fást við þessi litlu ógn sem í nokkrum dauðlegum verum fólst. Durulia lét þetta þó ekki á sig fá, heldur fór engu að síður að hliðshúsinu og byrjaði að dýrka upp lásinn. Yfirvörðurinn tók eftir henni og dró stórt og mikið sverð úr slíðrum, með einu orði lét hann það loga af eldi. Hann hjó til Duruliu, sem vék sér fimlega undan högginu. Þegar yfirvörðurinn sá hverjar tegundar Durulia var hvessti hann augun og sagði eitthvað á tungumáli sem Durulia skyldi ekki. Hún svaraði engu að síður: ,,Já, mamma þín var líka ljót!"

Á meðan þessu stóð börðust hinar hetjurnar við hina verðina tvo. Þeim tókst að fella annan þeirra en högg frá þeim voru þung og virtust sárin brenna af einhverri djöfulegri heift. Þegar þeim hafði tekist að særa hinn vörðinn alvarlega, hörfaði hann en yfirvörðurinn réðst þá að þeim. Hann felldi Olaf og Barthou með einu höggi þannig að Elious stóð einn eftir ásamt tveimur fylgdarmönnum. Durulia sá að nú stefndi til vandræða, þannig hún dró rýting sinn úr slíðrum, rak hann á kaf í vörðinn sem hafði hörfað og felldi hann. Því næst hljóp hún aftan að yfirverðinum, tók um höku hans og skar hann á háls. Um leið skaut Elious tveimur örvum í brjóst hans og var það nóg til að fella yfirvörðinn.

Hetjurnar opnuðu hliðið og var næsta skref í áætluninni að opna brúarhliðið. Hélt hópurinn ásamt nokkrum félögum í þá átt en mættu þá fjölmörgum djöflum á miðju þorpstorginu. Upphófst nú mikil orrusta og var tvísýnt um útkomu. Í för með djöflunum var kapteinn úr helvíti sem var erfiður viðfangs og virtist hann njóta þess að valda hetjunum sem mestum sársauka. Hetjunum tókst að lokum að snúa orrustunni sér í hag. Heyra mátti mikinn orrustugný hvaðan æva í kringum þær. Loks þegar þær sáu að allt var að snúast á sveif með þeim, komu þær auga á hvar succubus, sú hin sama og hafði verið að yfirheyra Burgmeister Olaf þegar hetjurnar björguðu honum, kom gangandi og með henni djöfull sem var allur klæddur keðjum hvers konar. Þegar hún sá hetjurnar og sérstaklega Olaf, varð hún enn reiðari á svip. ,,Þið aftur!" sagði hún örg. Hún skipaði djöflinum að ráðast gegn hetjunum á meðan hún ætlaði sér að komast undan. Durulia kom auga á að hún hélt á einhverju og sagði Elious að fylgja sér svo þau gætu komið í veg fyrir flótta hennar.

Olaf og Barthou réðust gegn keðjudjöflinum og upphófst mikil orrusta. Djöfullinn var góður bardagamaður og voru Olaf og Barthou í stökustu vandræðum. Durulia og Elious sátu fyrir Succubus-djöfulkvendinu og réðust gegn henni um leið og færi gafst til. Hún reyndi að svara fyrir sig en steintaflan, sem hún hélt á, virtist hamla bardagahæfni hennar. Durulia kastaði kaststjörnu sinni í hana svo hún stakkst á kaf í læri djöfulsins, Elious skaut örvum af miklu afli í hana og tókst þeim að hægja mjög á flótta djöfulkvendisins. Þeim tókst að króa hana af við húsvegg og létu örvum og höggum rigna yfir hana, sem gat litla vörn sér veitt. Þegar hún var fallin, tók Durulia steintöfluna upp og sá, að á hana höfði verið ristar ævafornar og illúðlega híróglífur. Taflan virtist auk þess öll glóa af hreinni illsku.

