Rise of the Wicker King

Sendiherrann

bf217c30ac891b1a09b2379908e3c208.jpg

Um leið og dyrnar lokuðust að baki hans dró Dökki Sendiherrann fram nokkur sérkennileg hráefni fram undan grágrænum kufli sínum. Hann lokaði augum og fór með öfluga særingaþulu. Milli handa hans safnaðist kynngismagnaður seiður, eiturgræn og gul orka dróst saman, myndaði grænleitan reyk sem umvafði Sendiherrann og flutti í einu hendingskasti milli vídda. Þegar Sendiherrann opnaði augun, leit han morknandi byggingar, að hluta til ofan í fúlu fenjavatni og svartfiðraða útverði Tágakonungsins sitja á vegstólpa skammt frá. Einn þeirra krunkaði hátt og hvellt, hljóðið bergmálaði þó ekki í slímugum veggjum húsanna, síðan hóf hann sig til flugs og flaug dýpra inn í rotnandi rústirnar. Sendiherrann nuddaði litla silfraða brjótnælu og sveif í humátt á eftir hrafninum. Í fjarska kvað við þruma og einhvers staðar innan úr rústunum öskraði einhver óvætt grimmilega. Sendiherrann virtist ekki láta það sig nokkru máli varða.

Eftir nokkra stund kom hann að kolsvörtum háum turni, sem virtist teygja sig upp í gegnum kolgráa himnafestinguna. Um leið og hann kom að turninum, lagði hann hönd á ískalda hrafntinnuna, sem turninn var reistur úr. Hann fór með stutta þulu og um leið og hann sleppti síðasta orðinu mynduðust rauðleitar æðar í berginu, sem runnu saman og mynduðu dyr. Sendiherrann gekk inn.

Fyrir innan var stór viðhafnarsalur. Útskornar súlur stóðu í röðum meðfram veggjum, mosi og illgresi teygðu sig upp á þær miðjar en vínviður vafði sig niður með þeim. Flugur sveimuðu í kringum fjólublá og rauð blóm, sem öðru hvoru lokuðust um skordýrin og krömdu þau. Föla birtu stafaði frá gróðrinum, öðru hvoru var sem eins konar sláttur færi um gróðurinn, sláttur sem átti upptök sín í hásæti salarins. Víðirinn hafði ofið sig um sætið og veruna sem sat í því. Húð hennar var skorpin, grá en grænir blettir hér og þar, eins og einhvers konar skófir hefðu náð að festa sig við veruna. Fingurnir hvíldu á sætisörmunum, langir og hlaðnir ríkulega skreyttum hringum. Andlitið var hulið bakvið viðargrímu en á höfðinu bar veran tígulega kórónu. Kufl hennar var einu sinni rauður en var nú morkinn og mölétinn.

Sendiherrann færði sig nær og kraup við þrepin að hásætinu.

- Herra, innsigli er rofið. Nú styttist í endurfæðingu yðar, sagði sendiherrann lágt. Veran í hásætinu leit upp, fjólublátt ljós kviknaði í augum hennar.

- Þú hefur gert vel, Sendiherra, sagði veran. Rödd hennar virtist hljóma fyrir aftan Sendiherrann.

- Útsendarar mínir hafa skapað nægan glundroða til að koma í veg fyrir andstöðu goða Norðurríkjanna, bætti Sendiherrann við og rétti úr sér.

- Þú hefur gert vel, Sendiherra. Enn eru þó þrjár keðjur bundnar fastar. Þú þarft að losa þær fyrir fyrstu vetrarnótt. Farðu til Vinjar Amons Tas. Undir vininni finnurðu Kepheliopel, hina fornu borg prestkonungsins Anephes. Í gröf hans finnurðu næsta innsigli.

Veran þagði um stund og starði á Sendiherrann. Myndir af sólbarinni borg, hvar lágreistir kofar stóðu innan um glæstar bronsilagðar hallir og sérkennilega pýramída, birtust í hugskotum Sendiherrans. Hann greip um höfuð sitt og gretti sig af sársauka. Eftir nokkur augnablik var þetta liðið hjá.

- Herra, verði þinni vilji, stundi Sendiherrann. Eftir stutta stund bætti hann við: – En hvað með hamskiptingana?

Reiðialda skall á Sendiherranum.

- Mig varðar ekkert um þá. Dreptu þá. Dreptu þá alla sem einn. Þeim mun hefnast fyrir að hafa bundið mig. Sjáðu til þess að hver einn og einasti þeirra fái sem kvalafyllstan dauðdaga. Sjáðu til þess að þeir fái að kynnast eigin meðölum.

Sendiherrann kinkaði kolli.

- Sendiherra, ekki láta neitt standa í vegi fyrir þér. Böndin eru veikust fyrsta dag vetrar, þegar nóttin er fyrst lengri en dagur. Ekkert má koma í veg fyrir að ég losni úr þessu ömurlega fangelsi.

Sendiherrann kinkaði enn kolli.

- Já, herra, ekkert mun stöðva mig.

- Það er eins gott. Það er eins gott, Anúín, því annars bíður þín sæti hér við hlið mér.

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.