Rise of the Wicker King

Inn í myrkrið

Skuggar, reykur og tálsýnir

e08a104bac5e7947371d8f293f0c4263-d6krqlm.png

Eftir að hetjurnar höfðu hvílt sig vel þá var ákveðið að halda suður í skuggann. Grábjörn leiddi hópinn í gegnum dimman skóginn og fljótlega tóku allir eftir hve hljótt var orðið, hvergi heyrðust fuglar syngja eða annar eðlilegur kliður í skóglendi. Um hádegisbil tók að halla undan fæti og ekki leið á löngu þar til að skyggja tók svo um munaði. Svo virtist sem sólin sjálf næði ekki í gegnum laufkrónur trjánna. Seinni part dags komu hetjurnar niður í lítið dalverpi og ráku upp stór augu. Fyrir framan þær var skógur risavaxinna sveppa. Hattar þeirra breiddu úr sér og stofnarnir voru sverir sem hundrað ára gamlar furur.

- Eigum við að fara þarna í gegn eða þræða framhjá, spurði Coren. Ekki var laust við að ákveðins ótta gætti í rödd hans. Brjánn yppti öxlum.

- Ég get farið á undan og athugað hvort leiðin sé greið, sagði litli maðurinn.

Eftir nokkra umræðu var ákveðið að halda í gegnum sveppaskóginn. Því fylgdi sérkennileg tilfinning en hetjurnar komust klakklaust í gegnum þennan framandi og undarlega skóg.

Þegar hetjurnar náðu aftur inn í viðlendið var sól tekin að hníga og kominn tími til að finna næturstað. Á meðan hetjurnar gerðu sig líklegar að finna áningarstað heyrðu þær hratt fótatak nálgast. Hendur voru lagðar á meðalkafla og handföng vopna, galdraþulur kallaðar fram í hugann og áttu hetjurnar von á að eitthvað skrímsli myndi ryðjast fram úr þykkninu þá og þegar.

- Sýndu þig, kallaði Grábjörn.

Höfuð á ræfilslegri drýsilskonu birtist handan trjábols. Hún var klædd í slitna leðurskyrtu, vopnlaus og berfætt. Hún sagði eitthvað kokmæltri drýsilstungu, hetjurnar litu hver á aðra því engin þeirra skyldi hana.

- Talarðu norrænu, spurði Brjánn.

- Stríðsköngulærnar koma, svaraði konan á bjagaðri og hreimmikilli norrænu og færði sig aftur fyrir Coren og Grábjörn. Hún fylgdist síðan grandvör og stygg með trjákrónunum.

- Hvað áttu við? Hvaða stríðsköngulær, spurði Grábjörn.

- Vondu stríðsköngulærnar koma, svaraði konan og bætti við: – Þær taka alla og fara með þá. Alla vini mína úr þorpinu. Þær eru vondar.

- Hvaða þorpi? spurði Brjánn.

- Þorpinu mínu.

- Er það drýslaþorp? Geturðu fylgt okkur þangað? spurði Grábjörn.

- Já, en það er svolítið langt.

Eftir nokkra umræður var ákveðið að fylgja drýslakonunni heim í þorpið hennar. Hún hljóp af stað og hetjurnar, sem virtust hafa látið alla varúð og varfærni um lönd og leið, hlupu einnig af stað.

Skyndilega rigndi svefnálögum, tálsýnum og vefhnöttum yfir hetjurnar. Stríðsköngulærnar höfðu greinilega orðið hetjanna varar, enda ekki erfitt í ærandi þögn skógarins. Í trjákrónum fyrir ofan hetjurnar voru átta köngulær, allar á stærð við hesta. Ein þeirra var auk þess með tvo auka útlimi, sem líktust einna helst höndum. Hetjurnar náðu að verjast fyrstu ásókn köngulónna. Þá dró köngulóin með hendurnar fram bókfell og særði fram af bókfellinu sérkennilegt glitrandi tákn, allar hetjurnar féllu í álagatrans nema Brjánn. Hann faldi sig og reyndi að vega að köngulónum úr launsátri, en þær komu auga á hann og tókst að binda hann fastann í vef sínum. Ekki leið á löngu þar til allar hetjurnar voru rækilega bundnar og vafðar inn í vefkúlur. Drýsilskonan var hins vegar hvergi sjáanleg.