Þau hlupu síðan til og aðstoðuðu þá Olaf og Barthou að fella keðjudjöfulinn. Eftir að þessir leiðtogar djöflahópsins voru fallnir var eftirleikurinn auðveldur. Ísdjöfullinn, sem hafði reynst þeim svo erfiður við björgun Olafs og sá sami og hafði vegið Albert, hafði verið drepinn við vesturhliðið af Tomaszi. Þegar hús Burgmeisters Olafs kom í ljós að margir þorpsbúar höfðu verið vegnir en þeir sem eftir lifðu voru frelsinu afar fegnir. Mestu máli skipti þó, að börnin höfðu verið að mestu látin í friði. Þegar dagur reis var þorpið illa farið á að líta, lík lágu á götum úti og á nokkrum stöðum loguðu eldar. Það beið því þorpsbúa mikið uppbyggingarstarf.

Hetjurnar vissu reyndar, að þó djöflarnir væru farnir var enn sú ógn sem fólst í Mind flayernum og drýslum hans. Eins voru þær vissar um, á meðan kórónan væri ófundin myndu djöflarnir líklega snúa aftur og þá með jafnvel enn öflugri her. Orrustunni var lokið en stríðið var aðeins rétt að byrja.

6. Kafli

Að nokkrum dögum liðnum voru hetjurnar búnar, með hjálp þorpsbúa, að grafa Coral upp úr kjallara klaustursins. Þær rannsökuðu steintöfluna vel ásamt bókinni, en hvoru tveggja var erfitt að ráða fram úr sökum fornleika síns og hve undarlegt tungumál var notað. Þó var vísubrot skrifað á spássíu öftustu síðu bókarinnar sem var rituð með annari rithönd en handritið í heild sinni. Vísan var með þessum hætti:

Brjótast þarftu Balthocs leið
svo birta guða dafni.
Réttu orði syngdu seið
suður, kóngsins nafni.

Hetjurnar ákváðu því að leita þrepapíramídans á meðan Anúin þýddi bæði rúnir steintöflunnar og bókina sem Balthoin the White átti að hafa skrifað um ævintýri the Company of the Stag. Hann var þó ekki auðfundinn og eftir um tveggja daga leit fundu hetjurnar loks píramídann í stórum helli langt undir Mistmoor. Það sem kom þeim á óvart var að hann var á hvolfi, hékk úr hellisloftinu. Þær bundu reipi í járnkrók og náðu að festa hann í dyragætt efsta hússins á píramídanum. Þegar hetjurnar voru komnar inn sáu þær að í loftinu hengu 4 styttur, hver í sínu horni, en hvergi var nokkrar dyr að sjá. Þær leituðu hátt og lágt án árangurs, áður en þeim datt í hug að hugsanlega skiptu þessar styttur einhverju máli. Þær fundu að stytturnar voru undir einhverjum álögum og lögðu höfuðið í bleyti. Þær fundu út að með því að snerta eina styttuna og mæla orðið: Balthoc, þá voru þær fluttar neðar í píramídann.

Hetjurnar vissu ekkert hvar þær voru staddar í píramídanum en sáu að þær voru staddar í litlu herbergi, þar sem ein stytta, áþekk þeim sem voru í fyrsta herberginu, var. Á herberginu voru tvennar dyr og var ein þeirra opin. Einnig voru nokkrir dauðir uppvakningar þar á gólfinu. Hetjurnar reyndu að ráða í hvort einhver hafi nýlega fellt þá en gátu ekki ráðið fram úr því.

