Rise of the Wicker King

Interlude: Hrafnsvart kvöld

Í Ravenhold

dark_lane_by_rhysgriffiths-d6v25zi.jpg

Regn dundi á þökum húsanna í Ravenhold. Skuggarnir dýpkuðu og sama hve Zyra reyndi, þá tókst henni ekki að fá yl í kroppinn. Hún hélt Rilu þétt að sér og reyndi að skýla ungabarninu fyrir vætunni. Rila leit upp til móður sinnar og Zyra brosti veiklulega, garnirnar gauluðu í maga hennar og hún vissi sem var, að ef hún legði Rilu á brjóst sitt myndi það aðeins þýða að þær myndu báðar gráta, hún af sársauka og Rila af því að fá aðeins blóð úr sárunum í kringum geirvörtur Zyru. Hún dró því gráu ullarslána enn þéttar að sér og reyndi að sjá til þess að ekki dropaði ofan af hettunni í hálsmál Rilu.

- Mamma verður að finna eitthvað að borða, sagði Zyra lágt við dóttur sína. Hún hafði þrætt götur Nýborgar, byggðarinnar sem hafði myndast fyrir utan veggi Ravenhold, og reynt að betla bæði mat og fé í allan dag, en árangurslaust. Zyra vildi ekki fara strax að kjallaradyrunum þar sem hún hafði gerst sér bæli fyrir nokkrum dögum, hún þorði ekki að fara þangað á meðan enn var von á því að íbúar hússins væru á fótum.

Hún hélt sig undir þakskeggjum húsa á meðan hún rölti stefnulaust um strætin. Öðru hvoru hvörfluðu augu hennar inn um glugga, þar sem fjölskyldur sátu við matarborð og snæddu kvöldverð við ylinn frá logandi eldi. Ekki voru margir á ferli, aðeins þeir sem ýmist áttu í engin hús að venda eða gátu hvergi leitað sér skjóls undan rigningunni eða borgarverðir.

Um leið og hún beygði fyrir horn kom hún auga á vopnaðan reiðmann. Hann var dökkur yfirlitum, ferðaslá hans var kolsvört og klárinn grár. Í slíðrum hengu tvö langsverð og í belti mannsins var pyngja úr rauðu leðri. Pyngja full af peningum. Zyra fylgdist með manninum um stund. Hesturinn fór fetið og öðru hvoru leit dökki maðurinn í kringum sig. Þegar hann kom að gatnamótum skammt frá borgarhliðunum, staldraði hann við og leit aftur fyrir sig, í átt að Zyru.

- Hey, þú, komdu hingað, kallaði hann til hennar. Zyru brá og eitt augnablik langaði helst að hlaupa á brott. Rödd hans var þurr eins og eyðimörk, köld og skipandi. Hikandi steig hún fram undan þakskeggi hússins þar sem hún stóð og um leið féll regnið þétt á hana. Rila bærði á sér og tók að snökta. Barnið virtist þó ekki hafa orku til að gráta sáran og Zyra fann hvernig hjartað seig í brjósti sínu. Hún óttaðist að Rila gæti veikst og staldraði því við eitt augnablik en færði sig síðan aftur í skjól undir þakskegginu.

Dökki maður steig af baki og leit í kringum sig. Hann losaði pyngjuna í belti sínu og dró upp silfraða mynt.

- Ég þarf bara smá leiðbeiningar, sagði hann og steig nær. Garnirnar gauluðu í maga Zyru og hún skaut augum á Rilu. Hún dró andann djúpt, breiddi slána sína yfir dóttur sína og flýtti sér út á strætið til mannsins.

- Hvað viltu, herra? spurði Zyra og teygði sig að silfur peninginum. Maðurinn færði höndina undan.

- Ég þarf að finna ákveðna ölstofu, svaraði hann. – Veistu hvar Skjaldbrotið er?