Köngulærnar fluttu hetjurnar nauðugar um langan veg í skóginum. Coren og Brjánn gerðu sitt besta til að reyna koma höndum á falin vopn á meðan Grábjörn gerði sitt besta til að leggja leiðina á minnið. Í morgunsárið komu köngulærnar að stórum víðivöxnum þrepapýramída. Í stað þess að halda upp á bygginguna, þá fundu köngulærnar hliðarinngang og færðu hetjurnar inn um hann, inn í átthyrnt herbergi, hlaðið úr rauðleitum steini, þar sem voru fleiri vefkúlur. Síðan yfirgáfu köngulærnar hetjurnar og lokuðu á eftir sér.

Hetjurnar náðu með útsjónarsemi og fimi að losa sig úr vefkúlunum og ekki leið á löngu þar til þeim hafði tekist að losa alla sem voru í herberginu. Þá kom í ljós að ásamt þeim voru þarna þrír skógarhöggsmenn úr eystri hluta Fernisskógar, Cyans, Runnley og Merker. Þá var þar einnig miðaldra kona, Seams, ungur drengur að nafni Ryan og loks eldri maður, hvers augu voru orðin hvít, klæddur í brúnan kufl sem enginn spurði að nafni. Að lokum var þar galdramaður að nafni Rowan. Eftir að hafa tekið stutta birgðastöðu kom í ljós að skógarhöggsmennirnir voru enn með viðaraxirnar sínar, Brjánn lét Seams hafa hníf sem og Ryan. Gamli maðurinn virtist, þrátt fyrir slæma sjón, bera ágætt skynbragð á það sem var að gerast.

Hópurinn ákvað að reyna finna leið út úr þessum sérkennilega þrepapýramída. Brjánn skoðaði dyrnar sem lágu í norður. Hvoru megin við dyrnar stóðu átthyrndar súlur úr sama rauða steini og veggirnir. Brjánn skoðaði dyrnar og tókst að aflæsa þeim. Hann opnaði þær og sá að handan þeirra var langur gangur. Hann læddist eftir ganginum og sá að við hinn enda hans voru aðrar dyr, með álíka súlum áður. Við dyrnar voru hins vegar gríðarlega margar köngulær og sneri Brjánn fljótlega aftur til vina sinna. Hetjurnar ræddu saman og fundu sniðuga leið til að eiga við köngulóasverminn. Brjánn læddist aftur inn ganginn en skyndilega hvarf gólfið undan fótum hans. Hann rétt náði að grípa í eina skriðbyttuna á veggnum og komast hjá því að hrapa niður á hvassa tveina. Á annarri súlunni var ankannalegt og fornt merki skorið í steininn. Þegar hetjurnar höfðu afgreitt köngulærnar ákvað Brjánn að skoða merkið nánar. Hann snerti það með hægri hönd og samstundis var sem einhver hefði lagt logandi heitan tein á framhandlegg hans. Brjánn kippti að sér höndinni og hljóðaði af sársauka.

- Hvað gerðist, spurði Grábjörn.

Brjánn lyfti erminni og sá að það var sem táknið hefði verið brennimerkt á handlegg hans. Rowan ákvað að kanna hversu skaðlegt þetta væri og uppgötvaði að einhvers konar álög fylgdu tákninu, en gat ekki rýnt almennilega í hversu öflug eða hve skaðlegt það var. Eftir nokkrar umræður var ákveðið að halda áfram en hinar hetjurnar ákváðu að láta eiga sig að snerta þetta sama tákn.

Næst komu hetjurnar inn í annað átthyrnt herbergi, hvar mátti finna fjórar dyr sem lágu hver í sína höfuðátt. Þær ákváðu að opna allar dyrnar og komast að því hvert þær leiddu. Þær byrjuðu á því að opna í norður og þar var stuttur gangur en síðan hyldýpisgjá. Handan hennar glitti í dyr, rammaðar inn af átthyrndum súlum.

- Hvernig komumst við yfir, spurði Coren og leit undrandi á vini sína.

- Ég hef ekki minnstu hugmynd, svaraði Reginn og andvarpaði.