Hetjurnar fóru áfram og hittu fyrir fleiri uppvakninga og mummíur, að berjast við nokkra hobgoblins. Þeir síðarnefndu hurfu hver á fætur öðrum, því í þessu herbergi var stytta sem virtist sömu álögum bundin og stytturnar í fyrsta herberginu. Hetjurnar blönduðu sér í bardagann og eltu hobgoblinana. Þeir voru nokkrum skrefum á undan þeim í gegnum neðstu hæð píramídans og inn í risastóran helli. Í honum miðjum var steinstrýta en efst á henni var það sem virtist vera kórónan. Hins vegar voru nokkrir hobgoblins þar ásamt svartklæddu verunni sem hetjurnar hittu í fyrsta ævintýri sínu, Mind flayerinn. Upphófst nú mikil orrusta en þrátt fyrir hetjulega tilburði tókst mind flayernum að komast út úr hellinum með kórónuna. Hetjurnar eltu þrátt fyrir að hobgoblins væru enn á eftir þeim. Tókst þeim þó að læsa þá inni en Mind Flayerinn var ávallt nokkrum skrefum á undan þeim. Þær náðu honum þá á 2. hæð og tókst að fella hann, en voru allar mjög særðar og búnar með alla lækningagaldra sína. Það var því ákveðið að drífa sig upp á yfirborðið sem fyrst í stað þess að leita frekar í píramídanum.

7. Kafli

Hetjurnar fóru á fund Anúin í Craig’s Crossing, en hann hafði lokið við að þýða annál Balthoins the White. Þar kom fram að meðlimir hópsins Company of the Wild Stag, sem hafði fellt nádrekann Neuraxis, höfðu ákveðið að taka kórónuna í sundur. Í stað þess að hafa hana alla á einum og sama stað, þá var ákveðið að Balthoin kæmi kórónunni sjálfri aftur fyrir í þrepapýramídanum en Aroneth, sem var Pelor prestur, fór með rúbín, sem var krúnudjásn kórónunnar, í Hof hinnar Rísandi Sólar. Rúbín þessi var kallaður Auga Baltocs. Hofið hafði hins vegar fyrir 200 árum horfið ofan í mýri sem var núna kölluð Troll Marsh. Í annálnum kom fram að Augað hafi verið grafið með Aroneth.

Hetjurnar riðu sem leið lá aftur til Mistmoor og bjuggu sig undir ferðina. Um þriggja daga reið var að mýrinni og ekki var útséð um hversu auðvelt væri að finna rústir hofsins þar. Á miðjum öðrum degi lenti hópurinn í fyrirsát orka, en það tók ekki langan tíma að ráða niðurlögum þeirra. Áfram var haldið uns hópurinn kom að mýrinni. Eliou, skógarmaður og læs á merki náttúrunnar, leiddi hópinn inn í mýrina. Að þremur dögum liðnum kom hópurinn aftur úr mýrinni, blautur og kaldur og hafði leitin verið árangurslaus. Coral og Eliou fóru hvor í sínu lagi að leita matarfanga, Eliou sneri aftur nokkrum tímum síðar án þess að hafa tekist að veiða nokkuð. Sagði hann niðurlútur við hópinn að enginn dýr væri að finna hér nærri og því þyrftu þau að nærast á hnetum, þurrkuðum ávöxtum og vegabrauði áfram næstu daga. Skömmu síðar kom Coral með dauðan villigölt í eftirdragi. Næsta dag fór hópurinn aftur inn í mýrina til að leita að rústunum en sneri aftur nokkrum dögum síðar eftir að hafa villst um fenlendið. Fóru þeir félagar enn til veiða og enn sneri Eliou aftur án þess að hafa tekist að veiða nokkuð. Hann var rétt byrjaður að afsaka sig þegar Coral mætti með dauðan þvottabjörn sem hann lagði fyrir framan eldinn. Um kvöldið var rætt hvort reyna ætti aftur við mýrina, en birgðir hópsins voru að þrotum komnar. Sitt sýndist hverjum en var ákveðið að reyna einu sinni enn og skammta frekar mat.

Hetjurnar leituðu nú enn dýpra í mýrinni. Komu þær að þremur trollum, sem réðust umsvifalaust á hetjurnar. Eftir þó nokkuð harðan bardaga tókst hetjunum að ráða niðurlögum þeirra og var það einkum fyrir þær sakir að bæði Eliou og Durulia voru með eldvopn og tókst þannig að koma í veg fyrir að trollin gætu læknað sár sín.