Zyra kinkaði kolli. Regnið steyptist niður á þau og Rila tók að gráta. Zyra reyndi að hugga dóttur sína og svaraði um leið:

- Já, ölstofan er hér nokkrum strætum austar, herra.

Dökki maðurinn greip snögglega um höku Zyru. Augu þeirra mættust. Brún augu dökka mannsins voru köld og blik þeirra hart, í bláum augum Zyru örvænting og bjargaleysi. Dökki maðurinn dró Zyru harkalega undir þakskeggið á ný. Hún reyndi að losa sig en hann hélt henni fastri.

- Hvað ertu eiginlega gömul? spurði dökki maðurinn eftir nokkra stund.

- 14 vetra, herra.

- Við Pelor, sagði maðurinn og andvarpaði. Hann fletti slánni hennar frá og starði um stund á Rilu. Hún hætti að gráta og fylgdist með manninum. Það dropaði úr síðu, svörtu hári hans.

- Er þetta systir þín?

Zyra hristi höfuðið og leit niður. Hún hafði hrakist að heiman síðasta haust, skömmin sem fylgdi lausaleikskróa var meira en faðir hennar gat meðhöndlað.

- Hvaðan ertu, stelpa?

- Craig’s Crossing, herra, svaraði Zyra lágt og breiddi aftur slána sína yfir Rilu.

- Faðirinn?

- Hann… sagði Zyra lágt en komst ekki lengra. Hún gat ekki hugsað til þeirrar stundar þegar ræningjarnir komu, svörtu náttarinnar sem hvíldi eins og mara á henni. Hvernig þeir höfðu brotist inn þegar hún átti að vera að gæta bræðra sinn á meðan foreldrar hennar höfðu farið til Mistmoor á sumarblótamarkaðinn. Hún mundi bara blikið í augum Zyrofs, þar sem hann hafði falið sig inni í stóra matarskápnum, á meðan illa lyktandi maðurinn hamaðist ofan á henni. Hún þorði ekki að gráta, því hún vildi ekki að hann færi að gráta og léti þannig vita af sér.

Dökkklæddi maðurinn kinkaði kolli, eins og hann skildi hana, en virtist svo hugsi um stund. Hann flautaði síðan hvellt og hesturinn, sem enn stóð á strætinu, tölti til þeirra.

- Sýndu mér hvar ég finn þessa ölstofu, sagði hann skipandi. Zyra leit upp til hans, hún vissi ekki hvort hún fengi silfruðu myntina en þorði ekki að spyrja. Hún kinkaði kolli og gekk af stað.

Eftir stutta stund komu þau að tvíreistu húsi. Ljóstýrur loguðu í gluggum og hlátrasköll ómuðu út á strætið. Dökkklæddi maðurinn steig af baki og rétti Zyru tauminn.

- Bíddu hér, sagði hann skipandi.

Zyra tók við taumnum og fylgdist með dökkklædda manninum hverfa inn um dyrnar á Skjaldbrotinu. Hún reyndi að draga hestinn nær húsunum þannig að hún gæti komist í skjól undan regninu en klárinn haggaðist ekki. Nokkru síðar kom dökkklæddi maðurinn aftur út. Hann þurrkaði af öðru sverðinu í upprúllað teppi sem var bundið fast við hnakkinn.

- Hvar er næsta gistihús? Og þá meina ég gistihús, ég ætla ekki að sofa í einhverjum hálmrúmi með lúsum og flóm skríðandi um líkama minn.

Zyra kinkaði hratt kolli og hljóp af stað.

- Ég held, herra, að þú ættir þá að gista á Steðjanum, það er hérna hinum megin við hliðin, kallaði Zyra yfir öxlina. Hún þræddi hverja götuna á fætur annarri uns Steðjinn kom í ljós. Húsið var þrílyft, steini hlaðið og litríkt skilti, með mynd af steðja, hékk fyrir ofan listilega útskornar dyr. Zyra stoppaði við dyrnar og rétti fram höndina. Hún þorði ekki að líta framan í manninn. Maðurinn steig af baki og batt hestinn við staur þar við dyrnar. Hann arkaði framhjá Zyru, opnaði dyrnar og gekk inn.