- Snúum aftur við og skoðum hvað er handan hinna dyranna, lagði Harkon til, hetjurnar kinkuðu kolli og sneru aftur í átthyrnda herbergið. Þar var ákveðið að opna vesturdyrnar. Þar beið þeirra stuttur gangur sem breikkaði síðan og lá að risavöxnum tvöföldum dyrum. Á annarri af átthyrndu súlunum við dyrnar var álíka merki og áður en þó ekki eins. Coren ákvað að snerta það, til að kanna hvort áhrifin yrðu þau sömu. Hann fann mikinn sviða í síðunni og þegar hann skoðaði sá hann að merkið var sem brennimerkt vinstra megin á kvið hans. Brjánn reyndi að dýrka upp lásinn á dyrunum en uppskar aðeins úr því lítið sár á fingrinum og mikla ógleði. Þá kom í ljós að lásinn var aðeins tálsins og dyrnar virtust því opnast fyrir aðrar sakir.

Enn héldu hetjurnar áfram og opnuðu austurdyrnar. Þar var gangur sem leiddi hetjurnar inn í annað átthyrnt herbergi. Í miðju herberginu var ansi raunveruleg stytta af sitjandi manni. Hann var með álíka merki og Brjánn og Coren, það glitti í annað undir hálskraga hans en hitt var sýnilegt á vinstri framhandlegg hans. Eftir stutt stopp opnuðu hetjurnar dyrnar í norður og sáu sér til mikillar undrunar að þar var skógarrjóður. Hetjurnar gengu inn og fundu fyrir miðju rjóðursins litla tjörn. Þar var ung og afar falleg kona sem bauð hetjurnar velkomnar.

- Komið inn í heilaga rjóðrið, fáið ykkur sæti. Hér getið þið áð og hvílt lúin bein, sagði konan. Hetjurnar spurði hana út í rjóðrið og styttuna í herberginu þar fyrir utan.

- Já, nágrannakona mín hefur þessi áhrif á menn.

- Nágrannakonan þín? hváði Coren.

- Já, hún er alltaf í vandræðum með þá, blessunin. Ætli hún eigi ekki jafn miklum vandræðum með þá eins og hárið sitt? svaraði konan og hló.

Brjánn starði dolfallinn á konuna og var heillaður af fegurð hennar.

- Viljið þið ekki hvíla ykkur hérna, spurði konan.

- Jú, já, ég vil það. Eigum við ekki að gera það, félagar?

- Nei, ég er ekki viss um það, svaraði Grábjörn.

- Heyrðu, af hverju eru engin dýr hérna? spurði Rowan. Konan leit snöggt til hans og var sem skugga drægi yfir andlit hennar.

- Hvaða, hvaða, sagði hún og reyndi að brosa.

- Nei, af hverju eru engin dýr hérna? endurtók Rowan.

- Hættu þessum spurningum. Ég vil að þið farið, hrópaði konan og greip um höfuð sitt. Brjánn reyndi að róa hana en konan rak hetjurnar miskunnarlaust út út rjóðrinu sínu.

Hetjurnar sneru því aftur inn í herbergið með styttunni. Þá var ákveðið að halda í suður, þar sem tók við þeim stuttur stigi og síðan lokaðar dyr. Var því ráðið að athuga hvað væri handan dyranna sem sneru í austur, en handan þeirra var gangur og aðrar dyr. Þar munaði minnstu að Brjánn lenti illa í því, hann uppgötvaði falinn hlera í gólfinu en tókst að komast hjá honum og opna dyrnar. Þar var enn annað átthyrnt herbergi og í því miðju var hrúga af gullpeningum. Rowan tókst með hjálp galdra að ná í nokkra peninga og fann að málmurinn var deigur. Hetjurnar sáu að það var einnig gildra í gólfinu handan dyranna og það tók drykklanga stund að komast inn í herbergið. Þá uppgötvuðu hetjurnar að gullhaugurinn var ekki allur þar sem hann var séður, heldur virtisti hluti af og hulinn einhvers konar slími.

Hetjurnar ákváðu að opna allar dyr í þessu herbergi einnig og komust að því að bæði norður- og suðurdyr leiddu inn á gang, sem lágu að dyrum með átthyrndum súlum beggja megin. Austudyrnar leiddu inn í stóran sal þar sem var mikill köngulóarvefur sem lá í kringum risastóran dropastein. Eftir stutta umhugsun var ákveðið að halda aftur inn í herbergið þar sem gullhaugurinn var og ræða hvað ætti til bragðs að taka næst.

14264153_521454557093_7947944537199438381_n.jpg

Comments

tmar78

I'm sorry, but we no longer support this web browser. Please upgrade your browser or install Chrome or Firefox to enjoy the full functionality of this site.