Loks tókst þeim að finna staðinn þar sem hofið átti að hafa staðið. Það var fyrir löngu horfið ofan í mýrina, en hins vegar höfðu hetjur Pelor verið grafnar þar í grafreiti skammt frá, en hann hafði verið á hæð einni ekki langt frá hofinu. Þar mátti sjá grafhýsi og legsteina og ákváðu hetjurnar að leita þar. Þar voru nokkrir uppvakningar sem tók hetjurnar ekki langan tíma að fella. Inni í einu grafhýsanna fundu hetjurnar leynidyr, með undarlegum lás. Harad og Durulia tóku það hlutverk að sér að leysa úr þeirri þraut og voru ekki lengi að því. Er dyrnar opnuðust gaus upp mikil nálykt og súr óþefur. Hópurinn fikraði sig niður og komu í einhvers konar forsal en hvergi var aðrar dyr að sjá. Hins vegar stóð kynnginár (e. lich) þar innarlega og réðst að þeim. Eftir nokkrar mínútur sáu hetjurnar að kynnginárinn var öflugur og það gæti orðið dýrkeypt að reyna fella hann. Þá mundi Olaf eftir því að, kynngináir eiga sér sérstakt fjöregg (e. phylactry) sem geymir lífskraft þeirra. Coral og Barthou tóku að sér að halda kyngináinum uppteknum á meðan hinir leituðu hátt og lágt að fjöregginu. Það var að lokum Harad sem fann það, vandlega falið í leynihólfi í vegg einum. Olaf og Eliou brutu fjöreggið, sem var í formi kristalflösku, og dó kynnginárinn við það.

Hetjurnar leituðu að leynidyrum og fundu. Þær leiddu inn að katakombum sem geymdu grafir allra helstu hetja Pelors. Þar var að finna gröf Aroneth og í henni fundu þær augað. Ákveðið var að raska ekki frekar ró hinna látnu og sneri því hetjurnar aftur heim til Mistmoor.

8. Kafli

Hetjurnar sneru aftur til Mistmoor sigri hrósandi eftir góða för í mýrina. Eftir að hafa hvílt lúin bein og borðað góða máltíð var sest á rökstóla með Anúin. Rætt var vel og lengi um hver næstu skref skyldu vera, hvort ætti að setja kórónuna saman. Að lokum var ákveðið að gera svo. Anúin tók sig til og kastaði galdri sem sameinaði hlutana tvo.

Um leið og þeir runnu saman drundi yfir þorpið jarðskjálfti. Þeir árvökulu í hópi hetjanna heyrði líka dimmt og hræðilegt öskur. Harad fann að kórónan lak út einhvers konar illum kröftum og deildi þeim upplýsingum með hópnum. Ákveðið var að tala við Bareir, hinn unga prest þorpsins, og kanna hvort hann gæti með einhverjum ráðum komið í veg fyrir að kórónan læki þessari galdraorku. Er þær hlupu á milli húsa í þorpinu urðu hetjurnar varar að eitthvað flaug yfir þeim, eitthvað stórt með leðurblökuvængi.

Eftir að hafa rætt við Bareir þá ákváðu hetjurnar að fara og kanna hvort Neuraxis hefði vaknað við að kórónan væri sett saman. Var hart riðið að Laughing Hills og sáu hetjurnar þar að svo var. Nokkrir hobgoblins voru í óða önn að reyna vekja hann og styrkja enn frekar, voru þeir allir merktir sama merki og hobgoblinarnir sem hetjurnar höfðu tekist á við í upphafi ævintýranna. Neuraxis var orðinn steingerður en var þó vaknaður aftur til lífsins og tók ekki vel í aðkomu hetjanna. Upphófst því mikill bardagi. Í fyrstu gekk heldur brösuglega, Barthou var einkar klaufalegur og strax í fyrstu árás missti hann vopnið úr höndum sér. Eftir drykklanga stund tókst loks hetjunum að vinna bug á Neuraxis og hobgoblinunum.