Um leið og hurðin skall aftur þyrmdi yfir Zyru. Hún hafði vonað að hann myndi kannski borga henni silfruðu myntina fyrir að vísa honum á Skjaldbrotið og hugsanlega myndi hún fá koparskilding að auki, fé sem myndi endast henni í viku í borginni.

Skyndilega var hurðinni hrundið upp og gripið í öxl hennar.

- Komdu hérna, bjáninn þinn, sagði dökkklæddi maðurinn argur. Hann nánast hélt á henni upp stiga og inn í herbergi þar sem tvær dvergakonur voru í óða önn að gera heitt bað klárt.

- Þetta er herbergið þitt, sagði dökkklæddi maðurinn og tók hettuna ofan. Andlit hans var gróft, blóðslettur á enninu og undir hægra auganu. Hann var með djúpt ör undir vinstri kjálkanum. Síðan sneri hann sér að konunum tveimur.

- Komið með mat og volga mjólk, sagði hann skipandi og bætti síðan við: Nóg af mat.

Zyra starði orðlaus á manninn, sem sneri sér undan og gekk fram á ganginn.

- Ég er hérna hinum megin, ef þig skyldi vanhaga um eitthvað, sagði hann, síðan opnaði hann dyr og hvarf inn fyrir þær.

Zyra naut þess að baða sig, borða vel og þegar hún lagðist í rúmið við hlið Rilu var hún södd í fyrsta sinn í margar vikur. Rila hjalaði við hlið hennar og Zyra sofnaði fljótt og vel.

Um morguninn vaknaði hún eins og venjulega, skömmu fyrir sólarupprás. Hún flýtti sér í föt og gerði sig líklega til að hverfa á brott áður en nokkur yrði hennar var, eins og hún gerði alltaf þegar hún svaf í bælinu sínu við kjallaradyrnar. Síðan mundi hún hvar hún var og ákvað að liggja aðeins lengur í mjúka rúminu við hlið Rilu. Þegar hún heyrði að fleiri voru komnir á fætur, kíkti hún fram. Dyrnar að herberginu gegnt hennar stóðu opnar. Hún færði sig nær og leit inn, en dökkklædda manninn var hvergi að sjá og ekki leit út fyrir að gist hefði verið í einbreiða rúminu.

Zyra tók Rilu og kom henni fyrir í pokanum á brjósti sínu. Barnið var enn hálfsofandi og leit aðeins upp á móður sína en sofnaði síðan á ný. Zyra gekk varlega niður stigann og afréð að reyna komast óséð aftur út. Hún flýtti sér yfir gólfið að útidyrunum.

- Afsakið, ungfrú, var sagt ákveðinni röddu fyrir aftan hana. Zyra greip andann á lofti. Hún sneri sér hægt við.

Fyrir aftan hana stóð þrekvaxinn dvergur, með grátt fléttað skegg. Hann var nauðasköllóttur en með volduga leðursvuntu framan á sér, svuntu sem hefði betur sæmt sér í járnsmiðju en á gistiheimili.

- Herra Láran bað mig um að færa þér þetta, sagði dvergurinn og rétti Zyru rauðu leðurpyngjuna, sem dökkklæddi maðurinn hafði verið með. Zyra tók hikandi við pyngjunni og fann að hún seig í og var þyngri en nokkur skildingapyngja sem faðir hennar hafði átt.

Zyra þakkaði fyrir sig og dreif sig út af gistiheimilinu.

Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að Zyra heyrði að þetta kvöld hafi einn af æðstu prestum Iouns verið myrtur í bakherbergi Skjaldbrotsins.

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.