Þegar hetjurnar sneru aftur til Mistmoor sáu þær að eitthvað undarlegt var á seyði í kirkjunni. Þær höfðu skilið kórónuna eftir þar í höndum Bareir. Þær hlupu inn í kirkjuna og sáu þá að Anúin þar í óða önn að opna hlið inn í annan heim. Hann stóð upp við altari kirkjunnar ásamt fölleitri konu með tvö blá húðflúr og var í djúpri einbeitingu við að kasta galdrinum. Fyrir framan altarið voru 9 svartklæddar verur og stóðu þær utan um galdrahring en í honum miðjum lá Bareir. Kórónan var á altarinu miðju. Er svartklæddu verurnar sáu hetjurnar réðust þær gegn þeim. Ein veranna var Mind flayer en hinar voru meðlimir sértrúarsafnaðar þess sama og hobgoblinarnir höfðu tilheyrt.

Enn hófst mikill bardagi með þeim. Coral og Olaf stukku inn í miðja þvögu svartklæddu veranna ásamt Harad og Barthou. Elious og Durulia hlupu þvert yfir kirkjuna og fram að altarinu. Er Durulia kom nærri galdrahringnum fann hún hvernig það var sem einhver álög leggðust yfir hana, því það var sem fætur hennar hefðu skotið rótum. Elious sá hvað var og forðaðist að koma nærri hringnum. Hann hljóp þangað sem hann hafði gott skotfæri á fölleitu konuna og skaut að henni. Er þau Anúin luku við að opna hliðið sneru þau sér að hópnum. Konan blindaði Elious á meðan Anúin setti kórónuna á höfuð sér.

Á meðan því stóð voru Coral og hinir búnir að fella allar svartklæddu verurnar nema mind flayerinn. Harad og Coral stukku til og börðust hatramlega við hann. Barthou og Olaf ákváðu að slást í hóp með þeim Elious og Duruliu, sem hafði tekist að vinna bug á álögunum og stokkið upp á altarið, þar sem hún greip í kórónuna á höfði Anúin. Hann sagði reiður á svip: ,,Ég hef ekki beðið í 340 ár til að láta ykkur eyðileggja það fyrir mér núna!" Síðan sló hann til Duruliu en hitti ekki. Olaf kom þá aðvífandi og hjó til Anúin. Um leið var sem eldhnöttur springi í gamla vitkanum sem skaðaði þó aðeins Olaf sjálfan. Durulia hélt áfram að reyna losa kórónuna af höfðu Anúin en allt kom fyrir ekki. Föla konan hljóp í gegnum opið hliðið en hinum megin við það var einhvers konar borg. Anúin fylgdi henni eftir, Durulia stökk á bak hans og ríghélt í kórónuna til að koma í veg fyrir að Anúin kæmist á brott með hana. Mind flayerinn sá sæng sína útbreidda og tók á sig stökk til að komast í gegnum hliðið áður en það lokaðist.

Barthou hafði á meðan þessu stóð hætt sér of nærri galdrahringnum á gólfinu. Hann var í fyrstu sem rótfastur en síðan dró hringurinn hann nær uns hann hvarf inn í hann að Bareir. Einhvers konar djöfulleg álög lögðust yfir bardagamanninn og hann hljóp aftur út úr hringnum brjálaður og réðist á Elious. Hann hjó til hans og felldi í einu höggi.

Anúin stökk í gegnum hliðið með Duruliu á bakinu. Mind flayerinn fylgdi í kjölfarið. Olaf ákvað að elta ekki. Durulia gerði loka tilraun til að ná kórónunni af höfði Anúin en allt kom fyrir ekki. Hún nýtti því tækifærið áður en hliðið lokaðist til að stökkva aftur í gegn til félaga sinna. Þar fundu hetjurnar út að til að aflétta álögunum sem voru á Barthou þurftu þau að drepa Bareir, sem þau gerðu.

Kórónan slapp í burtu frá þeim, sem og Anúin sem hafði svikið þau og notað sjálfum sér til framdráttar. Hetjurnar voru því svekktar og fúlar, en staðráðnar í að finna leið til að komast til þessarar borgar sem Anúin og félagar flúðu til og finna kórónuna.

Saga hetjanna frá Mistmoor

Rise of the Wicker King tmar78